Póllandspistill 17.


„Drottinn skapaði Himininn og eftir það mældi Hann með þræði víðáttuna þar fyrir og hóf Hann að skapa Jörðina. Moldvarpa nokkur bauð Drottni hjálp og bað Drottinn hana að halda á dokkunni á meðan Hann óf munstur Jarðarinnar. Með höppum og glöppum losaði moldvarpan um of og Jörðin varð of stór fyrir víðáttuna sem var undir Himninum. Moldvarpan skammaðist sín svo mjög að hún faldi sig undir Jörðinni. Drottinn sendi býflugu á eftir henni því Hann vildi spyrja hana ráða hvernig laga mætti Jörðina. Býflugan hafði upp á moldvörpunni sem skellti upp úr þegar hún heyrði að Drottinn leitaði eftir hjálp hennar. Býflugan ákvað hinsvegar að fela sig í blómakrónu og heyrði moldvörpuna tauta við sjálfa sig hvað hún gerði í sporum Drottins. „Ég myndi kreista Jörðina,“ sagði hún. „Þannig yrðu til fjöll og dalir á sama tíma og jörðin yrði minni.“ Býflugan fór til Drottins, sagði Honum það sem hún hafði heyrt moldvörpuna segja. Drottinn gjörði líkt og moldvarpan hafði sagt og eftir það komst allt fyrir undir Himninum.“

Ég var í annarfríi í febrúar (skólaárið í Póllandi er töluvert öðruvísi en á Íslandi) og fór til Búkarestar í Rúmeníu, en þjóðsagan hér að ofan er ættuð þaðan. Búkarest er mjög sérstök borg, sem á sér langa og flókna sögu. Rúmenía sjálf á sér ennþá lengri og miklu flóknari sögu. Ég veit ekki hversu miklu ég næ að gera skil í þessum pistli án þess að gera hann á við bók í lengd, en við sjáum til. Mér fannst mjög gaman að lesa bækurnar hans Árna Óla í seríunni Grúsk. Þar skrifar hann um það sem honum fannst áhugavert og til hvers er bloggið, ef ekki til þess að skrifa um það sem mér finnst áhugavert? Ég vona að lesendum finnist það sem eftir fer hér að neðan einnig áhugavert. Í það minnsta réttlætir lesturinn nýuppáhelt kaffi og sígó (ef einhver hefur ennþá í hávegum þann menningarlega sið).

Fólk sem kemur til Búkarestar í fyrsta sinn kemur fljótlega auga á það að borgin er eins og mósaíkverk. En í stað þess að verkið sé gert úr mislitum flísum þá er það búið til úr mismunandi efnivið. Efniviðurinn er sovéskur brútalismi við hliðina á glermusterum kapítalismans, kaþólskar kirkjur í bland við rúmenskar rétttrúnaðarkirkjur, neóklassísk steinsteypusöfn og smáhallir frá 19. öld. Á öldinni sem leið voru nokkrir atburðir sem mótuðu Búkarest í það form sem borgin hefur í dag.

Jarðskjálftinn í Vrancea (fjallgarður í Rúmeníu mjög svo nálægt Búkarest) sem mældist 7.7 á Richter (reyndar á hinum svokallaða vægistærðarkvarða, sem hentar betur til að mæla stóra skjálfta en það heiti er þjálla en Richter, sem er ennþá notað af fjölmiðlum).
Í Morgunblaðinu þann 12. nóvember 1940 mátti lesa:

Í Alþýðublaðinu 11. nóvember var skrifað:


Fann fólk fyrir áhrifum skjálftans svo norðanlega sem og í Leníngrad (nú St. Pétursborg) og jafn vestarlega og í Belgrad, Búdapest og Varsjá. 267 manns týndu lífinu þegar að 14-hæða skýjagljúfur, Carlton-blokkin, hrundi. Alls dóu 593 í kjölfar skjálftans.

Annar jarðskjálfti átti sér síðan stað í Vrancea 4. mars 1977.
Í Dagblaðinu 7. mars var sagt:

Í Morgunblaðinu 5. mars sagði svo líka:


Núna þegar búið er að ræða náttúruhamfarir er síðan rétt að ræða hugtak sem íslenska mætti sem borgarskipulagsmikilmennskubrjálæði (langt en lýsandi) sem Nicolae Ceausescu, einræðisherra Rúmeníu, var illa haldinn af. Þegar hann komst til valda árið 1965 hafði borgin vissulega verið hæfilega mótuð af lenínísku-stalínísku þéttbýlisskipulagi (ein birtingarmynd marxismans). Það sem eftir lifir af Búkarest Ceausescu er einstakt dæmi sem sýnir hvernig marxísk skipulagsfræði (hugmyndafræði marxismans hvað borgarskipulag varðar er efni í pistlaröð, ef ekki bók) fór um þúfur í höndum brjálæðings.

Elstu heimildir um borgina ná aftur til 15. aldar og var hún gerð að höfuðborg Rúmeníu árið 1862 með íbúafjölda upp á 120.000 manns. Undir lok 19. aldar var borgin höfuðborg konungsríkis með tvær lestarstöðvar, sporvagnakerfi sem gekk fyrir rafmagni, dreifikerfi fyrir rafmagn, símalagnir, holræsakerfi og elsta götuljósakerfi Evrópu sem sett var upp 1857. Árið 1914 hafði heildarskipulag fyrir frekari stækkun, íbúðarhúsnæðisuppbyggingu og iðnaðarsvæði, fjölgað íbúum í 350.000. Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk var oft talað um Búkarest sem „París Austursins“ (þeim titli hefur hún reyndar deilt með 15 öðrum borgum í gegnum tíðina).

Eftir seinni heimsstyrjöld var stjórn kommúnista komið fyrir og hafði hún það verkefni fyrir höndum að hanna borgarskipulag eftir hugmyndafræði marxísk-lenínismans, hugmyndafræði sem mótuð var í Moskvu. Brýnustu verkefnin voru að lagfæra það sem hafði verið eyðilagt í stríðinu, um 13% af öllum byggingum borgarinnar auk þess sem það átti að stækka iðnaðarsvæðin og fjölga þeim. Þá þurfti einnig að endurskilgreina notkun vissra bygginga, t.d. var konungshöllin notuð til að hýsa ríkisráðið (þ.e. verðandi ríkisstjórn) og ýmis svið borgarinnar. Glæsihallir aristókrata og auðmanna voru teknar yfir af ríkinu og notaðar ýmist sem ráðuneyti eða afhentar erlendum ríkjum til að hýsa sendiráð.

Hugmyndafræði marxismans hafði það að leiðarljósi að taka húsnæði úr notkun útvalinna og nýta það undir starfsemi fyrir hina vinnandi stéttar. Götur og hverfi voru nefnd upp á nýtt í höfðuð á byltingarhetjum og atburðum sem markað höfðu þáttaskil í baráttu kommúnista.

Þá þurfti kommúnistastjórnin einnig að fara í gífurlega uppbyggingu á íbúðarhúsnæði fyrir vinnuafl verksmiðjanna sem flutt var úr sveitum til borgarinnar. Þá varð leysa af hólmi húsnæði sem ekki stóðst kröfur marxískrar jafnræðissýnar (þ.e. félagslegum aðskilnaði milli stétta skyldi útrýmt). Í byrjun kvað hverfaskipulagið upp á fjögurra hæða blokkir með nægilegu bili sín á milli fyrir grænmetisgarða. Nýju húsnæði tókst til að byrja með að anna íbúafjölgun borgarinnar sem jókst úr 1.018.817 árið 1948 yfir í 1.366.684 árið 1966. Einnig var það húsnæði sem til var fyrir betur nýtt en farið verður nánar út í það hér að neðan.

Rúmenar voru lengi búnir að aðlaga eigin smekk eftir þeim sem tíðkaðist á Vesturlöndum og voru því ekki jafn sveigjanlegir þegar það kom að kröfum og hugmyndum sósíalísku raunsæisstefnunnar er varðaði list og arkitektúr.

Aðeins nokkrar nýbyggingar á þessum tíma voru gerðar eftir stalínískri fyrirmynd í borginni.
Þekktast er eflaust Hús hinnar frjálsu fjölmiðlunnar (þetta er ekki grín), sem var gjöf frá Stalín.

Hús hinnar frjálsu fjölmiðlunnar, Casa Presei Libere.

Ein af fjölmörgum hugmyndum Ceausescu eftir að hann komst til valda í Rúmenska Kommúnistaflokknum var að stokka upp í deiluskipulagi borgarinnar. Endurbættu heildarskipulagi var formlega komið á árið 1974 og skyldi verða innleitt fyrir allt byggðarskipulag í landinu. Skemað þótti mjög gott því það samtvinnaði vel bæði skipulagshugmyndir sósíalismans og samfélagsþróun hans.
Slagorðið var „Samhæfing, Nývæðing, Menning“ (hugmyndafræði þessi kallast Sistematizarea á rúmensku) og var opinber tilgangur hins breytta skipulags að „útrýma gróðrastíum borgarastéttar frjálshyggjunnar.“
Langtímatakmark var að samhæfa (steypa í sama mót) fyrirkomulag allra byggða í landinu og veita íbúum í dreifbýli alla kosti þéttbýlis. Skipulagið setti helsta mark sitt á þorp landsins, en u.þ.b. 400 þorpum var breytt í bæi.
Önnur þorp voru „sameinuð“ sem var orðalag yfirvaldsins fyrir allt það sem var rifið niður.

[Rússlandsinnskot: ein frægasta gamanmynd Sovétríkjanna sem Rússar horfa ennþá á öll áramót heitir Kaldhæðni örlaganna. Lykilatriði í myndinni er einsleitni í borgarskipulagi innan Sovétríkjanna. Í Moskvu og Leníngrad voru reist nákvæmlega eins hverfi, með nákvæmlega sömu blokkum, með nákvæmlega eins íbúðum. Svo nákvæmlega eins að eigandi íbúðar 27 við Stalínsgötu 18 í Moskvu gat opnað íbúð 27 við Stalínsgötu 18 í Leníngrad].

Önnur skipulagsbreyting í boði Ceausescu var að stjórnsýslueiningum Búkarestar var fækkað úr 8 í 6 og í stað sósíalískra nafna á borð við Byltingarholt, Lenínhæðir og Stalínshólar voru notuð númer og ennþá í dag er notast við Sektor 1, Sektor 2 o.s.frv. Árið 1967 setti hann takmörk á hversu margir mættu flytja til borgarinnar og var komið í veg fyrir yfirvegandi mannfækknum með banni gegn þungunarrofum og getnaðarvörnum. Meira verður skrifað um manneldismartraðir Rúmena hér að neðan.

Þá átti líka að auka byggingu húsnæðis í ytri byggðum borgarinnar. Skipulagið þar varð dreifðara og gert var ráð fyrir breiðgötum og húsum þeim meðfram, sem vísuðu að hjarta borgarinnar. Tilgangurinn með þeim var að búa til tilkomumikla aðgöngu að borginni, þ.e. sjónræna birtingarmynd nýframkomins byltingarhugsunarhátts. Að lokum var síðan hafist handa við fyrsta fasa neðanjarðarlestakerfisins.

Á fyrstu stigum „Samhæfingarinnar“, á árunum 1965 til 1970 einbeitti Ceausescu sér að ytri byggðum Búkarestar.
Fernt átti sér stað á árunum 1970 til 1980 sem varð til þess að hann fór að einbeita sér að miðborginni.

Fyrst skal nefna heimsókn Ceausescu til Kína 1971. Hann var mjög hrifinn af Menningarbyltingunni sem þá var ennþá í fullum gangi. Þá veitti félagsleg endurskipulagning (e. social engineering) og persónudýrkun Norður-Kóreu í sömu heimsókn honum mikinn innblástur.

Næst má nefna jarðsjálftann 1970 sem ég minntist á hér að ofan en í kjölfar hans var minna mál að ryðja bókstaflega úr vegi þeim byggingum sem höfðu verið fyrir.

Síðan á seinni hluta 8. áratugarins misheppnuðust svo gott sem allar efnahagsaðgerðir sem ráðist hafði verið í. Það varð til þess að hann varð að verða sér úti um beinni leiðir til að beita áhrifum sínum og láta finna fyrir sér.

Að lokum má nefna síaukið umfang bæði Securitate, rúmensku leynilögreglunnar og persónudýrkunnar Ceausescu. Talið er að fjórði hver Rúmeni hafi tengst Securitate árið 1980. Á norður-kóreska vísu var síðan farið að titla Ceausescu „snilling Karpatafjallanna“, „uppsprettu ljóssins“ og „þjóðarviskubrunn“.

Allt átti þetta eftir að endurspeglast í niðurrifi og uppbyggingu borgarinnar.

Upp úr 1980 fór Ceausescu eins og áður sagði að einbeita sér nær eingöngu að miðborg Búkarestar. Skipta má hugmyndum hans í þrennt:
Fyrst var það sósíalísk hugmyndafræði (eins og hún var túlkuð í Norður-Kóreu), sérstaklega sá angi hennar sem sagði til um að allt yrði að vera risastórt í sniðum er varðaði arkitektúr og list.
Síðan var það ætlun hans að endurskrifa sögu landsins með því að eyðileggja sjónræna sögu þess og setja sjálfan sig fyrir miðju.
Síðast en ekki síst vildi hann herma eftir því samhverfa borgarútliti sem hann hafði séð í Pyongyang.

Frá því að hann komst til valda 1965 hafði Ceausescu dreymt um að búa til eina byggingu sem hýsti allar stofnanir og batterí bæði ríkisins og flokksins. Drögin að Þinghöllinni voru gerð 1978 en fyrsta skóflustungan var ekki fyrr en 1984. Samkvæmt skjali sem bæði hann og eiginkona hans, Elena, undirrituðu var ætlun verkefnisins „að búa hinni rúmensku þjóð einstakt kennileiti á þessari öld endurnýjandi umbreytinga, að reisa byggingu sem endurspeglar vilja borgarbúa, allra íbúa Rúmeníu og veita höfuðborg landsins, okkar sósíalíska heimalands djásn sem á engan sinn líka“.

Þegar Ceausescu var loks steypt af stóli 1989 var búið að rífa niður megnið af hverfunum Uranus og Vacaresti. Í þessum hverfum bjó fólk á öllu rófi samfélagsins, bæði Rómafólk (sígaunar) og menntafólk. Einnig var stærsti hluti gyðingahverfisins þarna staðsettur. Talið er að um 40.000 manns hafi verið gert að fara frá heimilum sínum af hernum, oft með minna en sólarhringsfyrirvara. Margar byggingarnar voru frá 17. og 18. öld. Alls voru 25% miðborgarinnar rifin þarna niður til að búa til pláss.

Helsta verkefni Ceausescu í þessu hverfi er eflaust Palatul Parlamentului eða Þinghöllin sem byrjað var á 1984. Myndir af henni geta ekki gert því skil hversu stór hún er. Forherbergi hennar var hannað til þess að rýma 3.000 manns. Um 10.000 manns unnu að byggingu hennar. Á þeim tíma þegar Ceausescu var steypt af stóli var búið að eyða því sem samsvaraði 300 milljónum bandaríkjadala í hana. Svo mikill marmari var notaður að í nokkur ár var ekki hægt að fá legsteina úr marmara í landinu. Að innan átti bara að notast við handútskorin mahóníþil og kristalsljósakrónur. Byggingin er í dag sú þyngsta í heiminum. Svo þung er hún í raun að á hverju ári sekkur hún 6 mm.

Þinghöllin.

Í stað þess að vera byggð eftir kröfum sósíalískrar fagurfræði er höllin í stíl sem kallaður er fransk-nýklassískur. Þetta var fyrsta verkefni arkitekts sem þá var nýútskrifuð úr háskóla og hafði búið til líkan úr pappamassa. Eftir síendurteknar breytingar fram og til baka sem Ceausescu skipaði fyrir um og gleymdi jafn óðum var lokaafurðin hinsvegar ekki jafn falleg og líkanið sagði fyrir um. Einhver á að hafa sagt að betra dæmi um „sjónrænt og menningarlegt ólæsi“ fyrirfinndist hvergi annarsstaðar.

Annað verkefni á sama stað var Breiðgata Sigurs Sósíalismans. Rökstuðningurinn fyrir þeirri framkvæmd var með beinni hætti en öðrum sem Ceausescu lagðist í (það er meira „ég vil“ heldur en „sósíalisminn segir að…“). Hann vildi að sú leið sem farin yrði í gegnum borgina á tyllidögum væri bæði lengri og stærri en Avenue des Champs-Elysées í París. Breiðgatan er í dag vissulega sú fallegasta í Búkarest. Meðfram henni eru tré, gosbrunnar, bestu íbúðir borgarinnar og merkjavöruverslanir. Íbúðirnar voru hannaðar með það í huga að vera umbun helstu stuðningsmanna hans og auðvelda Securitae að hafa auga á þeim.

Ceausescu þoldi ekki kirkjur og vildi ekki þurfa að sjá þær þegar hann var á ferð um borgina. Um 18 kirkjur og klaustur voru rifin niður í framkvæmdargleði hans. Aðrar kirkjur voru færðar úr stað eða byggt í kringum þær svo að þær sæjust ekki frá götunni. Erfiðlega gekk að fá menn til að starfa við kirkjuniðurrif og varð í flestum tilfellum að sækja fanga til að sinna þeim. Sumum kirkjum tókst hinsvegar að bjarga.

Eugeniu Iordăchescu fæddist 8. nóvember 1929 í borginni Brăila í austurhluta Rúmeníu. Hann lærði arkitektúr við Verkfræðiháskólann í Búkarest og útskrifaðist frá deild „brúarhönnunnar og annarra stórframkvæmda.“ Á árunum 1982 og 1988 var endurskipulagningin miðborgarinnar í Búkarest í fullum gangi. Í flestum löndum þar sem á annað borð var leitast eftir því að bjarga byggingum voru þær færðar úr stað með þá leið farna að taka þær í sundur og setja aftur saman á öðrum stað. Eugeniu hannaði leið til þess að setja byggingar í heilu lagi á nokkurs konar járnbrautarteina og þannig ýtt á nýjan stað.

Eugeniu á göngu um Búkarest á þeim tíma sem allt í vegi fyrir hugsjón Ceausescu var rutt í burtu. Hann kom auga á litla kirkju og velti því fyrir sér hvernig í ósköpunum væri hægt að rífa niður annan eins fjársjóð. Þegar hann kom að máli við kollega sína og sagði þeim frá hugmynd sinni um járnbrautarteinanna sögðu þeir honum að hann væri galinn. Þó svo að byggingin kæmist á teinanna myndi hún hrynja. Hann segist hafa gert uppgötvun á veitingahúsi þegar hann sá þjón þjóta á milli borða með glasabakka án þess að missa eitt einasta glas. Eftir það fór hann að hugsa hvernig hann gæti yfirfært hugmyndina um bakkann yfir á bygginguna.

Aðferð Eugeniu til að flytja byggingar var nokkurn veginn svona: grafið var undan kirkjunum, járnbentar stoðir steyptar undir þær og þær teknar af sökklinum. Teinar voru lagðir að þeim stað sem koma átti kirkjunum fyrir á. Þrýstistangir og iðnaðartalíur voru síðan notaðar til þess að færa kirkjunar yfir á teinana, aldrei meira en nokkra metra á klukkustund.

Það sem var merkilegast er að þeir sem unnu að þessu verkefni voru háðir því að nota þau tól og þá tækni sem voru til staðar innanlands vegna þess að Rúmenía var lokað land, með takmörkuð samskipti meira að segja við önnur lönd í Varsjárbandalaginu. Öll verkfæri voru flutt á milli og notuð aftur og aftur því lítið var til af þeim.

Fyrsta kirkjan sem var flutt úr stað með þessari aðferð var Schitul Maicilor. Hún vó 745 tonn og var færð úr um 245 metra. Heildartími verkefnisins var um 5 mánuði.

Schitul Maicilor á fullri ferð.

Metnaður þeirra óx í takt við aukna reynslu á kirkjutilflutningum. Stærsta kirkjan sem var flutt var Kirkja Mihai Voda (tæknilega séð er byggingin klaustur) sem vó 9.000 tonn. Hún var flutt um 24 metra. Aðrar byggingar sem Eugeniu og teymi hans fluttu voru sjúkrahús, banki og íbúðablokkir.

Prestar Rúmensku rétttrúnaðarkirkjuna kölluðu Eugenie „Verkfræðing Himnaríkis.“

Gheorghe Gheorghiu Dej var aðalritari flokksins 1944 til 1965. Undir forustu hans var hagkerfið sett undir miðstýringu, fyrirtæki, eignir og land tekið eignarnámi og allir andstæðingar fangelsaðir eða látnir hverfa. Eftir andlát hans 1965 komst Ceausescu til valda sem aðalritari Kommúnistaflokks Rúmeníu en staða aðalritara var alltaf sú valdamesta í ríkjum kommúnista. Ceausescu öðlaðist velvild Vesturlanda þegar hann mótmælti innrás Varsjárbandalagslanda í Tékkóslóvakíu. Hann neitaði að senda hermenn fyrir hönd Rúmeníu og náði þannig að mynda bil á milli sín og stefnu Sovétríkjanna. Í kjölfarið tókst honum að fá gífurlega stór lán sem notuð voru m.a. í verkefnin sem minnst var á hér að ofan, til verksmiðjumbygginga, fyrir ýmislegan iðnað og til þess að klára skipaskurðinn á milli Dónár og Svartahafsins.

Stjórn kommúnista settu ýmsar skorður á trúarlíf landsmanna. Prestar voru fangelsaðir, kúgaðir í samstarf og kirkjur eyðilagðar. Áróðursherferðir ríkisins hvöttu landsmenn til að snúa baki við trúnni. Árið 1948 voru sett á lög um trú og seinna var bætt við viðauka sem útlistaði hvernig landsmenn gætu (þ.e. mættu) iðka trú sína. Margir flokksmenn gagnrýndu framferði flokksins, fóru í messu og létu skíra börn sín. Á sama tíma voru margir uppljóstrarar Securitate í röðum presta og leikmanna.

Ein hreyfing kristinna varð sérstaklega fyrir barðinu á stjórn kommúnista, „Logandi Þyrnirunni Móður Drottins“. Hreyfingin samanstóð af munkum, prestum og menntamönnum sem höfðu það að leiðarljósi að viðhalda gildum rétttrúnaðarkirkjunnar. Þeir hittumst á fimmtudögum, ræddu trúmál, heimspeki og málefni er vörðuðu menningu, hagkerfi og samfélag Rúmeníu eftir stríð. Fljótlega eftir að kommúnistar komust til valda voru meðlimir hreyfingarinnar handteknir og dæmdir til 25 ára fangelsisvistar.

Hegningarlög voru tekin upp að sovéskri fyrirmynd og hegningarvinna mótuð eftir Gúlaginu. Hugmyndin var að útrýma allri andstöðu með kerfi fangelsa og fangavinnubúða um land allt. Alls voru 44 fangelsi og 72 nauðungarvinnubúðir starfræktar á stjórnartíð kommúnista.

Snemma í valdatíma kommúnista mynduðu pólitískir fangar meginþorra alls vinnuafls við framkvæmdir vegna skipaskurðarins milli Dónár og Svartahafsins. Sem vinnuafl voru þeir ódýrir (launalausir), fengu lítinn sem engan mat og því við sultarmörk og sú litla hvíld sem þeim bauðst var í skítugum, þröngum bröggum. Þeir unnu sjö daga vikunnar, oft á nóttunni líka án hvíldar.

Í öllum löndum kommúnismans voru viss fangelsi sem urðu samnefnarar Helvítis. Í Rúmeníu var það Pitești-fangelsið. Það sem gerði fangelsið alræmt meðal Rúmena var hin svokallaða endurmenntunartilraun, oft kölluð Pitești-tilraunin. Tilraunin var framkvæmd frá því í desember 1949 fram til september 1951. Eins og flestir á þessum tíma voru fangarnir sem tóku þátt af pólitískum ástæðum. Þarna voru síonistar, meðlimir rúmenska fasistaflokksins og guðfræðinemar. Talið er gerðar hafi verið tilraunir á allt að 5.000 föngum. Alexander Solszhenitsyn talaði um tilraunina sem skelfilegustu tilraun til heilaþvottar samtímans.

Tilraunin samanstóð af þrem þrepum: Fyrst voru fangar yfirheyrðir og pyntaðir. Margir fangar játuðu á sig gleypi sem þeir höfðu ekki framið í von um að sleppa við frekari pyntingar.
Síðan voru þeir pyntuðu neyddir að ljóstra upp um þá sem höfðu komið vel fram við þá innan fangelsisins.
Í lokin var notast við niðurlægingu þar sem að fangar voru neyddir til þess að afneita eigin sannfæringu, gildum og hollustu. Trúaðir fangar voru neyddir til þess að bölva trúartáknum og heilagri ritningu.

Ég hugsa að ég sleppi því að fara ofan í saumana á pyntingaraðferðunum sem voru notaðar, en tek þó fram að margir þeirra þróðuðu með sér einkenni holdsveiki, sem var þó talið vel sloppið.

Ríkisvæðing (eignarnám) í Rúmeníu var gerð í tvennu lagi. Fyrst voru fyrirtæki tekin eignarnámi og síðan húsnæði. Samkvæmt heimildum tók ríkið yfir rúmlega 200.000 eignir.
Stundum fékk fólk leyfi til þess að búa áfram í húsum sínum en voru skikkuð til þess að búa í rökum kjöllurum eða óeinangruðum háaloftum.

Ríkisvæðing einkafyrirtækja var í pípunum strax árið 1947 þegar Ríkisnefnd um fjárhagslega endurskipurlagningu var komið á fót.
Byrjað var á því að skrá öll fyrirtæki og eignir þeirra innanlandsins. Fyrirtækin voru síðan „tekin yfir“ af stétt verkafólksins.
Sama dag og frumvarpið var lagt fyrir þingið var það samþykkt, 11. júní 1948.

Hvað bætur varðaði var ákvæði í lögunum sem sagði fyrir um skuldbindingu ríkisins til þess greiða bætur til fyrrum eigenda. Þeir sem ekki gátu sannað að þeir hefðu komist yfir eignir sínar löglega eða höfðu flúið erlendis á stríðstímanum fyrirgerðu rétti sínum til bóta frá ríkinu. Sömu ákvæði giltu um þá sem að snéru til baka með útrunnin vegabréf. Ákvæðin voru síðan útvíkkuð og viljandi gerð óskýr til þess að þau gætu náð yfir sem flesta.

Þá var ákvæði í lögunum sem gerði allar tilraunir til þess að eyðileggja eða hindra ríkisvæðingu refsiverða með allt að 10 ára nauðungarvinnu sem og sviptingu allra eigna þeirra.

Fyrir ríkisvæðingu íbúðarhúsnæðis var síðan sett á fót Húsnæðisumsýsla ríkisins árið 1950. Þeir sem fengu að halda eftir húsnæði sínu fengu það með þeim kvöðum að þurfa að deila því með ókunnugum. Í flestum tilfellum voru þessir ókunnugu vinnufólk sem var flutt úr dreifbýli til Búkarestar af Mannaflsnefnd ríksins til að vinna í verksmiðjum.

Vegna skorts á fé, áhuga og metnaði var byggingum illa eða alls ekki haldið við. Þannig má ennþá finna fyrir afleiðingum ríkisvæðingarinnar í dag. Eftir byltinguna 1989 voru samþykkt lög sem gerðu fólki kleift að fá til baka þær eignir sem það átti fyrir ríkisvæðinguna. Á sama tíma hafa lögin gert stöðuna flóknari á milli þeirra sem voru skráðir fyrir eignunum á stjórnartíð kommúnista og erfingja þeirra sem áttu húsnæðið fyrir 1950.

Á valdatíma kommúnista var notast við peningaseðla og skiptimynt, minnsta einingin var 10 lei en sú stærsta 100. Eftir efnahagsumbæturnar 1952 voru ekki lengur myndir af bændum á peningaseðlum eins og hefð hafði verið síðan á árunum á milli stríða. Í stað þeirra voru myndir af hetjum byltingarinnar. Nokkrum áratugum seinna var seðlunum breytt aftur og voru þá með myndir af opinberum byggingum sem voru orðnar að kennileitum innan Rúmeníu og svo hetjum rúmenskrar sögu.

Árin 1945 til 1946 voru miklir þurrkar í Rúmeníu, auk þess sem landið var hernumið af Sovétríkjunum og olli þetta tvennt mikilli verðbólgu. Í von um að ná tökum á verðbólgunni ákváðu Sovétmenn að prenta svokölluð „stríðslei“. Verðbólgan jókst samt sem áður og brask með gjaldmiðla varð til þess að ákveðið var að setja Seðlabanka Rúmeníu undir pólitíska forustu landsins, þar með var bankinn sviptur öllu sjálfstæði.

Eitt „stríðslei“ Sovétmanna samsvaraði 20.000 gömlum lei. Þá fór það allt eftir hvaða þjóðfélagshópi þú tilheyrðir hvaða gengi þér bauðst og hversu miklu þú máttir skipta. Verkafólk, örkumlaðir hermenn, ekkjur og munaðarleysingjar máttu skipta allt að 3.000.000 af gömlu lei fyrir nýja, bændur 5.000.000, mið-og efri stéttir og þeir sem féllu á milli þilja ekki meira en 1.500.000.
Hið eiginlega markmið með þessum umbótum var að svipta mið-og efristétt þeim fjármunum sem þær áttu. Eignafólk gat því í raun ekki fengið meira en 75 ný lei sem hefði ekki dugað til að kaupa 10 brauðhleifa.

26. janúar 1952 var farið í næstu efnahagsumbætur. Markmið þeirra var að svipta þá bændur fjármunum sem ekki höfðu gengið í samyrkjubú og voru þar með að fá inn fé sem ríkið gat ekki haft yfirumsjón með. Því meira fé sem fólk vildi skipta, því verra var gengið. Þeir sem skiptu 1.000 lei fengu gengi 100:1 á meðan að þeir sem vildu skipta yfir 3.000 lei fengu gengið 400:1.

Forkólfar Alþýðulýðveldisins Rúmeníu voru stórhuga þegar það kom að framkvæmdum og uppbyggingu. Eina leiðin á þessum tíma til að fjármagna áætlanir þeirra var með erlendum gjaldmiðli. Bankar í Moskvu áttu litlar byrgðir af erlendum gjaldmiðlum og leitaði því stjórn landsins á náðir Vesturlanda og varð því að nokkurskonar brú á milli efnahagssambands kommúnistaríkja COMECON (Council for Mutual Economic Assistance, eða Samtök um gagnkvæma efnahagsaðstoð) og OECD (Organization for Economic Cooperation and Development, Efnahags-og framfarastofnunin).
Rúmenía varð aðildaríki að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum 5. desember 1972. Eftir miklar samningaviðræður var ákveðið að veita Rúmeníu 95 milljónir sérstakra dráttareininga (sérstök reikningseining Alþjóðagjaldeyrissjóðsins).

Á stjórnartíð kommúnista voru laun mjög ólík á milli starfsgreina.
Árið 1989 voru byggingaverkafólk með hæstu laun landsins (3.600 lei), síðan þeir sem unnu við lagningu og viðhald á rafmagns-og gasleiðslum (3.300 lei) og bankastarfsmenn (3.200 lei). Lægstu laun fengu þeir sem unnu við matsölu, ferðamennsku eða á veitingastöðum (1.500 lei). Starfsmenn póstþjónustunnar, strætisvagnabílstjórar og fólk í textílframleiðslu voru í þessum sama flokki lægstlaunuðu.
Þá voru mánaðarlaun Ceausescu 18.000 lei.

Á stjórnartíð kommúnista lék Sparnaðarbankinn (CEC, eða Casa de Economii și Consemnațiuni) mikilvægt hlutverk og var sú stofnun sem íbúar landsins treystu, enda gamalgróinn banki frá 1864. Flestir Rúmenar geymdu allan sinn sparnað hjá þessum eina banka. Gjaldkerar voru aðgengilegir víða, bæði í þéttbýli og dreifbýli og oft staðsettir hjá mörkuðum, stórum vinnustöðum og iðnaðarsvæðum. Með tíð og tíma bauðst fólki ólíkir sparnaðarreikningar, allt eftir því hver átti í hlut, smábörn, börn á skólaaldri eða fullorðnir. Sérstakir reikningar voru í boði ef fólk vildi byggja hús, fjárfesta í ríkisskuldabréfum og jafnvel til að vinna í happdrætti þar sem að fyrsti vinningur var bifreið. Fjármálalæsi var sérstök kennslugrein í grunnskólum og útskýrt var fyrir börnum mikilvægi sparnaðar. Ceausescu-hjónin sjálf lögðu inn á sparnaðrreikning barnanna sinna, 5.000 lei á barn í hverjum mánuði.

Strax upp úr 1960 lagði þáverandi leiðtogi Rúmeníu, Gheorghe Gheorghiu-Dej, áherslu á iðnvæðingu landsins. Ekki varð vart um nein risaverkefni eins og þau sem rædd hafa verið fyrr en Ceausescu komst til valda 1965. Með lánunum sem minnst var á hér að ofan ætlaði Ceausescu að framleiða allt sem að Rúmenía þyrfti á að halda innanlands án þess að flytja nokkuð inn. Varð það til þess að ýmiskonar iðnaðargreinar urðu dýrari en ella auk þess sem aðrar voru reknar með tapi. Á árunum upp úr 1980 ákvað Ceausescu að endurgreiða allar erlendar skuldir ríkisins sem varð til þess að engin endurnýjun né fjárfesting átti sér stað í iðnaði innanlands. Við lok áratugarins voru vörur framleiddar í Rúmeníu ekki lengur samkeppnishæfar.

Um leið og kommúnistar komust til valda beindu þeir sjónum sínum að stétt bænda sem á þeim tíma mynduðu meira 3/4 landsmanna. Meginstoðir bændasamfélagsins voru tvær: trú og einkaeign. Í ljósi þessa þurftu kommúnistar að fara í töluverðar umbætur í landbúnaði til þess að fá fólk á sitt band þegar að samyrkjuvæðingin síðan hófst.

Markmiðið með að taka land af þeim jörðum sem voru stærri en 50 hektarar var aðallega til að eyða bojurum, rúmenskum stórbændum, sem stétt. Alls tók ríkið 1.5 milljón hektara eignarnámi og lét þá í hendur landlausra bænda, þannig að rúmlega 900.000 manns eignuðust í fyrsta sinn eigin jarðir.

1948 var hafið að safna settum kvóta af framleiðslu bænda handa ríkinu. Kvótin var á bilinu 20-60% af kornvöru,kjöti, mjólk, ull, ávöxtum o.s.frv. Eina leið bænda til að standast skuldbindingar af höndum ríkisins (og til að komast hjá þeim refsingum sem beitt var þegar fólk náði ekki upp í kvótann) var annaðhvort að kaupa það sem upp á vantaði, eða breyta bókhaldinu. Oft var það þannig að bændur skulduðu ríkinu meira en heildarframleiðslu býlanna.

Afurðaskýrslur voru oft falsaðar til að láta verga landframleiðslu líta betur út í samanburði við þá í nágrannalöndum Rúmeníu eða til að þóknast Ceausescu. Framleiðsla var í hæstu hæðum en Rúmenar sjálfir bjuggu við krónískan vöruskort.

Fyrstu samyrkjubúin voru stofnuð 24. júlí 1949 af sovétskri fyrirmynd. Bændur voru vissulega skeptískir á þessa hugmynd ráðamanna og þurftu „sérfræðingar að sunnan“ að gera róttæk inngrip til þess að koma bændum yfir á þessa braut. Bændur voru kúgaðir, handteknir, beittir ofbeldi, þeim mútað eða prestar fengnir til að sannfæra þá um ágæti samyrkjubúanna.

Helstu breytingar í landbúnaði á tímum kommúnista voru vélavæðing, gerð áveituskurða, bygging gróðurhúsa nærri borgum auk þess sem notkun á tilbúnum áburði jókst gífurlega.

Eins og í mörgum öðrum kommúnistaríkjum eftir stríð varð til í Rúmeníu hugmyndin um „hinn nýja mann“. Til þess að aga „hina nýju menn“ var ákvæðið að hervæða samfélag og herskyldu komið á. Menn urðu að þjóna í hernum 9 til 16 mánuði á meðan að herþjálfun kvenna tók mið af þeim sem voru í fullu námi og fór fram einu sinni í viku. Ekki var nóg að byggja upp her, heldur átti líka að fá alþýðu landsins til að tileinka sér anda sósíalískra kennisetninga sem kváðu á um að það væri skylda hennar að verja land og þjóð. Slík fjölgun hermanna reyndist vera meira álag á ríkisfjármál en reiknað var með (þ.e. kaup á búnaði, menn sem voru að sinna herskyldu voru launalausir) og voru sumar herdeildir notaðar í að byggja upp innviði. Hermenn sáu því um að rækta landið, vinna á samyrkjubúum, grafa skurði, reisa byggingar, námuvinnslu og manna verksmiðjur. Stærstu framkvæmdir innan Rúmeníu í stjórnartíð kommúnista, skipaskurðurinn á milli Dónár og Svartahafsins, lagning Transfăgărășan-hálendisþjóðvegsins, og bygging Þinghallarinnar voru alfarið í höndum hersins og unnin af ólaunuðum hermönnum. Töluverður fjöldi hermanna dó í vinnuslysum en slíkt var aldrei rætt opinberlega.

Þá var einnig komið á fót herbúðum fyrir unglinga þar sem þeim var kennt að vinna og að fara eftir skipunum. Allt fór þetta fram í skólafríum undir formerkjum PTAP (Pregătirea Tineretului pentru Apărarea Patriei, eða Æskulýðsþjálfun til varnar heimalandinu). Samkvæmt lögum um þjóðaröryggi sem samþykkt voru 1972 gat enginn sótt um undanþágu frá því að þurfa að koma heimalandinu til varnar í stríðsátökum, hvorki vegna kyns né aldurs. Herskylda kvenna í Rúmeníu var einsdæmi á meðal aðildarlanda Varsjárbandalagsins. Í nær öllum tilfellum unnu þær störf sem læknar, hjúkrunarfræðingar eða tæknifræðingar.

Uppbygging innviða var ofarlega í forgangsröðun stjórnvalda en framkvæmdar með misgóðum árangri. Til að grafa skipaskurðinn á milli Dónár og Svartahafsins var fengið vinnuafl alls staðar að, auk hermanna og pólitískra fanga. Skurðurinn er sá fimmti lengsti í heiminum, 94.4 km. Vegakerfi landsins var líka stórbætt, aðallega með það í huga að auðvelda flutning á landbúnaðarafurðum sem og því efni sem unnið var úr námum. Fyrsta þjóðveg landsins átti að leggja á milli Búkarestar og borgarinnar Pitești. Af áætluðum 3.000 km voru lagðir 113.

Gerð Transfăgărășan-hálendisþjóðvegsins sem minnst var á hér að ofan var mikið grettistak. Hæsti hluti vegsins er 2.042 m yfir sjávarmáli. Hafist var handa við að leggja veginn 1970 og var mestallur mannskapur fenginn í gegnum herinn. Fjarlægja þurfti alls þrjár milljónir tonna af grjóti.

Samkvæmt tilskipun stjórnvalda átti öll rannsóknarstarfsemi innan Rúmeníu að hafa það að leiðarljósi að rétta af fjárhag landsins. Upp úr 1960 voru 1.37% fólks á vinnumarkaði starfandi í rannsóknum. Þegar að kommúnistastjórnin féll 1989 hafði hlutfallið aukist upp í 3.37%. Fjölmörg einkaleyfi voru gefin út fyrir uppfinningar sem nutu mikilla vinsælda bæði innanlands og erlendis.

Fyrsta stofnun öldrunarfræða í heiminum var komið á fót í Rúmeníu árið 1952. Heilbrigðisráðuneyti Rúmeníu samþykkti hrukkukremið Gerovital H3 (einkaleyfishafar erlendis seinna meir voru yfir 30 talsins) árið 1957. Fjöldaframleiðsla hófst og var kremið notað af m.a. Salvador Dalí, Jacqueline Kennedy og Charles de Gaulle.

Fyrirtækið Farmec var stofnað 1960 og framleiddi 90% af öllum snyrtivörum á rúmenskum markaði. Margar vörur nutu töluverða vinsælda og voru fluttar út til Vestur-Evrópu og Japans. Fyrsta krem í heiminum til að innihalda drottningarhunang, Apidermin, var búið til í Rúmeníu.

Rúmenska fyrirtækið Nivea náði að festa sig í sessi í öðrum kommúnistaríkjum og Miðausturlöndum með því að bjóða vörur af meiri gæðum en þekktist á góðu verði.

Þegar ég var í unglingadeild „gleymdi“ ég oft íþróttafötunum mínum á sama tíma og vinkonur mínar voru á blæðingum. Okkur var sagt að fara í stóran göngutúr sem við gerðum með glöðu geði til heilsubótar og fengum okkur smók í leiðinni. Þrátt fyrir algjöran skort á áhuga um íþróttir tel ég það vert að minnast á hlutverk þeirra í Rúmeníu kommúnista.

Ríkisstjórn landsins bjó til töluverða umgjörð fyrir íþróttaiðkun. „Hinn nýji maður“ átti að vera vel á sig kominn líkamlega, þannig að auk atvinnumennsku í íþróttum var líka hvatt til þess að fólk stundaði þær í tómstundum.

Rúmenía fékk flest ólympíuverðlaun sín í fimleikum. Í dag er vitað að afreksíþróttafólk í þessari grein var bæði svelt og beitt líkamlegu ofbeldi. Nadia Comăneci var sú fyrsta í sögu Ólympíuleikanna til að fá 10 í einkunn fyrir frammistöðu sína í fimleikum árið 1976, þá 14 ára gömul. Eins og margt annað íþróttafólk frá Rúmeníu sótti Nadia um hæli erlendis á keppnisferðalagi 1989. Annað frægt dæmi er Angelica Rozeanu, kona af gyðingaættum sem varð heimsmeistari í borðtennis sex ár í röð. Hún flúði til Ísraels 1960 og var í kjölfarið afmáð úr sögu Rúmeníu til ársins 1989.

Þegar að ný stjórnarskrá, innblásin af þeirri sovétsku, var samþykkt 1948 kynntist hinn almenni Rúmeni hugtakinu „frí“ í fyrsta sinn. Verkafólk átti að hvíla sig og vera við fulla heilsu til að afkasta meira þegar það vann. Niðurgreiddar heilsumeðferðir og frí urðu til þess að til varð innanlandstúrismi. Helstu áfangastaðir voru fjöllin og strendurnar. Samband ungra kommúnista bauð félagsmönnum sínum upp á frí ýmist í fjöllunum eða við hafið og bar sambandið allan kostnað við gistingu, fæði og ferðalög. Ríkið hvatti fólk ekki til ferðalaga erlendis en hægt var að ferðast til annarra „vinveittra” landa. Þrátt fyrir tortryggni í garð Vesturlanda var engu að síður ákveðið að fara í auglýsingaherferð til þess að hvetja Vesturlandabúa til þess að ferðast til Rúmeníu í von um að fá auknar tekjur í erlendum gjaldmiðli í ríkiskassann. ONT, (Oficiul Național de Turism, eða Ferðaskrifstofa ríkisins) bar hinsvegar ekki árangur sem erfiði og tókst aldrei að fá til sín sama fjölda ferðamanna og önnur lönd á borð við Búlgaríu.

Töluverð höft á olíukaupum takmarkaði verulega öll ferðalög með bíl (fyrir þá fáu sem áttu efni á þeim og höfðu þolinmæði sem spannaði áratugi) og þar með hreyfanleika fólks almennt. Upp úr 1980 varð Rúmenía að flytja inn megnið af olíu til að sinna þörfum sínum (Rúmenía var annar helsti olíuframleiðandi Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni á eftir Sovétríkjunum). Þá var allt dreifikerfi miðstýrt og ákveðið út frá þörfum ríkisins, ekki út frá einkaneyslu Rúmena sjálfra.

Farið var í mikla uppbyggingu á gistirýmum og öðrum innviðum handa ferðamönnum meðfram rúmensku rivíerunni við Svartahafið. Í borginni Constanța við Svartahafið reis helsta tákn kommúnismatúrismans, hótelsamstæðan Mamaia:


Grunneining samfélagsins var fjölskyldan sem með aga, ást og alúð átti að ala upp einstaklinga sem voru kommúnistar frá blautu barnsbeini. Ég held að það sé ekki hægt að tala um Rúmeníu kommúnista án þess að minnast á lýðfræðistefnu Ceausescu. Vegna aukinnar þátttöku kvenna á vinnumarkaði við endurreisn landsins eftir stríð og lágum lífskjörum var fæðingartíðni Rúmeníu sú lægsta í sögu landsins árið 1966. Ráðamenn ákváðu hinsvegar að aðgengi að þungunarrofi væri um að kenna. Ráðamenn ákváðu að stemma stigu við fólksfækkuninni og fjölga landsmönnum úr 20 milljónum í 30 milljónir.

„Tilskipun 770“ frá árinu 1967 bannaði nær alfarið þungunarrof og getnaðarvarnir. Barneignir voru skyldustörf unnin í þágu föðurlandsins en markmiðið var sjá til þess að alltaf yrði til vinnuafl sem og fólk í herinn. Konur voru látnar gangast undir handahófskenndar læknisskoðanir á vinnustöðum af höndum Securitate til þess að hægt væri að staðfesta óléttu og skrár þær niður. Án nokkurrar læknismenntunnar framkvæmdu konur þungunarrof sjálfar heima hjá sér, ýmist með herðartrjám eða prjónnálum. Margar konur hlutu ævilangan skaða af slíkum aðgerðum, margar aðrar létu lífið. Vissulega voru til læknar sem framkvæmdu þungunarrof í leyni þar sem að þeir áttu í hættu við að missa starf sitt, frelsi sitt og stundum líf sitt. Á sama tíma var „móðurhetjum“ og húsmæðrum hampað fyrir barneignir í fjölmiðlum. Í rúmensku er til hugtakið decreței, dregið af orðinu decret sem merkir tilskipun, og er notað yfir þá Rúmena sem fæddust ári eftir að „Tilskipun 770“ var samþykkt. Á árunum fyrir 1967 var þungunarrofslöggjöf í Rúmeníu eins sú frjálslyndasta í Evrópu sem talið er vera vegna þess hversu takmarkað aðgengi var að getnaðarvörnum.

Undanþága fékkst í eftirfarandi tilfellum:
– ef kona var yfir 45 (seinna lækkað í 40 og svo hækkað aftur í 45).
– ef konur hefðu þá þegar eignast 4 börn (seinna hækkað í 5).
– konur sem voru í lífshættu vegna fylgikvilla.
– ef konur hefðu orðið óléttar vegna nauðgunnar eða sifaspells.

Kynfræðsla í skólum tók mið af því að kenna ungu fólki gildi móðurhlutverksins, auk þess sem að barnmargar konur voru að þjóna föðurlandinu.

Ári eftir að tilskipunin var innleidd tvöfaldaðist fæðingartíðnin. Heildarfrjósemishlutfall fór úr 1.9 yfir í 3.7. Kynslóðirnar fæddar á árunum 1967 og 1968 voru þær stærstu í sögu landsins. Þúsundur vöggustofa voru byggðar til þess að koma konum út á vinnumarkað sem fyrst eftir fæðingu. Eftir því sem að börnin urðu eldri gekk verr að koma til móts við þarfir þeirra. Kennslustundir í skólum voru styttar til þess að hægt væri að kenna árgöngum í þrem hollum yfir daginn. Hlutfall kennara á móti nemendum var 1:40. Á sama tíma og það dró úr ungbarnadauða annarsstaðar jókst hann svo mjög í Rúmeníu að á endanum var tíðni hans 10 sinnum hærri í nágrannalöndunum.

Skólaárið var þrískipt og var eini frídagurinn á sunnudögum. Á fyrsta hluta skólaársins voru nemendur reyndar ekki í skólum heldur unnu þau í þágu föðurlandsins við að týna ávexti og grænmeti eða við önnur landbúnaðarstörf, allt eftir því hvaða landbúnaður var stundaður í héraðinu.

Menntun var eitt helsta verkfæri ríkisins til þess að innræta æsku landsins sósíalískum gildum. Áróðurinn var stöðugur, í kennslubókum, frímínútum og tómstundum. Flestar kennslubækur byrjuðu á kafla um Ceausescu, óháð því hvaða efni var verið að kenna. Sú kennslugrein sem breyttist mest var saga. Á árunum strax eftir stríð var nemendum kennt að allt sem þau nutu að var í boði nágranna þeirra að austan, hvort sem það var rúmenska tungan, miðaldarríki Rúmeníu eða kristintakan. Eftir að Stalín dó og Ceausescu kom til valda var áhersla lögð á hetjur úr sögu Rúmeníu og þá með sérstakri skírskotun að þær væru alveg eins og þjóðarleiðtoginn sjálfur.

Frá því að börn gengu í leikskóla voru þau skráð í einhver félagasamtök á vegum kommúnista. Þegar þau voru 4 ára voru þau í „Haukum Heimalandsins“. Við 8 ára aldur voru þau í samtökum „Brautryðjenda“, sem stofnuð voru strax 1949. Fóru meðlimir með heitið „ég [fornafn][eftirnafn], verðandi meðlimur Brautryðjenda, lofa að elska land mitt, vera iðinn og agaður, ég mun læra að vinna og verða áreiðanlegt barn föðurlands míns, Alþýðulýðveldisins Rúmeníu, ég verð trúr bæði fólkinu og Kommúnistaflokk Rúmeníu og uppfylli allar skyldur mínar.“

Í því sem að kallað hefur verið „Júlíræðan 1971“, talaði Ceausescu fyrir því að bæta ætti fylgni og tryggð listamanna við sósíalíska raunsæisstefnu í verkum sínum. Talið er að Ceausescu hafið fengið innblástur úr heimsókn sinni í Kína þegar hann sá „ávinning“ Menningarbyltingar Maós. Flokkurinn skyldi leiða alla listsköpun og hafa með henni umsjón. Popptónlist var leyfð en tónlist sem var of fjarri ríkjandi menningarviðmiðum flokksins var bönnuð: rokk, djass og blústónlist. Vestræn tónlist á borð við Led Zeppelin, Pink Floyd og Rolling Stones var með öllu bönnuð og fyrir vikið ennþá vinsælli en hún hafði verið. Þá var listamönnum með síðara hár en ríkisviðmið leyfðu meinað að koma fram.

Ég á ennþá eftir að ræða um þjóðernispólitík innan Rúmeníu, sögu Rúmeníu fyrir seinni heimsstyrjöld og um gyðinga í Rúmeníu. Í Rúmeníu bjó næststærsti hópur gyðinga í Evrópu á eftir Póllandi. En ég læt staðar numið hér hvað Rúmeníu varðar.

Á þriðjudaginn sem leið átti ég tíma á Teams með leiðbeinanda mínum. Okkur hafði sammælst um að fyrir þann tíma yrði ég búinn að lesa bækurnar tvær sem ég ætla að þýða úr fyrir meistararitgerðina mína. Ég hafði ætlað mér að nýta fríið sem ég hafði á milli anna í febrúar til að lesa en hann sagði við mig að það væri mjög mikilvægt andlegrar heilsu minnar vegna að vera í fríi þegar ég væri í fríi. Því fannst mér tilvalið að skreppa til Rúmeníu enda tekur flugið ekki nema tæpar tvær klukkustundir frá Varsjá. Fundurinn með leiðbeinanda gekk mjög vel og sammældumst við um að ég myndi vera tilbúinn með með drög að þýðingu eins kafla eftir páska.

Ég læt þetta gott heita í bili. Takk fyrir lesturinn.



Eitt svar við “Póllandspistill 17.”

  1. Sigurdur R. Gudjonsson Avatar
    Sigurdur R. Gudjonsson

    Flott hjá þér, eins og áður! Synd að þú skulir ekki geta selt þetta til fjölmiðla…

    Mbk., Siggi

    Líkar við

Færðu inn athugasemd