Í tengslum við lokaritgerðina sem ég er að skrifa þessa dagana hef ég verið að lesa mér til um það hvað hefur verið þýtt af íslenskum bókmenntum yfir á pólsku og svo omvent af pólskum bókmenntum yfir á íslensku.
Kannski kemur það á óvart í ljósi þess hversu margir Pólverjar búa á Íslandi en það er töluverður hörgull á þýðingu úr pólsku yfir á íslensku. Margt býr þar eflaust að baki, forvitnisskortur í garð Pólverja, fordómar í garð Pólverja og Póllands sem og skortur á þýðendum úr pólsku yfir á íslensku.
Tveir menn, Geirlaugur Magnússon (f. 25. ágúst 1944 – d. 16. september 2005) og Þrándur Thoroddsen (f. 17. júní 1931 – d. 13. janúar 2010), eru þeir sem mestu hafa áorkað í þýðingum úr pólsku.
Þrándur Thoroddsen hóf nám í kvikmyndastjórn við Kvikmyndaháskólann í Łódź (sama háskóla og Roman Polanski, Andrzej Wada) 1959 og lauk þaðan prófi 1966. Meðfram námi sínu á árunum 1963-1966 vann hann sem kvikmyndagerðarmaður hjá Kvikmyndastofnun pólska ríkisins.
Łódź hefur löngum verið vinsæl námsborg hjá þeim sem hafa viljað stúdera eitt og annað tengt kvikmyndagerð. Lengi vel var þar eina deild pólsku handa útlendingum, en útlendingar komu til Póllands helst til að læra kvikmyndagerð.

Fólk á aldri við mig (fæddur 1989) og eldra man eflaust vel eftir bæði Prúðuleikurunum og Smjattpöttunum en Þrándur þýddi þá fyrri sem sjónvarpsþætti og þá seinni sem barnabækur. Þá var það Þrándur sem byrjaði að þýða barnabækur eftir Roger Hargreaves en þær fyrstu komu út 1980 undir titlunum Herra Draumaóri, Herra Hnýsinn, Herra Kjáni, Herra Skellur, Herra Subbi og Herra Sæll.
Mjög skemmtilegt viðtal við Þránd frá 1984 má lesa á Tímariti.is – hér um bil einn kaffibolli á lengd.
Þrándur þýddi úr pólsku sjálfsævisöguna Píanóleikarinn: endurminningar frá Varsjá 1939-1945 (pól. Pianista. Warszawskie wspomnienia 1939-1945) eftir Władysław Szpilman árið 2004. Sú bók kom fyrst út árið 1946 undir titlinum Dauði borgar (pól. Śmierć miasta).
Sú bók var grunnur kvikmyndar The Pianist eftir Roman Polanski.
Þá þýddi hann líka sjálfsævisöguna Myrkur örvæntingar, birta vonar (pól. Drogami rozpaczy i nadziei) árið 1998 eftir Stanisław Laskowski sem var lengi vel aðalræðismaður Íslands í Póllandi.
Hann þýddi ljóðasafnið Stjarnan og fjörðurinn sem kom út árið 2007.
Fyrsta leikritið sem Þrándur þýddi, ásamt Bríeti Héðinsdóttur, og sett var á svið var Tangó (pól. Tango) eftir Sławomir Mrożek árið 1967 sem Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi sama ár. Þá þýddi Þrándur líka leikritið Meðgöngutími (pól. Szczęśliwe wydarzenie) árið 1973 fyrir Leikfélag Reykjavíkur og var sú leiksýning frumraun Hrafns Gunnlaugssonar sem leikstjóra en hann var þá nýkominn heim úr námi frá Svíþjóð.
Þrándur þýddi líka leikrit úr pólsku, Hettan eða dauðinn í skömmtum (pól. Czapa, czyli śmierć na raty) fyrir Ríkisútvarpið árið 1973. Eftir því sem ég best fæ séð var það aldrei sett upp. Mrożek hefur verið vinsæll á Íslandi en fyrsta leikritið eftir hann var Á rúmsjó (pól. Na pełnym morzu) sem Bjarni Benediktsson frá Hofteigi þýddi 1967, líklegast úr sænsku.
Geirlaugur Magnússon nam slavnesk mál í Varsjá 1968-1970. Auk þess sem hann orti eigin ljóð (17 bækur alls á árunum 1974-2005, sem og safnbókin 100 ljóð sem gefin var út 2019) þá var hann mikilvirkur ljóðaþýðandi. Árið 1993 var gefin út eftir hann safn ljóðaþýðinga sem nefnist Í andófinu: pólsk nútímaljóð. Í því safni þýðir hann ljóð m.a. eftir Zbigniew Herbert, Tadeusz Różewicz, Wisłöwu Szymborsku og Ewu Lipsku. Árið 1992 voru birtar eftir hann ljóðaþýðingar í tímaritinu Ský.



Meira af verkum Ewu Lipsku hafa verið þýdd yfir á íslensku en ekki beint úr pólsku eftir því sem að ég best veit, nema þau sem þýdd eru af Olgu Holowniu og gefin voru út af forlaginu Dimmu í bókinni Neyðarútgangur: ljóðaúrval 1967-2015. Þýðendur eru Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson, Olga Holownia og Óskar Árni Óskarsson. Olga Holownia er pólsk og var tekið mjög áhugavert viðtal við hana 2016 þar sem hún m.a. ræðir að þýða yfir á tungumál sem ekki er hennar móðurmál.
Þá komu einnig út bækurnar Endir og upphaf (pól. Koniec i początek) eftir Wisłöwu Szymborsku árið 1999 og síðan Lágmynd (pól. Płaskorzeźba) eftir Tadeusz Różewicz árið 2004, báðar í þýðingu Geirlaugs.
Þegar ég var kominn á kaf í grúsk á Tímarit.is til að athuga hvað væri búið að skrifa um Pólland á íslensku rak ég augun í gamalt almanak þar sem að önnur heiti eru notuð yfir íslenska mánuði. Þá er ég ekki að tala um ýli, þorra, góu o.s.frv. heldur allt önnur heiti:
Janúar er miðsvetrarmánuður.
Febrúar er föstugangsmánuður.
Mars er jafndægramánuður.
Apríl er sumarmánuður.
Maí er fardagamánuður.
Júní er nóttleysumánuður.
Júlí er maðka- eða miðsumarsmánuður.
Ágúst er heyannamánuður.
September er aðdráttamánuður.
Október er slátrunarmánuður.
Nóvember er riðtíðarmánuður.
Desember er skammdegismánuður.
Það er vissulega smekksatriði, en mér finnst nóttleysa mun ljóðrænna nafn heldur en júní.
Gömul pólsk þjóðsaga heitir „Illindi milli febrúars, mars og maí“.
Mars bauð til sín febrúar í kvöldmat. Febrúar segir við maí:
– Hvernig kemst ég til hans?
Maí svarar:
– Farðu í kerru, taktu svo með þér sleða, eintrjáning og kött.
Þannig lagði svo febrúar af stað í kerru. Mars heyrði af því og byrjaði þá um leið að láta kyngja niður snjó. Febrúar settist á sleðann og hélt áfram. Þegar mars sá það kom hann af stað svo miklu skýfalli að halda mætti að Nóaflóð ætti sér stað aftur. Febrúar settist um borð í eintrjáninginn, hélt áfram og komst svo á áfangastað. Mars sá það og sigaði á febrúar hundi sem átti að glefsa í hann. Við það sleppti febrúar kettinum og hundurinn elti hann í staðinn. Febrúar var þá kominn að koti mars. Mars hinsvegar hellti sér yfir maí að hann hefði gefið febrúar þessi ráð.
– Bíddu bara, maí – segir mars – ég skal svíða öll þín laufblöð.
– Hafðu þig hægan, vitleysingur. Þú gerir mér ekkert, því þegar ég fer á stjá með skínandi dagsbrún, munt þú flýja frá mér í skuggann.
Apríl einn mánaða á gott skap með mars, því þegar mars vill láta fólk hlaupa í gadd, en á enga daga eftir, leyfir apríl honum að nota sína fyrstu daga í kuldakast.
Pólsk tunga hefur varveitt flest sín mánaðarheiti sem hún notaði fyrir kristintöku sem eru, eins og pistill þessi, á ljóðrænum nótum.
Á pólsku er janúar styczeń. Deilt er um mögulegan uppruna orðsins en ein getgátan er að það komi af sögninni siec, að fella tré. Deila má um það hversu gáfulegt það var að fella tré í -15°C en menn halda fram að mögulega var auðveldara að flytja trén á milli staða á sleðum. Á íslensku gætum við þýtt janúar sem högg.
Febrúar er luty, er í raun lýsingarorð sem er notað eins og nafnorð og merkir napur. Á íslensku gætum við þýtt febrúar sem nepju.
Mars er marzec, komið úr latínu eins og í íslensku.
Apríl er kwiecień, dregið af orðinu kwiat sem þýðir blóm. Á íslensku gætum við þýtt apríl sem blómstrandi.
Maí er maj, úr latínu eins og á íslensku.
Júní er czerwiec, en czerw þýðir maðkur. Hér er átt við ákveðinn maðk, porphyrophora polonica en úr honum var unnið rautt litarefni. Orðið fyrir litinn rauðann, czerwony, kemur af einnig af þessum maðki. Á íslensku gætum við þýtt júní sem roða.
Júlí er lipiec, dregið af orðinu lipa, merkir linditré, en þau blómstra í júlí. Júlímánuð mætti því íslenska sem lindi.
Ágúst er sierpień, en sierp merkir ljár. Ágústmánuður er uppskerutími í Póllandi. Þýðum ágúst sem ljá.
September er wrzesień, dregið af orðinu wrzos, sem þýðir beitilyng. Þennan mánuð getum við því nefnt lyng.
Október er październik, dregið af orðinu paździerz, eða hismi. Hér er átt sérstaklega við hismi af spunalíni sem Slavar notuðu mikið af hér áður. Október gætum við kallað hör.
Nóvember er listopad, tvímælalaust ljóðrænasta heitið sem þýða má sem lauffellir.
Desember er svo grudzień, af orðinu gruda sem merkir frosin jörð. Þennan mánuð gætum við kallað frera.
Íslendingar gætu notað pólskt tímatal og talað um mánuðina högg, nepju, mars, blómstrandi, maí, roða, lindi, ljá, lyng, hör, lauffellir og frera.
Íslendingar held ég hinsvegar kjósi frekar að nota eigin heiti eins og eftirjólablús fyrir janúar, 60-daga mánuðurinn fyrir febrúar, seinni febrúar fyrir mars, o.s.frv.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd