Póllandspistill 15.

Ég bið forláts á því hve langt hefur liðið á milli blogga, en bæði ákvað ég að halda heilög jól heima, auk þess sem að próf eru haldin eftir jól hér í Póllandi.

Mér til mikillar gleði er ekki mikið um eiginleg lokapróf en þó nokkuð um magasársvaldandi lokaverkefni. Ekki hefur gefist nægilegur tíma til að skrifa bloggið, en mér finnst gaman að skrifa og það skiptir mig máli að gera það vel. Og til þess að gera eitthvað vel þarf maður að hafa til þess tíma.

Af öllum þeim kúrsum sem ég er í núna er bara einn sem hefur skriflegt lokapróf en það er ritun. Á þessu stigi í pólskukunnáttu okkar er okkur erfiðast að muna greinarmerkjasetningu, en töluverður munur er á reglum milli tungumála. Þá sagði kennarinn við þá sem hafa önnur slavnesk mál að móðurmáli að þeirra helsta vandamál væru líkindi á milli mála, en orð sem hljóma svipuð á milli mála hafa ekki alltaf samsvarandi merkingu.

Við sem tölum germönsk mál, það er ég og Bandaríkjamaðurinn sem er að læra með mér, erum helst að kljást við að muna hvaða sagnhorf eru viðeigandi hverju sinni. Ég hef skrifað um það áður að ólíkt íslensku eru sagnorð í pólsku með horf, m.ö.o. hefur hver sögn tvær myndir.

Tökum sem dæmi sögnina ‘pisać’ sem merkir að skrifa. Ólokið horf hennar er ‘pisać’ en lokið horf ‘napisać’. Ólokið horf er hægt að nota í þátíð, nútíð og framtíð en lokið horf í þátíð og framtíð eingöngu. Einnig er merkingarmunur á milli þeirra.

Ja piszę list.       = Ég skrifa bréf.
Ja pisałem list.     = Ég skrifaði bréf (en kláraði ekki að skrifa það).
Ja będę pisał list.  = Ég mun skrifa bréf (óvíst hvort ég klári það).

Ja napisałem list.   = Ég skrifaði bréf (og kláraði að skrifa það).
Ja napiszę list.     = Ég mun skrifa bréf (og 100% klára það).

Fyrir kúrs sem heitir Fjölmenning Póllands og fjöltyngi flutti ég fyrirlestur um þjóðarbrot innan Póllands sem mig langar til að deila með lesendum þessa bloggs. Reyndar þarf ég að taka ykkur út fyrir landsteina Póllands sem við þekkjum í dag en landamæri Póllands hafa verið síbreytileg í gegnum aldirnar. Vð förum líka fram og aftur í tíma en við skulum byrja á ljóði:

Móðurjarðir á ég þrjár,
ein hefur mig fóstrað í mörg ár,
reynir og víðir vaxa í hennar mold,
ber hún nafnið Pólska fold.

Önnur mér heiminn og sólina fyrst sýndi,
átti þar ég móður og blóm á engi tíndi,
mátti þar finna beyki, eik og furu,
í landinu fallega Búkóvínu.

Um þriðju hef ég heyrt fögur,
kynslóðanna ævintýri og sögur,
í fjarska hana má heyra kalla,
liggur Armeníugrund til fjalla.

Ljóðið er eftir Önnu Danilewicz og er þýðingin mín. Anna þessi fæddist árið 1921 í því sem að þá var kallað rúmenska Búkóvína. Búkóvína er sögulegt hérað sem er lítið þekkt af Íslendingum og er rétt að kynna betur áður en áfram er haldið.

Búkóvína er hérað sem í dag liggur við rætur Karpatafjallanna á milli Úkraínu og Rúmeníu. Héraðið hefur tilheyrt hinu sögulega Rús, hirðingjaþjóðinni sem nefnd er Petsjenagar, furstadæminu Moldavíu sem kallað var Súkeava og konungsdæmi Ungverjalands.

Á milli 1775 og 1918, eftir síðustu skiptingu Póllands sem varð til þess að Pólland hvarf af landakortum Evrópu, laut Búkóvína stjórn Habsborgaranna. Héraðið er stundum kallað ‘Sviss austursins’ vegna þess hve fjalllent það er og byggt ólíkum þjóðum.

Forskeytið ‘búk-‘ í nafni svæðisins merkir beyki í slavneskum málum. Íslenska mætti því Búkóvínu sem Beykimörk.

Á meðan að héraðinu var stjórnað af Habsborgurum jókst fjöldi Úkraínubúa í norðurhluta þess á meðan að Rúmenar voru í meirihluta fyrir sunnan. Héraðið hafði og hefur mikla merkingu fyrir Rúmenum og ásældust þeir mjög héraðið frá því að Konungsdæmi Rúmeníu var stofnað 1881.

Í héraðinu bjuggu einnig Rúþenar og Hútsúlar, hulduþjóðir án sjálfstæðs ríkis. Rúþenar voru slavnesk smáþjóð og var heitið ‘Rúþenar’ lengi vel notað yfir allar austurslavneskar þjóðir. Í dag teljast til þeirra Úkraína, Rússland og Belarús (Hvíta-Rússland). Eftir síðustu skiptingu Póllands var heitið ‘Rúþenar’ notað yfir þá íbúa Austurríska keisaradæmisins sem töluðu úkraínsku og rúsýnsku (ekki rússnesku). Eftir því sem árin liðu og sjálfsmynd þjóðar fór að verða til fóru fleiri og fleiri Rúþenar að kalla sig Úkraínubúa. Þjóðarheiti Rúþena og heiti máls þeirra, rúþenska, duttu úr tísku og fór menntastéttin að tala eingöngu um Úkraínubúa og úkraínsku. Þeir Rúþenar sem eftir voru töluðu um sig sem Rúsýna og mál sitt rúsýnsku. Rúþenar og rúþenska heyrðu sögunni til.

Eftir að Keisaradæmið Austurríki-Ungverjaland var leyst upp 1918 urðu til ný lönd á meðan að önnur leystust upp og var landamærum oft breytt. Nokkrum árum seinna mátti finna úkraínsku-og rúsýnskumælandi héruð í Tékkóslóvakíu, Póllandi og Rúmeníu.

Á millistríðsárunum var heitið Rúsýni notað yfir fólk sem bjó á landamærasvæðunum í Austur-Póllandi. Þessi svæði nefnast Kresy Wschodnie á pólsku og hafa mikil átthagafræði orðið til þeim tengdum. Heitið Rúsýni var notað yfir þá sem voru Rúsýnar, Úkraínubúar, Lemkar (önnur smáþjóð) eða tilheyrðu austurkaþólsku kirkjunni eða grísk-kaþólsku kirkjunni. Í Galisíu, svæði sem samanstendur í dag af Austur-Póllandi og Vestur-Úkraínu, var öllum tilvísunum um Úkraínubúa skipt út fyrir Rúsýna, eflaust með það í huga að stemma stigu við aukinni þjóðerniskennd Úkraínubúa. Manntal Póllands frá 1921 taldi alla Úkraínubúa sem Rúsýna á meðan að Belarúsar (Hvítrússar) voru taldir sem sérþjóðarbrot, enda var þá Belarús sjálfstætt land en sjálfstæð Úkraína var ennþá ekki nema draumur. Í manntalinu frá 1931 eru hinsvegar belarúsíska (hvítrússneska), úkraínska og rúsýnska öll talin vera sértungumál og eru niðurstöður þessa mantals töluvert aðrar því sem gert hafði verið 10 árum áður.

Stefna pólska ríkisins var að greina í sundur hópa sem áður höfðu verið dregnir í sama dilk. Pólska ríkið setti á fót sérstaka skóla í hverju héraði sem bauð upp á menntun á því máli sem íbúar töluðu hverju sinni.

Rúsýnar eru ennþá til í dag, sem og tungumál þeirra rúsýnska. Deilt er um hvort að mál þeirra sé tungumál eða úkraínskt mállýska, en úkraínsk vinkona mín segir að á meðan hún geti klórað sig fram úr ritaðri rúsýnsku sé erfiðara að skilja hana þegar hún er töluð. Hún er eins og millimál milli úkraínsku og pólsku. Flestir þeirra er austurkaþólikkar (kirkja þeirra tilheyrir páfanum í Róm, en í siðum, athöfnum og venjum lítur hún út eins og rétttrúnaðarkirkjan) á meðan að lítill hluti þeirra tilheyrir rétttrúnaðarkirkjunni. Rúsýnar eru viðurkenndur minnihluti í Króatíu, Ungverjalandi, Póllandi, Serbíu og Slóvakíu. Rúsýnar skiptast síðan í minni hópa eins og Dólína (sem þýða mætti sem Dalamenn, alltaf mikilvægt að koma því að) Bojka, Hútsúla og Lemka. Saman telja þessir hópar um 1.7 milljón manns.

En aftur að Búkóvínu. Þjóðerniskennd Úkraínubúa vaknaði af dvala upp úr 1840 og jóx þjóðernishreyfingu þeirra fiskur um hrygg 1869 þegar Ruska Besida félagið var stofnað í Tsérnívtsí. Ruska Besida voru félagasamtök sem höfðu það markmið að kynnda undir þjóðerniskennd og þjóðareinkenni Úkraínubúa. Stóðu samtökin á bakvið fyrsta úkraínska dagblaðinu sem gefið var út í Búkóvínu. Einnig komu samtökin á fót lesstofum í þorpum í héraðinu þar sem íbúar höfðu aðgang að lesefni á úkraínsku. Einnig voru samtökin aðaldrifkraftur þess að koma á laggirnar deild í úkraínsku máli og úkraínskum bókmenntum við þá nýstofnaða háskólann í Tsérnívtsí. Nokkrum árum síðar komu þeir líka að stofnun stöðu úkraínskumælandi kennara við guðfræðideild háskólans.

Háskólinn í Tsérnívtsí.

Undir stjórn Austurríkis var Búkóvína rík af ólíkum þjóðarbrotum. Úkraínubúar og Rúmenar voru í meirihluta en þar bjuggu einnig Székelysar (ungverskumælandi örþjóð), Slóvakar, Pólverjar, Þjóðverjar, Gyðingar, Slóvenar, Ítalir, Serbar, Tyrkir og Armenar.

Anna Danilewicz, sem orti ljóðið hér að ofan, og fjölskylda hennar voru Armenar frá Búkóvínu, en margir bæir þar voru með elstu samfélögum Armena í Evrópu. Anna var dæmi um það hversu erfitt er að svara spurningunni „hverra manna ertu“. Fyrir henni var ekki það ekki lagt að jöfnu að tala armensku og að vera Armeni, en heima hjá henni var töluð pólska sem var skotin tökuorðum úr þeim málum sem nágrannar þeirra töluðu. Að telja sig Armena var fyrst og fremst spurning um að tilheyra Armensku Postulakirkjunni.

Samkvæmt heimildum í lok 16. aldar kom upp deila á milli kaupmanna úr röðum kaþólikka annars vegar og Armena annars vegar í borginni Lwów. Pólverjar og Þjóðverjar vildu minna Armena á að þeir höfðu komið í boði á tímum Kasímírs mikla á fyrri hluta 14. aldar sem „flakkandi fátæklingar“. Armenar mótmæltu þessu og drógu fram skjal sem skrifað var á rúþensku, að þeir sögðu frá árinu 1062. Í skjalinu kom fram að rúþenskur prins, Teodor Dymitrowicz, bauð Armenum til sín og veitti þeim (verslunar)frelsi til þriggja ára. Réttindi þessi voru veitt Armenum á tímum sem enginn man eftir, af manni sem lítið var til af heimildum um og ekki víst hvort að Lwów hafi verið hluti af umdæmi téðs prins.

Þó svo að ákvæði skjalsins um réttindi Armena væru sönn, var ártalið uppspuni. Tilgangurinn helgaði hinsvegar meðalið og var hinn eiginlegi tilgangur skjalsins að upphefja Armena umfram aðra borgarbúa. Í ljósi hins falsaða (við vitum í dag að dagsetningin er fölsuð) skjals þótti það vera sannað að Armenar havið komið til Lwów á undan Pólverjum og Þjóðverjum. Frá seinni helmingi 17. aldar var skjal talið vera sönnun um 11. aldar uppruna Armena innan Pólska Konungsdæmisins. Fleiri álíka mýtur um dvöl Armena innan konungsdæmisins hafa komið fram en ekki var þörf á að framvísa slíkum skjölum „til sönnunnar“ á meðal hvers samfélags Armena.

Til slíkra goðsagna teljast líka sögur um að forverar Armena innan konungsdæmisins hafi verið hermenn og krossfarar úr röðum aðalsmanna Armena í gamla heimalandinu. Það er jú rómantískara að hugsa til þess að þeir sem komi á undan manni hafi verið göfugmenni en ekki bændur eða kaupmenn.

Hinsvegar er enginn vafi á því að margir úr röðum Armenna hafi verið aðlaðir af pólskum konungum og síðarmeir austurrískum keisurum eftir skiptingu Póllands.

Armenska þjóðin er sú fyrsta sem tók kristni upp sem ríkistrú. Frá fornu fari hafa þeir búið í austanverði Litlu-Asíu við rætur Kákasusfjallanna. Armenska ríkið var leyst upp af bæði Rómarveldi og síðar Persaveldi á 4. og 5. öld eftir Krist, en náði að rísa upp úr öskustónni fjórum öldum síðar. Á 10. öld voru meira að segja til nokkur armensk konungsdæmi.

Armenía er staðsett á krossgötum menningar ólíkra heimsvelda og sérlega vel staðsett á verslunarleið sem liggur á milli austurs og vesturs. Staðsetningin var þó til þess að fáar þjóðir á þessum tíma máttu þola jafnmargar innrásir, þjóðarmorð og að vera rifnar upp með rótum frá heimahögum og Armenar.

Á 7. öld réði Austurrómverska keisaradæmið (Býsansríkið) marga úr röðum Armena til að manna hervirki í Trakíu (sem við köllum í dag Búlgaríu). Yfirmenn í Miklagarði (í dag Istanbúl) voru hinsvegar með varan á sér, þar sem að þeir vissu ekki hvar pólitísk hollusta þeirra lá, auk þess sem að kirkja þeirra var önnur en sú sem var ríkistrú í Býsans.

Eftir innrás Seljúka (forfeður Tyrkja) þurftu margir Armenar, bæði konungar, aðalsmenn og bændur að færa sig um set, alla leið til Kappadókíu (svæði í Suðaustur-Tyrklandi) og sumir alla leið til Silisíu (á árunum 1198 til 1375 var þar til konungsríki sem hét Armenska Konungsdæmið) í Suður-Anatólíu (Anatólía er sá hluti Tyrklands sem landfræðilega telst til Asíu).

Það heyrðist til undantekninga að aðalsfólk og bændur hafi þurft að færa sig um set eftir innrásir (báðar stéttir voru nytsamar þeim sem tóku landsvæðin yfir). Helst var það millistéttin sem samanstóð af kaupmönnum sem urðu fyrir hvað mestu raski á búsetu.

Á 13. öld þegar að Mongólska Keisaraveldið fór að liðast í sundur eru heimildir um samfélög Armena á landsvæðum nærri Póllandi sem voru undir yfirráðum Tatara. Samfélög þessi voru á Krímeaskaganum, við mynni fljótanna sem við köllum Dóná, Dnejstr og Seret. Fyrstu Armenar sem rötuðu til Pólska Konungsdæmisins komu því ekki beint frá Armeníu, heldur frá þeim svæðum sem tilheyrt höfðu Býsans og Silisíu, og frá Miðausturlöndum nær og Egyptalandi. Með tíð og tíma komu líka Armenar frá Vestur-Armeníu til Póllands eftir að landið hafði verið hernumið af Persaveldi.

Á stjórnartíð Kasímírs mikla sölsaði Pólska Konungsdæmið undir sig landsvæði Galisíu og Vestur-Volhyníu og færðust landamæri konungsveldisins töluvert í austurátt. Í gegnum þessi landsvæði lágu fjölmargar verslunarleiðir á milli austurs og vesturs en voru þeir illa nýttar og ásigkomulag þeirra lélegt.

Konungur Póllands hóf uppbyggingu á fjölmörgum þorpum og bæjum, sem hann veitti síðan hin svokölluðu Magdeborgarréttindi, sem laðaði að kaþólskt fólk úr öðrum héruðum konungsdæmisins, frá Slesíu og þýskumælandi löndum. Í ófölsuðu skjali frá 1356 má sjá á meðal þeirra sem konungur bauð velkomna til svæðisins gyðinga, Sarasena (þ.e.a.s. Tatarar sem voru múslimar, á þeim tíma voru sumir Tatarar ennþá heiðnir), Tatara (þ.e. þá heiðnu), Rúþena – og Armena.

Á stjórnartíð Władysławs Jagiełło konungs þess ríkis sem þá var orðið að Tvíþjóðaveldi Póllands og Litháens voru borgirnar Kænugarður og Kamjanets Podilskí innlimaðar. Þessar borgir og armenskir íbúar þeirra gegndu veigamiklu hlutverki fyrir verslun milli landa. Í dag vitum við að þó svo að fólksflutningur Armena til þessara svæða hafi átt sér stað yfir nokkrar aldir voru nokkur tímabil þar sem sjá mátti töluverða aukningu.

Í Póllandi bauðst Armenum ekki bara betri lífskjör heldur einnig töluverð sjálfsstjórn sem og aðstæður til að rækta menningu sína. Þetta síðastnefnda var sérlega mikilvægt á þeim tímum sem að Armenar máttu sæta trúarofsóknum í löndum þar sem trú ráðamanna var íslam eða rétttrúnaðarkristni. Í engu öðru landi sem Armenar bjuggu í nutu þeir jafnmikils öryggis sem var tryggt af ríkisvaldinu og í Póllandi.

Til að byrja með komu þeir sér fyrir í konungsbæjum og borgum, þ.e. sem byggðir höfðu verið fyrir tilstilli konungs. Þar ráku þeir öfluga verslun meðfram aldagömlum verslunarleiðum. Frá 16. öld sjáum við að hvati Armena til að setjast að í Póllandi kom fyrst og fremst frá jöfrum, ríkustu aðalsmennum Póllands. Jöfrar buðu Armenum að setjast að í borgum sínum og bæjum til þess að koma hreyfingu á viðskipti sem og til að manna þau héruð þar sem mikil mannfækkun hafði átt sér stað. Á sumum stöðum þar sem Armenar settust að mynduðu þeir svokallaða gmínu, en svo hét sjálfsstjórnareining smærri þjóða innan Póllands. Strax á 14. öld sjáum við gmínur í borgum eins og Lwów og Kænugarði og átti þeim bara eftir að fjölga eftir því sem að Armenar dreifðu úr sér. Sumstaðar hurfu þær ef að staðurinn hafði misst viðskiptalegt mikilvægi sitt og fluttust Armenar þaðan til annarra borga. Til þess að fá Armena til að setjast að og stunda verslun þurftu ráðamenn ávalt að gefa þeim töluverðar ívilnanir, sem og loforð um mikla sjálfsstjórn. Ef landsvæði sem tilheyrðu Póllandi voru hernumin af öðrum löndum fluttust Armenar lengra inn í Pólland, til að halda réttindum sínum.

Armenar mynduðu samfélög í borgum eins og Varsjá og Kraká, meira að segja Vilníusi sem þá tilheyrði Póllandi. Í þessum borgum voru Armenar hinsvegar aldrei nægilega margir til þess að fá að mynda gmínu. Á 16. öld er talið að heildarfjöldi Armena hafi verið á bilinu 3.000 til 6.000 manns.

Eftir fyrstu skiptingu Póllands árið 1772, dreifðu þeir Armenar úr sér sem bjuggu á yfirráðarsvæði Austurríska keisaradæmisins til Búkóvínu og Galisíu og blómstruðu. Hægt er að rekja búsetu Armena með því að lesa úr skjölum hvar þeir reistu sér kirkju.

Þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk fóru sérstök samfélög Armena að renna sitt skeið. Margir voru búsettir á svæðum sem tilheyrðu Ráðsstjórnarríkinu Úkraínu. Þeir pólsku Armenar sem lifðu af stríðið og þjóðarmorð af hendi úkraínskra nasista ákváðu að flytja til Póllands sem þá var komin með landamæri töluvert ólíkum þeim sem það hafði haft fyrir stríð. Stjórn kommúnista var mikið í mun að manna svæði sem áður höfðu að miklu leyti verið búsetin Þjóðverjum og varð það til þess að aldargömul samfélög Armena tvístruðust. Stærsti hluti þeirra flutti til borga eins og Wrocław, Krakár, Varsjár og Gdańsk. Upp úr 1990 eftir hrun Sovétríkjanna, vegna fátæktar, jarðskjálfta og stríðsins við Aserbaísjan um yfirráð yfir Nagorno-Karabakh flutti töluverður fjöldi Armena frá Armeníu til Póllands. Af þeim rúmlega 50.000 Armenum sem búa í Póllandi í dag eru ekki nema 8.000 sem eru afkomendur þeirra sem fluttu til Póllands á miðöldum.

Staða Armena í iðnaði og sérstaklega í viðskiptalífinu var tryggð með réttindum sem þeir hefðu fengið frá valdhöfum á 14. öld. Stærsti hluti velmegunnar Armena var frá viðskiptum við Austurlönd, í gegnum viðskiptaleiðir sem tengdu saman Moldavíu, Vallakíu, veldi Ottómana og Persa, Indland, Moskvu og pólskar stórborgir þess tíma. Tungumálahæfni Armena sem og tengslanet þeirra í gegnum vensl og ættir auðveldaði þeim að liðka fyrir í viðskiptum þegar á þurfti að halda. Í ljósi þess varnings sem Armenar fluttu inn í miklu magni hefur því verið haldið fram að Armenar hafi meira en nokkur önnur þjóð ollið því sem kallað er „austurlenskun“ (pól. orientalizacja) pólskrar menningar á seinni miðöldum.

Vöruúrval Armena var töluvert: hrávörur fyrir textíliðnað (silki, bómull, þræðir), textíll (silkiefni, bómullarklútar, gluggatjöld, belti, handklæði og borðdúkar, kamcha, altembas, mottur, teppi, tjöld, leður), efni til skartgripagerðar (perlur, demantar) vín, þurrkaðir ávextir, suðrænir ávextir, krydd (pipar, engifer, kanil, múskat, safforn, negul, blóðberg, kúmín, sverðblöðkur (líka þekkt sem kalmusrót)), vopn (sverð, skildi, reiðtygi), tóbak og austrænar lækningajurtir. Fram á 18. öld breyttist það sem var á boðstólum Armena lítið sem ekkert. Armenar versluðu líka með hör, vax, hunang, skinn, loðfelda, hesta og uxa.


Hér að ofan má sjá altembas til vinstri og kamcha til hægri. Um er að ræða textíl sem ofinn er að hluta til með gullþræði. Altembas er töluvert grófara.

Það féll í hlut Armena að vera útvega vörur eftir pöntun auk þess sem margir þeirra voru sérstakir birgjar fyrir aðalsfólk, t.d. konung Póllands. Verslun Armena var mjög þróuð fyrir sinn tíma. Lengri og áhættusamari verslunarleiðangrar voru fjármagnaðir með fé frá hópum sem ekki voru Armenar. Armenskir kaupmenn í Póllandi áttu sína eigin ræðismenn erlendis, bæði í öðrum löndum Evrópu og í Austurlöndum. Fjármunir voru oftast geymdir neðst í kössum, helst undir einhverju þungu eins og járni. Armenar fluttu eitthvað út af vörum frá Póllandi til að byrja með en eftir 15. öld lagðist útflutningur í höndum Armena af.

Iðnaður Armena var töluvert smærri í sniðum en ekki síður mikilvægur. Þeir unnu í feldiðnaði, við skósmíði, slátrun, sútun, bakstur sem og fínni iðnað (gullsmíði, járnsmíði, vefnað og málun). Á 18. öld þegar pólskir auðjöfrar tóku yfir iðnað og byggðu textílverksmiðjur réðu þeir Armena til að sjá um allan vefnað. Í þeim verksmiðjum sem Armenar sáu um voru ofin hin svokölluðu kontusz-belti sem voru ómissandi fyrir pólska þjóðbúninginn. Hér að neðan má sjá dæmi um kontusz-beltin.

Þökk kunnáttu sinni í austurlenskum tungumálum spiluðu Armenar lykilhlutverk í utanríkisþjónustu á sínum tíma. Þeir voru túlkar, ritarar, sendiráðsritarar og sendiherrar. Í gegnum slík störf sem og þá þjónustu sem þeir veittu efnafólki í verslunarmálum voru Armenar oft verðlaunaðir með aðalstign. Borgartúlkur Lwów-borgar fyrir tyrknesku var í höndum sömu fjölskyldu Armena í nokkrar kynslóðir. Einnig sá armensk fjölskylda í Kænugarði við öll samskipti við Tatara á Krímeaskaganum.

Samfélög Armena í Pólska Konungsveldinu nutu sjálfstjórnar. Sú sjálfstjórn var einungis lítill hluti af stærra regluverki konungsveldisins alls. Tilgangur með sjálfstórn slíkra samfélaga var bæði lagalegt öryggi og að gera þeim kleift að rækta menningu sína og viðhalda henni. Í fjölþjóðlegum borgum pólsku krúnunnar var sjálfstjórn Armena sett skorður vegna Magdeborgarlaganna, þar sem enginn mátti vera í borgarstjórn sem ekki var kaþólikki. Fyrirmynd Armena að sjálfstjórn var borgin Kamjanets, þar sem Armenar gátu kosið sér eigin borgarstjóra. Staða armensks borgarstjóra í Lwów var lögð niður 1469 að kröfu kaþólsku borgarstjórnarinnar. Sérstakur armenskur dómstóll var þó ennþá til staðar í borginni sem dæmdi í málum Armena sem bjuggu í kringum hana. Armenar búsettir í Lwów og nágrenni hennar höfðu fengið leyfi til að dæma í samfélögum sínum eftir armenskum lögum. Eftir að því sem tíminn leið færðist dómsvaldið yfir í hendur kaþólikka. Í samfélögum Armena trónaði á toppnum öldungaráð. Fyrir neðan þá var ráð ólöglærðra dómara sem í voru allt að 12 manns hverju sinni. Þeir sem sátu í þessum ráðum voru undanþegnir skatti allan þann tíma sem þeir þjónuðu. Oftast voru meðlimir ráðanna úr röðum þeirra ríkustu. Reglan var almennt sú að þeir sem sátu í sjálfstjórnarráði væru þar ævilangt. Engu að síður var formlega kosið í þau á ári hverju. Þeir voldugustu í ráðinu voru borgarstjórar, ritarar, svokallaðir jerespochanar (orð úr armensku) sem ráðstöfuðu eignum kirkjunnar, prestar, umsjónarmenn og skattheimtumenn. Sjálfstjórn Armena var lögð niður á yfirráðarsvæðum Rússneska og Austurríska keisaraveldanna eftir skiptingu Póllands. Dómstóll Armena var mannaður úr röðum öldungaráðsins, auk þess sem að kviðdómur var mannaður ólöglærðum dómurum. Hægt var að áfrýja dómum til yfiröldungaráðsins (sem samanstóð af öldungum úr ýmsum samfélögum Armena), til borgarstjóra í þeim borgum sem voru undir Magdeborgarlögunum, til sóknarkirkju og að lokum til konungs.

Armenskir dómstólar í borgunum Zamość og Kamjanets Podilskí dæmdu í einka-og sakamálum á meðan að armenski dómstóllinn í Lwów dæmdi ekki í kynferðis-, morð-og skaðamálum, né í málum er varðaði fasteignir. Dómstólar þessir höfðu ekki rétt til þess að dæma í málum Armena sem voru gestir, þ.e. ekki búsettir innan konungsveldisins. Í málum þar sem að annar aðilinn var ekki Armeni var dæmt í þeim rétti sem sakborningurinn tilheyrði. Í Kamjanets Podilskí var dæmt í tveim lögsagnarumdæmum í slíkum tilfellum og varð að fara eftir Magdeborgarlögum í þeim tilfellum þegar þau gengu lengra.

Armenar fóru eftir lagabálki sem hafði verið samþykktur af pólska konunginum 1519. Sá lagabálkur hafði verið samdur eftir fyrirmynd eldri lagabálks, Datastanagirk (armenskt heiti) sem hafði verið tekinn saman í Armeníu á 12. öld af munkinum Mekhitar Gosha. Þrátt fyrir að lögin væru ekki trúarleg í eðli sínu voru þau í daglegu tali kölluð Tóran. Í hvert sinn sem að lagabálkurinn var síðan uppfærður var notast við almenn hegningarlög í Póllandi.

Armenar sjálfir litu ekki á það sem svo að það þyrfti sérstök lög til að viðhalda armenskri arfleifð sinni, enda voru mörg smærri samfélög Armena innan konungsveldisins sem voru ekki nægilega stór til að halda úti eigin dómstólum. Í þeim tilfellum hlýddu Armenar Magdeborgarlögunum. Heimildir gefa til kynna að Armenar leituðu oft í skjól annarra dómstóla í sinna eigin án þess að þurfa að gefa upp á bátinn þátttöku í safnarstarfi kirkju sinnar. Reynt var að stemma stigu við þessu á 16. öld, því að þeir Armenar sem ekki notuðu sinn eigin dómstól þurftu ekki að greiða til hans skatt. Allir dómar armenskra dómstóla voru kveðnir upp í nafni konungs.

Fyrir utan veraldlega dómstóla voru einnig til staðar dómstólar armensku kirkjunnar. Kirkjuvald fór alfarið með alla umsjá er varðaði kaupmála fyrir brúðkaup, erfðamál sem og öll önnur mál sem voru á könnu kirkjunnar að einhverju leyti. Í dómstólum kirkjunnar áttu sæti öldungar samfélagsisn, biskup eða aðili tilnefndur af honum og prestar. Hægt var að áfrýja dómum þessa dómstóls til höfuðs Armensku Postulakirkjunnar, til Katolikosans í Ejmiatsín. Dómkirkjan í Ejmiatsín þjónar sem páfastóll Armensku Kirkjunnar og er talin vera elsta kirkja heims þar sem guðsþjónusta hefur farið þar fram síðan hún var byggð árið 301.

Hér má sjá Dómkirkjuna í Ejmiatsín.
Hér má sjá innan úr kirkjunni.

Þjóðflutningar Armena ollu miklum breytingum í menningu þeirra. Stundum töpuðu þeir niður tungu sinni og tóku upp aðra. Flestir forverar Armena sem síðar fluttu til Póllands höfðu dvalið lengi í löndum sem lutu stjórn Tatara og tóku að tala daglega sín á milli á máli þeirra er nefnist kiptsjakíska. Minnihluti Armena sem komu frá löndum lengra að úr austri, Persíu og Tyrklandi eða frá furstadæmunum við Dóná, töluðu asjkharabar, en svo nefndist sú tegund armensku sem þeir kunnu. Þeir notuðu armenska stafrófið til að skrifa bækur sínar, hvort sem var á armensku eða kiptsjakísku. Eftir því sem að þeir urðu fyrir meiri áhrifum þeirra menningarheima sem þeir voru búsettir í, fóru þeir í auknum mæli að tala daglega á milli sín á pólsku og rússnesku.

Hér má sjá armenska stafrófið.

Kirkjur sem Armenar reistu á 16. öld og seinna hlutu ekki lengur reglum hefðbundins arkitektúrs. Í húsakynnum betri borgara sjáum við merki um áhrif vestrænnar menningar. Hollensk málverk, bækur á pólsku og latínu, húsgögn frá Gdańsk (sem þá var þýskumælandi borg) og silfur frá Núremberg. Form skemmtanna og viðburða tók á sig pólska mynd. Armenskar konur fylgdu sömu tísku og yfirstéttarkonur úr röðum Pólverja. Armenskir karlmenn klæddust sömu fötum og pólskir aðalsmenn.

Hér má sjá hefðbundinn klæðnar pólskra aðalsmanna á 16. öld.

Þetta eru dæmi um menningaraðlögun. Armenar voru þess valdandi að koma austurlenskum vörum í tísku en urðu sjálfir fyrir áhrifum vestrænnar menningar. Hver kynslóð breyttist og tileinkaði sér ekki bara siði og tungumál, heldur nýjan hugsunarhátt. Maður nokkur að nafni Martin Gruneweg frá Gdańsk vitnar í samtal armenskrar konu og afa hennar á 16. öld: „elsku afi, þú sem hefur búið í Póllandi lengur en ég hef gengið á Guðs jörðu, heldur ennþá fast í tyrkneska siði og óskar þess að ég gengi um með slæðu fyrir andlitinu, eins og konur æsku þinnar fyrir austan“.

Þrátt fyrir síaukna aðlögum Armena að pólsku samfélagi var það þeim mjög mikilvægt að halda í allt sem þeim fannst vera nokkurs virði úr eigin menningu. Trúin var þar efst. Kristni varð ríkistrú í Armeníu árið 301. Trúarskiptin áttu sér stað fyrir tilstilli Gregoríusar Upplýsta, sem varð síðar fyrsti æðstiprestur Armensku Postulakirkjunnar.

Munkurinn Mesrob Masjtot bjó til armenska stafrófið á 5. öld sem sjá má hér að ofan. Þegar að Armenar voru komnir með eigið ritmál hófust þeir handa við að þýða Biblíuna, heimspeki-og guðfræðirit yfir á armensku. Armenskan frá þeim tíma (sem í dag er kölluð fornarmenska, eða grabar) er ennþá notuð við guðsþjónustu í armenskum kirkjum í dag.

Armenska Kirkjan samþykkti ekki ályktun Kalkenonþingsins sem haldið var af biskupum allra kirkna árið 451. Ályktun sú kvað á um tvennskonar eðli Jesú Krists, að hann væri bæði mannlegur og guðlegur. Þessu höfnuðu margar kirkjur, þ.á.m. sú armenska.

Það er rétt að taka fram að kirkjan í Armeníu fylgir því sem að nefnt er postulleg erfðakenning. sú trúarkenning kveður á um að viðkomandi kirkja sé beinlínis andlegur erfiðngi postulanna. Armenska Postulakirkjan rekur rætur sínar til lærisveinanna Bartólómeusar og Júdasar Taddeusar. Júdas Taddeus á, hefðinni samkvæmt, að hafa komið til Armeníu og vígt þar menn sem biskupa áður en þeir voru teknir af lífi.

Armenska Postulakirkjan þróaði með sér eigin helgisiði og messuform, bannaði að blandað væri saman vatni og víni í kaleiknum og eigið dagatal. Síðan á miðöldum hefur kirkjan verið með tvo páfastóla. Sá fyrri er titlaður Katolikos allra Armena og hefur sitt aðsetur í Ejmiatsín í Armeníu. Sá seinni er Páfastóll Silisíu (sem nefnst var á hér að ofan) með aðsetur í borginni Antelías í Líbanon. Katolikos allra Armena hefur lokaorðið í öllum guðfræðilegum álitaefnum á meðan að Páfastóll Silisíu er sjálfstæður hvað varðar rekstur þeirra sókna sem undir hann falla. Þá hefur kirkjan tvo patríarka, annarsvegar Armenska Patríarkann í Jerúsalem og hinsvegar Armenska Patríarkann í Konstantínópel með aðsetur í Istanbúl. Armenska Postulakirkjan í Póllandi átti seinna meir eftir að sameinast Rómarkirkjunni (og varð frá því kölluð Kaþólsk-Armenska Postulakirkjan) og er hennar æðsti embættismaður á eftir páfanum sjálfur titlaður patríarka-katolikos.

Enginn nema Katolikos allra Armena getur vígt biskupa og veitt smurningu. Þrátt fyrir að sumir prestar innan kirkjunnar hefðu titla eins og æðstibiskup eða erkibiskup, voru öll biskupsdæmi jöfn og sjálfstæð. Í hverju biskupsdæmi voru síðan svokallaðir vartapetar (orð úr armensku), munkar sem voru mjög vel lærðir á lög kirkjunnar og heilaga kenningu sem réðu sér sjálfir og höfðu vald til þess að svipta vígða menn hempunni og reka sóknir sjálfir í ákveðinn tíma.

Biskupsdæmið í Lwów var stofnað á 14. öld og hafði umsjón með öllum Armenum í Póllandi og Litháen, og stundum þeim sem bjuggu í Moldavíu. Fyrsti armenski biskupinn í Póllandi var vígður í borginni Sis í Silisíu árið 1363 og samþykktur af Kasimír mikla. Biskupinn hafði aðsetur sitt í Lwów en ferðaðist hluta af ári á milli sókna. Allir biskupar urðu að fá samþykki pólska konungsins hverju sinni.

Fyrir Armenum þýddi rétttrúnaður að þeir voru sameinaðir af sínum katolikosa og hefðu eigin helgihald og siði. Á sínum tíma varð þetta til þess að stöðugt samband var á milli kirkna Armena í Póllandi og höfuðstöðva kirkjunnar í austri. Pólskir Armenar viðurkenndi alvald katolikosans í Ejmiatsín frá miðri 15. öld. Hver einasti prestur kirkjunnar sem var valinn í embætti biskups þurfti að ferðast til Ejmiatsín og fá blessun katolikosans þar. Bæði katolikosar og patríarkar kirkjunnar gerðu sér oft ferð til Póllands sem fulltrúar annarra biskupsdæma (og báru þá titilinn nevígara, orð úr armensku) til að safna fjárframlögum og ölmusu. Samfélag Armena hélt úti mörgum kirkulegum stofnunum, eins og kirkjum, dómstólum, skólum, klaustrum og góðgerðarfélögum. Eitt sérstakasta einkenni Armensku Postulakirkjunnar á þessum tíma var að hún reiddi sig á leikmenn til að reka margar stofnanir sér tengdar. Veraldlegar stofnanir (skólar og munaðarleysingahæli) höfðu forgang á fjármuni kirkjunnar umfram helgistofnanir (eins og kirkjur og klaustur).

Ólíkt kaþólskum og rétttrúnaðarkirkjum var trúarlegt samfélag Armena rekið fyrst og fremst með framlögum sóknarbarna. Margir arfleiddu kirkjuna að öllu sínu fé eftir sinn hinsta dag. Klaustur voru einnig mikilvæg innan samfélagsins. Fyrir utan að sinna guðþjónustu og rækta það land sem að klaustrin áttu, ráku þau skóla og sjúkrahús. Mikið var um handritagerð í bókasöfnum klaustranna og var fyrir henni svo löng hefð, að gefa varð upp á bátinn að reka prentsmiðju fyrir klaustrin, því allir kusu frekar hin hefðbundnu handrit.

Klaustrin gerðu Armenum kleift að viðhalda menningu sinni með því að bjóða upp á armenska menntun, bókmenntir og tónlist. Klerkastéttinn stóð vörð um minni og einkenni Armenna. Armenar höfðu það fyrir sið að giftast eingöngu öðrum Armenum til þess að þurfa ekki að giftast út fyrir trú sína. Sóknarbörn í Lwów báðu um leyfi 1572 til að gifta náskylda til þess að komast hjá því að giftast kaþólikkum eða rétttrúnaðarfólki.

Upp úr 14. öld fór að bera á því að komið var á fót kaþólskum biskups-og erkibiskupsdæmum meðal Armena, sem var afleiðing trúboða fransískus-og dóminíkusarmunknareglnanna. Þrátt fyrir að hafa gengist páfanum á hönd héldu þessir armensku kaþólikkar í helgisiði úr sinni gömlu kirkju til að byrja með. Þeir Armenar sem bjuggu í samfélögum fyrir utan Pólska Konungsveldið, eins og í Kænugarði og á Krímeaskaganum sóttu guðþjónustu í kaþólskar kirkjur. Upp úr 1350 var komið á fót kaþólsku biskupsdæmi fyrir kaþólska Armena í Lwów. Kaþólsk gerð Armena þessara olli titringi í samfélagi Armena allra. Kirkjur og sóknir þjónuðu ýmist kaþólskum Armenum eða Armenum sem viðurkenndi alvald katolikosans í Ejmiatsín. Árið 1369 flutti armenskur biskup kaþólikka frá Kænugarði til Lwów. Biskup þessi, Jakob, er talinn hafa verið sá öflugasti á sínum tíma í að fá Armena til að taka upp kaþólska trú. Klofningur þessi og trúskipti varð til þess að þjóðerni önnur en það armenska fór að hafa áhrif í samfélagi kaþólskra Armena. Eftir að Jakob dó tók við söfnuði kaþólskra Armena þýskur biskup. Eftir að biskupar sem fóru að þjóna Armenum sem ekki voru Armenar sjálfir, hættu þeir að nota sína sérarmensku helgisiði. Sungin var messa á latínu í stað fornarmensku. Smám saman hættu þessir Armenar að aðgreina sig frá öðrum íbúum borgarinnar. Eftir því sem að árin liðu rofnuðu tengsl þessara Armena við eigið samfélag og voru þeir farnir að velja sér maka úr röðum annarra kaþólikka.

Á 16. öld myndaðist hópur innan Armensku Postulakirkjunnar í Póllandi sem sóttist eftir því að sameinast Róm en halda í armenska helgisiði. Árið 1627 vígði katolikosinn Melchizedek ungan mann, Mikael Torosowicz, til biskups þvert á vilja armenska samfélagsins í Lwów. Til að ögra andstæðingum sínum tók hann þá róttæku ákvörðun að taka kaþólska trú. Hann fór 1630 til Rómar og fékk blessun páfans, sem staðfesti stöðu hans sem erkibiskup Armena í kaþólska biskupsdæminu í Lwów. Öldungar samfélagsins sviptu hann lífsviðurværi, því kirkjan venjulega fjármögnuð með framlagi sóknarbarna, en ekki kirkjueignum. Hann tók yfir allar kirkjur Armena í Lwów og notaði það sem til var í þeim (kirkjumuni úr gulli sem dæmi) til að fjármagna (óhóflegt að sagt er í heimildum) líferni sitt. Þetta gerði sóknarbörn hann, skiljanlega, brjáluð og neituðu þau að sækja guðþjónustu í Dómkirkju Armena í Lwów (þar sem hann, sem erkibiskup, varð að messa).

Úr Dómkirkju Armena í Lwów.

Ekki fyrr en 1653 náði Mikael Torosowicz sáttum við katolikosinn og náði þannig samkomulagi við sóknarbörn sín. Hin Kaþólsk-Armenska Postulakirkja varð til, armensk í formi og að innihaldi en sett undir páfann í Róm. 1665 er komið á fót kaþólskum prestaskóla fyrir Armena eingöngu í Lwów. Sameiningin varð til þess að gjáin sem hafði verið á milli Armena og Pólverja í trúarmálum (Armenar voru núna á pappír kaþólskir) varð það ekki til þess að pólskuvæða samfélög Armena. Armenskir helgisiðir voru og eru töluvert ólíkir þeim kaþólsku. Armenar gátu núna án vandkvæða gifst öðrum kaþólikkum en það er erfitt að breyta gömlum hefðum og kusu þeir að giftast öðrum Armenum eftir því sem það var hægt. Stundum voru samfélög nógu stór en þar sem að samfélög voru lítil, giftust Armenar pólskum kaþólikkum. Eftir sameininguna voru armenskar sóknir fjármagnaðar af pólskum auðmönnum.

Eftir skiptingu Póllands varð staða kirkjunnar flóknari. Sérstakur biskupsstóll var stofnaður í þeim hluta Póllands sem féll í hendur Rússa. Armenskir erkibiskupar með aðsetur í Lwów, sem þá var orðin að borginni Lemberg í Austurríska Keisaraveldinu, misstu vald sitt yfir trúarsystkinum sínum í rússneska hlutanum. Eftir skiptinguna varð höfuð Kaþólsk-Armensku Kirkjunnar erkibiskupinn sem heyrði eingöngu undir páfann í Róm. Sérstakir prestaskólar ætlaðir Armenum var lokað og gátu þeir eingöngu gengið í skóla þar sem kennt var á latínu. Austurrískum yfirvöldum tókst næstum því að leysa upp Kaþólsk-Armensku Kirkjuna upp úr 1840, eftir að hafa skrúfað fyrir allt fjármagn til sóknarkirkna hennar í áratugi og leggja til að erkibiskup hennar yrði valinn úr hópi Pólverja en svo varð ekki. Blessunarlega voru þeir prestar sem komu úr armenskum fjölskyldum nægilega margir til að þjónusta armenskar sóknir. Stöðugildi armenskra presta voru skorin niður og varð til þess að margir armenskir prestar fóru að veita guðþjónustu bæði á armensku og latínu.

Annað högg fyrir samfélag pólskra Armena var sú ákvörðun austurrískra yfirvalda að loka öllum pólsk-armenskum skólum sem höfðu verið reknir af sóknum. Komið var á fót skólum þar sem kenna mátti á ríkisviðurkenndum tungumálum, pólsku, úkraínsku eða þýsku. Armenska var ekki lengur kennd í skólum. Helsta, og næstum eina, vígi armenskrar menningar var sérstakt armenskt klaustur sem rekið var í Vín. Hin sérstaka þjóðerniskennd pólskra Armena hnignaði hratt og tileinkuðu pólskir Armenar sér sama hugsunarhátt og Anna Danilewicz, voru Pólverjar með armenskar rætur.

Þegar ég byrjaði að læra rússnesku fyrir meira en áratug síðan man ég eftir að hafa lesið armenskt ljóð í rússneskri þýðingu. Ljóðið var eftir Baruyr Sevag (1924-1971) sem talinn er vera eitt af höfuðskáldum Armeníu í dag. Ekki man ég ljóðið í heild sinni en upphafslínuna gleymi ég aldrei:

„Við erum ekki mörg sem kölluð eru Armenar…“.

Nú hef ég í stuttu máli vonandi náð að kynna sögu Armena, innan Póllands og utan þess. Ég vona að þið séuð fróðari fyrir vikið.

Takk fyrir lesturinn.



2 svör við “Póllandspistill 15.”

  1. Guðrún Finnbogadóttir Avatar
    Guðrún Finnbogadóttir

    Sæll Eggert minn. Þetta er ekkert smáblogg hjá þér og mjög fróðlegt. Ekki hafði ég hugmynd um að Armenar hefðu búið svona lengi í Póllandi. Ég kom til Armeníu þegar ég var að læra í Moskvu og var heilluð af landi og þjóð, einkum þjóðinni. Svo kynntist ég nokkrum þeirra í Frakklandi, flestir þeirra komu þangað (eða forfeður) eftir fjöldamorðin í Tyrklandi sem er eitt af þeim málum í heiminum sem ekki hafa verið gerð upp. Við sjáum afleiðingar þess víðsvegar.
    Óska þér góðs gengis í prófum og öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur.
    Kær kveðja. Guðrún

    Líkað af 1 einstaklingur

  2. Sigurður R. Guðjónsson Avatar
    Sigurður R. Guðjónsson

    Takk fyrir, Eggert! Flott og ítarleg grein. Nú veit maður heilmikið um Armena 🙂

    Líkað af 1 einstaklingur

Færðu inn athugasemd