Einu sinni, fyrir mörgum árum síðan, átti ég heima í Moskvu þegar ég var í skiptinámi frá rússneskudeild HÍ. Þegar ég var þar fór ég á nokkur stefnumót með manni sem kom frá sjálfstjórnarhéraðinu Tivu sem liggur að landamærum Mongólíu. Hann bauð mér einu sinni upp á hefðbundið tivískt te og til að halda því til haga er ég ekki mikið gefinn fyrir te.
Uppskriftin er þessi:
5 dl. mjólk
2 tepokar af grænu tei
1 tsk. af ósöltuðu smjöri
1 tsk. af salti
Mjólkin er soðin og teinu bætt við ásamt smjörinu og saltinu og allt hrært saman.
Ég hvet ykkur endilega til að prófa en sjálfur ætla ég aldrei að gera það aftur. Í seinna skiptið sem ég var í námi í Rússlandi var ég að hitta mann frá sjálfstjórnarhéraðinu Basjkortostan og hefðbundinn drykkur frá því svæði var gerjuð kaplamjólk – hvað gerir fólk ekki fyrir ástina?
Maðurinn frá Tivu var mjög trúaður. Hann var hinsvegar ekki í Rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunni eins og megnið af þeim sem búsettir eru í Rússlandi heldur var hann búddisti sem og fjölskylda hans öll og eins og allt að 1.500.000 manns í Rússlandi. Hann hafði lagt það á sig að fara í pílagrímsferð og hitta Dalai Lama þegar hann vísiteraði Helsinki 2011.

Þrjú sjálfstjórnarsvæði í Rússlandi hafa búddista í meirihluta, Kalmykía, Tiva og Búrjatía. Í Tivu búa um 321.720 manns og er höfuðborgin Kyzyl. Líkt og mörg önnur sjálfstjórnarsvæði eiga Tiva-fólk sitt eigið þing, Mikla-Kúral. Kúral er dregið af mongólska orðinu ‘kúríltaj’ (merkir ‘samkoma’) og svo kallaðist herráð Mongóla á tímum Gengis Khans.
Íbúar héraðsins tala sitt eigið mál, tivísku sem er af tyrkískum stofni, eins og tyrkneska. Málið er ríkt af tökuorðum úr mongólsku, tíbetsku og rússnesku. Ekki eru neinir tónar í málinu en áhersla orðs breytir merkingu þess.
Mörg tyrkískt mál (tyrkneska, kasakska, úsbekíska o.s.frv.) eru með orð sem eiga uppruna sinn í persnesku og arabísku en þar sem að Tiva-fólk tók aldrei upp íslamstrú eru engin slík tökuorð í þeirra máli.
Tivíska er í dag rituð með kyrillísku letri eins og rússneska en var til skamms tíma skrifuð með latnesku letri aðlöguðu að málinu (með sérstöfunum Ƣ ƣ, Ɉ ɉ, Ꞑ ꞑ, Ө ө, Ş ş og Ƶ ƶ).
Þangað til að kyrillískt letur var tekið upp var tivíska lengst til skrifuð með mongólsku letri.
Mongólskt letur er sérstakt (fyrir okkur sem notum latneskt letur) að því leiti að það er skrifað að ofan og niður og síðan til hægri.

Þegar Tiva-fólk er spurt hvaða orð í máli þeirra séu óþýðanleg, nefna þeir khöömei, sönghefð sem er nátengd landinu þeirra eins og joik hjá Sömum.
Þá nefna þeir líka hugtakið khoj özeeri, sem lýsir sérstakri aðferð við að slátra kindum. Gerður er skurður á háls kindarinnar og fingrum stungið inn og æðar slítnar í sundur með þeim áhrifum að kindin drepst strax. Khoj özeeri merkir ekki bara slátrun, heldur líka góðverk og gæska.
Ef Tiva-fólk myndi slátra með eggvopni eða byssu, kveða samfélagsleg gildi á um að viðkomandi yrði sakaður um dýraníð.
Þegar Dalai Lama heimsótti Tivu 1992 helgaði hann svæði sem notað var til að byggja klaustur sem var vígt á 2023. Klaustrið er 56 metrar á hæð og nær samstæðan yfir alls 9.3 hektara.

Tiva-fólk er mjög myndarlegt og eru þjóðbúningar þeirra sérlega litríkir.



Með því að smella hér er hægt að sjá klippu af Sainkho Namtchylak, söngkonu frá Tivu syngja khöömei lag.
Tiva hefur einstaklega fallegt landslag, fjöllótt og grænt.
Í farlægri framtíð þegar að losað verður um höldur á túrisma í Rússlandi hefur Rússland allt til þess að verða útivistarparadís:

Ég hef verið að lesa bók um búddamunk frá Búrjatíu sem var sendiherra Dalai Lama við hirð Rússakeisara. Búrjatar þykja mjög friðsamir og hlédrægir og eru nágrannar trúbræðra sinna í Tivu. Í Búrjatíu búa tæplega milljón manns, þar af 32% Búrjatar.
Búrjatar, eins og Tiva-fólk, eru búddistar en aðhyllast einnig andatrú sem var algengasta trúin þangað til á 17. öld og þeir tóku upp búddisma.
Búrjatíska er mongólskt mál, ýmist flokkað sem sérmál eða mongólsk mállýska. Töluverður munur er á orðaforða búrjatísku sem töluð er í Rússlandi, Mongólíu og Innri-Mongólíu (fylki í Kína).
Í Búrjatíu er málið skrifað með kyrillísku en hefur það einnig verið skrifað með latnesku og mongólsku letri.
Búrjatar voru, eins og aðrir á þessum slóðum, mongólskumælandi hirðingjar til að byrja með. Samfélagsskipan þeirra var með því móti að nokkur heimili kölluðust úlús og nokkur úlús mynduðu klan.
Nokkur klön mynduðu síðan ættbálk sem var stærsta stjórnsýslueiningin. Ættbálkurinn var leiddur af svokölluðum tæsja eða zæsjan.
Á þeim tíma sem að almennilegu stjórnsýslulegu skipulagi var komið á í Síberíu árið 1822 voru Búrjatar flokkaðir sem ‘ínorodskí’ í Speranskí-lögunum, eða sem ‘utanaðkomandi’. Það þýddi að þeir voru undanþegnir bæði sköttum og herskyldu, auk frelsis í trúmálum. Þessi lög voru seinna lögð niður og trúboð Rétttrúnaðarkirkjunnar jókst.
Búddismi barst með flóttafólki frá Mongólíu 1720 en í þeim hóp voru 150 lamar, en svo kallast búddískir guðfræðingar sem fengið hafa vissa vígslu. Þessir munkar voru strangir í trúnni og gerðu sitt besta við að berja niður andatrú Búrjata en gekk það ekkert sérstaklega vel.
Damba Darzja Zajajev var Búrjati sem fór 14 ára gamall árið 1724 til Úrga í Mongólíu og seinna til Lhasa þar sem hann bjó í 7 ár.
Hann var vígður sem getsül (munksefni) af Panchen Lama II. og seinna sem gelong (fullgildur munkur) af Dalai Lama VII.
Það er kannski þess virðis að minnast í stuttu máli á Panchen Lama. Panchen Lama er tulku (endurholgun upplýsts kennara sem endurfæðist til þess að kenna áfram og viðhalda þekkingu) innan tíbetsks búddisma (til að einfalda flókinn hlut getum við hugsað um mismunandi skóla búddisma eins og við hugsum um mismunandi kirkjur, þá kaþólsku, lútersku o.s.frv.).
Þetta kerfi endurholgunnar varð til á 13. öld og þekkja flestir til Dalai Lama (sem er æðsti leiðtogi Gelug tíbetskra búddista) – þá eru líka Samding Dorje Phagmos (æðsta endurholgun kvendýrlings í Tíbet, sú sem bar þann titil mátti hafa sítt hár), Khyentse (viss skóli sem kennir „jaðarkenningar“ tíbetsks búddisma sem kenndir eru við skólanna Sakya, Kagyu, Nyingma, Jonang og Bon – þessum skólum var ýtt til hliðar þegar andlegir leiðtogar Gelugskólans urðu líka pólitískir), Zhabdrung Rinpoches (helstu leiðtogar búddisma í Bútan) og Kongtrúl.
Innan tíbetsks búddisma er staða Panchen Lama sú næstæðsta á eftir Dalai Lama.
Damba Darzja Zajajev ræddi við Panchen Lama II. og Dalai Lama VII. um þá hugmynd að stofna klaustur í Búrjatíu. Panchen Lama gaf honum gulan höfuðbúnað sem er einkennandi pandit (kennara) og Dalai Lama gaf honum teikningar að klaustri.

Hann snéri aftur til heimahaganna snemma 1740 klyfjaður fræðiskrollum og helgimyndum. Hann byggði klaustur í tíbetskum-mongólskum stíl.
Fyrir tíbetsk klaustur er einfaldleikinn einkennandi, flöt þök og ferkantaðar byggingar. Klaustur í Tíbet eru oft með þrjár til fjórar hæðir, hver viðbætt hæð smærri en sú sem er undir henni en í Mongólíu eru klaustrin sjaldan öðruvísi en tveggja hæða. Tíbetsk klaustur eru með glugga á þrem hliðum en aldrei á þeirri sem snýr í norður.
Kínversk klaustur eru með þök sem halla og eru gerð úr þakflísum.
Þau eru oftast á tveim hæðum með minni lofthæð en þau sem eru í tíbetskum stíl, en þá mun skreyttari. Gluggarnir eru eingöngu á suðurhlið klaustranna.
Mongólar þróuðu síðar meir eigin stíl byggðan á grunni tjaldbúðanna sem hirðingjar bjuggu í. Klaustrin voru þess vegna sex-eða átthyrnd og úr við eins og tjöld þeirra. Veggir í hirðingjatjöldum voru venjulega úr sútuðu skinni en klaustur voru varanlegar byggingar og því byggð úr við.
Eftir hrun kommúnismans í Mongólíu var notast við sama stíl og áður en byggt var úr steypu eða múrsteinum. Annað sem var lýsandi fyrir mongólskan stíl voru litlar kapellur byggðar við hið eiginlega klaustur með myndum af verndurum klaustursins og altari fyrir fórnir.
Á búrjatísku kallast þessi klaustur datsan sem dregið er af tíbetska orðinu dratsang sem notað er yfir smærri byggingar byggðar utan um aðalbyggingu á klaustursvæðinu. Klaustur Búrjata stóðu saman af eiginlegu klaustri, gistirými og lestrarsal. Lestrarsalur er á búrjatísku dugan, dregið af tíbetska orðinu dukhang sem þýðir samkomusalur.
Á sama tíma og Damba Darzja Zajajev stóð í uppbyggingu á klaustri sínu og trúboði var annar Búrjati að nafni Lubsan Zjimba Akhaldajev að læra dharma, búddíska guðfræði í Da Khüree í Mongólíu. Sá fékk hjálp frá Jebstundamba Khutuktu (æðsta leiðtoga tíbetsks búddisma í Mongólíu) til að byggja klaustur í kínverskum-tíbetskum stíl við Gusinoye Ozero (Gæsavatn) í Búrjatíu. Þannig mynduðust tvær aðskildar sóknir búddisma í Búrjatíu og samkeppnin á milli þeirra var töluverð um tíma.
Eftir siðabreytingar Péturs mikla innan Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar fór það svo að keisarinn hverju sinni réði hver þjónaði æðstu embættum hennar. Á valdatíma Katrínar miklu (sem sölsaði undir embætti keisara kirkjujarðir og kom á föstum launum til presta) reyndi hún að hafa áhrif á það hver gegndi embætti æðsta leiðtoga búddista í Rússneska keisaradæminu.
Damba Darzja Zajajev gerði sér ferð með til St. Pétursborgar til keisaraynjunnar með trúnaðarbréf frá Dalai Lama og Panchen Lama. Þá færði hann henni fréttir frá Kham, Amdo (hvorutveggja landsvæði innan Tíbets eins og við þekkjum landið í dag) og Tíbet. Frá Katrínu fékk Damba Darzja Zajajev viðurkenndan titil sinn sem Khambo Lama (æðsti ábóti búddista í Rússneska keisaradæminu), Katrín bætti um betur og uppfærði titilinn seinna sem „æðsti Pandido Khambo Lama allra búddista við suðurströnd Bajkalvatns.“ Búrjatar trúðu því að keisari eða keisaraynja hverju sinni væri endurfæddur búddískur dýrlingur, hver annar myndi hampa búrjötskum búddistum?
Orðið khambo er mongólskun á tíbetska orðinu khempo sem merkir ábóti. Orðið lama þýðir kennari og pandido er búrjötskun á orðinu pandit í sanskrít sem þýðir gáfaður kennari.
Damba Darzja Zajajev dó 1777, eftirmaður hans var Sadnompíl Kheturkhejev og hélt sá titlinum í þrjú ár. Á sama tíma var maður með eftirnafnið Akhaldajev (mögulega ættingi Lubsan Zjimba Akhaldajev) sem mútaði embættismönnum krúnunnar í Írkútsk til að veita sér leyfi til að vera khambo þó að það gæti bara verið einn khambo allra búddista.
Akhaldajev náði hinsvegar að viðhalda titli sínum og velja sér svo eftirmann.
Eftir þessar vendingar fór það svo að höfuðból búddisma í Rússlandi var í datsaninu við Gæsavatn. Eftir því sem að fleiri tóku upp búddisma fjölgaði dötsunum. 1775 var reist datsan í Aga, og annað í Aga 1811 sem var leiðandi í fræðastörfum og bókagerð. 1826 var byggt annað datsan í Tsúgol. Samkvæmt tölum ríkisins frá 1822 voru alls 19 klaustur/datsön og 2500 lamar en 1846 voru klaustrin orðin 34 og lamarnir 4509.
Miðað við mannfjöldann sem bjó í Búrjatíu og við Gæsavatn þýddi það að einn af hverjum fimmtán íbúum var lama.
Búddamunkar sem stétt unnu ekki hefðbundin störf og þar af leiðandi féll það á leikmenn að halda þeim uppi. Fjölgun munka olli stjórnvöldum í St. Pétursborg töluverðum áhyggjum og varð til þess að lög voru sett 1853 er vörðuðu klerkastétt búddista í Síberíu. Kvóti var settur á trúarstarfsemi sem kvað á um 1 Pandido Khambo Lama, 216 lama, 34 lærlinga/munksefni og 34 klaustur. Lögunum var ekki stranglega framfylgt öðruvísi en að skatleggja „óleyfða“ lama. Árið 1916 voru 16.000 lamar í Búrjatíu, þannig að „óleyfðum“ lömum fjölgaði töluvert eftir að lögin voru sett.
Auk þess að vera trúarleg stofnun, þá voru datsön í Búrjatíu líka fræðasetur. Bókasöfn höfðu bækur og handrit með textum um heimspeki, læknisfræði, guðfræði, stjörnuspeki, bókmenntir, ljóðlist, stærðfræði og sagnfræði. Allir nemendur þurftu að læra mongólsku og tíbetsku, seinna málið var latína búddista. Sum datsön voru svokallaðir tsengi-skólar, þar sem kennd var búddísk díalektík, þ.e.a.s. rökfræði. Þá buðu sum klaustur börnum leikmanna upp á menntun, bæði strákum og stelpum.
Svo ráku sum klaustur það sem kallaðist manba, læknisskóla sem byggðir voru á tíbetskri læknisfræði. Að loknu 4 ára námi var hægt að útskrifast sem manramba, eða læknir. Tveir bræður frá Búrjatíu ráku læknastofu í St. Pétursborg og á meðal sjúklinga þeirra var Nikulás II. Rússakeisari.
Með auknum áhuga á eigin menningu og virðingu fyrir bæði henni og menntun leiddi til þess að til varð búrjatísk menntastétt, intellígensja. Fyrstu fræðimenn (eins og við notum hugtakið í dag) á meðal Búrjata voru Dorzjí Banzarov (1822-1855) og Galsan Gombojev (1822-1863). Banzarov las latínu, frönsku, ensku og tyrknesku við Háskólann í Kazan og varði þar doktorsritgerð sína um andatrú meðal Mongóla.
Gombojev kenndi mongólsku fyrst við Háskólann í Kazan og seinna meir við Háskólann í St. Pétursborg.
Áhugi á meðal fræðimenna á búddisma jókst í evrópuhluta Rússlands þegar fólk áttaði sig á tilvist innfæddra búddista. Þegar Pétur mikli kostaði leiðangra til að leita að gulli í asíuhluta Rússlands komu þeir oft til baka með gripi og handrit búddista. Leiddu þessir fundir til þess að töluverð gróska varð í því sem var þá kallað „austurlandafræði“ (í dag nefnum við þessi fræði eftir tungumálum, trúarbragðafræði, fornleifafræði o.s.frv.).
Áhugi almennings í evrópuhluta Rússlands á búddisma jókst líka, sérstaklega í St. Pétursborg. Fólk var á þessum tíma orðið þreytt á Rétttrúnaðarkirkjunni. Samhliða auknum áhuga á búddisma urðu til tvær hreyfingar; hreyfing Helenu Petróvnu Blavatskí sem við þekkjum í dag sem Lífsspekihreyfinguna, áður kölluð Guðspekihreyfingin og dulspekihreyfing Georgí Ívanóvítsj Gurdéff.
Þetta er menningarlíf sem var til staðar þegar hjónin Dorzjí og Drölkar, trúaðir búddistar, eignuðust son, Avgan Dorzjíev árið 1854. Helstu heimildir bókarinnar sem ég er að lesa eru endurminningar Avgans sem hann skrifaði 1924 á tíbetsku.
Höfuðborg Búrjatíu heitir Úlan-Úde (Rauða Úde), nefnt eftir ánni Úde sem rennur framhjá borginni. Úde rennur líka framhjá Afsagat datsan, tveggja hæða dugan (venjulega merkir það samkomusalur, en í þessu tilviki merkir það skóli). Byggingin var notuð sem munaðarleysingjahæli eftir rússnesku byltinguna og síðar rifin niður 1936. Byggingin var endurreist 1992 úr múrsteini og er í dag aftur datsan.

7 ára gamall byrjaði Avgan Dorzjíev að ganga í skóla og lærði að lesa mongólsku og tíbetsku, auk rússnesku og frönsku. Það voru ekki margir á þessum tíma, á þessu svæði sem töluðu rússnesku aðrir en Rússar sjálfir, meiri metnaður var lagður í að læra tíbetsku sem er erfiðari, og eins og áður sagði mál menntunnar þeirra sem aðhylltust búddisma.
Þegar við tölum um tíbetsku er kannski réttara að tala um tíbetsk tungumál. Það mál sem fólk lærði var klassísk tíbetska.
Hvað gerir klassíska tíbetsku erfiða? Í stuttu máli:
Viðskeytin –po (karlkyn) og –mo (kvenkyn) eru notuð þegar það þarf sérstaklega að taka fram kyn. Viðskeytið –rnams (merkir bókstaflega einstaklingar) eru notuð ef það þarf taka fram fleiritölu lítilla eininga, en þegar um fleiritölu stærri eininga er að ræða (á íslensku notum við orð eins og hjörð, stóð, torfa) er notað viðskeytið –dag (merkir bókstaflega hópur).
Þannig þýðir rnams-dag hópur af einstaklingum, en dag-rnams nokkrir hópar.
Þá hefur klassísk tíbetska 10 föll sem eru merkt með viðskeytum:
1. „Vinnufall“ sem er notað til að merkja sérstaklega frumlag í setningum með áhrifslausum sögnum eða andlag í sögnum með áhrifssögnum.
2. Eignarfall eins í íslensku.
3. „Framkvæmdarfall“ til að merkja þann sem gerir, í íslensku notum við nefnifall.
4. „Staðarfall“ til að merkja hvar eitthvað er.
5. „Markmiðsfall“ til að merkja áfangastað, niðurstöðu eða markmið.
6. „Tímafall“ til að merkja tíma og rúm sem eitthvað tekur stað.
7. „Fylgdarfall“ í stað þess að nota forsetninguna ‘með’ eins og við gerum í íslensku.
8. „Sviftifall“ þjónar hlutverki forsetningarinnar ‘af’ og ‘frá’.
9. „Upprunafall“ til að merkja hvaðan eitthvað kemur.
10. „Samanburðarfall“ til að mynda setningar með frösum „eins og“.
Í stað þess að fallbeygja einstök orð er það gert er í íslensku kemur fallviðskeytið alltaf síðast í hverri setningu.
Þá eru sagnir ekki beygðar eftir tölu en eru beygðar eftir tíðum, nútíð, fortíð, skylduframtíð (þ.e. ekki eiginleg framtíð en gefur til kynna það sem þarf að gerast) og til er boðháttur. Þá geta sagnir líka tekið viðskeyti sem marka virðingu, og eru nokkur virðingarstið (herra, hæstvirtur o.s.frv.) og þá eru margar sagnir til í pörum, venjulegt form og „kurteisislegt“ form.
Ef einhverjum fannst þetta flókið þá bið ég ykkur um hafa í huga að íslenska getur verið einhverjum jafnframandi.
Þegar Avgan Dorzjíev var 14 ára gamall var hann sendur til helgu borgarinnar Úrga, sem við þekkjum í dag undir nafninu Úlaanbaatar, til að hann héldi áfram að mennta sig. Borgin var heilög á þessum tíma sem aðsetur Jebstundamba Khutuktu, sem ég minntist á hér að ofan.
Við gætum sagt að Úrga og Lhasa á þessum tíma hafi haft stöðu í hugum búddista eins og Róm og Jerúsalem í hugum kristinna.
Úrga var í daglegu máli kölluð Jekhe Khüree eða „Mikla Klaustur“.
Borgin myndaðist þegar að klaustur stofnað 1649 sem hafði lengst af hafst við í tjöldum ákvað að finna sér samastað til lengri tíma.
Tjaldað var niður til frambúðar 1779, sem er talið stofnár borgarinnar. Þó svo að klausturbyggingar og aðrar byggingar tengdar trúarstofnunum borgarinnar voru byggðar til að vera, var meirihluti borgarinnar lengst af myndaður af tjaldbúðum.
Á sínum tíma var Mongólía undir Qing-veldinu sem sem stjórnaði frá Beijing og var skipt í Innri-Mongólíu (sem ennþá tilheyrir Kína) og Ytri-Mongólíu (sem við köllum einfaldlega Mongólíu í dag).
Þegar Avgan bjó í Úrga var borgin höfuðborg Ytri-Mongólíu og aðsetur landstjóra Qing-yfirvalda.
Í borginni var líka eitt betra hverfi byggt mongólskum dzasökum, þ.e.a.s prinsum og svo rússneskt konsúlat.
1868 þegar Avgan flutti þangað voru í borginni 28 dratsöng og u.þ.b. 13 þúsund munkar. Flestir íbúar voru Mongólar, auk nokkur þúsund Han-Kínverja sem bjuggu í sjálfskipaðri útlegð undir reglugerðum Lifanyuan, eða Utanríkisráðuneyti Qing á þeim tíma.
Reglugerðir voru með ákvæði sem leyfði Han-Kínverjum að flytja til Mongólíu en eingöngu karlmönnum.
Átti þetta að koma í veg fyrir að mongólskri menningu yrði drekkt í þeirri kínversku (og mögulega komast hjá kynþáttaóeirðum).
Flestir þeirra kvæntust mongólskum konum.
Hjúskaparlöggjöf er varðaði Han-Kínverja á þessum tíma, á þessu svæði, var sérstök en áhugaverð:
1. Þú verður að hlýða Keisaranum í Kína.
2. Þú verður að aðhyllast konfúsíska hugsun. Sérhverri fjölskyldu verður úthlutað líkneski af Konfúsíusi til að halda í heiðri innan heimilisins.
3. Þú verður að vera dygðugur sonur foreldra þinna. Himnaútför (að láta hrægamma éta líkið) og vatnaútför (að sökkva líkinu) auk líkbrennslu er að öllu óheimilaðar. Þegar foreldri nemanda fellur frá er honum leyfð 100 daga fjarvist til að uppfylla skyldur sínar varðandi útför foreldris.
4. Hjónaband þitt verður að standast allar reglugerðir. Hvorki karlar né konur mega gifta sig aftur án leyfis. Öll hjónabönd þurfa að vera skráð og vottuð af Hjónabandsskrá ríkissins.
5. Allar konur verða að taka upp kínverskt eftirnafn.
Til er vitnisburður trúboðans James Gilmour frá 19. öld, mjög litaður af hugarfari evrópskar hugsunnar á þessum tíma sem segir að þarna hafi allt verið „morandi í synd“ þ.e.a.s. trúræknum búddistum.
Honum fannst skelfilegast að horfa upp á alla betlarana sem þarna bjuggu og ernina sem hnituðu hringa yfir borginni og steyptu sér niður eftir hverjum einasta matarbita sem fólk var ekki að fylgjast með.
Þá voru einnig hópar götuhunda sem sáu um að losa borgina við leifar þeirra sem ekki var hægt að greftra.
Svona var borgin þegar Avgan bar hana augum 1868.
Þegar hann flytur til borgarinnar fékk hann í veganesti upasaka-reglurnar, nokkurs konar boðorð sem munks-og nunnuefnum er ætlað að lifa eftir.
1. Ég mun ekki deyða neina skyni gædda veru.
2. Ég mun ekki taka neitt sem mér hefur ekki verið gefið.
3. Ég mun ekki stunda kynlíf.
4. Ég mun ekki ljúga.
5. Ég mun ekki vera undir áhrifum vímuefna.
Kennari hans heima lagði sérstaka áherslu á að hann ætti að halda sig frá áfengi sem hann taldi rót alls ills í heiminum.
Avgan aðhylltist bindindisstefnu alla ævi og prédikaði oft um hættur áfengis.
Tveir menn í Úrga voru hinsvegar alveg lausir við kosti edrúmennskunnar, tvær síðustu endurholganir Jebstundamba Khutuktu sem voru annálaðir syndaselir og nautnaseggir. Sjöundi khubilgan (endurholgun Jebstundamba Khutuktu í mongólsku) var fæddur nærri Lhasa 1850, tilnefndur khubilgan 1851 og flutti til Úrga 1855. Eftir því sem hann varð eldri sýndi hann mikla hæfileika sem myndhöggvari og gerði fallegar buddha rupa.

Þegar hann var 13 ára byrjaði Tsetsen Khan Artased, mongólski amban (samheiti yfir ýmiskonar embættismenn Mansjú-stjórnarinnar innan Kína á þessum tíma) í Úrga, að spilla honum með það fyrir sjónum að komast yfir þá fjármuni sem voru tengdir stöðu khubilgan.
Það kom í ljós að hann var ekki bara endurholgun búddísk dýrlings, heldur hér um bil alla þeirra lasta sem voru í litlum metum hjá heldra fólki, reykti, drakk og stundaði kynlíf.
Eldri klerkum hugnaðist ekki lækkandi siðferði munka í Mongólíu og leituðu á náðir Qing ambans. Sá gaf út tilskipun að refsivert yrðu fyrir alla aðila klerkastéttarinnar að haga sér á óviðeigandi hátt.
Khubilgan svaraði tilskipuninni með því að færa sig yfir í annað klaustur og hélt siðum sínum áfram. Eftir dauða hans stóð yfir sorgartímabil á meðan lesið var í skýin til að leita að næstu endurholgun.
Það var hinsvegar ekki Mongóla að ákveða eitt né neitt sjálfir, lokaorðið um þetta hafði æðsti maður Tíbets.
Sérstöf sendinefnd fór til Fannarríkisins (Tíbets) 1870 þar sem að nýr khubilgan hafði fæðst snemma 1869 í fjölskyldu eins nánasta vandamanns Dalai Lama. Fjölskylda hins nýja khubilgan flutti til Úrga 1874 og fyrstu ár stjórnartíðar hans voru undir árvökum augum móður hans.
Hann gekk skrefinu lengra en forveri sinn og hélt opinberlega uppi tveim hjákonum þegar hann var kominn á unglingsár.
Þrátt fyrir metnaðargjarnt gjálífi náði hann háum aldri og dó 75 ára gamall árið 1924. Þói svo að hann væri þekktur helst fyrir ótrúrækna siði og venjur var hann mikils metinn á meðal þegna sinna og sóknarbarna alla sína ævi.
Samkvæmt heimildum staldraði Avgan stuttlega við í Úrga. Hann var um tíma giftur og talið er að hann hafi eignast með konu sinni eitt barn.
Í skrifum sínum segir hann að hversdagslegt heimilislíf henti sér illa og hann sjái sífellt betur kosti þess að undirgangast frekari vígslur.
Þá segir hann að það lesefni sem kennari sinn í Úrga hafi sett sér fyrir hafi haft mikil áhrif á hann. Hann las Do Zang Lun (Sútra vitra mannsins og heimskingjans; sútra er trúarrit sem er í bundnu máli) rit samanstandandi af 51 svokölluðum jatökum, „fæðingarsögum“ sem sýna hvernig hegðun í einu lífi hefur áhrif á það næsta.
Ef þú varst munkur í Úrga á þessum tíma, hafðir þú aðgengi að frekari fræðslu og menntun innan klaustranna auk þess sem að það var möguleiki fyrir þig að vinna þig upp innan klaustrasamfélagsins.
Rétt eins og páfinn í Róm hefur Vatíkanið og alla þá utanumgjörð sem þar er, þá var svipað uppi á teningnum í Úrga og Lhasa.
Ef honum tækist ekki að lifa eftir boðum og bönnum sem munkur, myndi hann fæðast sem fátæklingur í næsta lífi. En ef hann tileinkaði sér dyggðugt líferni sem leikmaður, myndi hann fæðast inn í góða stöðu í því næsta. Svo mörg voru varnaðarorð frá kennara hans.
Hvert gat ungt munksefni í Úrga sem vildi ganga menntaveginn farið?
Í raun var bara um einn áfangarstað að ræða, Lhasa í Tíbet.
22 ára gamall 1873 lagði hann af stað til Tíbet í föruneyti ábótans Tsjöpel Petzangpo og var áætlaður ferðatími 4 mánuðir ef allt gengi vel. Þeir gengu yfir Góbí-eyðimörkina en þar bjuggu Vestur-Mongólar sem höfðu flutt þangað á 17. öld. Síðasti hjalli ferðarinnar til Tíbet var svo erfiður yfirferðar á þessum tíma að Tíbetar og Mongólar trúðu því að öllum þeim sem kæmust heilir á húfi á leiðarenda væru fyrirgefnar allar syndir sínar.
Lhasa liggur í dalnum Kyi-Chu og er umkringd fjöllum. Ofan á hæð í dalnum trónir síðan Potala-höllin, aðsetur Dalai Lama þangað til að hann flúði til Indlands.

Gamli bærinn í Lhasa er í suðausturhluta borgarinnar og samanstendur af þyrpingu lágreistra húsa sem byggðust upp í kringum Jokhang, musteri frá 7. öld sem var á þessum tíma lýst upp af hundruðum smjörlampa sem fylltu það bæði af birtu og stækju.
Verandi miðstöð trúarlífs búddista var Lhasa þéttbyggð af trúarlegum byggingum ýmiskonar. Þar mátti finna Gyn-tö og Gyumem, tantraháskóla (Íslendingar muna helst eftir því þegar Guðjón Bergmann kenndi fólki að stunda kynlíf á Skjá Einum í þættinum Tantra. Sú skilgreining á tantra er nýtilkomin, tantra en mjög breitt hugtak sem nær yfir kynjafræði, hugleiðslu og guðfræði).
Í suðausturhluta borgarinnar var síðan hverfi múslima með mosku fyrir því miðju. Flestir múslimar voru frá Ladakh og Kasjmír (héruð á Indlandi) og unnu við ýmiskonar iðngreinar, þ.m.t. slátrun þar sem að dráp á dýrum (en ekki kjötát) var bannað þeim sem voru trúræknir búddistar.
Fyrsta vandamál Avgans þegar hann kom til Lhasa var að hann hafði ekki fengið leyfi frá Dalai Lama til að koma til borgarinnar, búa þar og læra. Ekki er vitað hvort að hann hafi sótt um leyfi en fengið höfnun vegna mikillar útlendingaandúðar Tíbeta á Evrópubúum og höfðu yfirvöld í Lhasa bannað öllum þegnum Rússakeisara (sem Avgan vissulega var) að ferðast yfir landamæri sín.
Þá voru mjög hörð viðurlög ef Tíbetar hjálpuðu útlendingum að koma til Tíbets. Vitað er um Tíbeta sem hjálpaði ólöglegum ferðamönnum og var sviptur öllum eignum, saumaður inn í skinnsekk og fleygt í á.
Slík var vanþekking Tíbeta á umheiminum að ólíklegt þykir að Tíbetar hefðu gert greinamun á búddistum frá Búrjatíu og öðrum útlendingum. Tsjöpel Petzangpo vildi að Avgan snéri aftur til Úrga en áður en að því kom innritaði hann sig við Drepungháskólann.
Drepung var stofnaður 1716, var á þessum tíma ein stærsta trúarbygging síns tíma og hýsti þegar mest var 7 þúsund munka. Sagnfræðingurinn Charles Bell tekur sérstaklega fram að það voru Mongólar og menn frá Norður-og Austur-Tíbet sem höfðu það orðspor að vera áhugasömustu nemendurnir og lærðustu kennararnir.
Aðeins þeir metnaðargjörnustu lögðu það á sig að fara til Lhasa.
Með því að fara þangað klipptu þeir á öll fjölskyldubönd (og þar með félagslegan þrýsting um að gifta sig) gátu þeir alfarið helgað sig náminu.
Lengra er ég ekki kominn með bókina.
Byrjað var að kenna mongólsk fræði sem námsgrein í Póllandi upp úr 1950. Áhugi Pólverja á bæði Mongólíu og Mansjú-fólk (Qing keisarar voru ekki kínverskir heldur Mansjú, túngúsískt fólk frá Síberíu) er hinsvegar mun eldri.
Jan Potocki greifi var mikill ferðalangur og ferðaðist alla leið frá Marokkó til Mongólíu. Hann skrifaði bók sem nefnist Ferðalag um hásléttur Astrakhan sem þykir mjög áhugaverð, sérstaklega fyrir fræðimönnum sem stúdera Kalmykíu sem ég minntist á hér að ofan.
Lítið er vitað um Ignacy Wojciechowski, annan mann sem stundaði rannsóknir í fjarlægum málum, annað en að hann fæddist inn í pólska fjölskyldu 1793. Næstu heimildir um hann segja að hann hafi verið læknir trúboðs Réttrúnaðarkirkjunnar í Beijing á milli 1820 og 1823 þar sem hann lærði mandarín-kínversku og mansjú. Hann lærði málin svo vel að hann kenndi þau seinna meir við Háskólann í Kazan. Ævisaga Ignacy Wojciechowski verður áhugaverðari fyrir þær sakir að hún fléttast við ævi og störf Józefs Kowalewski.
Áður en hann varð „faðir mongólskra fræða“ menntaði hann sig í klassískum fræðum, latínu og forngrísku.
Ástæða þess að hann helgaði sig svo fjarlægum málum var vegna þess að hann hafði verið meðlimur Towarzystwo Filomatów, Félags viskuunnenda (filomat er dregið af gríska orðinu φιλομαθεῖς, sá sem elskar vitneskju) sem var leynilegur félagsskapur nemenda við Keisaralega Háskólann í Vilníus sem þá var undir yfirráðum Rússa. Meðlimir félagsins aðhylltust sjálfstæði Póllands, en þær hugmyndir voru með öllu bannaðar af keisaranum. Józef Kowalewski hafði verið sendur í útlegð, fyrst til Kazans þar sem hann las mongólsku og svo til Transbajkalíu (hérað í Austur-Rússlandi sem í dag kallast Búrjatía og Zabajkalskí Kraj) þar sem hann lærði mongólsku. Hann hitti Ignacy Wojciechowski í Beijing þar sem Ignacy hjálpaði honum að læra mansjú.
1833 fór hann til St. Pétursborgar þar sem hann náði öllum prófum og varð síðan prófessor í mongólsku við Háskólann í Kazan.
Józef Kowalewski flutti til Varsjár 1863 og var á þeim tíma orðinn mikils metinn fræðimaður. Hann hafði öðlast frægð fyrir mongólska-franska-mansjú-sanskrít-tíbetska orðabók í þrem bindum sem hann hafði skrifað. Búast hefði mátt við því að með slíkan risa að Varsjá yrði miðstöð mongólskra fræða en svo varð ekki þar sem að engin austurlandafræði voru kennd við háskólann. Þá setti Janúaruppreisnin (þegar Pólverjar risu upp gegn hérnámi Rússa) strik í reikninginn og varð bróðurpartur af skjalasafni Józefs eldi að bráð. Eftir að svo fór byrjaði hann að kenna sagnfræði, með litlum sem engum áhuga að sagt er.
Vera Józefs í Varsjá vakti hinsvegar áhuga fólks á löndum svo langt í burtu. Władysław Kotwicz var ungur maður sem innritaði sig við deild austurlandamála við St. Pétursborgarháskóla 1893.
Þar voru kennd m.a. kínverska og japanska en hann einbeindi sér að mongólsku og mansjú. Þegar hann útskrifaðist 1895 vann hann fyrst í Fjármálaráðuneyti Rússlandskeisara og seinna meir einnig sem kennari við háskólann þar sem hann kenndi mongólsku og mansjú. Ekki leið að löngu þangað til að hann varð deildarforseti. Áhugi hans á þessum tíma var aðallega á tungumáli og þjóðfræði Kalmyka, íbúum Kalmykíu. Hann vann að útgáfu Jangar, hetjuljóði Kalmyka og svo skrifaði hann fyrsta málfræðiyfirlit kalmykískrar tungu. Árið 1912 fór hann í námsferð til Mongólíu þar sem hann fann áður óþekktar áletranir og fornminjar sem urðu til þess að áhugi hans færðist yfir á sagnfræði og sögulega málfræði.
Eftir að hann hætti að starfa við fjármálaráðuneytið fór akademískur frami hans á flug. Hann varð dósent 1917, prófessor 1923 og 1924 fullgildur meðlimur Rússnesku vísindaakademíunnar. Hann var hinsvegar ekki lengur í Rússlandi 1924, vegna þess að eftir að Pólland öðlaðist sjálfstæði sitt eftir seinni heimstyrjöld sótti hann um leyfi til að flytja aftur til Póllands sem var veitt 1923.
Tveir háskólar í Póllandi reyndu að ráða hann til sín, Háskólinn í Kraká og Háskólinn í Lwów (sem í dag er Lviv í Úkraínu). Hann valdi að starfa við þann seinni og var forseti máladeildar Austurlanda fjær sem var stofnuð sérstaklega fyrir hann. Hann kenndi mongólsku og mansjú, auk sögu þar sem hann lagði áherslu á sögu hirðingja. Þegar seinni heimstyrjöld braust út flutti hann til Vilníusar þar sem hann dó 3. október 1944.
Á meðal nemenda hans var Marian Lewicki sem fékk töluverða viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á miðaldamongólsku. Hann bjó í Kraká, var gestakennari í Wrocław og varði doktorsgráðu sína í Varsjá 1949. Hann varð deildarforseti við máladeild þjóða Innri-Asíu sem var komið á fót 1950. Hann réði til starfa Stanisław Kałużyński sem lauk meistaraprófi í Wrocław í tyrkneskum fræðum en einbeitti sér eftir hvatningu frá Lewicki að mongólsku. Kałużyński varð deildarforseti 1964 og fékk stöðu prófessors 1979. Hann er höfundur bókar um málfræði klassískrar mongólsku, þýðandi bókarinnar Leynileg saga Mongólanna og rits um mongólsk tökuorð í jakútsku.
Verk Kałużyński í mansjúfræðum eru talin vera grettistak. Hann þýddi spakmæli í safnritinu Raddir í tjaldinu og þá liggja eftir hann mörg rit um Síbe-fólkið og mál þeirra, sem í dag er talið vera mállýska mansjú. Þegar Kałużyński fór á eftirlaun tók við af honum prófessorinn Stanisław Godziński. Sá hefur einbeitt sér að mongólskum fræðum auk þess að vera frumkvöðull tíbetskra fræða í Póllandi.
Næsti deildarforsetinn var og er prófessor Agata Bareja-Starzyńska. Hún hefur sérhæft sig í mongólskum fræðum en hefur líka stúderað tíbetsku og sanskrít.
Háskólinn í Varsjá býður í dag upp á framhaldsnám á ensku í Innri-Asíufræðum, þar sem nemendur læra bæði mongólsku og tíbetsku. Einn vinur minn kláraði þetta nám og bjó í eitt ár í Mongólíu til að læra málið.
Annars er ýmislegt að frétta frá Póllandi.
Þrátt fyrir að siðir og venjur frá þeim tíma áður en Pólverjar tóku kristni lifi ennþá góðu lífi þá hefur heiðin trú Pólverja verið ósýnileg í gegnum aldirnar. Nú sér fólk hinsvegar aukinn áhuga á Rodzimowierstwo, Ásatrú Pólverja. Rétt eins og önnur trúarbrögð hafa ólíkar greinar (kaþólskan, rétttrúnaðurinn, mótmælendur) þá á það sama við um þessa trú. Til þess að fá opinbera viðurkenningu þurfa hópar fólks sem iðkar þessa trú að skrá sig hjá yfirvöldum. Skráningin veitir fólki réttindi, eins og að taka sér frí frá vinnu vegna trúarhátíða auk þess sem börn þeirra eiga rétt á fræðslu um trú sína í trúarbragðatímum í skólum. Fylgismenn þessa hópa telja samtals 3400 manns.
Rodzimowierstwo er fjölgyðistrú sem byggð er á sambandi við nokkra guði, náttúruna og forfeður hvers og eins. Þá eru athafnir leiddar af żerca, nokkurs konar goða. Samkvæmt Scott Simpson, kennara við Háskólann í Kraká sem sérhæfir sig í nútímaheiðni og siðum í Mið-og Austur-Evrópu er um að ræða endursamsetningu siða og athafna sem einu sinni voru til og notast er við heldur rýrar heimildir um það sem eitt sinn var.
Á meðan að það er skortur á vinnuafli heima á Íslandi og yfirvöld hafa varla undan við að henta fólki úr landi sem vill búa þar hefur fjöldi atvinnuleyfa handa fólki frá Asíu og Suður-Ameríku fimmfaldast á fimm árum og voru um 275.000 árið 2023. Leyfunum fjölgaði sérstaklega eftir 2022 þegar úkraínskum karlmönnum var meinað að yfirgefa landið vegna stríðsins. Þá eru útlendingar frá þessum heimsálfum almennt ánægðir með lífið í Póllandi segir nýleg könnun sem gerð var með 450 manna úrtak. Könnunin segir ekki frá hvaða löndum þátttakendur hennar eru en samkvæmt Vinnumálaráðuneyti Póllands þá hafa flest leyfin verið gefin til Indverja (45.998), Nepala (35.287), Filippseyjinga (29.154) Bangladesa (27.896), Tyrkja (25.934) og Kólumbíubúa (11.945).
75% allra þeirra sem hafa fengið atvinnuleyfi eru karlmenn, 51% á aldrinum 26 til 35 ára, 56% unnu erfiðisvinnu, við byggingarstörf, framleiðslustörf og vöruflutninga. 42% þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðust vera í pólskunámi, 43% sögðust ætla í pólskunám.
52% sögðust tala pólsku í vinnunni.
Pólska ríkið ætlar að verja 5.3 milljörðum króna í að endurnýja heimavistir háskóla víðsvegar um landið. Búið var að selja heimavist sem tilheyrir háskólanum sem ég er að læra við en sú sala var dregin til baka eftir mikil mótmæli nemenda. Þetta var ein af fáum vistum sem eru miðsvæðis í borginni en þær nýju höfðu verið byggðar við borgarjaðarinn. Nemendur sögðu að í dag (ólíkt því sem var á tímum kommúnismans og á tíunda áratug síðustu aldar) yrðu nemendur að vinna með námi. Því skal haldið til haga að allir kennarar mínir hafa líka sagt mér að það var óhugsandi á þeim tíma sem þeir voru í námi að nemendur ynnu því meðfram, nám var full vinna fyrir. Nemendur sögðu að það væri út í hött að sækja tíma í miðbænum, vinna þar og ef þeir þyrftu að fara heim tæki það 45 mín. í lítilli umferð – aðra leið. Ástand bygginganna hefur verið lélegt, enda margar komnar til ára sinna, að 30% rýma eru ónotuð.
Einstaklingsherbergi á heimavist kostar frá 600 (21.000 kr.) zloty til 1.200 (42.400 kr.) zloty. Tekið var viðtal við einn nemanda í heimavistinni sem var seld hérna í Poznań. Hún talar um að það sem var gott við heimavistina var ekki bara staðsetningin, heldur líka verðið. Fyrir eitt rúm í tveggja manna herbergi með eldhúskrók greiddi hún 650 (22.900 kr.) zloty. Þá náði hún líka að spara strætókostnað því hún þurfti ekki að fara of langt til að sækja tíma, en hérna er greitt eftir því hvað fólk fer mörg stopp.
Núna býr hún á annarri vist, án eldhúskróks en greiðir fyrir það 640 (22.600 kr.) zloty. Háskólunum er í sjálfvald sett að ákveða hvað skuli greiða fyrir heimavist. Á annarri heimavist sem var nýlega endurnýjuð kostar einstaklingsherbergi með baði 1140 (40.200 kr.) zloty en einstaklingsherbergi með baði og eldhúskrók 1195 (42.230 kr.) zloty.
Í Póllandi eru um 1.2 milljónir stúdenta en ekki eru til nægar heimavistir til að hýsa nema 10% þeirra.
Frá og með apríl var heimanám nemenda á yngra stigi grunnskóla lagt niður. Þá er stefnt að því að gera það sama fyrir efri stig eftir því sem að tíminn liður. Var þetta eitt af kosningaloforðum núverandi menntamálaráðherra Póllands, Barböru Nowöcku. Þá ítrekaði hún einnig loforð sín um að endursemja aðalnámsskrána, leggja aukna áherslu á gagnrýna hugsun og minni utanbókarlærdóm. Þá var líka lofað að að fækka tímum í kristinfræði og hækka laun kennara.
Ég skal viðurkenna að ég ranghvolfi alltaf augunum í dag þegar ég les gagnrýni á utanbókarlærdómi. Sem dæmi um gagnlegan utanbókarlærdóm má nefna margföldunartöfluna, ártöl og merka viðburði (að muna hvenær eitthvað gerðist setur það í sögulegt samhengi), stafsetningu, landafræðistaðreyndir (þekkja nöfn á ám, höfuðborgum og staðsetningu þeirra), mataruppskriftir og orðaforða í erlendum tungumálum.
Auðvitað er hægt í dag að fletta þessu öllu upp á netinu en það tekur tíma, sérstaklega í dag þar sem að internetið er að fyllast af rusli og er að breytast í eina stóra sölusíðu. Eftir að ég hætti að nota Google sem leitarsíðu mundi ég eftir því hvernig internetið var, upplýsingar en ekki auglýsingar.
Barbara sagði enn fremur að vonin væru sú að þetta minnki álag á nemendur og breyti samverustundum fjölskyldunnar þegar allir eru komnir heim á daginn; í stað þess að eiga eftir klukkutíma af heimanámi geti fjölskyldan notið þess að vera saman. Þá á að fá sérfræðinga til þess að gera breytingar á aðalnámsskrá, það verði ekki hennar einkaákvörðun hvað verði tekið út og sett inn. Síðan er stefnt að því að breyta kristinfræði þannig að tímarnir séu annað hvort þeir fyrstu eða síðustu þann daginn, þannig að nemendur sem ekki vilja taka þá tíma geti sofið lengur eða farið fyrr heim.
Þá er gert ráð fyrir því að hækka laun kennara um 30-33% á þessu ári en laun nýrra kennara í Póllandi eru með þeim lægstu í Evrópu, eða 130.400 á mánuði.
Afnám heimanáms sem og breyting á námsskrá eru líka hluti af auknum kjörum kennara. Kennslustundum er ekki fækkað og hafa þeir því meiri tíma til að fara yfir minna námsefni.
Varnarmálaráðuneyti Póllands og Menntamálaráðuneyti Póllands hafa sameinað krafta sína til að útbúa verkefni þar sem hermenn heimsækja skóla til að kenna börnum hvernig þau eigi að vera viðbúin neyðarástandi. Rúmlega 3.000 skólar hafa skráð sig til þátttöku í verkefninu þar sem að hermenn eru með þrjár kennslustundir yfir sex vikna tímabil þar sem þeim er kennd fyrsta hjálp, hvar er hægt að finna neyðarskýli og hvernig skuli haga sér í neyðarástandi.
„Öryggi er ekki bara að hafa vel útbúinn her, heldur líka að hafa samfélag sem er til alls viðbúið,“ er haft eftir varnarmálaráðherra Pólands, Władysław Kosiniak-Kamysz.
Eftir innrás Rússa inn í Úkraínu hefur Pólland aukið töluvert við varnir sínar og lagt meira kapp á að vera viðbúið komi eitthvað upp á. Af öllum aðildarríkjum NATO ver Póland hæstu upphæð af landsframleiðslu sinni til varnarmála, eða 4%.
Þá hefur Útlendingastofnun Póllands hannað sérstakt app, Refugeebook, til að hjálpa þeim sem sótt hafa um hæli í landinu. Appið er aðgengilegt á pólsku, ensku, rússnesku og úkraínsku og þar má finna upplýsingar um réttindi og skyldur, aðgengi að skjölum sem þarf að skila inn til að fá hæli og hvar sé hægt að finna félagslega aðstoð og heilbrigðisþjónustu.
Þá má einnig finna þar fróðleik um sögu og menningu Póllands. Hver sá sem hefur sótt um hæli í Póllandi getur fengið aðgang að appinu.
Ég hef það ekki lengra í bili.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd