Fyrir 11 árum síðan birtist frétt á Mbl.is sem fjallaði um sem þurfti að flýja heimili sitt í Abkasíu 1992 í kjölfar borgarastyrjaldar sem braust út þegar Abkasía lýsti yfir sjálfstæði sínu frá Georgíu. Georgía hafði þá lýst yfir sjálfstæði sínu frá Sovétríkjunum einu ári áður. Einu löndin sem viðurkenna sjálfstæði Abkasíu eru Rússland, Venesúela, Níkaragúa, Nárú og Sýrland.
Eftir litla sem enga hjálp frá Tbílísí sá hún sér þann eina kost í boði að flýja land og kom þá til Íslands 2005. Hún var búin að vera á Íslandi í næstum 9 ár – hafði unnið í 8 ár og borgað skatta – án þess að fá hæli á Íslandi og var án allra réttinda. Einhver þarf að skrifa vísindaskáldsögu um stjórnsýslu á Íslandi. Hafandi túlkað fyrir flóttafólk hjá stofnunum þá rifjast reglulega upp fyrir mér senan um leyfi 838 úr Ástrík og þrautunum 12.
Abkasar eru örþjóð við rætur Kákasusfjalla og eru óskyldir Georgíufólki sem mynda meirihluta þeirra sem búa í Georgíu, eða um 86%. Til annarra íbúa landsins má telja Abkasa, Armena, Assýra, Azera, Grikki, Osseta, Rússa, Úkraínubúa, Kista og Jassída. Fyrir seinna stríð bjó töluverður fjöldi Þjóðverja þar líka og er samfélag georgískra gyðinga eitt það elsta samfélag gyðinga í heiminum. Talið er að þeir séu afkomendur gyðinga sem fluttu búferlum til Suður-Georgíu eftir útlegðina í Babýlon 538 f. Kr.
Georgísk tunga telst til kartvelskra tungumála, er þeirra stærst en önnur mál sem flokkuð eru sem kartvelsk eru svaníska, mingrelíska og lasíska.
Abkasíska tilheyrir norðvestur-kákasískum málum, eitt af 5 sem þeim tilheyra og hefur næstfæsta mælendur, um 190.000 manns. Það sem einkennir þessi mál er að á meðan þau hafa fáa sérhljóða (akbasíska hefur 2, ‘a’ og ‘i’) þá eru þau sérlega rík af samhljóðum (stöðluð abkasíska hefur 58 samhljóða, ein mállýskan hefur 67).
Síðasti mælandi úbykísku, sem er skyld abkasísku, dó 1992 í Tyrklandi. Einhvern veginn finnst mér ekkert einmanalegra til tilhugsunar en að vera sá síðasti sem hefur mál sitt að móðurmáli. Þeir sem heyrðu úbykísku tala fannst hún hljóma eins og ef einhver fyllti lófa sína af steinvölum og nuddaði þeim saman. Til er hljóðupptaka af sögu á úbykísku.
Flestir þeir sem tala abkasísku eru búsettir í Abkasíu en einnig díaspóran (þ.e. brottfluttnir Abkasar og afkomendur þeirra) er líka búsett í Tyrklandi, Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi.
Abkasíska hefur verið til í rituðu máli í rétt rúmlega öld en hefur verið skrifuð með arabísku, latnesku, georgísku og kyrílísku letri.

Abkasíska er mjög flókin. Eins og mörg önnur kákasísk mál er málið svokallað skeytamál, þ.e. einkennist af for-, inn-og viðskeytum. Frumlag áhrifslausra sagna er er markað (á íslensku er andlag áhrifssagna markað með því að vera í þolfalli, þágufalli eða eignarfalli). Frumlag og andlag er þá tjáð innan sagnar í stað þess að taka fallendingu eins og í íslensku.
Sagnorð sinna aðalhlutverki í setningum og þrátt fyrir að vera mjög flókin hafa þau verið flokkuð sem mjög regluleg – þ.e. málið er of flókið til að hafa undantekningar.
Abkasíska gerir greinamun á áhrifs-og áhrifslausum sögnum, og líka sögnum sem eru kyrrstöðusagnir (sagnirnar ‘að vera’ og ‘að hugsa’ er flokkuð sem slík) og hreyfisögnum (t.d. að fara, að synda, að hlaupa). Þá eru sumar sagnir sem hafa eiginleika kyrrstöðu-og hreyfisagna. Þá eru sagnir ýmist takmarkaðar (eins og ‘dizbeít’ = ég sá hann/hana) eða ótakmarkaðar (‘ízbaz’ = sem ég sá). Takmarkaðar sagnir innihalda nægar upplýsingar til að vera aðalsetningar einar og sér, ótakmarkaðar eru alltaf aukasetningar.
Nafnháttur er ekki til en hægt er að mynda hann með viðskeytum sem eru ólík eftir því hvort sögnin er takmörkuð eða ótakmörkuð.
Röð upplýsinga er föst en abkasísk sögn inniheldur eftirfarandi upplýsingar alltaf í eftirfarandi röð (það sem er skáletrað útskýri ég sérstaklega):
[Fyrsta staða (frumlag EÐA beint andlag EÐA forskeyti sem þjónar hlutverki eignarfornafns)]+[Önnur staða(afturbeygt fornafn)]+[Þriðja staða]+[Óbeint andlag]+[Sjálfvísandi (sig, sér, sín, sjálfur)]+[Frjáls agnarsögn]+[Föst agnarsögn]+[Gerandi(hérna er sá sem framkvæmir áhrifslausa sögn markaður)]+[Valdandi(markað hvort að það sem var gert hafi verið gert af fúsum og frjálsum vilja)]+[Umhverfi(gerðist þetta úti eða inni)]+[Tala]+[Horf]+[Tíð]+[Sagnarmark]+[Lok].
Þriðja staða er fyrir ólík innskeyti með mismunandi upplýsingar:
á = tengsl;
zə́ = gefur til kynna að einhver nýtur góðs af einhverju;
c°ə́ = gefur til kynna ef einhver tapar á einhverju;
ámxa = gefur til kynna að eitthvað var gert af ófrjálsum vilja;
c = þjónar hlutverki forsetningarinnar ‘með’;
z = segir að eitthvað sé mögulegt;
šə́ = notað til að sýna samanburð;
aj = til að sýna að eitthvað sé gagnkvæmt.
Frjáls agnarsögn er hliðstæða orðasambanda í evrópskum málum. Á íslensku höfum við sögnina ‘að skrifa’ en getum síðan sagt ‘að skrifa niður’, ‘að skrifa undir’, ‘að skrifa upp eftir’. Niður, undir og upp eftir eru agnarsagnir. Frjáls agnarsögn bætir við upprunalega merkingu sagnar og er ótengd henni.
Föst agnarsögn er svipuð en er alltaf föst við rót sagnar.
Í abkasísku eru tvær tölur, eintala og fleiritala.
Í pólsku eru tvö horf, fullkomið og ófullkomið.
Czytam książkę = Ég les bókina (en klára hana ekki) = ófullkomið horf.
Doczytam książkę = Ég les bókina (til enda og klára hana) = fullkomið horf.
Í abkasísku eru horfin 5:
-ófullkomið horf = ég hef ekki klárað eitthvað, er ennþá að því;
-venjuhorf = ég geri eitthvað af og til, óreglulega;
-endurtekið horf = ég geri eitthvað aftur og aftur;
-umframhorf = ég geri of mikið af einhverju;
-áhersluhorf = ég geri alls ekki eitthvað.
Íslenska hefur tvær tíðir, nútíð og þátíð. Abkasíska hefur tíu. Ég nenni ekki að telja þær upp.
Lok sagnar inniheldur m.a. upplýsingar eins og skilyrði og viðtengingarhátt.
Dæmi um abkasíska sögn:
‘jətájgalaøjt’ – Hann kom með það inn.
jə-tá-j-ga-la-ø-jt = það(beint andlag)-föst agnarsögn-hann(gerandi)-kom með-umhverfi-fullkomin þátíð-hreyfisagnarmark-búið.
Í fljótlegum samanburði virðast íslenska og pólska ekkert svo flókin tungumál.
Abkasíska er kennd í grunnskólum upp í fjórða bekk en þá er skipt yfir í rússnesku. Flestir ef ekki allir Abkasar eru tvítyngdir í abkasísku og rússnesku. Eina fagið sem er alltaf kennt á abkasísku er abkasískan sjálf. Margir abkasískir miðlar eins og útvarp, sjónvarp, bækur, tímarit og leikhús voru í boði á sovéttímanum en þeirri niðurgreiðslu lauk með falli Sovétríkjanna.
Foreldrar Fröken Tatjönu sem kenndi mér rússnesku í Moskvu unnu á sovétárunum hjá Mosfilm, Kvikmyndaframleiðslu ríkisins og voru send í verkefni í eitt ár til Abkasíu. Tatjana og systir hennar voru teknar með. Hún sagði að ef til væri himnaríki væri það eins og Abkasía. Abkasía var sovétska rivíeran og voru helstu gæðingar flokksins með sumarhallir þar. Þá var það feitur biti að fá pláss á heilsuhæli við Svartahafið í Abkasíu en Stalín sjálfur átti þar 5 hús. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá þessum árum:






Abkasar tilheyra ýmist Abkasísku rétttrúnaðarkirkjunni (sem er ekki viðurkennd sem kirkja, eingöngu sem sókn Georgísku rétttrúnaðarkirkjunnar) eða söfnuðum súnnímúslima. Þá er mikið um þjóðtrú og hætti sem eiga rætur sínar í trú þeirri sem var í Abkasíu áður en eingyðistrúarbrögð teygðu þangað anga sína. Flestir Abkasar utan Abkasíu eru súnnímúslimar.
Abkasar áttu sínar eigin völvur, kallaðar atsaaju, eða spyrjandi.
Þegar stríðið í Sýrlandi hófst sóttist ríkisstjórn Abkasíu eftir því að sækja fólk af abkasískum uppruna sem þar var búsett. Fólkið sem var sótt voru afkomendur fólks sem flutt hafði til Sýrlands á 19. öld svo ekki er hægt að segja annað en að Abkasar séu frændræknir.
Um 500 manns var flogið í tveim vélum þegar stríðið braust út. Margir þessara sýrlensku Abkasa voru í áfalli þegar þeir lentu þegar þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir voru á leið til lands sem hafði verið í átökum við annað ríki í 25 ár. Á milli Abkasíu og Georgíu er ekki kalt stríð – það er frosið.

Saga Abkasíu eins og annarra svæða Kákasusfjallanna er mörkuð átökum. Landsvæðið tilheyrði lengi vel Ottómönum en á 18. öld hóf Alexander Rússakeisari að sölsa landsvæðin undir sig eitt af öðru. Margar smáþjóðir Kákasusfjalla flúðu lengra inn í ríki Ottómana á þessum tíma og eru það m.a. afkomendur þeirra sem sóttir voru til Sýrlands. Þjóðarmorð Rússa gegn Tsérkessum er eitt það stærsta í sögu Rússlands en talið er að um milljón manns hafi verið drepnir. Í dag búa ennþá um 700.00 manns sem telja sig Tsérkessa innan landamæra Rússlands, tæplega 3.7 milljónir í Tyrklandi, 250.000 í Jórdaníu og allt að 120.000 í Sýrlandi. Tsérkassar tala tsérkessísku sem er náskyld abkasísku.
Borgarastríðið sem braust út 1992 var meðal annars vegna þess að Abkasar vildu fá fullveldi, sumir sjálfstæði, á meðan að Georgíubúar vildu verja landamæri lands sem var rétt svo ársgamalt. Abkasar hröktu Georgíubúa á brott með stuðningi frá Moskvu og enn í dag er það álit Sameinuðu þjóðanna að Abkasía sé í raun hernumin af Rússum.
Einn þeirra fyrstu til að lenda í Abkasíu eftir að stríðið í Sýrlandi hófst var Munír Kúdzjba. Í dag er hægt að finna hann í einni af kennslustofum Háskóla Abkasíu þar sem hann kennir arabísku. Hann hafði unnið alla ævi við samskipti og ef ekki væri vegna stríðsins væri hann núna á eftirlaunum og byggi ýmist í Damaskus eða í sýrlensku sveitinni. Hann talar ekki abkasísku en sem vinstrisinnaður ungur maður hafði hann lært í Sovétríkjunum og talar því rússnesku sem vissulega hjálpar honum að aðlagast.
Sýrlenskir Abkasar eru ekki flokkaðir sem flóttamenn, heldur sem nokkurs konar Vestur-Íslendingar, loksins komnir heim. Þeir hafa fengið fjárstuðning frá ríkinu, húsakost og ókeypis rússnesku-og abkasískunámskeið. Kastast hefur í kekki á milli Abkasa sem voru búsettir í Abkasíu fyrir og þeirra sem síðan komu frá Sýrlandi þar sem að heimamenn töldu fjárstuðning ríkisins heldur góðan í ljósi bágborins efnahags. Hver og einn þeirra fær 280 dollara á mánuði sem er tíu sinnum sú upphæð sem Abkasar sjálfir geta fengið sem bætur frá ríkinu.
Abkasía er í raun niðurgreidd af Moskvu. Ekki veit ég samt hvað húsnæði hefur kostað ríkið en fólksfækkun er raunverulegt vandamál þar sem Abkasar fara til Rússlands í leit að vinnu auk þess sem að tugþúsundir flúðu í stríðinu og komu ekki til baka.
Abkasía er mér ofarlega í huga því ég er að lesa bók eftir Wojciech Górecki sem hann skrifaði um ferðalög sín þar. Pólverjar skrifa gífurlegt magn af ferðabókum og gera það betur en aðrir.
Þá hefur Abkasía líka verið í fréttum síðustu daga eftir að lagt var fram frumvarp sem myndi heimila Rússum að kaupa land í Abkasíu. Abkasía er vinsæll áfangastaður hjá Rússum, sér í lagi eftir að ferðahöft voru sett á rússneska ríkisborgara eftir innrás Rússa í Úkraínu. Abkasar hafa áhyggjur af því að fjársterkir aðilar frá Moskvu kaupi upp landið og hrekji Abkasa burt. Í stað þess að skrifa um málið á Facebook eða að mótmæla brutust Abkasar inn í þingið og inn á heimili forsetans. Núna, eins og árin 2014 og 2020, er þess krafist að forsetinn segi af sér í kjölfar umdeildra lagafrumvarpa og hneykslismála.
Eins og áður sagði þá er Abkasía niðurgreidd af Moskvu og hafa ráðamenn þar skrúfað fyrir kranann og sagt að samþykki frumvarpsins sé forsenda þess að fjármagn fari að flæða aftur. Í áranna rás hafa Rússar einangrað Abkasíu og gert þá sér háða og má því segja að í þetta sinn sé bæði haldið og sleppt.
Hitt aðskilnaðarríkið í Georgíu er Suður-Ossetía. Ossetar eru önnur þjóð Kákasusfjalla og eru flestir þeirra búsettir í Norður-Ossetíu sem tilheyrir Rússlandi. Ossetar tala ossetísku, mál skylt persnesku sem er ríkismál Írans.
Friðrik Þórðarson (f. 7. mars 1928 – d. 2. október 2005) var mikill málamaður. Hann flutti til Óslóar 1951 og stundaði nám í klassískum málum. Hann lauk námi 1963 með latínu sem aðalgrein og með grísku og indversk mál sem aukagrein. Hann var kennari í klassískum málum frá 1965 og varð prófessor 1994.
Sem námsmaður bjó hann í eitt ár í Grikklandi (1958-59) og lærði nútímagrísku en á þeim tíma var mjög óvenjulegt fyrir þá sem stúderuðu forngrísku að læra grískuna eins og hún er töluð í dag.
1968-69 bjó hann svo í Georgíu og fínpússaði kunnáttu sína í georgísku og ossetísku. Hann hafði lagt stund á forn-persnesku með kennara sínum sem hann gat nýtt sér þegar hann jók við þekkingu sína á ossetísku. Friðrik ritaði grein um Osseta sem birt var í Rétti 1982 sem er mjög fróðleg. Friðrik lét sér það ekki nægja að þýða úr grísku heldur þýddi hann líka eina smásögu úr georgísku sem birt var í Jóni á Bægisá.
Ég fór á smá bókarölt um daginn (flest mitt rölt er bókarölt, það skal viðurkennast) og kom við í bókabúðinni Chodź pogadać (ísl. Komdu að spjalla). Sú bók er einstök að því leytinu til að sú sem hana rekur leggur sig fram við að hafa gott úrval af þýddum pólskum bókmenntum. Úrval af notuðum bókum er líka mjög gott, sérstaklega þegar það kemur að pólskum þjóðsögum. Þá má líka finna í búðinni bækur á slésísku og kasjúbísku, örtungumálum sem töluð eru í Póllandi – og velsku! en maðurinn hennar er frá Wales.
Ég kom líka við í Księgarnia Staromiejska (ísl. Gamlabæjarbókabúðin) þegar ég sá í glugganum eintak af nýútkominni ljóðabók Urszulu Kozioł sem Geirlaugur Magnússon þýddi. Hún fékk í ár bókmenntaverðlaunin Nike, helstu verðlaun Pólverja á því sviði. Valdir eru tveir verðlaunahafar hverju sinni, einn af dómnefnd og hinn af almennum lesendum. Bókin hennar kom út 2023 og seldist strax upp og var ófáanleg í næstu ár þangað til nýlega.
Á leiðinni heim kom ég svo við í Galeria Miejska Arsenał, listasafni miðbæjarins en þar er rekið kaffihús og bókabúð. Þar keypti ég bókina Traumaland – Polacy w cieniu przeszłości (Áfallaland – Pólverjar í skugga fortíðarinnar). Vinur minn sem er leikskáld frá Belarús vinnur nú að því að semja leikrit upp úr bókinni um fangabúðir Pólverja eftir seinni heimsstyrjöld þar sem Þjóðverjum var smalað áður en þeir voru sendir yfir til Austur-Þýskalands. Þýskumælandi samfélög voru víðar en bara í Þýskalandi fyrir stríð og mátti þau finna í Póllandi, Úkraínu, Rúmeníu og Georgíu.
Þrátt fyrir að ekki séu kosningar í gangi í Póllandi er mikið skrifað um svokölluð útlendingamál. Í Póllandi eins og annarsstaðar er töluvert um innflytjendur og farandsverkafólk. Pólland gæti ekki keyrt áfram hagkerfi sitt ef ekki væri fyrir þetta fólk. Ekkert land hefur veitt jafn mörgum atvinnuleyfi sem koma frá löndum utan ESB og Pólland síðustu sjö ár. Á síðasta ári voru gefin út 642.789 atvinnuleyfi í Póllandi en í öðru sæti var Þýskaland með 586.144 leyfi og því næst Spánn með 548.697 leyfi.
Í lok síðasta árs voru 1.13 milljón útlendinga skráðir í almannatryggingakerfi Póllands, tæplega 7% íbúa Póllands.
Eitt af því góða sem Sovétríkin sálugu og leppríki þeirra gerðu rétt á sínum tíma var að ná settum manneldismarkmiðum, ef svo má að orði komast. Gerðar voru fjáráætlanir til 4-5 ára fram í tímann og þar var áætlað hversu mörgu börn myndu fæðast á því tímabili. Þá var á sama tíma gert ráð fyrir vöggustöfum, dagmæðrum, leikskólaplássi – auk þess sem að passað var að kennurum væri fjölgað svo að hlutfall kennara og nemenda yrði ekki óviðráðanlegt. Þá var líka áætlað hvað þyrfti að byggja af húsnæði (mismikið milli landa, sum þurftu að byggja meira vegna þess að byggingar höfðu eyðilagst í stríðinu, sérstaklega hér í Póllandi). Gætt var þess að ríkið myndi ekki eiga uppsafnaða innviðaskuld. Ég held að Vesturlönd hafi staðið sig betur í þessu á sínum tíma þegar þau voru í lífsgæðasamkeppni við Sovétið – ekki mátti láta það heyrast að fólk hefði það betra austan meginn.
Þegar Richard Nixon fór til Sovétríkjanna í heimsókn áður en hann var forseti á hann að hafa fleygt fram við Khrústsjov „í Bandaríkjunum geturðu keypt allt sem þig langar í“, en Khrústsjov svaraði „en í Sovétríkjunum færðu allt sem þú þarft“.
Í kosningaumræðunni heima hefur eitthvað verið um að flokkar leggi til greiðslur og fjárstuðning til þeirra foreldra sem ekki koma börnum sínum að á leikskólum. Þetta er á sama tíma og verið er að ræða það hvernig eigi að fá fólk til að eignast fleiri börn (mér finnst stundum eins og verið sé að ræða um ungt fólk á Íslandi eins og stóðmerar). Þegar ég heyri hugmyndir flokkanna um hjálp til fólks sem leysir ekki vanda rifjast upp fyrir mér brandari sem ég heyrði þegar ég bjó síðast í Rússlandi fyrir 10 árum síðan og rússneska ríkið var að reyna að koma til móts við verðandi foreldra og lækkandi fæðingartíðni:
Þegar þú eignast fyrsta barnið þitt í Rússlandi færðu 50.000 króna styrk.
Þegar þú eignast annað barnið þitt færðu bíl frá ríkinu.
Þegar þú eignast þriðja barnið þitt færðu íbúð frá ríkinu.
Þegar þú eignast fjórða barnið þitt færðu leikskólapláss fyrir fyrsta barnið.
En aftur að Póllandi. Nú er mikið verið að ræða hvernig eigi að taka á málum þar sem að erlendu fólki í Póllandi kemur bara til með að fjölga. Að vísu hefur 2/3 flóttamanna frá Úkraínu sagst vilja snúa til baka þegar stríðinu lýkur en fyrst þarf því vissulega að ljúka.
Það sem er kannski sérkennilegast við þessa fjölgun erlends vinnuafls í Póllandi var að hún átti sér stað í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar sem var íhaldsstjórn og var við völd 2015-2023.
Á sama tíma og stjórnmálamenn ríkisstjórnarinnar töluðu gegn flæði útlendinga til landsins þá er vert að taka fram að þeir áttu sérstaklega við útlendinga frá Afríku og Miðausturlöndum. Flestir þeirra sem komið hafa til Póllands eru hinsvegar hvítir Evrópubúar. 2/3 þeirra sem skráðir eru í almannatryggingakerfið eru frá Úkraínu, næststærsti hópurinn er frá Belarús. Stærstu hóparnir utan Evrópu eru hinsvegar Indverjar, Nepalar, Bangladesar, Tyrkir og Indónesíubúar.
Það er ágætis taktíkt að tala gegn flæði útlendinga til landsins en hleypa þeim síðan inn til þess að láta kjósendur upplifa fjölgun útlendinga til þess að þeir verði sammála stjórnmálamönnum að á þessu þurfi að taka eftir næstu kosningar.
Núverandi ríkisstjórn er að koma á laggirnar 49 „aðlögunarmiðstöðvum“ fyrir útlendinga í Póllandi sem eru fjármagnaðar af ESB. Tilgangur þeirra er að hjálpa útlendingum í Póllandi, vera miðlægar upplýsingaveitur og hjálpa útlendingum að aðlagast. Þá geta þeir sótt þangað lagaaðstoð og pólskunámskeið.
Forsvarsmenn síðustu ríkisstjórnar telja hinsvegar þetta nýjasta útspil vera sönnun um að Donald Tusk sé að undirbúa Pólland undir flóðbylgju útlendinga. Bent hefur hinsvegar á að í fyrsta lagi sé verið að taka á þeim vanda sem varð til í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar og í öðru lagi sé verið að koma á fót stofnunum sem voru hannaðar í tíð síðustu ríkisstjórnar.
Lög og réttlæti, síðasti ríkisstjórnarflokkur, er tíðrætt um þann vanda sem verður til þegar innflytjendur aðlagast ekki nýju heimalandi. Því ættu menn þar á bæ að vera hrifnir af framtaki sem er ætlað að taka einmitt á því.
Núverandi ríkisstjórn hefur hinsvegar verið gagnrýnd af mannréttindasamtökum að gera málefni útlendinga að pólitísku þrætuepli og að vera með óvandaðan málflutning, eins og að segja að síðasta ríkisstjórn hafi hleypt inn í landið „alltof mörgum múslimum“.
Kallað hefur verið eftir stefnumótun í þessum málaflokki en á sama tíma og landsmönnum fækkar og eldast, þá er atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og verða þau störf ekki unnin öðruvísi en af útlendingum. Búið var að gefa út að í nýlegri ræðu ætlaði Donald Tusk sér að útlista hvernig á þessu yrði tekið. Hinsvegar var ekki minnst á það í ræðunni heldur alfarið hvernig ætti að vernda landamærin.
Ekki var minnst einu orði á það hvort Pólland þyrfti á innflytjendum að halda, í hvaða formi þeir ættu að vera (tímabundið eða ótímabundið atvinnuleyfi, leyfi fyrir vissa markaði) og hvernig ætti að standa að inngildingu og aðlögun þeirra.
Fólk er orðið þreytt á þessu eilífa naggi um „hættuleg utanaðkomandi öfl“ – útlendingar eru komnir til Póllands til að vera, fólk vill vita hvernig á að hjálpa þeim.
Pólskur efnahagur styrkist frá degi til dags. Lítt þekkt fyrirtæki, Feerum, sem tekur að sér að hanna og annast korngeymslur fjárfesti fyrir 30.2 milljónir evra í uppbyggingu á korngeymslum við Súesskurðinn. Á meðan fjárfestingum fyrirtækja erlendis hefur fækkað á heimsvísu hefur þeim fjölgað hér í Póllandi og fjárfesta þeir grimmt í öðrum löndum.
Fyrst núna, 30 árum eftir að Pólland skipti um hagkerfi, eru fyrirtæki í landinu orðin nógu stöndug til að gera sig gild erlendis. Fyrir utan fyrirtæki sem standa í stóriðnaði og lyfjaþróun þá eru tæknifyrirtæki einnig að færa út kvíarnar. 6 stærstu bankar Póllands standa að baki fyrirtæki sem hannaði og rekur greiðslukerfið BLIK. Fyrirtækið er í ætt við AUR heima á Íslandi, bara miklu betra. Öll fyrirtæki og smásalar bjóða upp á að greiða í gegnum BLIK sem sparar bæði seljendum og kaupendum þá þóknun sem annars færi til kortafyrirtækja. Kerfið er vel þekkt í Póllandi og er nú byrjað að nota það í Slóvakíu.
Orkufyrirtæki hafa líka verið að fjárfesta erlendis og hefur ríkisolíufyrirtækið Orlen verið að kaupa bensínstöðvar í Austurríki, Þýskalandi, Ungverjalandi og Slóvakíu. Pólverjar eru framarlega þegar kemur að hönnun og þróun endurnýtanlegrar orku (vind-og sólorkuverk eru út um allt) og hafa smærri fyrirtæki verið að opna starfstöðvar í Bandaríkjunum, Rúmeníu, Jórdaníu og Kasakstan.
Í september á þessu ári voru skelfileg flóð í Suður-Póllandi og ennþá hefur ekki tekist að áætla hver kostnaður við endurbyggingu verður. Hinsvegar hafa yfirvöld tekið frá 5 milljarða evra sem ætlaðir eru til að greiða hluta hennar.
Það sem mönnum deilir hinsvegar ekki á um er að ekki sé um einstakt atvik að ræða heldur bendir allt til þess að um sé að ræða eitthvað sem eigi eftir að gerast í tíðari mæli í framtíðinni. Ekki sé um að ræða flóð sem gerist á hundrað ára fresti, heldur flóð sem varir í hundrað ár.
Menn eru hinsvegar ekki á einu máli hvernig eigi að tækla þetta. Þeir sem tala fyrir því að vatnsból verði byggð sitja undir ásökunum að til þess að þau virki sem best þurfi að koma þeim fyrir á stöðum þar sem fyrir er byggð. Þeir sem tala fyrir náttúrulegri leiðum eins og skurðum eða að beina árfarvegum geta hinsvegar engu svarað þegar bent er á að ár og skurðir taka bara svo mikið til sín. Lykilatriði sem allir eru hinsvegar sammála um að laga þurfi allt votlendi sem hafi verið ræst. Þá hafa vatnskerfaverkfræðingar bent á að sama hvaða samblanda lausna sé notuð þarf hinsvegar líka að koma upp betri almannavörnum, fólk þarf betri fyrirvara ef líkur eru á því að ár flæði yfir bakka sína. Mikið af því tjóni sem varð í flóðunum í september sé til að því komið að fólk fékk ekki nægan tíma til að ganga frá húsum sínum og öðrum eignum. Þá þurfi að vakta flæði áa með gervihnöttum allt árið um kring.
Á 19. öld var byrjað að breyta árfarvegum á þeim landsvæðum sem nú tilheyra Póllandi með þeim hætti að þær voru látnar renna beint. Átti þetta bæði að hraða rennslinu (á þeim tíma sem ennþá var mikið bæði um frakt-og fólksflutninga á ám) og koma í veg fyrir flóð. Bent hefur verið á það hinsvegar að beinir árfarvegir eru verri en þeir sem eru hlykkjóttir þegar að því kemur að taka við vatni í vatnavöxtum. Þá er líka bent á að það gefi góða raun að planta trjám meðfram ám til þess að gróðurinn taki í sig það vatn sem flæði upp úr.
Núna er ríkisátak að planta trjám meðfram ám í Póllandi með það í huga að breyta hitastigi þeirra á vissum svæðum sem geri fleiri dýrategundum kleift að lifa í þeim, ekki bara þeim sem þoli hita frá sól sem skín beint. Það skiptir Pólland miklu máli að jarðvegurinn haldi eftir eins miklu vatni og mögulegt er en vatnsbúskapur er í slæmu ásigkomulagi hérlendis. Vatnsgæði í allt að 38% ám landsins eru svo léleg að ekki er hægt að nota vatnið til landbúnaðar, til afnota innan heimila né synda í því.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd