Námið sem ég er í hérna úti ber heitið ‘pólsk fræði fyrir útlendinga’. Innan námsins eru svokallaðir skyldukúrsar sem við öll tökum sem skráð erum í námið. Allir sem eru í náminu þurfa síðan að velja sér eitt af tveim kjörsviðum:
– Kynning á pólskri menningu.
– Þýðing og bókaútgáfu.
Ég vona að það komi engum á óvart að ég valdi seinna kjörsviðið. Hvort kjörsvið fyrir sig er síðan með sérstaka áfanga. Kjörsviðsáfanginn sem ég tek núna heitir ‘List pólsku bókarinnar’ og höfum við m.a. annars verið að fjalla um gullaldartímabil myndskreytinga í Póllandi, sem byrjaði upp úr 1950 og fram yfir 1980. Þá var allt tekið fastari tökum eftir að herlög voru sett á af herforingjastjórninni. Eftir að múrinn féll missti bókaiðnaðurinn það sterka bakland sem hann hafði áður haft og þar með féll niður um tíma sá standard sem Pólland hafði öðlast viðurkenningu fyrir og hlotið fjölda verðlauna.
Fernt einkenndi pólskar myndskreytingar:
1. Gífurleg fjölbreytni: Vissulega voru margir sem unnu við að myndskreyta bækur á þessum tíma en stílbrigði, tilhneigingar og tilraunir voru óteljandi. Þegar að myndskreytingar í Póllandi voru að ná flugi upp úr 1950 hefði mátt ætla að aðrir sem voru að reyna að hasla sér völl á sama sviði myndu apa eftir þeim sem þá þegar voru orðnir þekktir. Svo varð ekki, enginn var hræddur við að gera eigin tilraunir og þróa eigin stíl.
2. Löngun til að gera myndskreytingarnar sjálfstæðar: Þó svo að myndskreytingar ættu að fylgja textanum, vera innblásnar af honum þá voru þær oft á svo háu plani að þær höfðu getað verið gefnar út í bók án texta.
3. Frelsi: þeim sem unnu við að myndskreyta voru ekki sett neinar hömlur í listsköpun. Ritstjórar bókanna höfðu umsjón með uppsetningu, leturgerð, broti og upplagi.
4. Skortur á barnalegheitum, ofursætleika, yfirborðskenndum siðferðisboðskap og væmni.
Ókrýndur konungur myndskreyta var Jan Marcin Szancer:






Olga Siemaszko fékk líka verðlaun:






Józef Wilkoń:






Wiesław Majchrzak:

















Jerszy Srokowski sem gerði líka veggspjöld fyrir bíómyndir og auglýsingar:






Maria Hiszpańska-Neumann:







Zbigniew Rychlicki:














Janusz Grabiański:













Bohdan Zieleniec:




Adam Kilian:








Gabriel Rechowicz:






Elżbieta Murawska:



Zdzisław Witwicki:










Teresia Wilbik:








Iwona Chmielewska, tilheyrir yngri kynslóð myndskreyta:






Janusz Stanny:









Krystyna Witkowska:








Daniel Mróz:






Elżbieta Gaudasińska:


















Kúrsinn er kenndur af Aleksöndru Wieczorkiewicz, prófessor í barnabókmenntum og þýðingum. Við erum búin að fara í vettvangsferð á höfuðbókasafnið hérna og á rannsóknarbókasafn sem vinnur með elstu bækurnar og handritin. Við eigum síðan eftir að fara á háskólabókasafnið sem er með stærstu myndasögudeild í Mið-Evrópu. Aðalferðin verður síðan í bæ ekki langt frá Poznań til að skoða kastalabókasafn.
Háskólabókasafnið:

Kastalinn sem við eigum eftir að fara í:

Við höfum verið að stúdera hvernig bækur voru gerðar, hvernig þær voru skreyttar, hvað mótífin heita, mismunandi gerðir bóka o.þ.h.
Incunabula kallast bækur sem voru prentaðar fyrir 1500.
Reklamant er síðasta orð á einni blaðsíðu og fyrsta orð á þeirri næstu, notast var við reklamant áður en síður voru númeraðar.
Ksylografika eru bækur sem voru prentaðar með útskornum viðarplötum.
Rubrykowanie eru rauðlituð orð í handritum, við þetta var notast áður en byrjað var að undirstrika til áherslu:

Fleiri myndir úr sömu ferð:












Ég er reglulega spurður að því, bæði hér í Póllandi og á Íslandi, hvers vegna ég ákvað að læra pólsku. Önnur germönsk mál á Norðurlöndunum væru auðveldari, auk þess sem að til eru tungumál sem hafa fleiri mælendur og njóta meiri hylli í tungumálanámi almennt eins og spænska, franska, þýska og ítalska.
En aðrir, sérstaklega Íslendingar, velta því fyrir sér hvers vegna fólk leggur það á sig yfirhöfuð að læra erlent tungumál annað en ensku, sem jú „allir“ tala.
Eitt af þjóðareinkennum Íslendinga er hæfileiki þeirra til að ofmeta eigin kunnáttu og getu. Enginn þarf að geta allt og það er gott að vera meðvitaður um eigin annmarka. Enskukunnátta Íslendinga er ágæt en mjög afmörkuð, umræðuefnin sem þeir geta tjáð sig um eru mjög afmörkuð. Síðan ef fólk temur sér það að ferðast til svæða sem eru ekki klassískir ferðamannastaðir eða stórborgir, þá kemur líka fljótlega í ljós að enskukunnátta „allra“ er mjög takmörkuð.
Innan ESB var hannaður hinn svokallaði evrópski tungumálarammi (CEFRL) sem er notaður víða til þess að mæla færni einstaklinga í erlendum tungumálum. Færninni er skipt niður í lesskilning, talfærni og hlustun sem er skipt í sex stig, A1, A2, B1, B2, C1 og C2. Sumir skipta þessu niður enn frekar, þá í A1.1, A1.2 o.s.frv. A1 er byrjendastig, á meðan að C2 er málfærni á við þann sem hefur viðkomandi tungumál að móðurmáli.
Ekki er hægt að taka próf í íslensku sem öðru máli sem er mælt á þennan máta. Þegar þú ert að læra erlend tungumál (þessi helstu a.m.k.) þá geturðu keypt þér kennslubækur sem eru hannaðar út frá því hvaða stigi þú ert á hverju sinni. Þá eru líka gefnar út kennslubækur er varða ákveðin atriði sem þarf að herða á, eins og til að æfa ritun, eða til að skerpa á málfræði sem er talin sérlega flókin, eins og töluorð í pólsku.
Þegar ég byrjaði að læra pólsku notuðu kennarar mínir kennslubók sem var merkt A1-A2 og eftir því sem að leið á námið fór efnið að þyngjast, þá merkt B1 og loks B2. Til þess að fá inn í námið sem ég er í núna þurfti ég að sanna að ég hefði færni upp á B2 og tók ég próf til að staðfesta það.
Til þess að hvetja útlendinga til þess að læra pólsku, þarf enginn sem getur framvísað pappírum því til sönnunnar að kunna pólsku upp á B2 að greiða skólagjöld við pólska háskóla. Háskólagjöld hér eru mishá (það fer eftir upprunalandi hvað þú greiðir, sem og eftir náminu sem sótt er um í).
Eftir því sem ég best veit er það ennþá þannig í Rússlandi að þangað fara margir nemendur frá Suður-Ameríku, Afríku og Asíu, læra rússnesku í eitt ár og læra síðan læknisfræði á rússnesku. Rússneska menntamálaráðuneytið bauð lengi vel upp á námsstyrki, misríflega, handa nemendum frá öllum heiminum. Ég fékk slíkan styrk á sínum tíma þegar ég fór til Rússlands í seinna skiptið. Styrkurinn var þannig að mér bauðst að gera allt á sömu kjörum og rússneskir nemendur, auk þess sem að námsgjöld voru felld niður. Heimavistir, misgóðar, eru ennþá stór þáttur af lífi háskólanema í Rússlandi og er tekið mið af því að geta boðið öllum þeim sem ekki eru frá þeirri borg sem skólinn er í pláss á heimavist. Þetta var 2014-2015 og greiddi ég heilar 20.000 krónur fyrir einn vetur á vistinni. Hvernig vistin sjálf var er síðan auðvitað efni ekki bara í pistil heldur heila bók.
Mikið hefur verið rætt um það átak (ekki breytingar, þær eru dýrari og hljóma ekki sexí) í að efla íslenskukennslu þeim sem hafa annað móðurmál. Ekki man ég í fljótu bragði hver upphæðin var, né hvernig henni verður nákvæmlega varið. Vitað er að það þarf að stórauka framboð á því námi sem er í boði, auk þess sem mikill skortur er á kennsluefni. Slíkt efni er heldur ekki gripið úr tóminu, heldur fer mikil vinna og mikill tími í að búa slíkt til. Þá þarf líka að hafa í huga markhóp (t.d. ólíkan aldur, ólíkan uppruna) og tilgang (við hvað vinnur fólk, hver er sá fagorðaforði sem það notar við störf sín).
Þegar að ljóst varð að Úkraínubúar myndu ílengjast í Póllandi var sett fjármagn í að bjóða upp á pólskunám, kennt af háskólamenntuðu fólki, sem myndi auðvelda Úkraínubúum að vinna þjónustustörf. Þó svo að málin séu með margt líkt þá er líka mikill munur á þeim, bæði hvað varðar málfræði og framburð vissra hljóða.
Í pólsku er t.d. stafurinn ‘ł’ sem hljómar eins og ‘wh’ í enska orðinu ‘what’. Austurslavnesk mál (rússneska, úkraínska og belarús (áður hvítrússneska)) hafa ekki þetta hljóð, og bera það fram eins og ‘l’ í orðinu langur. ‘Ég var’ fyrir karlkynsmælanda á pólsku er ‘byłem’ en á rússnesku ‘ja bil’. Endingin -en markar sögnina sem karlkyn, auk þess sem að allar persónur (ég, þú, hann/hún, það, við, þið, þeir/þær/þau) hafa sérstaka mynd í pólsku, þannig að málvenjan er slík að persónufornafninu er allajafna sleppt. Til þess að segja ‘ég er’ er því nóg að segja ‘jestem’ en ekki ‘ja jestem’. Austurslavneskumælandi fólk gleymir oft að bæta við endingu sem markar kyn í pólsku, auk þess sem að það sleppir ekki persónufornafninu sem er óþarft.
Ég man líka eftir því þegar ég gerði tilraun til þess að búa í Þýskalandi 2017 (áður en ég gerði mér grein fyrir því hvað Þjóðverjar færu í taugarnar á mér) að þá voru þýskuskólar úti um allt. Þeir buðu upp á námskeið frá morgni fram á kvöld, á öllum stigum og þannig gastu alltaf fundið þér námskeið sem hentaði þinni færni óháð því hvernig þú varst að vinna. Einnig gastu fengið námsgjöld endurgreidd með því að ná stigsprófi hverju sinni. Þannig er hægt að búa til hvata til þess að fólk sé ekki bara að mæta heldur læri líka.
Íslenskunámskeið heima geta kostað allt frá 35.000 – 50.000 og yfir. Réttlæta má kostnaðinn á ýmsan hátt, enda sjálfsagt að greiða fyrir kunnáttu og færni góðra kennara. Ef ég kæmi hinsvegar frá landi þar sem að þetta væru mánaðarlaun eða hátt í þau þá myndi ég hinsvegar þurfa að hugsa mig tvisvar um því þá væntanlega vildi ég heldur senda þennan pening heim. Oft er hægt að fá endurgreiðslu frá stéttarfélagi en þar er líka þak á kostnaðarþátttöku. Að læra erlent tungumál er vinna og persónulega finnst mér sjálfsagt að komið sé til móts við fólk með þeim hætti að það geti fengið kennslu á vinnutíma. Fólk er misnæmt á líf annarra en ef ég vinn líkamlega krefjandi vinnu (eins og flest þau störf sem að erlent fólk vinnur við heima á Íslandi) og á síðan eftir að koma heim og vinna þriðju vaktina þá er lítil orka eftir í nám.
Hægt er að taka stöðupróf eftir evrópska tungumálarammanum í ensku, þýsku, frönsku, ungversku, ítölsku, pólsku, rúmensku, búlgörsku, serbnesku, slóvakísku, rússnesku, króatísku, spænsku, hebresku, dönsku, hollensku, finnsku, grísku, norsku, sænsku, portúgölsku, úkraínsku og tyrknesku. Smámál eins og katalónska, baskneska, velska og lúxemborgíska bjóða einnig upp á próf.
Ég man eftir því að lesa athugasemd á Facebook frá manneskju sem kvartaði yfir tregðu útlendinga að læra íslensku því þegar þessi manneskja flutti til Noregs varð hún að læra norsku strax. Það er töluverður munur á því að kunna íslensku, læra síðan norsku og að tala pólsku eða tælensku og þurfa að læra íslensku. Ég er þeirrar skoðunnar að erfið tungumál séu ekki til, þau eru hinsvegar mistímafrek og þarf hver og einn meiri tímafjölda eftir eigin móðurmáli til að tileinka sér það. Síðan þarftu e.t.v. að kynna þér nýtt ritmál, svo getur líka verið að þú sért ekki læs ef að þú kemur frá stríðshrjáðu landi, eða landi þar sem að skólaganga er ekki sjálfsögð.
Hér að ofan skrifaði ég að oft væri ég spurður hvers vegna ég væri að læra pólsku. Þegar ég var tvítugur fór ég sem sjálfboðaliði til Póllands á vegum European Voluntary Service, Sjálfboðaliðaþjónustu Evrópu. Á þeim tíma (fyrir næstum 15 árum síðan) var verkefnið 100% fjármagnað af ESB. Ferðakostnaður var greiddur, sem og fæði og uppihald. Öll þau samtök sem tóku þátt og fengu til sín sjálfboðaliða máttu ekki gera neinar kröfur til þeirra er varðaði tungumálakunnáttu, þjóðerni, uppruna, kyn eða kynhneigð til þess að koma í veg fyrir mismunun. Verkefnið sem ég var í var á vegum samtaka sem m.a. sáu um að veita þeim sem höfðu verið í vinnu-og fangabúðum nasista félagslega aðstoð. Upphaflega voru samtökin stofnuð eftir að múrinn féll til þess að auðvelda þeim sem áttu á því rétt að sækja um bætur til þýska ríkisins.
Einn dag í viku fór ég á skjalasafn samtakanna en búið var að reikna út að hillumetranir, sem voru pakkaðir, samanlagðir væru um 12 kílómetrar. Einn dag í viku fór ég á dvalarheimili sem hafði verið opnað sérstaklega fyrir þau sem höfðu verið í vinnu-og fangabúðum. Tvo daga í viku var ég á skrifstofu samtakanna að vinna við þýðingar og einn dag í viku var ég heimsóknarvinur hjá eldri konu, frú Barböru.
Föðurfólk frú Barböru kom úr stétt heldra fólks. Faðir hennar hafði lært læknisfræði í Sankti Pétursborg fyrir 1918, þegar Pólland var ekki til á landakortum og Varsjá tilheyrði Rússlandskeisara. Heima hjá henni var alltaf töluð franska og fór ég reglulega fyrir hana á franska bókasafnið til að skila bókum og ná í aðrar. Þegar ég kynntist frú Barböru þá var hún 88 ára gömul og vann ennþá fyrir sér sem lögfræðingur. Auk pólsku og frönsku talaði hún reiprennandi ensku, sem var mjög sjaldgjæft fyrir hennar kynslóð. Hún hafði aldrei giftst eða eignast börn en systir hennar, sem þá var látin hafði verið gift og átti nokkra afkomendur sem komu til frú Barböru af og til. Systir hennar hafði á sínum tíma verið send í vinnubúðir í Þýskalandi ekki langt frá Danmörku. Þegar það fór að halla undir lok stríðsins og nasistar fóru að leggja allt kapp á að leysa upp búðirnar var systur hennar ásamt öðrum troðið á pramma sem var síðan siglt út á haf. Öllum var ýtt út af og var ætlunin að láta þau drukkna. Nasistum var mjög hugleikið hvernig mætti drepa sem flesta á sem skemmstum tíma en á sama tíma þurftu þeir líka að losa sig við líkin. Allt slíkt var látið lönd og leið á þessum tímapunkti og bara hugsað um afköst. Systir hennar, eins og hún, hafði hinsvegar hlotið mjög góða menntun og kunni að synda. Ásamt örfáum öðrum náðu þau að synda til lands í Danmörku þar sem að þau voru falin af dönskum bændum í nokkra mánuði þangað til að Þýskaland gafst upp.
Á pappírum heimsótti ég frú Barböru til að veita henni félagsskap. Í hennar huga var ég hinsvegar að koma til hennar til að læra pólsku og fyrir hverja heimsókn varð ég að læra eitt ljóð (yfirleitt ferskeytlu) utanað og fara með fyrir hana. Við töluðum oft og mikið um ljóð og bækur. Fallegasta tungumál í heimi var franskan en það næstfallegasta var rússneskan, þó svo að Rússar væru upp til hópa djöflar og Stalín var Satan.
Úr varð að ég skráði mig í rússnesku þegar ég fór aftur heim til Íslands. Nú fara að verða 9 ár síðan ég útskrifaðist úr rússnesku í HÍ og er hún ennþá að opna mér dyr. Á eftir ensku er mest gefið út af fræðiritum á rússnesku. Ég hef getað notað rússnesku þegar ég ferðaðist í Moldavíu, Georgíu og Úkraínu. Mér finnst svolítið erfitt að tala hana í dag, rennur oft saman við pólsku sem ég tala dags daglega en ég get ennþá lesið og skil allt sem er sagt. Mig langaði aftur í nám eftir Covid og vegna stríðsins á milli Rússlands og Úkraínu var ekki fýsilegt að fara þangað aftur. Dags daglegt líf í Rússlandi er líka svo slítandi og eftir því sem að ég verð eldri verð ég vandfýsnari á hvað ég vil og nenni að eyða orku minni í.
Ég sótti um nám í rússneskum fræðum í Turku í Finnlandi og svo pólskunám hérna í Poznań. Ég fékk að vita með tveggja vikna fyrirvara að ég hafði fengið inn í Finnlandi en það segir enginn upp í vinnu og pakkar öllu saman, flytur erlendis og kemur sér fyrir á tveim vikum. Háskólinn hérna í Poznań gaf mér svar um leið og hafði ég allt sumarið til að klára að vinna, koma hingað, kynnast borginni og finna mér íbúð.
Mér finnst slavnesk mál mjög falleg, auk þess sem að þau eiga mikla og ríka bókmenntahefð. Mjög lítið hefur verið þýtt úr pólsku yfir á íslensku, eitthvað sem ég vonast til að geta lagað þegar að náminu líkur.
Ég minntist á hér að ofan að það skiptir máli hvaða mál þú hefur að móðurmáli, hversu auðvelt það verður þér að tileinka þér erlent mál. Þetta hefur ekki eingöngu með orðaforða að gera (norska og íslenska, pólska og úkraínska) heldur einnig málfræði.
Tökum sem dæmi málfræðileg föll. Þegar ég byrjaði að læra rússnesku á sínum tíma (þar eru föllin 6) þurfti kennarinn ekki að útskýra fyrir okkur hvað föll væru, né til hvers þau eru notuð. Föll eru notuð til þess að marka hlutverk vissra orðhluta í setningu. Hér er dæmi:
Ég borða matinn.
Matinn borða ég.
Við vitum alltaf hvað það er sem framkvæmir gjörðina (sá sem er í nefnifalli, ég) og hvað verður fyrir henni (maturinn, eða það sem er í þolfalli). Í íslensku notum við líka föll með hreyfingu, ég fer í skólann (þolfall) og þar er ég í skólanum (þágufall). Hérna markar þolfall áfangastað, þágufall eiginlega staðsetningu.
Föll geta breytt merkingu setningar:
Ég fer með Eggerti (þágufall) í bíó. = Einhver og ég förum saman í bíó.
Ég fer með Eggert (þolfall) í bíó. = Einhver heldur á mér í bíóið.
Þegar ég var að kenna íslensk í Kína þurfti ég að eyða töluverðum tíma í að útskýra fyrir þeim hvað fall væri og til hvers það er notað. Þegar ég var að læra pólsku fór heil vika í að útskýra föll því að samnemendur mínir frá Kína, Tævan og Tyrklandi töluðu mál þar sem að föll eru ekki til.
Viðtengingarháttur er ekki til í slavneskum málum, þ.m.t. pólsku.
Setningin ‘ég færi ef ég gæti’ er fallegri en ‘ég myndi fara ef ég myndi geta’ (eða eins og sumir segja ‘ég mundi fara ef ég mundi geta’ og eins og Auður heitin Haralds þá vil ég drepa þennan Munda). Viðtengingarháttur ætti að bera annað heiti, eins og óskháttur, sem er meira lýsandi. Viðtengingarháttur er að deyja út smám saman en það er náttúrulögmál tungumála að þau leitast við að einfaldast og styttast.
Á pólsku eru til orðin ‘zwierciadło’ og ‘lustro’, bæði þýða þau spegill. Fyrra orðið er slavneskt, dregið af sögninni ‘zerkać’, sem merkir að kíkja, og viðskeytinu ‘-dło’ sem notað er til að breyta sögnum í nafnorð. ‘Lustro’ kemur hinsvegar úr ítölsku og merkir skin eða ljómi. Pólverjar segja alltaf ‘lustro’ – vegna þess að það er styttra. Orðið ‘zwierciadło’ er eingöngu notað í eldri textum og ljóðum.
Ég hef áður skrifað um málfræðihugtakið ‘horf’ í slavneskum málum. Horf eru ekki til í íslensku og þurfum við að lengja setninguna til að koma álíkri merkingu til skila. Dæmi:
‘Robiłem’ = ég gerði (en kláraði ekki).
‘Zrobiłem = ég gerði (og kláraði það).
Í suðurslavneskum málum eins og þeim sem eru töluð á Balkanskaganum er til sérstök tíð sem kallast aorist, eða óklár tíð. Hún er notuð til að sýna að eitthvað var gert, hvort það var klárað eða ekki skiptir ekki máli. Hún væri því viðbót við dæmið hér að ofan.
Pólska hefur sjö föll, rússneska sex. Umfram íslensku hafa bæði málin svokallað tækisfall (notað til að marka það sem þú ert að nota, eða í pólsku til að marka ástand).
Á íslensku segjum við:
‘Þetta er niðurstaðan’, hér er ‘niðurstaðan’ ástand sem rætt er um og á íslensku stendur orðið í nefnifalli. Á pólsku segjum við ‘To jest wynikiem’ þar sem að orðið ‘wynik’ eða ‘niðurstaða’ bætir við sig ‘-iem’ sem merkir tækisfall. Á sama tíma er enginn greinir í pólsku, þannig að ég get ekki sagt ‘bíllinn’ heldur verð ég að segja ‘þessi bíll’ til að tilgreina ákveðinn bíl.
Mörg tungumál eru það sem kallað er ergatíf. Til að útskýra hvað það er þurfum við fyrst að vita muninn á áhrifs-og áhrifslausum sögnum. Áhrifssagnir í íslensku stjórna falli andlags. Áhrifslausar sagnir annaðhvort segja fulla sögu eða þeim fylgir nafnorð í nefnifalli.
Dæmi:
‘Ég skrifa sögu’. – Hér er sögnin ‘að skrifa’ áhrifssögn því hún stýrir falli orðsins sem fylgir, ‘saga’ er hér í þolfalli.
‘Það snjóar’. – Sögnin ‘að snjóa’ er áhrifslaus, hún hefur ekki áhrif á neitt nafnorð. Hún segir allt sem segja þarf.
‘Hann er góður maður’. – Sögnin ‘að vera’ er líka áhrifslaus, því ‘maður’ er hér í nefnifalli.
Í ergatífskum málum er gerandi setningar þar sem áhrifssögn er notuð, t.d. ‘ég’ í ‘ég skrifa sögu’ sérstaklega markaður.
Á Kákasus-svæðinu, sem telur sjálf Kákasusfjöllin og löndin sem liggja að þeim eru töluð yfir 50 tungumál. Á landsvæði sem er tæplega fimm sinumm stærra en Ísland. Í Rússlandi búa 193 þjóðir sem tala sín á milli 270 tungumál og mállýskur.
Á eftir kristni er íslamstrú þau trúarbrögð með flesta fylgjendur í Rússlandi. Þegar ég var í Rússlandi í seinna skiptið fór ég í nokkra daga til Kazan, höfuðborgar sjálfsstjórnarhéraðsins Tatarstan, sem dregur nafn sitt af Töturum, þjóðinni sem þar býr.
Þegar Rússar tóku yfir Krímeaskagann var tekin sú ákvörðun að gera krímeatatörsku og rússnesku að opinberum tungumálum ásamt rússnesku. Ein af þeim forsendum sem Rússar gáfu fyrir því að sölsa Krímeaskagann undir sig var að rússneskumælandi Úkraínubúar væru kúgaðir af stjórnvöldum í Kænugarði og væri meinað að tala rússnesku (sem var einfaldlega ekki satt).
Í Úkraínu er úkraínska eina opinbera tungumálið. Lögin sem styðja úkraínsku eru hinsvegar ekki eldri en síðan 2019 og voru þau sett til að hjálpa úkraínsku og viðhalda henni. Lög „gegn“ rússnesku voru sett eftir seinni innrás Rússlands inn í Úkraínu 2022 þar sem að Rússum var bannað að prenta efni á rússnesku nema þeir væru úkraínskir ríkisborgarar og innflutningur á rússneskum bókum frá Rússlandi og Bélarús var einnig bannaður.
Þegar Rússar setja lög þar sem að úkraínska og krímeatatarska eru gerð að opinberum tungumálum var það aðallega varnagli til að forðast þá gagnrýni sem þeir höfðu sjálfir sett fram varðandi tungumálastefnu Úkraínu sem hefur vissulega verið breytileg með árunum. Á árunum fyrir stríð var markmiðið hinsvegar að styrkja úkraínsku en ekki veikja stöðu annarra mála.
Síðan er eitt að setja lög og annað að framfylgja þeim. Við inngang byggingar Krímeaþingsins er gylltur platti sem útlistar tilgang þingsins á þrem tungumálum, krímeatatörsku, úkraínsku og rússnesku. Hinum megin er hinsvegar platti til minnis um það þegar Krímeaskaginn var loksins aftur sameinaður Rússlandi, eingöngu á rússnesku.
Fimm árum eftir að Krímeaskaginn var hernuminn af Rússlandi hafði fjöldi barna sem fékk menntun á úkraínsku dottið úr 12.000 niður í 318. Yfirvöld bera það fyrir sig að þetta sé vegna áhugaleysis foreldra sem verða að sækja um það sérstaklega að barnið sitt fái menntun á öðru máli en rússnesku.
Á sama tíma hefur fjöldi nemenda sem fá menntun á krímeatatörsku verið stöðugur. Þegar þetta er skoðað nánar kemur í ljós að fjölda kennslustunda sem fer fram á krímeatatörsku hefur verið fækkað úr 5 í 6 og fögum á rússnesku fjölgað á móti. Þegar Krímea var ennþá undir Kænugarði gafst nemendum tækifæri á að ljúka landsprófi á krímeatatörsku, nokkuð sem lög Rússlands banna alfarið. Stefna Rússlands í minnihlutatungumálum er að letja til notkunnar á þeim í stað þess að banna þau. Þá er sagt við þá foreldra sem sækja um kennslu á máli öðru en rússnesku fyrir börn sín, að hvorki aðstaða né kennsluefni sé í boði, auk þess sem sálrænt álag á börnunum sé of mikið.
Ennþá eru á lífi Tatarar á Krímeaskaganum sem muna eftir því þegar þjóðin var flutt nauðungaflutningum (190.000 manns) með lestarvögnum frá Krímeaskaganum til Úsbekistans (40% þeirra dóu í vögnunum eða á árunum rétt eftir að þau höfðu verið flutt). Var það vegna ákvarðannar Stalíns sem var á því að Tatarar höfðu verið hallir undir nasista á stríðstímanum. Þjóðarsál Krímeatatara á Krímeaskaganum á því ekki góðar minningar um valdboð Moskvu.
Hér er mynd af Özbek Hanmoskunni á Krímeaskaganum, byggð 1312:

Í Tatarstan var tatarska skyldufag í skólum og er næststærsta tungumál innan Rússlands með um 4.280.718 málnotendur. Tatarstan hefur verið skrifað með arabísku, latnesku og kyrillísku letri. Vegna athugasemda frá málfræðingum var gerð tilraun 2004 til þess að skipta um ritmál í Tatarstan, á þeim forsendum að kyrillískt letur sé ófullnægjandi til þess að skrifa tatörsku, þar sem að stafi vanti til að skrifa öll hljóð hennar. Moskva greip inn í og beitti neitunarvaldi gegn breytingu ritmáls og setti síðan lög 2017 þar sem að tatarska var gerð valkvæð. Lögin eru tilkomin vegna þess að rússneskumælandi foreldrar voru á móti því að börn sín væru neydd til þess að læra tatörsku á kostnað rússnesku. Þá væri betra að nýta kennslustundir í hagnýtari tungumál eins og ensku, nú eða bara rússneskuna sjálfa. Margir sjá þetta sem prófraun Moskvu í að leggja niður næststærsta mál landsins og takist ráðamönnum í Kremlin ætlunarverk sitt fari þeir eftir öðrum tungumálum. Meira að segja á svæðum þar sem að Rússar eru í minnihluta finnst Kremlverjum að það ætti ekki að krefja þá um að tileinka sér mál meirihlutans.
Stjórnsýslulega séð þá er Rússland sambandslýðveldi eins og Bandaríkin, Þýskaland, Brasilía og Indland – enda heitir það opinberlega Rússneska sambandsríkið. Á árunum eftir fall kommúnismans öðluðust aðildarríkin töluvert meira frelsi en hafði tíðkast á sovéttímanum og höfðu m.a. rétt til að krefjast kennslu á máli ríkja sinna í skólum landsins. Sá réttur var afnuminn 2018.
Í Tatarstan eins og á Krímeaskaganum þurfa foreldrar að sækja sérstaklega um kennslu í tatörsku fyrir börnin sín, en eftir að lögin um afnám á kennsluskyldu málsins var þúsundum kennara sagt upp og erfitt er að fá kennara í dag sem eru hæfir til að kenna málið.
Hér er mynd af Qolşärifmoskunni í Kazan, höfuðborgar Tatarstans, sem ég tók 2015 þegar ég bjó í Jekaterínborg:

Ef næststærsta tungumál Rússlands stendur höllum fæti, hvernig fer með smærri tungumál?
Údmúrtía er lýðveldi innan Rússneska sambandsríkisins og er fyrir norðan Tatarstan, vestur af Úralfjöllunum. Lýðveldið dregur nafn sitt af þjóð sem kallast Údmúrt. Údmúrtar eru í dag um 396.000 talsins, þar af 290.000 í Údmúrtíu. Ólíkt tatörskunni sem töluð er í Tatarstan og er skyld tyrknesku, tala Údmúrtar údmúrtsku, sem telst til úralskra tungumála, eins og ungverska og finnska. Um 270.000 manns hafa údmúrtsku sem móðurmál.
Nemendur geta fengið kennslu í údmúrtsku ef foreldrar sækja sérstaklega um það, að því gefnu að kennarar finnist til þess.
10. september 2019 stóð tungumálaaktivístinn Albert Razín fyrir framan Ríkisráð Údmúrtíu í borginni Ízjevsk. Hann hélt á tveim spjöldum, annað sagði „Ef mál mitt deyr á morgun, er ég reiðubúinn að deyja í dag“ og „á ég föðurland?“. Hann hellti síðan yfir sig bensíni og kveikti í sér. Hann lést af sárum sínum nokkrum klukkustundum síðar á sjúkrahúsi.
Fagurfræði Údmúrta er mjög litrík eins og sjá má á þjóðbúningi þeirra:

Ég á eftir að skrifa meira um Rússland, þjóðir þess og tungumál í framtíðinni.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd