Póllandspistill 3.

Árið 1910 fæddist í smábænum Gąbin fæddist stúlka sem fékk nafnið Rejzl Żychlińska. Foreldrar hennar voru gyðingar. Hún kláraði þar grunnskólanám en þar stúlkum stóð ekki frekari uppfræðsla til boða juku foreldrar hennar við menntun hennar með því að ráða einkakennara handa henni. Hún orti ljóð bæði á pólsku og jiddísku sem var það mál sem talað var heima hjá henni og hún áleit sem sitt móðurmál. Árið 1927 fékk hún útgefið sitt fyrsta ljóð í blaðinu Folkstaytung, jiddísku dagblaði sem kom út í Varsjá á árunum 1921 til 1939.

Upp úr 1930 flutti hún til Włocławek þar sem hún starfaði í munaðarleysingjahæli. 1936 var hún farin að vinna í banka í Varsjá. Fyrsta ljóðasafnið hennar, Lider [Ljóð], kom út 1936 og innganginn fyrir safnið skrifaði Itzik Manger, sem sjálfur var vinsælt ljóð-og leikskáld. 1939 kom út annað ljóðasafn hennar í Varsjá, Der regn zingt [Regnið syngur].

1. september klukkan 04:45 1939 (þetta vita grunnskólabörn í Póllandi er mér sagt) réðust Þjóðverjar inn í Pólland. Rejzl náði að flýja ásamt vinum sínum yfir í þann hluta Póllands sem Sovétmenn höfðu lagt undir sig. Móðir hennar, þrjú systkini og fleiri ættingjar hennar urðu eftir í þeim hluta Póllands sem var undir yfirráðum Þjóðverja og létu lífið í fangabúðum nasista í Chełmno. Þjóðverjar hófu innrás sína í Sovétríkin í júní 1941.

Eftir stríðið snéri Rejzl aftur til Póllands, þá gift og hafði eignast með manni sínum son. Hún gaf út þriðja ljóðasafn sitt 1948, Tsu loytere bregn [Að fegra fjörur], sama ár og þau flytja til Frakklands. Þeim fannst Pólland eftir stríð ekki taka eftirlifendum Helfararinnar opnum örmum. Loksins árið 1951 fluttu þau til Ameríku.

Þrátt fyrir nær algjöra útrýmingu á mælendum jiddískrar tungu hélt Rejzl áfram að yrkja eingöngu á móðurmáli sínu. Er hún talin til vera ein af bestu jiddísku ljóðskáldum sem uppi hafa verið og sögð vera meistari stuttra ljóða. Hún lést árið 2001 í Kaliforníu.

Eitt þekktasta ljóð hennar er „Guð huldi andlit sitt“. Eins og bæði ljóðskáld og rithöfundar átti Rejzl í erfiðu sambandi við trú sína og talaði oft um að Guð væri ýmist blindur eða fjarverandi.

Allir vegirnir leiddu til dauða,
allir vegirnir.

Allir vindarnir blésu blekkingum,
allir vindarnir.

Við allar dyragættir geltu grimmir hundar
við allar dyragættir.

Öll vötnin hlógu að okkur,
öll vötnin.

Allar næturnar kjömsuðu á kvíða okkar,
allar næturnar.

Og allur himininn var nakinn og tómur,
allur himininn.

Guð huldi andlit sitt.


Hún gaf út alls 7 ljóðasöfn.

Barn:
ögn af vatni,
ögn af himni,
hálfskuggi fugls
krónublöð.

Brosið hennar mömmu,
skyrtan hans pabba,
kveðjugjafir
þriggja engla
frá ólíkum löndum.

Ég tala ekki jiddísku (enn sem komið er) þannig að ég snaraði ljóðunum úr pólsku. Jiddíska er í grunninn germanskt tungumál, með töluverðum orðum úr slavneskum málum, svo og hebresku og arameísku. Hún er skrifuð með hebreska stafrófinu. Isaac Bashives Singer, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, skrifaði alltaf á jiddísku. Fyrir seinni heimsstyrjöldina voru rúmlega 11 milljónir sem höfðu jiddísku á valdi sínu. Núna eru um 1.5 milljón sem tala hana, mestmegnis fullorðið fólk. Jiddíska er ennþá töluð í samfélögum hasída, trúarflokks gyðinga sem telja hebresku heilagt mál sem eingöngu megi nota í trúarfræðslu og við bænahald. Hún er kennd í háskólanum í Wrocław, bæði til B.A. og M.A. gráðu.

Annars gengur pólskunámið hjá mér nokkuð vel. 25. janúar er lokapróf úr fyrstu kennslubókinni. Venjulega væri bókin notuð yfir heilt námsár en þar sem að námið er intensíft þá förum við yfir 2 kennslubækur. Rússneskan hjálpar vissulega við að læra pólsku en málin eru þó heldur ólík.

Eins og íslenska hefur pólska þátíð, nútíð og framtíð sem íslenska hefur ekki. Það að auki hafa pólsk sagnorð svokölluð horf, sem eru lokin eða ólokin (eða endurtekin, en ekki allar sagnir hafa það horf). Þegar þú lærir sagnir í pólsku, eins og í rússnesku, þarftu að læra þær í pörum. Í rómönskum málum eins og frönsku eða spænsku. Í þeim málum er endingum sagna breytt eftir því hvort að eitthvað gerðist einu sinni eða oft.
Í pólsku eru sagnirnar oft gerólíkar. Þátíð beygist eftir persónu og tölu eins og í íslensku, en líka kyni:

Czytałem książkę. = Ég (kk.) las bók.
Czytałam książkę. = Ég(kvk.) las bók.
Przeczytałem książkę. = Ég (kk.) las bók (og kláraði hana).
Przeczytałam książkę. = Ég (kvk.) las bók (og kláraði hana).

Oglądała film. = Hún horfði á mynd.
Obejrzała film. = Hún horfði á mynd (og kláraði hana).

Sérflokkur sagna eru svokallaðar hreyfisagnir. Þar höfum við:

iść = að fara (einu sinni, fótgangandi)
chodzić = að fara (oft, fótgangandi)
jechać = að fara (einu sinni, akandi)
jeździć = að fara (oft, akandi)

Síðan er hægt að bæta við forskeytum til að gefa til kynna hvort þú sért að fara að einhverju, í kringum það, framhjá því o.s.frv.

Þegar þú lærir erlend tungumál fær það þig til að hugsa um eigið mál. Íslenska hefur þrjár leiðir til að tala um að eiga.

Ég á systkini. = Ég á eitthvað konkret.
Ég hef tíma. = Ég á eitthvað abstrakt.
Ég er með tíma. = Ég á eitthvað tímabundið.

Á meðan að íslenska ríkið hefur verið að niðurgreiða rafmagnsbíla fyrir fólk sem á efni á því að kaupa dýrustu bílana á markaðnum ákvað pólska ríkið að niðurgreiða sólarrafhlöður og orkugeymslur. Þetta átak í orkuskiptum hér hefur verið í gangi síðan 2019 undir heitinu „Mój Prąd“, eða „Minn Straumur“. Sumir hafa varað við því að fleiri sólarrafhlöður þar sem að dreifikerfið sé það sem þurfnist endurnýjunar sem kosti töluvert meira en það fé sem varið er til niðurgreiðslu á grænum orkugjöfum fyrir heimili.

Orkumál í Póllandi eru í brennidepli þessa dagana eins og í öðrum löndum en Pólland var eitt af fáum löndum Evrópu sem forðaðist að vera háð Rússlandi með ódýra orku. Verið er að þróa vindmyllugarða úti á hafi auk þess sem búið er að taka til baka löggjöf sem gerði vindmylluframkvæmdir á landi sérlega erfiðar.

Pólland hefur líka farið í samstarf við Bandaríkin og Suður-Kóreu til að þróa og byggja sex kjarnorkuver sem á að taka í gagnið 2033. Margir spyrja hvers vegna ríkið leggi ekki áherslu á endurnýjanlega orku en kjarnorkan er talin áreiðanlegri þar sem hún er hvorki háð vindi né sól, auk þess sem að ekki hefur verið fundin leið til að geyma nægilega mikið magn raforku á ódýran máta.

Þeir sem eru fylgjandi endurnýjanlegri orku koma með þau rök að ef markmiðið sé að Pólland verði óháð Rússlandi þá sé varla leiðin sú að flytja inn rússneskt úraníum í stað rússnesks gass.

Pólskir veganistar hafa kallað eftir því að svokallaðir mjólkurbarir verði lagðir niður. Mjólkurbarir eru arfleið sovéttímans og eru í raun niðurgreidd mötuneyti sem bjóða upp á heimilismat. Þingmaðurinn sem lagði fram þessa tillögu sagði að því fé sem sé varið er í mjólkurbarina væri betur varið í þróun á veganvörum. Landbúnaður tengdur mjólkur-og kjötframleiðslu veldur álagi á náttúruna og vistkerfið af mati þingmannsins. Þá er samt spurning hvort þurfi að verja fé til þróunar á veganfæði en síðan 2018 hefur sala á kjöti dregist saman um 7.5% á meðan að sala á grænmeti og veganvörum hefur aukist um 480%.

Daesang, suður-kóresk matvælasamsteypa og stærsti framleiðandi kimchi í heimi, hefur ákveðið að reisa sína fyrstu evrópsku verksmiðju í Póllandi. Verður verksmiðjan rekin í samstarfi við pólskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á súrkáli. Verksmiðjan verður reist í Kraká og er afkastagetan um 3.000 tonn af kimchi á ári. Pólland er stærsti kálræktandi í Evrópu.

Częstochowa er borg í Suður-Póllandi með um 214.000 íbúa. Í borginni er frægt klaustur kennt við heilagan Pál frá Þebu sem talinn er vera fyrsti einsetumaður kristindóms. Hann var uppi á árunum 227-341 eftir Krist í Egyptalandi. Þá voru menn hættir að deyja fyrir trú sína og fóru þá leið að gerast einsetumenn til að verða teknir í dýrðlingatölu.

Í klaustrinu er þekkt íkon af hinni Svörtu Guðsmóður sem er heimsótt af yfir 5 milljónum ferðamönnum árlega og kostar aðgangur 10 zł. Nýlega ákvað borgarstjórnin í Częstochowa að hætta að fjármagna kristinfræðslu í grunnskólum borgarinnar. Bera menn það fyrir sig að kostnaðurinn sé of hár og nemendum fari ört fækkandi. Einnig segja menn þar á bæ að ef ríkið vilji halda út kennslunni eigi það alfarið að sjá um kostnaðinn í stað þess að láta hann falla á sveitarfélög. Kostnaðurinn við kennsluna er um 45 milljónir zł, 70% kemur frá ríkinu en restin frá sveitarfélaginu. Kennslan hefur verið fjármögnuð af ríki og borg en kennsluáætlun sem og mönnun kennara hefur verið í höndum kirkjunnar.

Tölfræði sýnir að í september 2022 voru um 54% nemenda sem sóttu tímana sem var 8% minnkun frá 2021 og 15% minnkun frá 2020. Virkir í athugasemdum voru ekki lengi að koma sér á Twitter og spyrja hvort að næsta skrefið væri að fangelsa kaþólikka, myrða presta og rífa kirkjur.

Ég ætla að snúa mér aftur að próflestrinum. Takk fyrir innlitið.




Færðu inn athugasemd