Póllandspistill 11.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Austur-Póllandi á síðustu árum. Búið er að skipta út hægfara lestum fyrir fljótari, leggja fleiri brautarteina auk þess sem vegir hafa verið lagaðir. Austur-Pólland og pólska dreifbýlið hafa löngum verið helsta vígi stjórnarflokksins „Lög og réttlæti“ (pól. Prawo i Sprawiedliwość eða PiS). Hafa meðlimir flokksins, sem nú hefur verið í ríkisstjórn í tvö kjörtímabil, einnig verið duglegir að gagnrýna Evrópusambandið sem þeir kalla ýmsums nöfnum í fjölmiðlum, t.d. botnlausa hýt. En eins og svo oft áður í pólskum stjórnmálum fara ekki saman hljóð og mynd en flestöll innviðauppbygging hefur verið fjármögnum með sameiginlegum uppbyggingarsjóðum ESB.

Hagvöxtur hefur einnig verið mikill í Póllandi á síðustu árum. Á árunum 2011 til 2021 jókst landframleiðsla um 3.2% á ári. Á sama tíma hefur hagkerfi Þýskalands staðið í stað og er núna að dragast saman um 0.2% á þessu ári samkvæmt rannsóknum OECD. Þýskaland reiðir sig mikið á útflutning til Kína en þar hefur hagkerfið verið heldur lengi að komast í gang eftir Covid.

Í Þýskalandi hefur samfélagssáttmálinn verið slíkur: ríkisstjórnin heldur niðri kostnaði á matvöru, húsnæði og heilbrigðiskerfinu og þess í stað eru laun aldrei hækkuð umfram það sem heldur verðbólgu niðri. Þannig hefur Þýskaland haldið sér samkeppnishæfu og hefur haldið sér vel á floti með því að flytja út vandlega gerðar vörur á borð við bíla og tæknivörur á góðu verði.

Eftir kjarnorkuslysið í Fukushima ákvað Angela „Mamma“ Merkel einhliða að loka kjarnorkuverum í Þýskalandi, sem þar með gerði landið ennþá háðara orku frá Rússlandi. Merkel kynnti þetta sem lið í innleiðingu á grænni orku en henni hefði verið nær að gera eins og nágrannar Þýskalands fyrir austan og halda áfram að nota aðra orkugjafa þangað til að að grænir orkugjafar framleiddu nægilega orku til að leggja eldri, mengandi orkugjafa niður.

Í síauknum mæli er Pólland farið að sjá Austur-Þýskalandi fyrir orku. Þýskaland var farið að reiða sig á Nordstrom-leiðsluna sem og fjölbreyttari orkugjafa en reiknaði ekki með því að þurfa, í kjölfar stríðsins, að kaupa gas frá Bandaríkjunum á sex sinnum hærra verði en það greiddi fyrir gas frá Rússlandi. Þar til nýlega var Þýskaland talið vera leiðandi innan ESB er varðaði efnahag og pólitískt vald. Versnandi staða innanlands sem og utan hefur orðið til þess að menn eru farnir að velta ýmsum öðrum sviðsmyndum fyrir sér. Ekki þykir ólíklegt að Varsjá fari að hafa meira vægi í málefnum Mið-og Austur-Evrópu.

Talið er að þetta séu samspilandi afleiðingar þeirrar stefnu sem ráðamenn í Póllandi hafi markað fyrir nokkru síðan með það í huga að gera Varsjá að mikilvægari bandamanni Þýskalands en Washington. Á sama tíma hentar Varsjá að halda Berlín á tánum eins og sjást má með nýlegri kröfu ríkisstjórnarinn um bætur frá Póllandi vegna skaða sem hlaust af ráðatíma nasista. Valdamenn í Varsjá bæði toga í kollega sína í Berlín og ýta þeim frá sér á sama tíma.

Nú þegar hafa Pólverjar flestöll tögl og hagldir á orkumörkuðum í Eystarsaltslöndunum, Tékklandi og Slóvakíu og hófst sú vegferð í Póllandi árið 2006. Til að mæta aukinni orkuþörf bæði heimafyrir og erlendis tel ég því ennþá líklegra að reist verða kjarnorkuver í Póllandi. Léleg staða kjarnorkuvera í Frakklandi sem hingað til hafa flutt töluvert af orku inn á sameiginlegt orkunet Evrópu, þá sérstaklega til Þýskalands, ýtir ennþá frekar undir væntanlega arðsemi slíkra framkvæmda.

Á meðan að Frakkland framleiðir töluvert af rafmagni með kjarnorku þá framleiðir það ekkert úraníum sem er nauðsynlegt fyrir kjarnorkuver. Þess vegna fór allt í bál og brand þegar ríkisstjórninni í Níger var steypt af stóli. Frakkland flytur inn úraníum frá 10 löndum og er Níger annar stærsti birgir Frakklands og sér frönskum kjarnorkuverum fyrir 20% af öllu því úraníum sem þar er notað.

Á meðan að einka(vina)væðingin er í hávegum höfð í löndum nýfrjálshyggjunnar, eins og á Íslandi, þá hefur Pólland ríkisvætt og sameinað fyrirtæki á orkumarkaði. Fyrir sameiningu voru tekjur ríkissjóðs af orkusölu um 33 miljarðar bandaríkjadollara á ári en eftir 2021 þegar sameiningin átti sér stað voru tekjurnar um 80 miljarðar bandaríkjadollara.

Til að standast kröfur frjálshyggjuhagkerfis heimsins var síðan farið í að einkavæða hluta innviða árið 2022 og voru ýmis fyrirtæki seld að hluta til eða alfarið til sádíarabíska fyrirtækisins Saudi Aramco. Fyrir sinn snúð mun Saudi Aramco flytja til Póllands 45% af allri þeirri olíu sem Pólland þarf fyrir sjálft sig og til frekari útflutnings en þónokkrar olíuvinnslustöðvar eru starfræktar í Póllandi.

Þess má einnig geta að ríkisorkurisinn Orlen hefur tryggt sér fjármögnun hjá 25 lánastofnunum innanlands sem og Evrópska þróunarbankanum (en.  European Bank for Reconstruction and Development) til að byggja fyrsta hafvindmyllugarðinn (en. offshore wind farm, auglýst er eftir óþjállri þýðingu). Túrbínurnar verða 76 talsins og staðsettar 23 km frá sjávarsíðunni. Fjármögnun þessi dekkar 80% af heildarkostnaði framkvæmdanna. Áætlað er að verklok verði 2026 en þegar garðurinn verður tekinn í notkun mun hann framleiða á bilinu 2-3% allrar raforku í Póllandi og sjá 1.5 milljónum heimila fyrir rafmagni.

Þegar það kemur að orkumálefnum Póllands eru 10% heildarorkuframleiðslu landsins af endurnýjanlegum orkugjöfum, þar af 8% lífmassi.

Þegar það kemur að rafmagnsframleiðslu er 80% fengin frá kolabrennslu en 20% frá endarnýjanlegum orkugjöfum og skiptis nokkurn veginn til helminga á milli vind-og sólarorku.

Hér er farið að kólna töluvert og tveim dögum eftir að ég kom hafði hitastigið farið úr 25°C niður í 15°C. Póllandi er skipt í nokkur kyndingasvæð og er það í verkahring húsfélagsins (pól. spółdzielnia mieszkaniowa) eða húseigendafélagsins (pól. wspólnota mieszkaniowa) að fara eftir kröfum ríkisins þegar það kemur að kyndingu húsnæðis. Viðmiðið er að það hafi verið undir 10°C í þrjá daga en oft er ekki farið eftir þessu heldur er beðið eftir fyrsta frosti. Í nýrri byggingum (eins og sá sem þetta skrifar býr í) eru kerfi sem kveikja á sér þegar það er kalt úti og slökkva á sér þegar hitinn rís. Einnig geta miðstöðvarkerfi sem þjóna hverfum í borgum verið sérlega vel gerð og sparneytin á orku. Kostnaður við uppbyggingu slíkra kerfa er töluverður og þarf að þjónusta töluverðan fjölda af húsnæði til að borga sig. Kerfi þetta er of dýrt í innleiðslu í dreifbýli og því má oft sjá reykspúandi strompa þegar þú ferðast um pólskar sveitir að vetrarlagi.

Ég bý einnig við þann „lúxus“ að í kringum mig í blokkinni búa margir Úkraínubúar sem kynda eins og þeir séu vanir að búa í Helvíti.

Mögulega var öll orka svo billeg í Úkraínu fyrir stríð að þeir hafa ekki skynbragð á milli kyndingar á kostnaðar. Þegar ég bjó í Moskvu, þar sem kyndingin er notuð óspart, var 4° heitara í borginni en í kringum hana, svo ríflega var kynnt. Húsnæði var að vísu á mörgum stöðum orðið gamalt og lúið og ekki var búið að skipta út gluggum fyrir tvöfalt gler o.þ.h.

Þann 15. október næstkomandi verða kosningar í Póllandi. Átökin í fjölmiðlum milli vissra flokka hafa verið harðvítug og hafa flokksmenn ekki sparað stóru orðin í garð.

Elbląg er lítil hafnarborg við Eystrarsaltið og var eitt sinn meðlimur í Hansasambandinu. Djúpristur skipa sem höfnin þjónustar má ekki vera stærri en 1.5 m. Stærri skip eru þjónustuð af Gdańsk sem er betur til þess búin. Borgin var prússnesk lengi vel og voru Þjóðverjar í meirihluta íbúa. Eftir uppstokkun á landsvæðum í kjölfar lok seinni heimsstyrjaldar féll borgin í skaut Póllands og voru hreppaflutningar úr áður pólskum héruðum Hvíta-Rússlands og Úkraínu til hennar. Þýskur minnihluti er ennþá til staðar sem taldi 450 manns árið 2000.

Borgin hefur lengi vel verið eitt þeirra svæða sem PiS hefur sótt stuðning. Það þótti því stinga í stúf þegar Donald Tusk, formaður Borgaravettvangsins (pól. Platforma Obywatelksa eða PO) mætti til að halda ræði í kosningarherferð sinni og var samkomustaðurinn pakkaður af stuðningsfólki.

„Evrópa er frelsi, réttarríki og barátta gegn spillingu.“ PiS er að reyna að heilaþvo Pólverja, rétt eins og kommúnistarnir og nasistarnir segir Tusk.

Ef einhverjum finnst Tusk hafa heldur stór orð um framferði PiS má segja að hann hafi verið hófstylltur í orðavali sínu samanborið við andstæðinga sína. Jarosław Kaczyński, formaður PiS, sagði sama dag og Tusk var í Elbląg að Tusk myndi láta Rússlandi eftir helminginn að pólskri grundu ef til beinna stríðsátaka kæmi, flytja inn ólöglega innflytjendur í massavís og innleiða þýskt (lesist: evrópusambands-) regluverk í Póllandi. Í ágúst sagði hann að Donald Tusk væri holdgervingur illskunnar, þannig að líta má að hann hafi haldið aftur af sér.

Óhætt er að segja að stjórnarflokkurinn sé farinn að óttast að missa völd sín í komandi kosningum. Stjórnarandstaðan óttast að sitji PiS eitt kjörtímabil til viðbótar verði það til þess að flokkurinn festi herði svo tökin á landinu að lýðræði verði ekkert nema sjónhverfing líkt og í Ungverjalandi Viktors Orban.

Aðalspurning er hvort óákveðnir kjósendur séu að hlusta og ætli sér að taka þátt. Skoðanakannanir sýna að að litlu munar á fylgi helstu flokkanna tveggja. Eldra fólk er helsta bakland PiS á meðan að ungt fólk kýs stjórnarandstöðuflokkana en yngri kjósendur skila sér síður á kjörstað.

Talið er að þeim finnist leiðtogar flokkanna lítið spennandi en Tusk er 66 ára á meðan Kaczyński er 74 ára og hafa lítil tengsl við yngri kjósendur almennt. Talið er að þetta verði síðustu kosningar með þessar kempur í forsvari flokka sinna.

Vafalaust sigrar PiS kosningarnar en samkvæmt könnunum fá þeir ekki nema 37% atkvæða, vel undir 44% sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum og langt undir meirihlutanum. Þegar flokkurinn komst til valda 2015 innleiddi hann mjög vinsælt barnabótakerfi og lækkaði eftirlaunaaldurinn. Seinna kjörtímabil flokksins hefur verið markað af hverju hneykslismálinu á fætur öðru.

Löggjöf varðandi dýravelferð (gæluverkefni Kaczyński) var sett á klaka, varanlega, eftir mótmæli bænda árið 2020. Innflutningur á úkraínsku korni var síðan bannaður til að friðþægja bændur sem leiddi til diplómatískrar kreppu. Sama ár staðfesti dómskerfið lög er varða nær algjört bann við þungunarrofi (undantekningar eru gerðar í tilfellum nauðganna, sifjaspells eða þegar líf móður er í hættu en það heyrir til undantekninga að undantekningar séu gerðar á þessum forsendum). Leiddi þetta til einna stærstu mótmæla sem gerð hafa verið í Póllandi eftir að valdatíma kommúnista lauk og fældi kvenkjósendur PiS frá flokknum.

Á þessu ári varð að útvatna frumvarp er varðaði rannsókn á áhrifum Rússlands á valdamenn í þjóðfélaginu sem var mjög greinilega gert til þess að grafa upp skít á stjórnarandstöðuna.

Til að toppa allt saman kom í ljós mútuþægni í utanríkisráðuneyti Póllands þegar í ljós kom að hundruðir þúsunda vegabréfsáritanna hefðu verið gefnar út á fölskum forsendum til handhafa afrískra og asískra vegabréfa. (Í einu tilfelli voru gefnar út vegabréfsáritanir til Indverja sem sögðust vera í kvikmyndateymi sem ætlaði að gera Bollywood-mynd í Póllandi. Meðlimir téðs teymis flugu síðan til Mexíkó og gerðu tilraun til að komast yfir landamærin þar til Bandaríkjanna). Gerði þetta lítið til að hjálpa PiS með einn sinn helsta málstað sem er málefni innflytjenda.

Margir kjósendur þakka PiS fyrir þann mikla hagvöxt sem verið hefur í Póllandi sem ég minntist á hér að ofan. Félagsfræðingur sem hefur verið ráðgjafi forsetans telur að meira að segja kjósendur sem hugnast ekki PiS séu líklegri til að kjósa flokkinn frekar en aðra flokka þar sem þeir óttast að bætur til þeirra væru minnkaðar eða settar af. Kjósendur í dreifbýli bera lítið sem ekkert traust til Tusks eftir að hann hækkaði eftirlaunaaldurinn árið 2012. Er hann almennt álitinn hafa yfirgefið Pólland fyrir glimmerlífið í Brussel. Tusk hefur ekkert gert til að breyta þessari ímynd sinni en öll herferð flokks hans er stíluð á fólk í þéttbýli.

Á kosningarferðalagi sínu var Tusk spurður út í réttindi hinsegin fólks og sagði hann flokk sinn vera með tilbúin frumvörp þess eðlis að heimila staðfesta sambúð samkynja para auk þess sem að ferli transfólks sem vill gangast undir kynleiðréttingu er einfaldað svo um munar. Í dag þarf transfólk í Póllandi að lögsækja foreldra sína. Gildir einu þó svo að um lögráða einstakling sé að ræða. Foreldrar viðkomandi geta síðan mótmælt og staðið í vegi fyrir ferlinu öllu séu þau ósátt. Í þessum málum eru Pólverjar einstaklega aftarlega á merinni. Í þeim tilfellum sem að foreldrar viðkomandi eru látnir munu dómstólar skipa réttargæslumann fyrir hagsmuni hina látnu. Þetta hljómar eins og söguþráður í rúmensku absúrdleikriti en er allt dagsatt, því miður. Tusk viðurkennir að réttindi að hluta séu ekki full réttindi en á sama tíma skipti það máli að gera það sem er hægt.

Vinkona mín er frá Częstochowa, borg sem hefur mikið trúarlegt gildi fyrir Pólverjum. Hún sagði mér að hún hafi staðið í stappi við foreldra sína til að fá þau til að viðurkenna kyn sitt alveg þangað til að amma hennar steig inn í deilurnar. Sagði sú gamla við foreldra hennar að fjölbreytileiki samfélagsins hafi verið einn af hornsteinum pólsks samfélags fyrir stríð og hafi verið rifinn upp með rótum af nasistum.

Stjórn PiS yfir stofnunum ríkisins er kjarni þeirra valda sem flokkurinn hefur. Flokkurinn stjórnar alfarið Orlen sem rekur flestar bensínstöðvar í landinu og hefur þannig haldið olíuverði í landinu sérstaklega lágu fyrir kosningar – svo lágu að olían selst reglulega upp. Tékkar hafa gert sér ferð yfir landamærin til að fylla á tankinn, svo góð eru kjörin. Á meðan verð í Evrópu á olíu hefur hækkað um 42% frá því um mitt þetta ár hefur það lækkað um 2% í Póllandi.

Til að halda verðinu niðri er talið að ríkið hafi sagt Orlen að nota neyðarbirgðir sínar sem eingöngu á að nota í tilvikum eins og þegar stríð hefur brotist út í Póllandi en umhverfismálaráðherra hverju sinni þarf að veita heimild fyrir því að ganga á þessar birgðir.

Ríkisstjórnin ætlar að verðlauna þau kjördæmi með mikla kjörsókn með nýjum slökkviliðsstöðvum, en bara ef kjördæmin eru í dreifbýli sem eins og áður hefur verið sagt eru höll undir PiS nú þegar.

Ríkisstjórnin hefur neitað að stokka upp í kjördæmaskipan landsins í takt við breytta mannfjöldaþróun í þéttbýli. Miðað við mannfjölda ætti Varsjá t.d. að hafa 34 þingsæti í stað 20.

Á sama tíma og kosningarnar eiga sér stað ætlar ríkisstjórnin að halda þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi málefni eins og hvort eigi að rífa niður girðingar við landamærin, gefandi þar með í skyn að það sé ætlun stjórnarandstöðunnar.

Á sama tíma hefur tilleitni PiS við að herða tökin á ríkinu kostað flokkinn töluverðar fjárhæðir. Evrópudómstóllinn hefur dæmt lagasetningar ríkisstjórnarinnar til að setja dómstóla landsins undir ríkisstjórnina ólöglegar. Evrópusambandið hefur haldið eftir 35 milljörðum evra (töluvert yfir árlegri þjóðarframleiðslu Íslands) ætluðum til fjárhagsaðstoðar til aðildarríkja eftir Covid þangað til að lagasetningarnar verða dregnar til baka. (Tusk hefur sagt að með því að styðja aðgerðir PiS séu kjósendur að greiða innviði í Þýskalandi). Eitthvað hefur ríkisstjórnin aðhafst en fólk sem berst fyrir betri stjórnarháttum segja aðgerðir hennar vera upp á punt.

Yngra fólk er umhugað um málefni sem ekki er hægt að tengja beint við þjóðernishyggju (PiS) né frjálshyggju (PO). Margt af því hefur áhyggjur af síhækkandi húsnæðisverði. Aðrir hafa áhyggjur af andlegri heilsu þjóðarinnar. Vinstrisinnað ungt fólk hallast að flokknum Lewica (ísl. Vinstrið) á meðan að hægrisinnum hugnast flokkurinn Konfederacja (ísl. Sambandið) sem hefur sett út á ríkisútgjöld í velferðarmálum (og þá sérstaklega varðandi úkraínskt flóttafólk). Flokkurinn fær um 10% fylgi í könnunum og er þrisvar sinnum vinsælli hjá karlmönnum en konum. Hneykslismál er varðar kynþáttafordóma og léleg frammistaða í kappræðum hafa skaðað stöðu flokksins. Sumir kjósendur Konfederacja gætu kosið Trzecia droga (ísl. Þriðja leiðin) sem er kosningabandalag tveggja miðjuflokka.

Engin möguleg samsteypustjórn þykir lífvænleg til lengri tíma. Konfederacja hefur marglofað að vera aldrei í samstarfi við PiS og jafnoft dregið það til baka, en væri líklega óáreiðanlegur flokkur í hvaða ríkisflokkasamstarfi sem er. Borgaravettvangurinn, Vinstrið og Þriðja leiðin gætu mögulega náð að skrapa saman meirihluta til að mynda ríkisstjórn en forseti Póllands sem kemur úr röðum PiS myndi líklega reynast þeim sem Þrándur í Götu við hvert fótmál. Sama má segja um dómstóla sem eru alfarið mótaðir af fólki hliðhollu PiS. Mögulega þyrfti að boða fljótlega til kosninga aftur.

En stjórnarandstaðan er vongóð. Fyrsta október voru mótmæli gegn ríkisstjórninni í Varsjá og voru allt að 800.000 manns viðstaddir. Ríkissjónvarpið sem stjórnað er af PiS minntist ekki einu orði á þau.

Ég kom til Póllands 27. september og flaug beint frá Íslandi til Wrocław. Þar gisti ég í eina nótt og tók svo lest til Poznań. Helgina eftir að ég kom var haldinn plöntumarkaður í annað sinn í ráðstefnuhöllinni sem er hérna í hverfinu. Ég mælti mér mót við vini mína sem höfðu ekki farið í apríl þegar markaðurinn var haldinn fyrst. Eins og aðrir Íslendingar gera alltaf þegar þeir eru erlendis fór ég og gerði góð kaup. Töluvert meira var af fólki núna í seinna skiptið og finnst mér líklegt að markaðurinn verði haldinn snemma á næsta ári.

Hér má sjá góssið úr fyrri ferðinni en ég ákvað að fara aftur næsta dag. Ég las í sumar grein á Guardian þar sem talað var um fjölda plantna sem þú þarft að hafa til að hreinsa loftið heima hjá þér. Loftgæði í Poznań á veturna eru ekki jafn slæm og í öðrum borgum Póllands, þó mættu þau vissulega vera betri.

Ég byrjaði í tímum 2. október og bara einu sinni fékk ég kvíðahnút í magann og hugsaði mér sjálfum mér hvað í ósköpunum ég væri að hugsa, ef nokkuð, með að fara út í þetta nám.

Á mánudögum er ég í tímum frá 11:30 til 16:45. Kúrsarnir sem ég tek þá daga eru:

Lestur á dagblöðum og orðræðugreining.
Pólskt talmál.
Lagamál og önnur sérmál í pólsku.

Á þriðjudögum er ég bara í einum kúrs frá 09:45 til 11:45 en sá nefnist Siðareglur í pólsku í ólíkum samskiptum.

Á miðvikudögum er ég síðan í tímum frá 11:30 til 20:15. Þeir kúrsar eru:

Pólsk menning og siðir.
Ritver fyrir meistaranema.
Pólsk stílfræði og orðræðugreining.
Fjölmenning og fjöltyngi í Póllandi.

Einnig á ég eftir að skrá mig í einn valáfanga en þeir sem mér líst best á eru því miður kenndir á sama tíma og ég sit í skyldukúrsum. Svo þarf ég líka að velja eitt erlent tungumál (ensku, þýsku eða spænsku). Ég þarf að kynna mér hvaða tungumál eru kennd í málveri háskólans en ég gæti vel hugsað mér að læra nútímagrísku ef hún er í boði.

Ég ákvað í sumar að ég myndi spara fyrir stuttri ferð til Berlínar í haust ef ég kæmist inn í námið hérna í Poznań. Svo og fór og tók ég lestina frá Poznań til Berlínar á föstudaginn var. Lestin er um þrjá tíma á leiðinni og kostar miðinn um 3.500 krónur aðra leið. Núna hef ég ekki komið til Berlínar í mörg ár síðan ég gerði tilraun til að búa þar sumarið 2017. Tók ég sérstaklega eftir því sem Móa vinkona mín sagði mig við að sumrin í Berlín eru svona æðisleg til að vega upp á móti vetrargrámanum sem umlykur borgina. Ég tók líka sérstaklega eftir því hvað Berlín var skítug og hvað fjöldi heimilislausra hafði aukist. En í ljósi þess að klæði Jesú eru heillegri en það sem ég átti eftir af sokkum og nærfatnaði fór ég á aðalverslunargötuna og styrkti hinn annars kólnandi þýska efnahag.

Þó svo ég væri bara í eina nótt og með takmarkaðan tíma þar af leiðandi ákvað ég að ég skyldi leyfa mér að fara á eitt safn og fór á Gyðingasafnið í Berlín (þýs. Das Jüdische Museum Berlin). Aðalsýningin er ennþá sú sama og þegar ég var þarna 2017 en búið var að setja upp nýja tímabundna sýningu um líf gyðinga í Austur-Þýskalandi. Ef einhver ætlar að leggja land undir fót og heimsækja þessa höfuðborg Prússlands þá mæli ég með að skoða sýninguna sem tekur klukkutíma eða svo.

Ég læt þetta gott heita í bili. Ég er með skjal í tölvunni yfir allt það sem mig langar til að skrifa um í vetur þannig að skrifin gætu orðið reglulegri en þau hafa verið.

Takk fyrir lesturinn.






2 svör við “Póllandspistill 11.”

  1. Takk!

    Líkar við

  2. Skemmtilegt blog. En ég vildi gjarnan heyra meira um líf gyðinga í Austur-Þýskalandi. Það hefur ekki verið talað mikið um það. Takk fyrir pistilinn!

    Líkar við

Færðu inn athugasemd