Einu sinni voru karl og kerling sem hétu Hirsz og Gitel Rubinstein. Þau voru gyðingar og bjuggu í Podgórze sem þá var borg suður af Kraká. Í desembermánuði árið 1872 eignuðust þau stúlku sem fékk nafnið Chaja. Stuttu seinna flutti litla fjölskyldan til Krakár í gyðingahverfið sem hét og heitir Kazimierz. Þau eignuðust 11 börn til viðbótar og komust 8 þeirra til fullorðinsára. Í dag er Podgórze hverfi innan Krakár eftir að sameinast borginni í annað sinn árið 1915.

Bolesław hinn trúaði (1224-1279) var hertogi yfir Stóra Póllandi og öðrum svæðum innan Póllands á ólíkum tíma meðan hann lifði. Vitað er að hann var vel menntaður þar sem hann gat bæði lesið og skrifað latínu. Hans er helst minnst fyrir að hafa veitt gyðingum í Stóra-Póllandi skrifleg sérréttindi árið 1264 í hinum svokallaða Kalisz-lagabálki.

Kalisz er ein elsta borg Póllands, hér um bil í miðju landinu. Höfðingjar Piast-ættarinnar voru gjarnan grafnir þar. Gamli bærinn þar er mjög vel varðveittur og er borgin þess virði að heimsækja.
Kalisz-lagabálkurinn veitti gyðingum á miðöldum bæði vernd og réttindi innan Póllands á sama tíma og þeir voru ofsóttir í Vestur-Evrópu. Réttindin leyfðu gyðingum að dæma í eigin málum í gyðinglegum dómstólum og varð til að settur var á fót sérstakur dómstóll til að dæma í sakamálum er vörðuðu bæði gyðinga og kristna sem var þannig mótaður að dæma gjarnan gyðingum í hag.

Þetta varð til þess að það myndaðist ríki innan ríkisins og hvatti gyðinga sem bjuggu þvert um Evrópu alla til þess að flytja til Póllands, sem seinna meir varð þungamiðja samfélags þeirra.
Lagabálkurinn var seinna fullgilltur af Kasimír 3. árið 1334, Kasimír 4. árið 1453 og Sigismundi 1. árið 1539. Gyðingar í Póllandi voru gjarnan borgarar en ekki ánauðsbændur og nutu því seinna góðs af því trúarumburðarlyndi sem var skrásett í Varsjársambandslögin árið 1573.
Varsjársambandslögin voru með fyrstu lögum Evrópu sem kváðu á um trúfrelsi. Lögin veittu bæði aðalsfólki og þeim sem ekki voru ánauðsbændur í Pólsk-litháíska samveldinu frelsi til að iðka trú sína. Auðvitað komu lögin ekki í veg fyrir allan ágreining sem átti rætur sína í trúmálum en gerðu samt það að verkum að samveldið bæði öruggara og umburðarlyndara en Evrópu á þeim tíma.
Pólska yfirstéttin gerði mjög sérstakan samfélagssáttmála við gyðinga. Gyðingar þessir margir hverjir unnu fyrir sér sem „arendatorar“ eða „leigusafnarar“; og ráku þannig fyrirtæki eins og myllur og bruggverksmiðjur. Einnig fengu gyðingar að sinna stjórnsýsluverkum fyrir hönd yfirstéttarinnar sem aðrir ekki-gyðingar voru útilokaðir frá, t.d. innheimtu skatta. Gyðingar voru á vissan hátt verktakar sem ráku fyrirtæki aðalstéttarinnar fyrir hana í skiptum fyrir hluta arðsins.
Fyrirkomulagið virkaði einhvern veginn svona: aðalsmaður átti verksmiðju eða ræktarland og leigði út réttinn til að innheimta skatta (þ.e. „safna saman leigu“). Þeir sem tóku innheimturéttinn á leigu áttu einir rétt á því að fá skattinn greiddan, fyrir hönd aðalsmannsins og fengu hluta skattsins í staðinn. Þetta er talið vera ein af efnahagslegu rótum gyðingahaturs seinna meir.
Kalisz-lagabálkurinn samanstóð af eftirfarandi greinum:
- Ef kristinn maður vill reka dómsmál er varðar fé, eða eign, bæði færanlega og ófæranlega, eða í máli er varðar eign gyðings, gegn gyðingi, er ekki nóg að fá kristinn mann til að vitna gegn honum, heldur þarf að auki annað vitni sem er gyðingur.
- Ef kristinn maður kærir gyðing á þeim forsendum að hafa veðsett eign hjá gyðingnum og gyðingurinn neitar því, skal gyðingurinn sverja þess eið og vera síðan laus allra mála.
- Ef kristinn maður veðsetur eign hjá gyðingi og heldur síðan fram að hann hafi fengið lægri upphæð heldur en þá sem gyðingurinn heldur fram, skal gyðingurinn sverja eið þess efnis og skal sá kristni ekki neita að greiða upphæðina sem gyðingurinn nefndi.
- Ef gyðingur heldur því fram, án vitna, að kristinn maður hafi fengið lán hjá sér gegn veði, og kristni maðurinn neitar því, má sá kristni sverja eið þess efnis og vera síðan laus allra mála.
- Gyðingur má taka við hverju sem er sem veði, án þess að þurfa að spyrja hvaðan það kom, nema klæðum sem eru blettuð eða þakin blóði og helgigripum, sem hann má ekki taka við undir neinum kringumstæðum.
- Ef kristinn maður gefur gyðingi að sök að hafa veitt veð gegn gripum sem var rænt eða stolið frá þeim kristna, skal gyðingurinn sverja eið þess efnis að hafa tekið við þeim óvitandi að þeim hafi verið rænt eða stolið, taka fram þá upphæð sem greidd var fyrir gripina, hafandi gert grein fyrir henni skal hann fá hana greidda auk vaxta frá hinum kristna.
- Ef gyðingur tapar því sem hefur verið veðsett hjá honum í eldsvoða eða vegna þjófnaðar, og það verið staðfest skal gyðingurinn sverja þess eið og vera síðan laus allra mála.
- Ef upp kemur dómsmál milli gyðinga, skal héraðsdómari ekki blanda sér í málið, heldur munum Við [það er hertoginn/konungurinn hverju sinni] eða maður skipaður af Okkur, sjá um að dæma í málinu.
- Ef kristinn maður skaðar gyðing á nokkurn máta, skal hinn seki greiða Okkur [þ.e. hertoganum/konunginum] sektina og til héraðsins [þ.e. borgaralega yfirvalda]. Hafandi greitt sektina getur hann hlotið fyrirgefningu fyrir glæpi sína. Einnig skal hann greiða fórnarlambinu bætur og svo allan málskostnað.
- Ef kristinn maður drepur gyðing, skal hann hljóta viðeigandi dóm, og allar eignir hans, færanlegar og ófæranlegar vera færðar undir Okkar vald.
- Ef kristinn maður leggur hendur á gyðing, án þess að úthella blóði, skal hann sóttur til saka af Ríkinu, og greiða miskabætur; ef hann er ófær um að greiða bætur skal honum refsað á viðeigandi hátt eftir málsatvikum hverju sinni.
- Hvar sem gyðingur kýs að ferðast innan ríkis Okkar, skal enginn hindra för hans með nokkrum hætti; ferðist hann hinsvegar með vörur skulu þær tolllagðar og skal hann greiða sama toll og aðrir þegnar ríkisins.
- Í því tilfelli þegar gyðingar, samkvæmt siðum sínum og venjum, flytja jarðneskar leifar trúbræðra sinna milli borga, héraða eða sveita til greftrunnar, skal ekki innheimta af þeim nein gjöld. Gerist innheimtumaður sekur um að innheimta gjöld í slíkum tilfellum skal hann hljóta sömu refsingu og grafarræningar.
- Ef kristinn maður hefur á einhvern hátt framið spjöll á greftrunarstöðum gyðinga, skal hann hljóta þyngstu mögulegu refsingu og allar eignir hans látnar renna til ríkisins.
- Ef einhver kastar [grjóti eða öðru] í skóla [þ.e. synagógur] gyðinga, skal sá hinn sami greiða 2 talentur [u.þ.b. 2 kg.] pipars til ríkisins.
- Ef gyðingur er dæmdur af eigin dómstóli til að greiða miskabætur, skal hann auk þeirra einnig greiða 1 talentu pipars til ríkisins.
- Ef gyðingur er boðaður til réttar af dómara sínum, en kemur hvorki í fyrsta né annað sinn, skal hann greiða dómstólum sekt sem upphæð er fordæmi eru fyrir. Komi hann ekki eftir þriðja boð skal hann greiða dómstólnum töluvert hærri sekt.
- Ef gyðingur leggur hendur á annan gyðing, má hann ekki neita að greiða miskabætur fyrir dómstólum.
- Við skipum svo fyrir að enginn gyðingur skal sverja eið við Tóruna, nema það sé vegna málstaðar sem metinn er á meira en 50 grívnur [í kringum 1 kg. af silfri], nema eftir því sé sérstaklega kallað af Okkur, annars skal hann sverja eið við dyrastaf skóla [þ.e. synagógu].
- Ef gyðingur er myrtur, og ekki er hægt að sanna sekt þess sem grunaður er, skal Ríkið veita gyðingum vernd gegn þeim grunaða.
- Ef kristinn maður leggur hendur á gyðing, skal honum refsað samkvæmt því sem lögin kveða á um.
- Enginn dómari meðal gyðinga skal koma með mál sem upp hefur komið meðal gyðinga til Okkar, nema þess sé óskað af þeim sem sækir málið.
- Ef kristinn maður sækir til gyðings það sem hann hefur veðsett, án þess að greiða vexti, skal leggja á þá dráttarvexti sem skulu greiðast fyrir næstu mánaðamót.
- Enginn má leigja herbergi í húsi sem tilheyrir gyðingum.
- Gyðingur má ekki lána fé gegn ófæranlegri eign [húsnæði eða landi].
- Ef einhver rænir barni gyðinga, skal sá hinn sami sóttur til saka fyrir þjóðfnað.
- Ef veðsett eign er ekki sótt af þeim sem hana eiga innan árs, skal gyðingurinn halda eigninni.
- Enginn má neyða gyðing til að stunda viðskipti á helgidögum þeirra.
- Ef kristinn maður sækir það sem hann hefur veðsett með ofbeldi, eða beitir ofbeldi í húsi gyðings, skal honum refsað líkt og hann hafi stolið úr ríkissjóði.
- Ekki má reka mál gyðinga í almennum dómstólum, heldur eingöngu í skólum [synagógum] þeirra.
- Samkvæmt tilskipun Páfans, stranglega bönnum Við að gyðingar séu sóttir til saka fyrir að nota mannablóð í athöfnum sínum, þar sem að samkvæmt eigin lögmálum forðast þeir allt blóð. Ef gyðingur er sakaður um að hafa drepið kristið barn, þarf þrjá kristna menn og þrjá gyðinga til að bera vitni til þess að hann sé dæmdur sekur. Ef sá sem sakar gyðinginn um slíkan glæp gerist sekur um að hafa borið ljúgvitni, skal hann sæta sömu refsingu og gyðingurinn hefði þurft að sæta, hefði hann verið dæmdur sekur.
- Allt sem gyðingur hefur lánað skal endurgreitt ásamt vöxtum.
- Einungis má veðsetja hesta hjá gyðingum að degi til.
- Myntsláttumenn mega ekki láta handtaka gyðinga sem liggja undir grun að vera með falskar myntir nema af fyrirskipun Okkar.
- Ef kristnir nágrannar gyðings koma honum ekki til hjálpar þegar hann kallar eftir henni að nóttu til skal sérhver þeirra greiða 30 skildinga í bætur.
- Við skipum svo fyrir að sérhver gyðingur megi stunda verslun með almennar vörur og brauð eins og kristnir. Hver sá sem meinar þeim slíka verslun skal greiða bætur til ríkisins.
Gyðingar spiluðu stórt hlutverk í efnahagslífi Krakár og svæðunum í kring frá því á 13. öld. Þrátt fyrir lagabálkinn voru gyðingar ekki óhultir. Sumir prestar fundu fyrir pressu eftir kirkjuþingið í Konstanz (1414-1418) og kölluðu eftir minna umburðarlyndi sem olli uppþotum sem hermenn konungsins kváðu í kútinn.
Elsta synagógan sem ennþá stendur uppreist í Póllandi var byggð í Kazimierz; annað hvort árið 1407 eða 1492 en heimildum ber ekki saman. Gyðingum var gert að flytja úr Stare Miasto (ísl. Gamla bænum) en fengu að setjast að í Kazimierz sem var þá lítil borg við jaðar Krakár. Gyðingaráðið bað um leyfi til að fá að byggja eigin innri múra 1553 og aftur 1608 eftir að fjöldi gyðinga frá Bæheimi flutti þangað. Svæðið innan múranna var þekkt sem Oppidum Judaeorum, Gyðingaborgin. Þrátt fyrir að vera rétt rúmlega 1/5 af heildarsvæði Kazimierz bjó um helmingur íbúa hverfisins í Oppidum Judaeorum.

Eftir þriðju skiptingu Póllands árið 1795 eignuðust Habsborgarar Kraká og Kazimierz sameinaðist borginni í fyrra sinn. 1822 voru múrarnir sem skildu Kazimierz frá Kraká rifnir niður. Efnaðri gyðingafjölskyldur fluttu úr þrengslunum í Austur-Kazimierz. Um 120 opinberar synagógur og bænahús voru á skrá í Kraká upp úr 1930.
Áður en Galísja, en svo var héraðið sem Kraká er í lengi kallað, sameinaðist Habsborgaraveldinu var María Teresa keisaraynja og móðir Maríu Antoinette þjóðhöfðingi þar. Þrátt fyrir annálað gyðingahatur hennar gerði hún tvennt til að auðvelda gyðingum að aðlagast samfélaginu sem hún vildi búa til: hún kom á skólaskyldu til að tryggja að gyðingar fengju grunnmenntun og leyfði þeim að fá inngöngu í háskóla. Sonur Teresu, Jósef 2., hélt starfi móður sinnar áfram eftir að hún lést 1780. Hann kom því svo í kring að gyðingar voru ekki lengur undanskildir herþjónustu auk þess sem hann setti á laggirnar ríkisstyrkta skóla handa gyðingabörnum.
Jósef 2. var undir áhrifum Upplýsingarinnar, og vildi að sín yrði minnst sem upplýsts einvalds, líkt og Katrín mikla í Keisaraveldinu Rússlandi. Þær innanlandsstefnur sem hann mótaði eru kallaðar jósefínismi. Mikilvægur hluti þeirra var aukið frelsi í trúmálum innan veldisins.
1781 gaf hann út tilskipun sem losaði um höft á trúarlífi þeirra sem tilheyrðu rétttrúnaðarkirkjunni og kirkjudeildum mótmælenda. Þeim var leyft að reisa nýjar kirkjur auk þess sem kvaðir á atvinnu, verslun og menntun voru aflagðar. Tilskipunin leyfði mótmælendum, sem bjuggu í löndum með skert trúfrelsi, að flytja til Austurríkis og vinna sem apótekarar, trésmiðir og járnsmiðir. Söfnuðir sem töldu yfir 100 meðlimi máttu ekki hittast í heimahúsum; þeir máttu hinsvegar reisa kirkjur svo lengi sem að inngangurinn að þeim snéri ekki að aðalgötu bæjarins hverju sinni og litu ekki út fyrir að vera kirkjur.
Hann setti líka lög á trúarlegt uppeldi hjá hjónum með ólíkan trúarlegan bakgrunn. Ef kaþólskur maður eignaðist börn með konu sem ekki var kaþólsk, átti að ala öll börnin þeirra upp sem kaþólikka. Ef kaþólsk kona eignaðist börn með manni sem ekki var kaþólskur, átti að ala dæturnar upp sem kaþólikka en ekki synina.
1782 felldi hann úr gildi lög um sérstakan klæðnað gyðinga (þeir þurftu að bera gylltar stjörnur), skatt sem eingöngu hafði lagst á gyðinga og búfénað og lög sem bönnuðu frjálsa búsetu. Ætlunin með tilskipunum hans var að „gera gyðinga að nýtum þjóðfélagsþegnum.“ Þeim var gert að taka upp þýsku sem mál sín á milli í stað hebresku og jiddísku. Ekki mátti prenta námsbækur og opinber skjöl á hebresku. Þeim málum sem gyðingar dæmdu sjálfir var fækkað og til þess að „hvetja“ þá til náms var þeim sem ekki menntuðu sig bannað að giftast fyrir 25 ára aldur.
Chaja Rubinstein átti mjög trúaða foreldra en móðurafi hennar var rabbíin Sale Silberfeld. Hirsz, faðir Chöju var kaupmaður, og verslaði með olíu fyrir lampa, egg og aðra matvöru. Eftir því sem að árin liðu og foreldrar hennar eignuðust fleiri börn versnaði fjárhagsleg staða þeirra og byrjaði Chaja snemma að hjálpa til í verslun föður síns. Þar sem hún kom úr trúaðri fjölskyldu voru möguleikar hennar til frekari náms eftir að grunnskólagöngu hennar lauk mjög takmarkaðir.
Foreldrar Chöju höfðu bara verið með trúarlega athöfn þegar þau giftu sig og skráðu sig ekki sem hjón hjá sýslumanni. Samkvæmt manntali voru Chaja og öll systkini hennar þ.a.l. óskilgetin.
Fleiri systur hennar fóru á eftir henni og þegar upp var staðið voru bara foreldrar hennar, sem dóu úr lungnabólgu 1911, eftir í Kazimierz og Regina systir hennar, sem var myrt í Helförinni.
Þrátt fyrir lítil efni hafði Gitel Rubinstein kennt dætrum sínum að passa upp á útlit sitt en hún trúði því að ytri fegurð og þokki laðaði til þeirra góða eiginmenn sem myndi gera þeim fært að hafa eitthvað um líf sitt að segja. Á hverju kvöldi setti hún krem á andlit dætra sinna og kenndi þeim grunnatriði í hár-og húðumhirðu. Chaja átti seinna meir eftir að tala um hversu miklu máli þessar lexíur og kremið sem móðir hennar notaði skiptu fyrir líf hennar seinna meir.
Upp úr 1890 eftir að skólagöngu hennar lauk ákvað hún að freista gæfunnar eins og aðrir ættingjar hennar og flutti frá Kraká til Vínarborgar þar sem frænka hennar bjó. Á þessum tíma var Kraká ennþá innan landamæra Austurríkis-Ungverjalands. Lítið er vitað um ferðalag hennar til Vín en sjálf sagði hún að annar hvati en kröpp kjör hafi búið að baki. Foreldrar hennar ætluðu að neyða hana til að giftast öldruðum ekkil en hún hafði sjálf orðið ástfangin af læknastúdent sem ekki úr fjölskyldu gyðinga og því ekki ekki að skapi foreldra hennar.

Hún bjó ekki lengi í Vín en borgin átti eftir að skipta miklu máli fyrir starfsemi hennar seinna meir. Hún opnaði snyrtistofu þar 1932 sem var seinna lokað eftir að Austurríki var innlimað af Þýskalandi. Eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk átti hún eftir að halda snúa aftur til borgarinnar til að opna fleiri stofur.
Eftir stutta dvöl í Vín ákvað Chaja að ferðast ennþá lengra. 1897 keypti hún miða til Ástralíu með hjálp móður sinnar sem seldi skartgripi sína til að fjármagna ferðina. Á farþegalista skipsins Prince Regent Luitpold sést að hún hefur ferðast undir nafninu Helena og notaði það upp frá því. Þrír frændur hennar voru búsettir þar fyrir sunnan og ráku sauðfjárbú í Coleraine, nærri Victoríu. Henni fór fljótt að leiðast á búinu og varð heldur þreytt að því að bægja burt óþarfa athygli eins frænda síns. Hún flutti fyrst til Toowoomba í Queensland þar sem hún starfaði sem barnfóstra og síðan til Melbourne þar sem hún vann gengilbeina á kaffihúsinu Cafe Maison Dorée.
„Vinir mínir sem ég eignaðist í Ástralíu áttu ekki til orð þegar þeir sáu mjólkurlitaða húð mína. Ég var ekki með betri húð en aðrar konur í heimaborg minni í Póllandi en fyrir heldri dömum í Victoríu, með sólbrennda og veðurbarða húð sína, var alabastursleg húð mín ótrúleg.“
Margar konur í Ástralíu öfunduðu Helenu mjög af húð hennar og ákvað hún að byrja að selja kremið sem mamma hennar hafði notað í Kraká og átti að hafa gefið henni áður en hún flutti burt. Eftirspurnin var svo mikil að hún ákvað að byrja framleiðslu á kreminu sjálf. Hún seldi það undir heitinu Valaze á fyrstu snyrtistofu sinni sem hún opnaði á Elísabetarstræti í Melbourne 1902. Henni gekk svo vel með snyrtistofuna að hún flutti fljótlega með hana í betra hverfi og kallaði eftir hjálp að heiman og fékk systur sína Ceśku og Lolu frænku sína til Ástralíu. Hún opnaði fleiri stofur í Sydney og seinna meir í Wellington og Auckland í Nýja-Sjálandi.
Haft er eftir Helenu Rubinstein að kremið sem hún seldi hafi verið gert eftir formúlu ungverska læknisins Lykuski sem var búsettur í Kraká. Kremið átti bæði að vera rakagefandi og hvítta húðina. Samkvæmt henni innihélt formúlan olíu úr plöntum sem uxu í hlíðum Karpatafjallanna. Mjög líklega hefur sagan um ungverska lækninn verið liður í markaðssetningu kremsins. Árangur þess má rekja til þess að það innihélt ullarfeiti, aukaafurð sem var lítið notuð í Ástralíu, og sesamolíu. Ullarfeiti er rakagefandi og verndar húðina á meðan að sesamolía veitir sólarvörn. Valaze var ein vinsælasta varan framleidd undir vörumerki Helenu Rubinstein og var til sölu í áratugi.
Helena Rubinstein fékk ástralskan ríkisborgararétt árið 1907 og varð þar með þegn bresku krúnunnar. Til þess að geta hlotið ríkisborgararétt í Ástralíu þurfti viðkomandi að búa þar samfleytt í tvö ár og fá meðmæli frá virtum þjóðfélagsþegn.
Helena Rubinstein ákvað að fara aftur til Evrópu 1908. London sem höfuðborg breska heimveldisins varð fyrir valinu sem áfangastaður. Hún opnaði sína fyrstu snyrtistofu í Evrópu á Grafton Street og kallaði hana Maison de Beauté Valaze. Stofan var smekklega hönnuð að innan, bæði nútímaleg og glæsileg, og átti þannig eftir að höfða mjög til þess kúnnahóps sem Helena vildi vinna yfir á sitt band. Staðsetning snyrtistofunnar í hinu eftirsótta Mayfair-hverfi var heldur engin tilviljun.
Ótrúlegur metnaður hennar, nútímaleg nálgun hvað varðaði umhirðu húðarinnar og vel heppnuð markaðsetning eiginmanns hennar, Edward Titus, skiluðu henni ótrúlegum árangri. Helena kynntist Edward, pólskum gyðingi með amerískan ríkisborgararétt sem vann sem blaðamaður, á meðan hún bjó í Melbourne. Hann var tveimur árum eldri en hún og fæddur í Podgórze eins og Helena. Hún tók bónorði hans þegar hann bar það upp í London og skömmu eftir að þau giftust eignuðust þau tvo syni, Roy Valentine og Horace.
Á meðan að kremið Valaze var fyrsta húðvaran sem Helena setti á markað var fyrsta snyrtivaran sem hún setti á markað púður. Árið 1908 var Valaze Herbal Powder auglýst sem „fíngerð, hrein og hæversk vara unnin undir sömu vandlegu leiðum og Valaze.“ Helena stækkaði vörulínuna fljótlega og bætti við kinnalit. Í Evrópu þar sem Helena hafði alist upp var kinnalitur lengi vel eina snyrtivaran sem yfirstéttarkonur notuðu. Lengst af var hann búinn til úr fagurrauðum þurrkuðum lirfum í Póllandi en Pólland hafði verið stærsti útflytjandi á kinnalit síðan á 15. öld. Næsta varan sem hún setti á markað var Valaze Rouge Tenace. Kinnaliturinn átti bæði að duga lengi og og vera rakaþolinn.
Upp úr 1920 byrjuðu förðunarvörur að verða vinsælli. Helena stækkaði merkið, bætti við 6 vörulínum í kinnalitum fyrir ólíka andlitsliti, þ.á.m.: Coral, Red Geranium, Red Poppy, Terra Cotta, Raspberry, Tangerine, Anemone, Brunette og Crushed Rose Leaves.
Ótrúlegur árangur hennar í London hvatti Helenu til þess að leggja land undir fót enn einu sinni og í þetta sinn fór hún til Parísar. Borgin var miðja evrópskrar menningar og Helena vissi að hún yrði að gera sig þekkta þar. Hún opnaði fyrstu snyrtistofu sína í París á Rue Saint-Honoré 1909 og skömmu síðar litla verksmiðju í útjaðri borgarinnar. Helena og Edward fluttu varanlega til Parísar 1912. Helena naut sín virkilega í París og þökk sé eiginmanni sínum og samlanda þeirra, Misiu Sert, kynntist hún listamönnum, varð velgjörðarmaður þeirra auk þess sem hún varð helsti viðskiptavinur fatahönnuða sem hún vingaðist við. Þrátt fyrir að vera seinna búsett í Bandaríkjunum var París alltaf heimili hennar í Evrópu. Hún átti þriggja hæða íbúð í raðhúsi á Île-Saint-Louis frá 1937 þangað til hún lést.
Helenu fannst gaman að láta ljósmynda sig á rannsóknarstofum í verksmiðjum sínum til að undirstrika vísindalegu hliðina á starfi sínu. Rannsóknarslopparnir hennar voru hinsvegar alltaf hannaðir af vinsælustu fatahönnuðum síns tíma. Til að viðhalda markaðssetningu á vörum sínum sagðist hún hafa lagt stund á læknisfræði við Jagellonian-Háskólann í Kraká. Helena hafði tröllatrú á vísindum og trúði því að húðvörur ættu að halda aftur að öldrun húðarinnar með marktækum hætti.

Upp úr 1930 keypti hún í Vín rétt á formúlu fyrir vatnsheldan maskara. Árið 1939 var maskarinn settur á markað sem algjör nýjung með því að nota hann í Aquacade-vatnsballettsýningunni í New York. Formúlan, sem hún keypti í Vín og aðferðin við að nota maskarann, sem hún hafði einkarétt á, var bylting í förðun. Fyrsti sjálfvirki maskarinn, Mascara-Matic, varð til. Enn er hægt að kaupa maskarann með þessari sömu formúlu í dag undir heitinu Long Lash.
Áður en þessi maskari kom til sögunnar hafði fólk notast við formúlu þar sem vaselíni og kolum var blandað saman eftir vissum hlutföllum. Þar áður hafði fólk notað lampasvertu eða kol blandað við berjasafa. Því má með sanni segja að umbreytingin hafi verið veruleg.
Þrátt fyrir að ilmvötn væru aldagömul þá byrjaði Helena ekki að bæta þeim við vörulínur sínar fyrr en upp úr 1930. Einn af fyrstu ilmum hennar var Heaven Sent, sem átti fastan kúnnahóp næstu áratugina. Ilmvatnið var selt í ýmiskonar flöskum en einnig fékkst það í föstu formi sem hálsmen eða aðrir skartgripir. Ein frægasta markaðsherferð sögunnar var tengd ilmvatninu Heavent Sent. Til að fagna framleiðslu á ilmvatninu 1941, var ákveðið að binda 500 litlar flöskur af því við bleikar og bláar blöðrur og var þeim síðan sleppt af þaki skýjaglúfurs í New York.

Frá árinu 1955 til 1967 var Jean Kerléo ábyrgur fyrir hönnun á ilmvötnum Rubinstein-merkisins. Hann var einn fremsti ilmvatnshönnuður 20. aldar og seinna meir forseti félags franskra ilmvatnshönnuða. Hann hannaði m.a. ilmvötnin Herbessence, Men’s Club og Emotions fyrir Rubinstein. Flaskan fyrir það síðastnefnda er þekkt fyrir sérstaka tækni sem notuð var til að innsigla hana sem nefnist baudruchage. Í henni felst að fléttað er með höndunum sérstaklega utan um flöskuna til að loka henni og tekur marga mánuði að læra þessa list.

Síðasta ilmvatn sem hannað var af fyrirtækinu kom út undir nafninu Wanted árið 2009 og var Demi Moore andlit markaðsherferðarinnar.
Helena byrjaði að safna list þegar hún bjó í London. Þar hitti hún Jakob Epstein, amerískan myndhöggvara af pólskum-gyðinglegum uppruna. Hann kynnti hana fyrir afrískri og pólýnesískri list. Eftir því sem árin liðu var safn hennar af afrískri list eitt það stærsta í heiminum og var til sýnis á Museum of Modern Art í New York árið 1935.
Í París, sem þá var þungamiðja listaheimsins, eftir því sem hún kynntist fleiri listamönnum keypti hún fleiri verk eftir þá sem rötuðu í íbúðir hennar í París, London og New York. Þetta voru verk eftir de Chirico, Laurencin, Modigliani, Chagall, Cocteau, Degas, Klee, Renoir og fleiri. Við endalok æviskeiðs síns átti Helena fleiri en 30 portrett-myndir af sjálfri sér sem höfðu verið málaðar af m.a. Dufy, Helleu, Laurencin og Söru Lipsku.

Til eru yfir 40 portrett-teikningar af Helenu eftir Picasso auk þess sem Salvador Dalí málaði freskurnar sem prýddu íbúð hennar í New York.

1959 fjármagnaði og opnaði hún Helena Rubinstein Contemporary Art Pavilion við Listasafnið í Tel Aviv. Við opnun þess gaf hún töluvert af verkum úr einkasafni sínu. Hún safnaði líka smáhúsum (e. miniature houses) en það safn taldi yfir 20.000 gripi og var líka sent til Tel Aviv.

Eins og margt gott fólk eyddi Helena ekki orku í að verða hávaxin en hún var tæplega 150 cm. Frá því að hún var lítil stúlka hafði hún haft áhuga á tísku. Á meðan hún bjó og starfaði í helstu tískuborgum heimsins voru helstu verslanir og hönnuðir meira en tilbúnir til að starfa með henni og þjónusta.
Helena áttaði sig fljótt á því að það skipti öllu fyrir konu í hennar stöðu og starfi að vera vel til fara. Hún gekk um í hönnun eftir Paul Poiret, Elsu Schiaparelli, Christian Dior, Coco Chanel, Cristobal Balenciaga og Yves Saint Laurent sem hún paraði saman við skartgripi úr smiðju Cartier, Bolvin og Verdura.

Eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út ákvað Helena að flytja með fjölskyldu sína til Bandaríkjanna. Hún hélt eignum sínum í London og París en New York varð að hennar nýja heimili sem og höfuðstöðvar fyrirtækisins sem hún hafði komið á laggirnar.
Hún opnaði fyrstu snyrtistofu sína í New York árið 1915 á East 49th Street. Snyrtistofan átti eftir að flytja nokkrum sinnum, í hvert sinn í betra hverfi. Fleiri snyrtistofur voru opnaðar í Chicago, Boston og Philadelphiu. Árið 1928 ákvað hún að selja Lehman-bræðrum útibú fyrirtækisins í Bandaríkjunum á 7 milljónir dollara. Eftir að verðbréfamarkaðurinn hrundi 1929 varð hún óánægð með þá átt sem þeir bræður höfðu farið með fyrirtækið í og keypti það til baka fyrir brotabrot af því sem hún hafði selt það á.
1936 opnaði hún aðalsnyrtistofu fyrirtækisins á Fifth Avenue. Þessi sjö-hæða bygging, sem var skreytt frá toppi til táar með listaverkum í eigu Helenu og bauð upp á fegurðarmeðferðir sem höfðu ekki sést áður, fékk töluverða umfjöllun í amerískum fjölmiðlum. Byggingin sem stóð á 715 5th Avenue var helsta stolt Helenu. Á sjö hæðum gátu viðskiptavinir látið dekra bæði við líkama og sál.
Þegar henni var meinað að leigja íbúð árið 1941 á þeim forsendum að hún væri gyðingur, svaraði hún með því að kaupa alla blokkina á Park Avenue. Hún flutti í 36-herbergja íbúð með þaksvölum og bjó þar þangað til að hún dó. Fyrir 25 dollara (eða 75.000 kr. í raunvirði dagsins í dag) gat fólk keypt sér dekurdag, fullan af snyrtimeðferðum og nuddi. Sérstakur bar bauð upp á heilsufæði og kokteila, ljósaherbergi – sem þá var tækniundur – gat gefið þér brúna sólarkyssta húð, þó alls ekki umfram það sem Helena hafði boðað að væri passlegt. Í líkamsræktarsölum lærði fólk að gera æfingar og eftir heilan dag af dekri gat fólk fengið að sjá safn Helenu af smáhúsum sem tóku upp heila hæð.
1948 voru aðalsnyrtistofan og aðalskrifstofur fyrirtækisins færðar yfir í byggingu númer 655 á Fifth Avenue.
Þegar Helena byrjaði með fyrirtæki sitt var það ekki algengt fyrir konur að vera fullfarðaðar, né var það samfélagslega samþykkt. Það var ekki fyrr en að kvikmyndaiðnaðurinn fór að stækka í Ameríku að áhugi á lituðum snyrtivörum jókst. Hversdagsförðun var ekki lengur skandalíserandi meðal fólks. Til að byrja með auglýsti Helena vörurnar sínar sem nærandi og verndandi fyrir húðina. Það voru markaðsherferðir hennar sem urðu til þess að hugtakið ‘make-up’ var tekip upp í almenna málnotkun.
Bæði vestanhafs og í Evrópu réði hún auglýsingastofur til þess að búa til auglýsingaherferðir og slagorð. 1933 gaf hún út bæklinginn Beauty for the Businesswoman en í honum mátti sjá hennar frægasta slagorð, „það eru ekki til neinar ljótar konur, bara latar.“

Séð með augum samtímans kann mikið af orðalagi í auglýsingaherferðum Helenu að virðast úrelt, gamaldags og fullt af kvenfyrirlitningu. Þetta var hinsvegar ekkert óvenjulegt á þeim tíma og tók viðmið af því samtali sem átti sér stað í samfélaginu þá.
Helena var iðin og drifsöm alla ævi. Meira að segja á mælikvarða þess tíma sem hún var uppi var hún talin vera vinnualki, en komin á níræðisaldur sat hún á stjórnarfundum fyrirtækisins og ef hún komst ekki fram úr voru þeir færðir úr fundarsal fyrirtækisins yfir í svefnherbergið hennar.

Þegar þrír menn brutust inn í íbúðina hennar í maí 1964 undir því yfirskini að vera að koma með blómasendingu þverneitaði hún að opna peningaskápinn. Þvermóðska gömlu konunnar kom þeim svo í opna skjöldu að allt sem þeir höfðu upp úr krafsinu var 100-dollara seðill sem lá á einu borðinu. Þegar blaðamenn spurðu hana hvernig henni liði eftir atvikið svaraði hún: „Þetta var bara eitt af mörgu sem komið hefur fyrir mig, en peninginn fæ ég til baka í kvöld þegar ég spila bridds.“
Helena Rubinstein lést 1. apríl 1965.
Þegar seinni heimsstyrjöldin geisaði var Helena búsett í New York. Hún safnaði fé til þess að styðja við bakið á Póllandi sem þá var hernumið. Þar að auki aðstoðaði hún marga gyðinga við að flýja frá Evrópu. Eftir að stríðinu lauk hélt hún áfram að safna fé til styrktar Póllandi, sem og þeim Pólverjum sem höfðu flúið land – en margir þeirra, eins og hún, voru gyðingar.
Helena Rubinstein naut virðingar innan samfélags Pólverja sem búsettir voru í Bandaríkjunum þó svo að sumir hafi sett spurningarmerki við uppruna hennar þar sem hún var af ætt Abrahams. Ekki var talað um árangur hennar erlendis í blöðum í Póllandi kommúnismans og það litla sem um hana var sagt var ritskoðað.
Eftir andlát hennar tók annar sonur hennar, Roy Titus, við stjórn fyrirtæksins. Það gekk síðan kaupum og sölum í nokkur skipti þangað til 1988 þegar L’Oréal keypti það. Árið 2022 átti vörumerkið HR 120 ára afmæli.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd