Frá því á miðnætti í gær hefur ríkt „kosningaþögn“ (pól. cisza wyborcza) í Póllandi en frá Pólverjar ganga til kosninga í dag. Kjörstaðir opnuðu klukkan 07:00 og verða opnir til 21:00 í kvöld.
29 milljónir manns eru á kjörskrá, þar af hálf milljón sem er búsett erlendis. Mikil óvissa er um vægi atkvæða erlendis, þar sem flokkurinn Lög og réttlæti (pól. Prawo i Sprawiedliwość, eða PiS) innleiddi fyrir nokkru þau lög að atkvæði verða að vera talin innan sólahrings frá því að kjörstöðum lokar. Þegar kjörstaðir loka erlendis á síðan eftir að flytja atkvæðin til Varsjár þar sem þau eru talin. Tíminn er því heldur naumur.
Kjörsókn, þegar þetta er skrifað, mælist 23%. Á sama tíma í fyrra var hún 18%. Í ljósi þess má ætla að heildarkjörsókn fari fram úr þeirri sem var í síðustu kosningum, 2019, sem var 61%.
Á sama tíma og Pólverjar kjósa í þingkosningum þessum ákvað PiS að halda einnig þjóðaratkvæðagreiðslu um eftirfarandi málefni:
1. Móttöku flóttamanna samkvæmt tilskipun frá ESB.
2. Hækkun á lífeyrisaldri.
3. Áframhaldandi vegg við Hvíta-Rússland.
4. Sölu á ríkiseignum.
Borgaraleg samtök, eins og Amnesty International-deild Póllands, hafa ítrekað fyrir almenningi á samfélagsmiðlum að það er réttur þeirra að kjósa eingöngu í þingkosningum og afþakka kjörseðil þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég get ekki séð hversu mikillar þátttöku er krafist í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að hún teljist gild.
Hver sá sem gerist sekur um brot varðandi kosningaþögn á yfir höfði sér fjársekt. Veggspjöld og auglýsingar sem settar voru upp áður en kosningaþögn hófst mega vera áfram uppi en ekki má setja neitt nýtt upp.
Hvatning til þátttöku í kosningum er ekki brot á lögum um kosningaþögn nema kjósendur séu hvattir til að kjósa einn frambjóðanda umfram aðra. Sé kjósendur hinsvegar hvattir eða lattir til þess að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu varðar það brot á kosningalögum, þar sem fjöldi atkvæða ræður því hvort hún sé bindandi eður ei.
Mikið er í húfi og líta Pólverjar svo á að um sé að ræða framtíð Póllands til lengri tíma en bara næstu 4 ára.
Mig langar til að kynna fyrir lesendum auglýsingar frá „Rödd kvenna“ (pól. Głos kobiet) sem hafa verið birtar kjósendum í aðdraganda kosninganna. Þýðingin á skilaboðum eru fyrir neðan hverja mynd:





‘Rödd kvenna’ eru regnhlífasamtök mannréttindasamtaka í Póllandi sem komu af stað herferðinni „Það er þitt val“ (pól. To twój wybór). Hvati herferðarinnar er sú staðreynd að minna en helmingur ungra Pólverja hafði sagst ætla að taka þátt í kosningunum.
Menningar-og félagasamtökin Liberté! hafa verið með herferð undir nafninu „Sýndu mátt þinn“ (pól. Pokaż swoją siłę). Í myndbandinu sem hægt er að horfa á segja konurnar m.a. „Ég geng til kosninga til að vera örugg í eigin landi. Mér þykir það leitt að þurfa að óttast að verða ólétt í heimalandi mínu. Það angrar mig að karlmenn fari með völd, sem vildu helst að ég væri tjóðruð við eldavélina“.
Önnur herferð sömu samtaka er titluð „Vendipunktur fyrir Pólland“ (pól. Punkt zwrotny dla Polski). Þar spyrja samtökin spurninga eins og:
– finnst þér ríkisstjórnin hafa brugðist að ná tökum á verðbólgunni?
– finnst þér rétturinn til þungunarrofs vera of takmarkaður?
– finnst þér að skilja eigi að ríki og kirkju?
– finnst þér að það eigi að afpólítisera ríkisfjölmiðla og fjárlög?
Núverandi stjórnarflokkur situr undir ámælum fyrir að hafa nýtt sér ríkisfjölmiðla í kosningabaráttu sinni og fjármagnað það með ríkisfjárlögum.
Fólki finnst Kaþólska kirkjan vera farin að seilast heldur langt út fyrir sitt samfélagslega hlutverk. Nýlega varði kirkjan ákvörðun sína að hafa prentað kennslubók ætlaða 8 ára börnum með setningunni „frekar dey ég en að lifa í synd“. Þykir þetta skammarlegt, sér í lagi vegna þess að á árinu 2021 hafði sjálfsvígstilraunum barna og unglinga fjölgað um 77%. Árið 2022 var hjálparlína sem ætluð var til að aðstoða ungt fólk með sjálfsvígshugsanir tekin úr fjárlögum. Henni hefur verið haldið gangandi með fjárframlögum frá almenningi. Trúfræðsla í skólum er alfarið fjármögnuð af ríkinu en kirkjunni er í sjálfvald sett með val á kennsluefni og starfsháttum. Fólk sem kennir þessa tíma eru starfsfólk kirkjunnar. Talsmenn kirkjunnar segja setninguna hafa verið tekna úr upprunalegu samhengi sínu.
Samtökin „Réttarfrelsi“ (pól. Wolne sądy) hefur verið með herferð í von um að vitundarvakning eigi sér stað er varðar getnaðarlöggjöf, hvernig þingið setur lög umfram valdasvið sitt og grefur þannig undan lýðræðinu, og hvernig núverandi ríkisstjórn reynir að setja lög er varða einkalíf fólks.
Þá hafa kynfræðslusamtökin Sexed.pl einnig verið með auglýsingaherferðir, þar sem sýnt er fram á væntanleg aukin ítök ríkis í einkalífi fólks. Skemmtilegast finnst mér myndbandið um konuna sem vann kosningar og klippir á smokkinn. „Ef þú ert tilbúinn í þetta [að stunda kynlíf] þá hlýturðu að vera tilbúinn að eignast barn“.
Með tilliti til þess fjölda fólks sem kemur frá Póllandi eða er af pólskum uppruna finnst mér merkilega, nær skammarlega lítið fjallað um pólsku þingkosningarnar heima á Íslandi.
Í nýlegri úttekt Evrópuráðsins er varðar aðildaríki að Evrópusáttmálanum um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa eru gerðar margar athugasemdir við pólska ríkið. Kennslustundum í þýsku, handa þeim sem hafa þýsku að móðurmáli, hefur verið fækkað úr þrem í eina á viku. Úttektin minnist einnig á að nauðsynlegt sé að hafa hröð handtök í endurlífgun og uppihaldi á smámálunum karaímsku, jiddísku og tatörsku. Skref sem mælt er með að tekin verði séu samráð við íbúa á þeim svæðum sem málin eru eða hafa verið töluð. Þá eigi að setja á fót menntastofnun fyrir hvert tungumál og hvetja til að fjölmiðlar séu gerðir aðgengilegir á netinu. Þá er ríkið einnig hvatt til þess að gera þeim sem hafa þýsku, litháísku og hvítrússnesku að móðurmáli fært að sækja þjónustu til stofnanna ríkisins á sínu máli, á þeim svæðum þar sem málhafar eru í meirihluta.
Einnig er gerð frekari athugasemd við móðurmálskennslu annarra smámála, svo sem armensku. Ekki sé nóg að hafa kennslu í móðurmáli, heldur þurfi kennsla annarra faga að vera á viðkomandi móðurmáli. Nemendur sem tala t.d. slóvakísku sem fyrsta mál eiga að hafa möguleika að læra stærðfræði á slóvakísku. Í úttektinni er líka sett út á að ekki sé möguleiki fyrir málhafa allra smámála að sækja menntun á sínu móðurmáli á öllum skólastigum. Mikið af þeirri móðurmálskennslu sem er í boði er sinnt af félagasamtökum og sjálfboðaliðum. Innan Póllands eru alls 14 viðurkennd tungumál.
Ég vildi upphaflega bara skrifa um kosningarnar, en eitt leiddi af öðru. Annars hugsa ég að það sé ágætt að skrifa eitthvað styttra inni á milli þess sem ég skrifa lengri pistla. Mig langar t.d. til að skrifa um alla þessa minnihlutahópa innan Póllands, en töluverð vinna fer í þannig skrif auk þess sem lesturinn er tímafrekur þar sem saga Póllands er rík og mikil. Á köflum úr hófi.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd