Póllandspistill 6.

Síðasta sunnudag ákváðum við Karol vinur minn að hittast á kaffihúsinu Kahawa hér í Poznań. Karol er með BA gráðu í ungversku og var byrjaður að læra tékknesku áður en að hann flutti til Poznań til að hefja nýtt BA nám í nytjamálfræði og þvermenningarlegum samskiptum. Nytjamálfræði er lík hefðbundnu málfræðinámi að því leytinu til að málfræði er skoðuð út frá fræðilegu sjónarhorni.

Hún er hinsvegar ólík hefðbundnu málfræðinámi á þann hátt að líka er verið að rannsaka hvernig tungumál hafa áhrif á samfélagið og á líf fólks. Aðrar fræðilegar greinar eins og menntun, sálfræði, rannsóknir á samskiptum, upplýsingatækni, málvinnsla, mannfræði og félagsfræði njóta góðs af þeim rannsóknum sem gerðar eru innan nytjamálfræði.

Nytjamálfræðin sjálf skiptist síðan í margar frekari greinar eins og rannsókn á tvítyngi, fjöltyngi, samskiptagreiningu, samanburðarmálfræði, læsi, málfærni, umræðugreiningu, tungumálakennslu, annarsmálsfræði, tungumálaskipulagi-og stefnu, þýðingarfræði, stílfræði,

Karol sagði mér að tékkneska hljómi í pólskum eyrum svolítið sérkennilega, ekki ólíkt og færeyska gerir fyrir Íslendingum. Fyrir einhverjum árum síðan gengu manna á milli meme hérna í Póllandi þar sem skrifuð voru skálduð orð sem hljómuðu tékknesk.

Pólland staðfesti Evrópusáttmálan um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa 2009. Samkvæmt honum er tékkneska bæði tungumál minnihluta og svæðisbundið mál í Póllandi. Samkvæmt manntali frá 2011 voru um 3.447 manns sem skilgreina sitt þjóðerni sem tékkneskt.

Tékkneski minnihlutinn er líka trúarlegur minnihluti en þeir tilheyra flestir Evangelísku Siðbótarkirkju Pólska Lýðveldisins. Þeir eru sumsé mótmælendur.

Tékkar hafa verið hluti af pólskri menningu frá því að Pólland varð til sem ríki. Strax á miðöldum mættust þessir menningarheimar auk þess sem að kaupmenn, hermenn og klerkar flökkuðu á milli landanna.

Mieszko 1. sem ég minntist léttilega á í síðasta pistli giftist Dobröwu frá Bóhemíu árið 965. Elstu heimildir segja að hún hafi hvatt eiginmann sinn til að ganga af heiðni og skírast. Sagnfræðingar í dag telja hinsvegar að kristintaka Mieszko hafi verið ákvæði í brúðkaupssáttmálanum sem gengið var frá skömmu áður en þau giftust.

Dobrawa frá Bæheimi

Ekki ríkti þjóðarsátt um trúskipti Mieszkos 1. og mestallan fjórða áratug 11. aldar var töluvert um óeirðir og bændabyltingar í Póllandi. Í dag er talið að þær hafi bæði verið trúarlegs og pólitísks eðlis og þannig blandast. Trúaróeirðirnar eru taldar eiga rætur sínar í andúð á kristnum en þær pólitísku til ósætti bænda með lénsskipulagið sem var verið að koma á í Póllandi. Upp að þessu höfðu bændur haft töluvert frelsi þar sem landnæði var gífurlegt. Sonarsonur Mieszko 1., Kasimír hinn sameinandi, náði aftur stjórn á þeim hlutum Póllands sem höfðu klofið sig frá því þegar mestu lætin voru.

En aftur að Tékkum. Samskipti milli þjóðanna voru auðvelduð töluvert þar sem málin eru náskyld. Mikið af þeim trúar-og lagaíðorðaforða sem notaður er í pólsku mótaðist undir áhrifum tékknesku. Á miðöldum höfðu tékkneskar biblíuþýðingar mikið mikilvægi fyrir þróun pólsks ritmáls.

Fyrstu stóru búferlaflutningar Tékka til Póllands voru tengdar trúarskiptum. Árið 1548 skipaði Ferndinand 1., keisari hins heilaga rómverska ríkis og konungur Bæheims, Ungverjalands og Króatíu, öllum meðlimum Bræðralags hússíta að ganga aftur til kaþólsku kirkjunnar eða yfirgefa landið. Byggð bræðralagsins í Póllandi hafði töluverð áhrif á Pólsku siðbótina.

Mestu búferlaflutningar Tékka til Póllands voru hinsvegar tengdir ósigri Bæheimsku byltingarinnar í Bardaganum við Hvítfell (pól. Bitwa na Białej Górze) sem skipti miklu máli í upphafi Þrjátíuárastríðsins. Leiddi ósigurinn til þess að Bæheimska byltingin varð að engu og tryggði yfirráð Habsborgara næstu 300 árin.

Samkvæmt tilskipun Ferdinans 2. árið 1621 var öllum kalvínistum og öðrum sem ekki voru lúterstrúar gert að yfirgefa landið eða skírast til kaþólskrar trúar. Árið 1622 bannaði hann iðkun lúterstrúar. Fjórum árum seinna skipaði hann öllum lúterstrúarmönnum (sem flestir höfðu ekki verið viðriðin byltinguna) að taka kaþólska trú eða flytja úr landi. Þessar trúarbragðasviptingar og þær sem fylgdu í kjölfarið eru taldar vera rætur hins mikla trúleysis í Tékklandi þar sem 75% þjóðarinnar eru yfirlýstir trúleysingjar.

Kúgun þessi gagnvart þeim sem ekki voru kaþólikkar varð til þess að 120.000 manns fluttu frá Bæheimi og Móravíu (en svo heitir landsvæði sem var fyrir miðju Tékkaslóvakíu heitinnar) til landa þar sem lúterstrú var iðkuð, sem og til Póllands. Á 18. öld fluttu margir Tékkar til Slesíu sem þá hafði nýlega verið innlimuð í Konungsdæmi Prússlands.

Eftir stríðslok 1945 ákváðu stjórnvöld í Póllandi að koma eins fram við Tékka og þau komu fram við Þjóðverja og urðu þeir því að sæta nauðaflutningum. Flestir flúðu til Tékkóslóvakíu.

Guðsþjónustur í kirkjum Tékka er í dag helsta menningarvígi þeirra en prestar leggja mikið upp úr því að messað sé á tékknesku. Eftir að Habsborgarar innlimuðu Bæheima í ríki sitt varð þýska opinbert tungumál ásamt tékknesku. Eftir því sem árin liðu fór að halla meira á mál heimamanna og lifði tékkneska helst til sveita á meðal ólæsra bænda á meðan þýska ríkti í þéttbýli, kaupstöðum og var mál yfirstéttarinnar. Tékknesku var með tíð og tíma úthýst úr stjórnsýslu, bókmenntum, skólum og Charles-Háskólanum í Prag. Talið er að allt að 30.000 bækur á tékknesku hafi verið brenndar af jesúítum.

Endurreisn tékkneskunnar leitaði því að innblæstri hjá bændastéttinni. Fyrsta málfræðibókin var gefin út árið 1809 eftir Josef Dobrovský. Tékknesk-þýsk orðabók eftir Josef Jungmann í fimm bindum fylgdi í kjölfarið á árunum 1834 – 1839. Jungmann notaði orðaforða Kralicebiblíunnar (fyrsta fullkláraða biblíuþýðingin á tékknesku) sem og samtíðarmanna sinna. Hann fékk að láni orð sem ekki voru til í tékknesku úr öðrum slavneskum málum eða bjó til nýyrði. Tékkneska er í dag töluð af yfir 10 milljón manns og er rík af mállýskum.

Lítið hefur verið þýdd af pólskum rithöfundum og minna beint úr pólsku. Meira hefur verið þýdd af beint úr tékknesku.

Þorgeir Þorgeirsson (30. apríl 1933 – 30. október 2003) var íslenskur rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður. Eiginkona hans var Vilborg Dagbjartsdóttir, rithöfundur. Hann er helst þekktur fyrir að hafa þýtt Alexis Sorbas eftir Nikos Kazantzakis og mörg verk Williams Heinesen á íslensku. Af tékkneskum (og beint úr tékknesku eftir því sem ég fæ best að komist) rithöfundum þýddi hann Miroslav Holub. Hann er líka skráður þýðandi fyrir bókinni Alveg glymjandi einvera eftir Hrabal Bohumil ásamt Olgu Maríu Franzdóttur. Einnig þýddi hann bók eftir Marek Hłasko, pólskan rithöfund, eflaust úr tékknesku.

Olga þessi er fædd í Jilemnice, Tékkóslóvakíu og fékk nafnið Olga Maria Šrámová. Hún stundaði nám í ensku og japönsku við Charles Háskólann í Prag og kynntist þar verðandi eiginmanni sínum, Hallfreði Erni Eiríkssyni þjóðfræðingi. Árið 2005 var gefin út bókin Sögur úr Vesturheimi sem byggir á viðtölum sem þau hjónin tóku við fólk vestanhafs 1972-1973. Eftir því sem ég kemst næst þá hefur Olga þýtt meira á tékknesku en úr henni. Lengst af starfaði hún á Hagstofu Íslands, eða um 25 ár. Kafka hefur verið þýddur á íslensku en hann skrifaði ekki á tékknesku heldur þýsku.

Annar frægur tékkneskur rithöfundur var Karel Čapek. Hann skrifaði árið 1920 leikritið Rossumovi univerzální roboti, R.U.R. (ísl. Alhliðavélmenni Rossums) þar sem orðið robot kom fyrst fram sem lýsing á vélmenni.

Pólskan hefur tvö orð yfir vinnu, praca og robota. Seinna orðið er hlaðið neikvæðri merkingu, og vísar í erfiðsvinnu eða streð. Vinna sem þú nennir ekki að mæta í er robota.

Ein bók Čapeks hefur verið þýdd á íslensku (þó ekki úr tékknesku þori ég að veðja) af Jóhannesi úr Kötlum (Íslendingar geta seint fullþakkað Dalamönnum fyrir allt það sem þeir hafa gert fyrir íslenskt menningarlíf). Bókin heitir Salamöndrustríðið (ték. Válka s mloky) og má flokka sem vísindaskáldsögulega háðsádeilu. Čapek var skemmtilegur rithöfundur og oft með svolítið súrrealíska sýn á lífið. Til að halda í hefð Dalamanna að seðja menningarþorsta Íslendinga ætla ég að þýða eftir hann örsögu (ekki úr tékknesku samt, heldur pólsku þýðingunni).

Sjónarhorn kattar.

Þetta er Manneskjan mín. Ég óttast hana ekki. Hún er mjög sterk, því hún borðar mjög mikið; hún er Átvagl alls.
Hvað ertu að borða? Gemmér!
Hún er ekki falleg, því hún hefur engan feld. Þar sem hún hefur ekki nægilegt munnvatn, neyðist hún til að þrífa sér með vatni. Hún mjálmar bæði harkalega og miklu oftar en hún þarf. Stundum malar hún í svefni.
Hleyptu mér út!

Ég veit ekki hvernig hún varð að Meistara, kannski át hún eitthvað tígulegt. Hún sér um að halda herbergjunum mínum hreinum. Í loppunni sinni heldur hún á svartri kló og krafsar með henni á hvítar pappírsarkir. Hún kann engan annan leik. Hún sefur á nóttunni en ekki á daginn, hún sér ekki í myrkri, hún hefur engar nautnir. Hún hugsar aldrei um blóð, hana dreymir aldrei um að veiða eða að slást; aldrei syngur hún um ástina.

Oft á kvöldin, þegar ég heyri dularfullar og angurværar raddir, þegar ég sé myrkrið lifna við, situr hún með höfuðið hallandi fram og krafsar sí og æ með svartri kló sinni á þessar hvítu pappírsarkir. Láttu þér ekki detta það í hug að ég hafi nokkurn áhuga á þér. Ég er bara að hlusta á lágvært hvísl klóar þinnar. Stundum er klóarhvíslið svo dauft að þetta aumingja tóma höfuð veit ekki hvernig það á að leika sér áfram. Þá vorkenni ég henni og mjálma lágt af ljúfum og undurfögrum mishljómi. Þá lyftir Manneskjan mín mér upp og felur andlit sitt í feldi mínum. Á stundum sem þessum sér hún glitta í æðra lífform, stynur af ánægju og malar eitthvað sem er næstum skiljanlegt.
Ekki halda að að ég hafi nokkurn áhuga á þér. Þú hefur yljað mér og nú ætla ég aftur út að hlusta á þessar rökkvuðu raddir.

Árið 1996 fékk keðjureykjandi kattarvinurinn Wisława Szymborska Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Þegar ritari Akademíunnar ætlaði að tilkynna henni verðlaunin gekk honum illa að ná í hana en skáldið var í sveppamó. Pólverjar eru jafn trylltir í sveppir og við erum í ber. Sama ár kom út bókin Útópía – fyrirmyndarlandið hjá Fjölva en í henni er samansafn ljóðaþýðinga Þóru Jónsdóttur á ljóðum hennar. Eftir því sem að ég fæ best séð þýddi hún úr þýsku en ekki pólsku.

Afkastamesti þýðandi pólskra ljóða á Íslandi var hinsvegar Geirlaugur heitinn Magnússon. Árið 1993 kom út bókin Í andófinu en þar má finna ljóð 12 pólskra nútímaskálda. Þar birtust í þýðingu Geirlaugs þrjú ljóð Wisłwöwu. Hann þýddi Zbigniew Herbert, Tadeusz Różewicz, Ewu Lipsku, Tomasz Jastrun, Urszulu Kozioł, Timoteusz Karpowicz, Jerzy Harasymowicz, Stanisław Grochowiak, Rafał Wojaczek og Julians Kornhauser.

Árið 1999 gaf útgáfufélagið Bjartur út bókina Endir og upphaf en þar má finna safn þýðinga Geirlaugs á verkum Wisłwöwu Szymborsku. Hún var fædd árið 1923 en lést árið 2012 og yrði því 100 ára á þessu ári hefði hún lifað. Verk hennar hafa verið endurútgefin að því tilefni af forlaginu Znak í nokkrum bindum.

Wisława Szymborska í Kraká, 1980.

Það sem er sérstaklega skemmtileg í þessum útgáfum er að einnig eru látin fylgja með vinnublöð Wislöwu, þannig að sjá má rithönd hennar þegar hún var að pússa til ljóðin.

Hún fæddist 2. júlí 1923 í þorpinu Prowent (nú Kórnik) sem er um 25 kílómetra suðaustur af Poznan þar sem ég bý. 1931 flytur fjölskylda hennar til Krakár og bjó hún þar það sem hún eftir átti ólifað. Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út mætti hún í „neðanjarðartíma“, en svo var kennsla á efri stigum fyrir Pólverja kölluð þar sem hún var ólögleg á valdatíma nasista. Hún hóf nám í pólskum bókmenntum við Jagelloníska Háskólann í Kraká 1945 en skipti fljótlega yfir í félagsfræði. Sama ár gaf hún út sitt fyrsta ljóð, „Ég leita orða“ (pól. Szukam slowa). Til að byrja með var hún hliðholl stjórnvöldum kommúnista í Póllandi en breyttist það eftir því sem árin líðu og má sjá það í verkum hennar. Hún lést umkringd ástvinum í svefni, úr lungnakrabba á heimili sínu í Kraká, 88 ára gömul.

Ef litið er til þess hversu lengi hún var yrkjandi eru ekki mörg ljóð til eftir hana, eða rúmlega 350. Þegar hún var spurð hvers vegna ljóðin væru ekki fleiri svaraði hún: „ég á ruslatunnu.“

Sogið af nautn.

2013 voru sett á fót verðlaun sem eru við hana kennd (pól. Nagroda im. Wisawy Szymborskiej) sem eru árleg alþjóðleg bókmenntaverðlaun. Verðlaun hvers árs eru veitt þeim sem skrifa hafa bestu ljóðabækurnar árinu áður. Bæði bækur sem skrifaðar eru á pólsku og þýddar yfir á pólsku geta verið tilnefndar. Verðlaun rithöfundar eru 200.000 pólsk slot eða um 6.5 milljónir kr. Þýðandinn fær verðlaun upp á 50.000 slot eða 1.6 milljón kr.

Zbigniew Herbert fæddist 29. október 1924 í Lwów í Póllandi sem nú er Lvív í Úkraínu. Eins og Szymborska sótti hann „neðanjarðartíma“ á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð og varð stúdent 1944. Á sama tíma og hann sótti „neðanjarðartíma“ vann hann á Stofnun Rudolfs Weigl sem framleiddi bóluefni gegn flekkusótt við að gefa lúsum að éta.

Zbigniew Herbert.

Undir lok stríðsins flutti hann til Proszowice, nærri Kraká. Hann stundaði nám í hagfræði við Jagiellónska Háskólann auk þess sem hann sótti fyrirlestra í Listaakademíunni. Hann lauk námi og fékk skírteini 1947. Hann flytur ári seinna til Sopot þangað sem foreldrar hans höfðu flutt árinu áður. Hann vann ýmis störf, í Landsbanka Póllands, ritstjóri hjá tímariti, og fyrir Rithöfundasamband Póllands. Á meðan hann bjó í Sopot stundaði hann nám í lögfræði við Háskóla Nikulásar Kóperníkusar í Toruń og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu í lögfræði. Á sama tíma og hann var að klára meistaragráðuna skráði hans sig í heimspeki. 1949 flytur hann til Toruń og starfar sem grunnskólakennari. Tveim árum seinna flytur hann til Varsjár og heldur heimspekinámi sínu áfram þar. Bjó skáldið við erfiðar aðstæður og leigði herbergi – ekki íbúð – ásamt 12 öðrum.

Hann reyndi að lifa á rithöfundstarfinu en þar sem hann fylgdi ekki hinni opinberu sósíalísku raunsæisstefnu og að auki óviljugur til að skrifa áróður gekk honum það illa. Frá og með 1948 tókst honum að fá birtar eftir sig greinar og gagnrýni, ýmist undir eigin nafni eða skáldanöfnum en hann hafði þau nokkur. 1956 markaði enda stalínismans í Póllandi og þar með var sósíalískt raunsæi ekki lengur eina stefnan sem mátti gefa út. Nú gat hann loksins fengið ljóðin sín gefin út, undir eigin nafni og lifað á ritstörfunum. Rithöfundasamband Póllands átti íbúðir í Varsjá og var ein þeirra eyrnamerkt ungum rithöfundum. Herbert fékk íbúðina og þar að auki námsstyrk upp á heilar 150.000 krónur í raunvirði dagsins í dag. Námsstyrkurinn gerði honum kleift að fara í sína fyrstu utanlandsferð.

Herbert var alla tíð mjög náinn heimalandi sínu en var með mikla óbeit á öllum þeim áhrifum sem Sovétríkin og hið kommúníska Pólland hafði á pólitík, efnahaginn, menningu o.s.frv. Þrátt fyrir að eyða töluverðum tíma erlendis seinna meir þá bað hann aldrei um hæli þar sem hann ferðaðist. Hann reyndi að halda öllum útgjöldum ferðalaga sinna í lágmarki þar sem innkoman var ekki örugg (ritlaun, verðlaun, upplestrarþóknanir o.þ.h.) og er talið hafa átt þátt í heilsuleysi hans á efri árum.

Eftir töluverð ferðalög og ótal verðlaun og viðurkenningar flutti hann loks til Parísar 1986 og snéri ekki aftur til Varsjár fyrr en 1992, þá orðinn töluverður sjúklingur. Hann skrifaði opið bréf til Lechs Wałęsa, verkalýðsfrömuðar og þáverandi forseta Þriðja Lýðveldi Póllands, þar sem hann lofaði ofurstan Ryszard Kukliński sem hafði njósnað fyrir hönd NATO á kaldastríðstímanum. Hann lýsti líka yfir stuðningi við Dzochar Dudajev, fyrsta forseta Lýðveldisins Téténíu.

Síðustu árum sínum eyddi hann rúmfastur vegna astma. Hann hætti aldrei að yrkja og var síðasta verk hans, Lokaorð stormsins, gefið út rétt fyrir andlát hans. Hann dó 28. júlí 1998.

Tadeusz Różewicz var ljóðskáld, leikskáld, rithöfundur og þýðandi. Hann tilheyrði fyrstu kynslóð pólskra rithöfunda sem fæddust eftir að Pólland fékk aftur sjálfstæði sitt 1918. Hann var fæddur í Radomsko, nærri Łódź, árið 1921. Fyrsta ljóðið hans var gefið út 1938. Hann var meðlimur andspyrnuhreyfingarinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Hann flutti til Wrocław 1986 þar sem hann bjó síðan út ævi sína. Hann orti og gaf út 15 ljóðabækur á árunum 1944 til 1960. Hann skrifaði töluvert af leikritum og annað eins af kvikmyndahandritum.
Eitt leikrit hans, Fæðingarvottorðið (pól. Świadectwo urodzenia) var aðlagað til kvikmyndagerðar 1961. Kvikmyndin segir frá atburðum í seinni heimsstyrjöldinni út frá sjónarhorni barna.

Tadeusz Różewicz, 2012.

Hann er talinn fjölhæfasti rithöfundur pólsku framúrstefnunnar og var margsinnis tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna. Hann fékk æðstu bókmenntaverðlaun Póllands, Nike sem ég hef áður skrifað um, fyrir bókina sína Mamma er á leiðinni burt. (pól Matka odchodzi). Hann dó úr elli 24. apríl 2014, 92 ára gamall.

Ewa Lipska er fædd árið 1945. Auk þess að vera ljóðskáld er hún pistlahöfundur og var lengi vel ritstjóri ljóðaútgáfu hjá Wydawnictwo Litarckie, einu virtasta bókaútgáfufélagi Póllands.

Ewa Lipska.

Hennar fyrsta ljóðasafn kom út árið 1967 undir titlinum Ljóð (Wierze). Hún hefur gefið út yfir 26 ljóðabækur og býr bæði í Kraká og Vínarborg.

Tomasz Jastrun (sem hefur skrifað undir nöfnunum Witold Charłamp, Smecz, Te Jot er fæddur 1950 í Varsjá. Auk ljóða hefur hann skrifað prósaverk, ritgerðir, pistla, bókmenntagagnrýni, barnabækur og unnið í útvarpi. Foreldrar hans voru Mieczysław Jastrun, ljóðskálds og ljóðaþýðenda úr frönsku, rússnesku og þýsku, og Mieczysłöwu Buczkównu ljóðskálds og ljóðaþýðenda. Eftir hana liggja margar þýðingar á verkum Önnu Akhmatovu og Osips Mandelstam. Hann gaf út sín fyrstu verk 1973 í mánaðarritinu Nýtt orð (pól. Nowy Wyraz) ári áður en hann útskrifaðist úr pólskum fræðum við Varsjárháskóla.

Tomasz Jastrun, 2022.


Eftir að herlögum var komið á 1981 sat hann inni í nokkrar vikur fyrir að standa að sjálfstæðri (þ.e. óritskoðaðri) útgáfu ýmissa verka og þátttöku í mótmælum í Gdańsk. Hann hefur gefið út 28 verka af ýmsum toga og býr og starfar í Varsjá.

Urszula Kozioł fæddist 1931 í smáþorpinu Rakówka. Hún er ljóðskáld, pistlahöfundur, rithöfundur og leikskáld. Hún útskrifaðist úr pólskum fræðum frá Wrocławháskóla 1953. Hún tilheyrir hinni svokölluðu ’56-kynslóð en það er utanumheiti þeirra sem gáfu út sín fyrstu verk á árunum kringum 1956 og dómíneruðu yfir bókmenntaheimi Póllands næstu 10 árin. Hennar fyrsta verk kom út 1953 í Verkamannablaðinu undir titlinum Hlutir og fólk (Sprawy i ludzie). Hún vann sem kennari á árunum 1954 til 1972. Hún hefur gefið út yfir 40 verk og er búsett í Wroclaw.

Urszula Kozioł, 2013.

Ljóð hennar Kjötréttur (pól. Przepis na danie miesne) sem kom út 1963 er gagnrýni á þá sem töldu að að staða konunnar ætti að takmarkast við eldhúsið. Skáldsaga hennar Biðstöð minninganna (pól. Postoje pamieci) er sögð út frá sjónarhorni Mirku, dóttur kennara, sem elst upp í litlu þorpi í seinni heimsstyrjöldinni. Czesław Miłosz sagði að skáldsagan væri ein sú áreiðanlegasta heimild um líf í þorpum sem til væri í pólskum bókmenntum.

Tymoteusz Karpowicz fæddist 15. desember 1921 í Zielona nærri Vilníus. Hann bjó þar fram að seinni heimsstyrjöld. Á meðan Litháen var hernumin af Þjóðverjum var hann meðlimur í pólsku andspyrnuhreyfingunni. Eftir að stríðinu lauk var hann fluttur til Szczecin þar sem hann vann fyrir Ríkisútvarp Póllands. Þar gaf hann út sitt fyrsta prósaverk, Sögur frá Pommern. Hann flutti seinna til Wrocław og hóf nám í pólskum fræðum og kláraði nám sitt þar með doktorsprófi. Hann vann sem aðstoðarprófessor þar í nokkur ár þangað til að hann hlaut rannsóknarstöðu við í París 1971.

Tymoteusz Karpowicz, 1983.

Tveim árum seinna var honum boðið starf við Háskóla Iowa í Bandaríkjunum. 1974 var hann síðan ráðinn í stöðu aðstoðarprófessors í pólskum bókmenntum við Háskólann í Illinois þar sem hann kenndi í 2 ár. Árin 1976 til 1978 kenndi hann í háskólum í Vestur-Þýskalandi. 1978 fékk hann æviráðningu sem prófessor við deild slavneskra mála og bókmennta við Háskólann í Illinois. Hann fór á eftirlaun 1993 og dó 2005.

Jerzy Harasymowicz fæddist 24. júlí 1933 í Pulawy. Eins og Urszula Kozioł var hann meðlimur ’56-kynslóðarinnar. Faðir hans var þýskur í móðurætt og úkraínskur í föðurætt. Þetta er talið útskýring á því hversu oft uppruni og þjóðareinkenni koma fyrir í verkum hans.

Jerzy Harasymowicz, 1957.

Hann hafði mikinn áhuga á menningu Lemko-fólks og frumkristni slava. Hann var sérlega afkastamikill rithöfundur, skrifaði yfir 40 ljóðabækur auk tveggja barnabóka sem seldust í yfir 700.000 eintökum. Hann dó árið 1999 og samkvæmt ósk hans var öskunni hans dreift yfir Bieszczadyfjöllin.

Stanisław Grochowiak fæddist 24. janúar 1934 í Leszno. Hann var ljóðskáld, leikskáld, handritahöfundur og útgefandi. Eins og Jerzy Harasymowicz og Urszula Kozioł var hann meðlimur ’56-kynslóðarinnar.

Stanisław Grochowiak.

Verk hans voru af ýmsum toga en það áhugaverðasta var án efa skáldsagan Stjarfi (pól. Trismus). Í henni reynir hann að líta á seinni heimsstyrjöldina út frá sjónarhorni óvinarsins, Þjóðverjans. Bókin fjallar um yfirmann fangabúða, eiginkonu hans og hvernig hún fer frá því að líta upp til hans yfir í að missa trúna á hugmyndafræði nasismans og réttlætingu á tilvist fangabúðakerfisins. Hann dó árið 1976 einungis 46 ára gamall af fylgikvillum alkóhólisma.

Rafał Wojaczek fæddist 6. desember 1945 í það sem kallað var fína fjölskyldu í Efri-Slesíu. Líf hans markað af ókláruðu námi, alkóhólisma, þunglyndi og endaði með því að hann svipti sig lífi.

Rafał Wojaczek.

Þökk sé stuðningu frá Tymoteuszi Karpowicz gaf hann út fyrstu ljóðin sín í fyrsta tölublaði Ljóðlist (pl. Poezja) sem Karpowicz ritstýrði. Mynd byggð á ævi hans kom út árið 1999.

Julian Kornhauser er fæddur 20. september árið 1946 í Gliwice. Hann er ljóðskáld, prósahöfundur, bókmenntagagnrýnandi, ritgerðarsmiður, barnabókahöfundur og þýðandi serbneskra og króatískra bókmennta. Hann telst til framlínumanna pólsku nýbylgjunnar í ljóðagerð.
Nýbylgjan myndaði ekki sérstakt form ljóðgerðar heldur hafði mótandi áhrif á orðin sem notuð voru. Hún einkennist af orðalagi og orðaforða úr fjölmiðlum, opinberum bréfum og talmáli.

Julian Kornhauser.


Hann er sonur Jakubs Kornhauser, gyðings frá Kraká og Malgorzötu Glombik. Hann lauk meistaragráðu í serbnesku og króatísku 1970 og doktorsprófi fimm árum seinna við Jagellonianháskóla í Kraká
Fyrsta ljóðasafn hans, Morð innihélt ljóð sem komust ekki í gegnum ritskoðun og var eitt af fyrstu svokölluðu samizdat (ólögleg, sjálfútgefin verk). Tengdasonur hans er Andrzej Duda Póllandsforseti.

Síðan árið 2004 komu út hjá útgáfunni Uppheimum á Akranesi bókin Lágmynd sem safni þýðinga Geirlaugs á ljóðum Tadeuszar Różewicz. Przemysław Czarnecki sem er kennari í norrænum fræðum við Háskóla Adams Mickiewicz hér í Poznań, skrifaði um bókina, skáldið og þýðinguna í Tímariti Máls og menningar 2005.

Ég var ekki alveg búinn að segja frá Wrocław. Mig langar til að skrifa aðeins um þessa kirkju:

Þetta er Kirkja heilags Kyríls og Meþódíusar. Kyríll (826-869) og Meþódíus (815-885) voru bræður, guðfræðingar og trúboðar frá Býsans. Oft er til þeirra vísað sem “Postula slavanna” fyrir að hafa snúið slövum til kristni. Þeim er eignað að hafa útbúið fyrsta slavneska stafrófið, það glagolítíska, sem notað var til að skrifa fornkirkjuslavnesku. Glagolítíska stafrófið var aðsniðið hljóðkerfi slavneskra mála sem eru svo rík af s-hljóðum. Glagolítíska stafrófið blandaðist seinna vissum pörtum þess gríska og er afkomandi þeirra kyrilíska stafrófið sem notað er af mörgum tungumálum í dag.

Kirkja heilags Kyríls og Meþódíusar er staðsett á Sandaey (pól. Wyspa Piasek), einni af fjölmörgum eyjum í ánni Odra innan marka gamla bæjarins í Wrocław. Reist á árunum 1686-1690 samkvæmt teikningum eftir ítalskan arkítekts en hún var upphaflega kaþólsk kirkja tileinkuð heilagri Önnu.

Kirkjan er eins sú fyrsta sem byggð var í barokkstíl, með einu kirkjuskipi og ríkulega skreyttri framhlið með styttum. Allt til ársins 1810 tilheyrði kirkjan klaustri Ágústínusarnunna sem var skammt frá. Það sama ár var kirkjan afhelguð, þar með hæf til annarra nota og var rekinn kaþólskur prestaskóli í henni. 1852 þegar byggingin var illa á sig komin var hún færð í fyrra horf og endurhelguð hl. Önnu sem núverandi rétttrúnaðarsöfnuður álítur verndara kirkjunnar. Í nokkur ár (1919-1921) þjónaði kirkjan pólska minnihlutan í Wrocław. Eftir það var hún afhent Gömlu kaþólikkunum.

Gamla kaþólska kirkjan er samheiti yfir þýsk-kaþólskar kirkjur sem klufu sig frá kirkjunni í Róm þar sem meðlimir hennar gengust ekki við óskeikulleika páfans og alvaldi hans á 19. öld. Heiti kirkjunnar er notað af meðlimum hennar til að aðgreina sig frá nýjum kennisetningum kaþólsku kirkjunnar í Róm er vörðuðu páfann. Kirkjan byrjaði að nota mál safnaðirins hverju sinni í stað latínu strax á 19. öld og afnam kröfuna um skírlífi presta 1874.

Á meðan á umsátrinu um Wrocław stóð var allt bókasafn Konunglega Háskólabókasafnsins, um hálf milljón bóka, færðar yfir í kirkjuna til að bjarga þeim frá eyðilegginu. Safnið allt brann ásamt innvolsi kirkjunnar 11. maí 1945.

Eftir að stríðinu lauk var því sem eftir stóð af kirkjunni bjargað. 1970 var hún afhent Sjálfstæðu pólsku rétttrúnaðarkirkjunni (pól. Polski Autokefaliczny Kościół Prawosławny). Orðið ‘sjálfstæður’ vísar hér til að enginn utanaðkomandi biskup eða patríarki (t.d. Moskvupatríarkinn) hafi vald yfir kirkjunni.

Árið 1973 var byrjað að halda guðþjónustur í tímabundinni kapellu. Eftir að kirkjan hafði verið tæmd af rusli frá stríðstímanum og gerð upp árið 1976 var fyrsta guðþjónustan haldin í kirkjuskipinu sjálfu. Kirkjan þjónar í dag tveim sóknum og eru messað á pólsku og kirkjuslavnesku (fyrir sóknarbörn úr sókn hl. Kyríls og Meþódíusar) og úkraínsku og kirkjuslavnesku að auki (fyrir sóknarbörn úr sókn hl. Péturs Mohyła).

Sjálfstæða pólska rétttrúnaðarkirkjan er ein af sjálfstæðu austurrétttrúnaðarkirkjunum svokölluðu. Austurrétttrúnaðarkirkjan, ásamt kaþólsku kirkjunni og kirkju mótmælenda eru helstu kalkedonskrar kristni.
Sú kristni er kennd við Kalkendonþingið sem haldið var af biskupum árið 451. Þingið komst að þeirri niðurstöðu að sonur Guðs hefði þjáðst og dáið á kroissi og setti fram kenninguna um tvennskonar eðli og eina persónu.

Fornkirkjuslavneska sem ég minntist var ritmál austurkirkjunnar á 9.-11. öld. Á þeim tíma þróaðist hún í ólíkar áttir, eins og fornnorræna gerði líka, og myndaði m.a. kirkjuslavnesku eins og þekkist í dag. Heiti fornkirkjuslavnesku á eigin máli var einfaldlega ’slavíska’ sem dregið var af því orði sem málhafar notuðu um sjálfa sig. Orðið hefur varðveist í heitum tungumálanna slóvakísku og slóvensku. Forskeytið júgó- sem mörg slavnesk mál deila þýðir ‘suður’ og hefðu Íslendingar því eins getað talað um Suðurslavíu á sínum tíma.

Tungumál voru, og eru enn, hápólitísk. Sá sem ríkir yfir ræðu og riti hefur töluverð völd. Árið 885 bannaði þáverandi páfi, Stefán 5., notkun fornkirkjuslavnesku í Stór-Móravíu í stað latínu.

Latína var deyjandi tunga, með rætur til Rómar og opinbert mál kaþólsku kirkjunnar. Henni hugnaðist ekki að gera orð Guðs aðgengilegt á máli heimamanna hverju sinni því þá gætu þeir myndað skoðanir í stað þess að hlusta. Einnig vildi hún hafa völd á svæðum þar sem trúboð frá Miklagarði í Býsans var stundað. Borgin Mikligarður var oft kölluð Önnur Róm (Moskva lítur á sig sem Þriðju Róm).

Trúboðarnir sem voru reknir frá Stór-Móravíu rötuðu til Keisaraveldis Búlgaríu sem var þá í töluverðri uppsveiflu. Þar var glagólítíska stafrófið þróað enn frekar og leit kyrilíska þar dagsins ljós og verður opinbert stafróf keisaraveldisins 893. Var það notað til að skrifa niður slavneskar mállýskur íbúa vítt og breitt og voru svæðisbundinn munur á máli manna orðin greinilegur. Þessi blæbrigði sem þarna voru farin að myndast eru þekkt undir samheitinu kirkjuslavneska.

Fornkirkjuslavneska var ekki mál guðþjónustu á slavneskumælandi svæðum eingöngu heldur var hún líka notuð í helgihaldi rúmensku rétttrúnaðarkirkjunnar. Rúmenska, ólíkt nágrannamálum sínum, er rómanskt mál, eins og spænska og franska. Fornkirkjuslavneska var líka bæði bókmennta-og stjórnsýslumál Valakíu (sögulegt hérað innan landamæra Rúmeníu) og Moldóvu fram á 16. öld.

Kirkjuslavneska skipaði háan sess, sérstaklega í Rússlandi, í margar aldir – og á meðal Austurslava hafði hún sama status og latína í Vestur-Evrópu en hafði það fram yfir latínu að vera líkari máli sóknarbarna.

Málfræði fornkirkjuslavnesku er mjög flókin eins og gengur og gerist hjá fornmálum. Beygjanleg orð skiptast í sagnir og nafnyrði. Nafnyrðum má skipta enn frekar í nafnorð, lýsingarorð og fornöfn. Töluorð beygjast eins og nafnorð og tölurnar 1-4 taka líka kyn nafnorðsins sem þær vísa til.

Nafnyrðin beygjast í þrem kynjum, þrem tölum (eintölu, tvítölu og fleiritölu) auk þess sem föllin eru sjö talsins: nefnifall, ávarpsfall, þolfall, tækisfall, þágufall, eignarfall og staðarfall.

Ásamt þeim tíðum sem við þekkjum úr íslensku hefur fornkirkjuslavneska líka svokallaða aoríska tíð, sem táknar að verknaður átti sér stað á liðnum tíma en tiltekur ekki nánar um eðli hans (t.d. hvort honum var lokið eða haldið áfram eða hann endurtekinn).

Sjálfstæða pólska rétttrúnaðarkirkjan var sett á fót árið 1924 til að koma til móts við þá sem tilheyrðu kirkjunni og voru af pólsku bergi brotnir þegar Pólland endurheimti sjálfsstæði eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Stríðinu milli Póllands og Sovétríkjanna (febrúar 1919 – mars 1921) lauk með Rigasáttmálanum. Með honum endurheimti Pólland töluverðan hluta þeirra landsvæða sem það hafði tapað á 18. öld í gegnum skiptingar landa Pólsk-litháíska samveldisins milli Rússlands, Prússlands og Austurríkis. Vegna framgöngu Sovétstjórnarinnar í trúmálum misstu meðlimir rétttrúnaðarkirkjunnar öll tengsl við patríarkatið í Moskvu. Patríarkatið í Konstantínópel, opinberlega sú fyrsta í tignarröð rétttrúnaðarkirkja, kom á fót sjálfstæðum kirkjum á svæðum sem höfðu verið alveg eða að hluta til innan rússneska keisaraveldisins. Sjálfstæði kirkjunnar var tryggt með tomos, þ.e. tilskipun patríarkans í Konstantínópel um frelsi frá móðurkirkju (í þessu tilfelli frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni) . Samkvæmt kirkjulögum hefur patríarkinn í Konstantínópel einn rétt til að gefa út slíka tilskipun. Auk 6 erkibiskupsdæma í Póllandi hefur kirkjan 2 slík í Brasilíu en áætlað er að um 2 milljónir Brasilíubúa eigi ættir að rekja til Póllands.

Karol vinur minn sem skrifaði um í upphafi þessa bloggs sýndi mér klippur af afkomendum Pólverja í Brasilíu. Margir af eldri kynslóðinni, sem áttu ömmur og afa frá Póllandi, töluðu ennþá pólsku. Pólskan þeirra var hinsvegar mjög gamaldags samkvæmt Karol, bæði hvað varðaði málfræði og orðaforða en hún var líka mjög portúgölskuskotin. Í stað t.d. orðins kukurydza sem notað er í Póllandi um gular baunir notar þetta fólk orðið majs.

Evrópusáttmálann um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa má lesa hér.
Hlusta má á afkomendur Pólverja í Brasilíu hér.
Ritdóm Przemysławs Czarnecki um ljóðaþýðingar Geirlaugs Magnússonar má lesa hér.

Takk fyrir lesturinn.



Færðu inn athugasemd