Póllandspistill 24.

Á síðustu önn þegar ég var í tímum þar sem okkur var kennd akademísk ritun sagði kennarinn okkur að gott væri að lesa viss vikutímarit til að öðlast betri máltilfinningu og komast í kynni við stílbrögð sem væru ekki jafn háfleygur eða prósaískur eins og sá sem við læsum í bókmenntum. Hann sagði að betra væri að lesa tímarit sem kæmu út vikulega eða mánaðarlega í stað daglega, þar sem að þau blöð fjárfestu meiri tíma í prófarkalestur en dagblöð. Meðal þeirra tímarita sem hann mælti með voru Newsweek Polska og Polityka.

Í einni grein Polityka á síðasta ári var sérstök grein um farandverkafólk í Póllandi. Nú skal tekið fram að Pólverjar sjálfir eru mjög gjarnan farandverkamenn erlendis og vinna þau störf sem að lókalinn vill ekki lengur vinna. Á meðan að Pólverjar vinna við ræstingar eða við að keyra strætisvagna á Íslandi eru það úkraínskar konur sem skúra sameignir í Póllandi og Indverjar sem keyra strætisvagnana. Í Póllandi eru yfir milljón farandverkamenn, fólk sem kemur hingað með tímabundna vinnutengda vegabréfsáritun og eru Úkraínubúar ekki í þessari tölu.

Maður að nafni Artur Wrocławski rekur vinnumiðlun og hefur síðustu átta ár séð pólskum atvinnurekendum fyrir starfsfólki sem kemur frá löndum utan EES.

Ásókn eftir fólki frá Suður-Ameríku í Póllandi sem vinnuafli hefur aukist mjög, sérstaklega frá Kólumbíu. Þetta fólk er ungt, vinnusamt, afkastamikið og það sem mikilvægast er í augum Pólverja – kaþólskt. Atvinnurekendur eru líka ánægðir með Filippseyinga því þeir séu svo brosmildir og tali ensku. Þá þykir líka gott að hafa Nepala í vinnu, þeir eru svo rólegir og vandræðalausir. Einhverjir þurfa að fylla í skarð Úkraínubúa, sérstaklega úkraínskra karlmanna, en um hálf milljón þeirra hafa yfirgefið Pólland eftir að stríðið braust út, ýmist lengra vestur eða heim að berjast fyrir föðurlandið.

Samkvæmt nýjustu spám hagfræðinga hér í Póllandi vantar um 1.5 milljón manns í störf og ná þær spár bara yfir árið 2025. Án farandverkafólks myndi pólskur efnahagur ekki bara standa í stað heldur hrynja. Þetta vita bændur, menn í vörustjórnun, byggingargeiranum, flutningageiranum og matvælageiranum. Artur Wrocławski er sannfærður um að ráðamenn landsins viti þetta líka þó svo að orðræðan sé önnur en pólitíkusar hér vilji draga úr flæði vinnuafls í stað þess að einfalda ferlið, bæði fólki sem vill fylla þessi störf og atvinnurekendum til bóta.

Í Póllandi eru u.þ.b. 1.2 milljónir farandverkamanna frá 150 löndum. Er sá fjöldi 11 sinnum hærri en fyrir 10 árum síðan.

Hinn mjög svo sjóaði Wrocławski bíður í rólegheitunum eftir tilskipunum að ofan um hvernig málum skuli háttað. Þær koma þegar þær koma, ef þær koma yfirhöfuð. En hvað þurfa atvinnurekendur í Póllandi að gera til þess að ráða fólk utan EES?

Fyrst þarf að fara á skrifstofu Vinnumálastofnunnar í því héraði sem vinnan fer fram. Þar fæst leyfi til að auglýsa eftir starfsfólki utan EES en eingöngu eftir að Vinnumálastofnun staðfestir að ekki fáist Pólverjar til verksins. Leyfið fæst eftir að auglýst hefur verið innanlands eftir starfsfólki til þess að vinna í matvöruverslunum við áfyllingar, til ávaxtatínslu, til að pakka ávöxtum og grænmeti í frost eða til þess að flokka pakka hjá dreifingastöðvum. Allir vita fyrirfram að enginn Pólverji sækir um þannig að þetta er formsatriði. Þetta staðfestir Dariusz, týtuberjabóndi sem á 30 hektara land og bætir því við að eftir að barnabætur voru hækkaðar upp í 500 slot á mánuði hafi Pólverjar ekki fengist til að sinna svona störfum. Fleiri tonn af týtuberjum eru týnd á uppskerutímanum af Nepölum og Úkraínubúum. Hvernig færðu besta starfsfólkið frá Nepal? Með hinni gullnu landsbyggðarleið – maður þekkir mann.

Þegar Wrocławski kom á fót sinni vinnumiðlun byrjaði hann á því að fara að kebab-búllu sem næst var skrifstofunni og talaði við starfsfólk þar sem var frá Indlandi, Nepal og Banglades. Það vísaði honum á ættingja sína eða kollega og hefur hann sína kontakta þaðan. Á skrifstofunni hans vinnur ein kona frá Filippseyjum og önnu frá Kólumbíu og fyrrum starfsmaður hans sá um að ráða fólk frá Úsbekistan og Kasakstan.

Wrocławski er sannfærður um að velgengni sín sé að mestu leyti vegna þess að fólk sækir um vinnur beint í gegnum hans fyrirtæki, í stað þess að hann hafi samband við vinnumiðlanir erlendis sem síðan finni fólk, eða með því að auglýsa á netinu þar sem að netsvindlurum fer fjölgandi. Þessir svindlarar fara fram á fyrirframgreiðslur fyrir skjala-og pappírsvinnu og svo mætir fólkið til Póllands til þess eins að komast að því að það sé ekki með neitt í höndunum.

Ef þú veist um einhvern sem vill koma sem fyrst til Póllands og veist um atvinnurekanda sem gæti ráðið viðkomandi þarf að safna saman töluvert að skjölum, pappírum og leyfum. Þetta er mun auðveldara ferli fyrir fólk frá Georgíu, Armeníu, Moldóvu og Belarús, þeim nægir að sýna fram á að það hafi unnið erlendis áður og Vinnumálastofnun fellir niður kröfuna um að auglýsa þurfi störfin fyrst innanlands. Fyrir Úkraínubúa sem komu til Póllands eftir 2022 er þetta einfaldast, þú þarft bara að framvísa vegabréfi á Vinnumálastofnun og færð leyfi. Allir aðrir þurfa vinnuleyfi hvort sem um er að ræða varanlegt eða árstíðabundið (í landbúnaði) starf. Atvinnurekandi þarf að senda þeim sem hann ætlar að ráða öll skjöl sem síðan þarf að fara með í næsta sendiráð eða ræðismanns Póllands í heimalandi viðkomandi. Þá loks er hægt að hefjast handa við það sem erfiðast er, að fá vegabréfsáritun.

Samkvæmt Wrocławski eru vegabréfsáritunarskandalar opinbert leyndarmál í Póllandi. Dariusz týtuberjabóndi þekkir það af eigin raun sem á síðustu árum hefur fengið 20 manns frá Nepal á uppskerutíma hverju sinni til að færa björg í bú. Hann hefur aldrei fengið staðfestingu frá opinberum aðilum að leyfin verði veitt eða séu veitt og veit því aldrei með vissu hvort að hann geti átt von á starfsmönnum til að bjarga uppskerunni eða hvort berin mygli á túnunum. Vegabréfsáritun er nefnilega á endanum duttlungaákvörðun ræðismanns eða starfsmanns í sendiráði hverju sinni. Einu sinni sendi hann út tvær möppur af nákvæmlega eins skjölum fyrir tvo bræður sem bjuggu í sömu borg. Annar fékk vegabréfsáritun, hinn ekki.

Samband atvinnurekenda í Póllandi hefur líka bent á að afgreiðslutími hjá ræðismönnum sé oft alltof langur. Þegar að vegabréfsáritun er loksins í höfn er sá tími sem áritunin nær yfir liðinn og þá þarf að sækja um allt upp á nýtt. Atvinnurekendur segja að þetta kerfi sé orðið strembnara en það var ef eitthvað er því það er orðið erfiðara að fá vegabréfsáritun til Póllands yfirhöfuð. Þegar að landsamband pólskra bænda fundaði með stjórnsýslunni í Varsjá til að fá botn í málið, eftir að fjölmiðlar töluðu um skandalana og óskilvirknina í sendiráðunum erlendis, svöruðu ráðamenn að „þeim finnist mikilvægara að vinna gegn þeirri hugsun að það væri ekkert mál að fá vegabréfsáritun til Póllands.“ Tölfræðin talar sínu máli, árið 2022 voru gefnar út 338.116 starfstengdar vegabréfsáritanir en árið 2024 ekki nema 162.866.

Og þá er eitt sem þarf að minnast á til viðbótar: margir þeirra sem fá vegabréfsáritun til Póllands koma síðan aldrei. Wrocławski segir að skipta megi þeim sem sæki um vegabréfsaritanir til Póllands í fjóra hópa:

I. Þeir sem fá vegabréfsáritun en ákveða á millilandaflugvelli að fara til annars lands í Evrópu, t.d. Spánar, þar sem þeir mega ekki vinna löglega en geta verið „ferðamenn“ þar sem að vegabréfsáritunin til Póllands er um leið áritun til að ferðast innan Schengen.

II. Þeir sem koma til Póllands, skrifa undir pappíra og skjöl, vinna nokkra daga og fara síðan lengra vestur, t.d. til Þýskalands.

III. Þeir sem sem vilja fá landvistarleyfi sem leyfir þeim að dvelja innan ESB í allt að þrjú ár þó svo að pólsk yfirvöld séu farin að draga úr gildistíma þeirra. Landvistarleyfi er oftast veitt þegar að viðkomandi hefur unnið í eitt ár. Þetta fólk bíður því í ár eftir leyfinu og fer síðan annað.

IV. Þeir sem koma hingað til að búa og vinna.

Þess vegna hafa atvinnurekendur í auknum mæli verið að sækjast eftir vinnuafli sem getur komið til Póllands að vinna án þess að vera með vegabréfsáritun, þ.e.a.s. vinnuafli frá Suður-Ameríku, þá helst frá Kólumbíu, Argentínu, Gvatemala og Argentínu. Af þeim 500 manns sem Wrocławski hefur aðstoðað við að koma til Póllands til að vinna eru um 300 frá þessum löndum.

Samkvæmt tölum frá Innanríkisráðuneytinu vann meirihluti útlendinga árið 2023 í stóriðnaði, sem iðnaðarmenn, við akstur vinnutækja, sem skrifstofustarfsmenn og svo í ófaglærðum störfum.

Hérna fyrir utan Poznań er bæði sendingamiðstöð Amazon og Volkswagenverksmiðja sem eru með útlendinga í vinnu. Í kringum Varsjá er verið að byggja iðnaðarhúsnæði sem saman ná yfir 15-20 hektara og útlendingar vinna þar líka. Hjá fyrirtæki við borgarmörk Varsjár var hópur manns frá Úkraínu og Suður-Ameríku að vinna við að útbúa jóladagatöl. Við landamæri Þýskalands er fólk frá Banglades sem útbýr baðbombur og er svo duglegt að afköst tvöfölduðust.

Wrocławski segir að með árunum hafi orðið til vissar staðalímyndir um þær þjóðir sem komi til Póllands að vinna. Asíubúar eru vinnusamir og brosmildir, gott er að hafa þá í vinnu á hótelum, veitingastöðum og heilsuhælum. Þeir eru sérstaklega góðir þegar það kemur að líkamlegri vinnu en filippískar konur eru langbestar í að tína hindber því þær hafa svo fíngerða fingur og kremja ekki berin. Þetta er gjörólíkt t.d. Indverjum sem oft mæti ekki til vinnu því það snjói eða sé kalt. Þá borgar það sig ekki að hafa fólk frá Asíulöndum fjær við vinnu í vöruhúsum því það er of lágvaxið og á erfitt með að lyfta þungum kössum. Þegar það ofreynir sig síðan við að lyfta slasast þau og þurfa að fara í veikindaleyfi. Í verslunum er gott að Kasaka, Úkraínubúa eða Georgíubúa sem eru álíka háir Pólverjum og þolmiklir. Wrocławski hefur ekki ennþá haft milligöngu fyrir Georgíubúa sem hafa það orðspor á sér að geta verið aggressívir, hlusta ekki á fyrirmæli yfirmanna sem eru konur, bera skartgripi við störf þar sem það er bannað t.d. þar sem unnið er með matvæli og vilja hvorki vera með hárnet né án skeggs. Suður-Ameríkubúar reynast öllum atvinnurekendum mjög vel og vinna öll möguleg störf, allt frá því að vinna á sútunarverkstæðum og keyra ruslabíla. Þetta sama fólk frá Suður-Ameríku er þorri þeirra sem geti helst hugsað sér að setjast að í Póllandi til frambúðar. En það gerir líka kröfur.

Vinna er vinna en þetta fólk þarf líka að eiga heima einhversstaðar. Fyrir þá sem koma hingað til að vinna í landbúnaði hefur það dugað því að búa í sérútbúnum gámum eða í einingahúsum þar sem hvert herbergi er útbúið fyrir fjóra. Dariusz segir að það skipti máli að aðstæður séu viðunnandi til þess að fólk bæði vilji koma aftur að ári liðnu. Þá spyrjist þaðspyrjist út ef þeim er boðið lélegt húsnæði og og slæmar starfsaðstæður.

Fyrir utan starfssamning, lágmarkslaun (lágmarkslaun fyrir fulla vinnu í Póllandi árið 2025 er 123.000 ISK eftir skatt) og tryggingu sem Dariusz greiðir, þá býður hann sínu starfsfólki sínu upp á aðgang að kaffistofu þar sem daglega má finna nýbakað brauð og rúnstykki auk þess sem að hann kaupir inn kartöflur og grjón svo starfsfólk geti eldað sér mat ef það vill það heldur.

Þá hefur líka myndast iðnaður í kringum farandverkafólk en margir hafa byggt heimavistir og verbúðir sem atvinnurekendur geta síðan leigt handa starfsfólki sínu. Wrocławski segir að ýmislegt þurfi að hafa í huga þegar hýsa á útlendinga.

Fyrst þarf að athuga hvaða gjöld þarf að greiða fyrir vatn, frárennsli og kyndingu í því sveitarfélagi sem húsnæðið er því mánaðarlegur kostnaður við þetta geti verið himinhár. Fólk frá Nepal, Indlandi og Suður-Ameríku er oft með kyndinguna í botni á meðan það límir svo með límbandi meðfram gluggum til að koma í veg fyrir að húsið leki hita. Á sama tíma er þetta fólk stöðugt að þvo þvott sem það hengir til þerris á snúrur sem hanga á milli koja þannig að mygla í húsnæði verður fljótlega vandamál. Þess vegna þarf að gera ráð fyrir því að húsnæði sé tekið í gegn og að skipta þurfi um heimilistæki eins og þvottavélar og ísskápa á milli þess sem að skipt er um vinnuflokka.

Þá hafa sveitastjórnir velt því fyrir sér hvort að eigi að gera þá kröfu til atvinnurekenda að þeir hafi húsnæði sem starfsfólk þeirra geti notað sem félagsheimili svo að það hafi eitthvað við að vera þegar það er í vaktafríi. Töluvert hefur verið um á síðustu árum að fólk komi saman í almenningsgörðum og drekki en drykkja á almannafæri er bönnuð samkvæmt lögum.

Haft er eftir einum sveitastjóra að tími Póllands sem land einnar þjóðar séu liðinn og komi ekki aftur. En það vantar ýmsa innviði, tæki og tól. Í einum grunnskóla í dreifbýli, þar sem margir bændur hafa útlendinga í vinnu, eru þrjú börn frá Kólumbíu – börn fólks sem ákvað að setjast þar að. Skólastjórinn segir að ríkið bjóði svona litlum skólum enga aðstoð þegar það kemur að koma til móts við þessi börn. Það séu engir móttökuskólar en þessi börn verði að fá hjálp á sínu móðurmáli til að byrja með. Skólinn hafi verið svo heppinn að einn fyrrum nemandi sem kunni spænsku hafi verið að vinna þar í nokkra mánuði til að hún fékk betri vinnu í Varsjá.

„Það er ekki nokkur leið fyrir litla skóla að halda í starfsfólk með sérhæfða kunnáttu í erlendum tungumálum. Án móttökuskóla og innviða sem bjóðast t.d. börnum frá Úkraínu, eiga þessi börn litla sem enga möguleika á að læra og dragast aftur úr frá degi eitt“.

Í lok greinarinnar er líka minnst á að ekki megi gleyma þeirri staðreynd að á einhverjum tímapunkti komi stríðinu í Úkraínu til með að ljúka. Þegar það gerist komi þorri Úkraínubúa til með að snúa heim vegna þess að þau störf sem verði til við að byggja landið upp aftur komi til með að borga betur en þau störf sem þeir vinna við í Póllandi. Hverjir eiga að fylla í skarðið þegar þetta fólk fer?

Ef stefna Póllands í málefnum farandverkafólks og útlendinga sem hér starfa heldur áfram að vera þyrnum stráð geta menn eins og Wrocławski með léttum leik opnað útibú í löndum eins og Búlgaríu og Rúmeníu þar sem þetta er allt með einfaldara móti. Sendiráð þessara landa gefa út Schengen-áritanir með greiðari hætti og fólkið kemur samt til með að vinna í Póllandi af því að hér er þörfin. En vegna skattalögjafar ESB koma skattar og gjöld sem þetta fólk greiðir til með að renna til þeirra landa sem gefa út áritanirnar.

Í annarri grein í Polityka er síðan rætt við Halinu Grzymała-Mosczyńska, doktor í félagsfræði um hvað þurfi að gera til þess að innflytjendur í Póllandi upplifi sig sem hluta af samfélaginu. Halina hefur rannsakað og tekið viðtöl við konur frá Úkraínu sem komu til Póllands eftir innrás Rússa og spurði þær hvað það var sem þeim helst vantaði. Hún segir að í upphafi stríðsins hafi hún og kollegar hennar ímyndað sér að fólk þyrfti áfallahjálp og gerðu ráð fyrir að það þyrfti líka að útvega því þak yfir höfuðið, föt, mat.

Það sem konunum vantaði fyrst og fremst voru upplýsingar.

Hvernig hægt væri að finna góð tungumálanámskeið, hvernig og hvar væri hægt að leita að húsnæði, hvernig væri hægt að skrá börn í skóla og verða sér úti um dagvistun fyrir þau yngstu svo þær kæmust í vinnu. Það sem þær þurftu voru tækifæri til að hjálpa sér sjálfar.

Hún segir að þegar að sýndar séu myndir af flóttafólki eða innflytjendum þá eru það myndir af fórnarlömbum. Fólk sem flýr logandi elda og er klætt í tötra. Okkar hugmynd sé því að þetta sé fólk sem við þurfum að hjálpa. Í raun hafi fólk ómeðvitað skipt flóttafólki í tvo flokka: svokallaða „alvöru flóttafólk“ sem eru ósjálfbjarga með öllu og geta ekkert gert, síðan „hvergiflóttafólk“ sem eru ungir og frískir karlmenn. Hvorugir þessara flokka eru raunverulegir segir Halina, heldur eru þeir búnir til af þeim sem eru með völd og henti vel sem þrætuepli fyrir samfélagið.

Þá er Halina spurð hvort að það sé raunin að konur á flótta [þ.e. konur frá Úkraínu] afþakki áfallahjálp af því að þær vilji ekki láta líta á sig sem fórnarlömb. Halina bendir á að í úkraínskri menningu [en þetta er arfleið frá Sovéttímanum þar sem að óvinir ríkissins voru oft vistaðir á geðsjúkrahúsum] hafi slík hjálp neikvæða merkingu. Áfallahjálp er lokaúrræði þeirra sem geta ekki lengur hjálpað sér sjálfir. Þær vilji og þurfi á því að halda að halda í sjálfstæði sitt sem þeim finnst þær glata með því að þiggja slíka hjálp.

Þá er hún spurð um hvernig öðrum hópum útlendinga farnist í Póllandi en eins og minnst er á hér að ofan er mikil eftirspurn eftir vinnuafli.

Hún segir þann hóp – fólk frá Suður-Ameríku og Asíu – teljast til seinni öldu útlendinga sem reki á fjörur Póllands. Þetta sé fólk sem komi hingað oft með það að leiðarljósi að setjast hér að til frambúðar. Þetta fólk komi líka með bagga að heiman eins og flóttafólk, það beri ábyrgð á að vinna nóg og spara nóg til að geta sent pening heim til að hjálpa fjölskyldum sínum en í heimalandinu er aldrei næg hjálp – það er enginn endapunktur í sjónmáli. Þetta fólk þarf alltaf, alla sína ævi, að þéna til að geta sent pening heim. Halina segir enn fremur að það sé í raun stöðugt áfall að þurfa að bera ábyrgð á stórfjölskyldunni heima, ekkert megi koma upp á, ekkert má út á bera. Hún segir að atbeini þessa fólks gæti verið auðlind fyrir Pólland en af því að þau koma ekki hingað sem fórnarlömb finnist samfélaginu að það eigi ekki að þurfa að gera neitt til að koma til móts við það, ekki gera neitt til að auðvelda þeim lífið á nokkurn hátt.

Hún bendir á að Úkraínbúar og farandverkafólk, þrátt fyrir að vera stærstu hópar útlendinga í Póllandi séu þeir alls ekki þeir fyrstu í sögu Póllands eftir að kommúnisminn leið undir lok. Pólland tók við fólki frá Tsétséníu, Górno-Karabak og Austurlöndum nær. Í dag er hægt að finna pólsk börn sem eru dökk á hörund og eiga foreldra þar sem annað er pólskt, hitt ekki. Núna þegar það kemur alda á eftir öldu með stuttu millibili finni fólk í samfélaginu meira fyrir því að ekki séu bara Pólverjar í Póllandi. Halina bendir á að Pólland hafi ennþá tíma til að endurtaka ekki mistök Þjóðverja, Hollendinga og Norðurlandabúa. Þær þjóðir hafi hugsað um þetta fólk fyrst og fremst sem vinnuafl og kusu að sjá ekki að þetta fólk var fyrst og fremst fólk. Eðlilega vill fólk sem kemur hingað í lengri tíma fá fjölskylduna sína til sín. Og eðlilega vill þetta fólk tilheyra samfélaginu en ekki vera utanvelta. Þá bendir hún á að vandamálið sé ekki að það séu innflytjendur sem bregðist samfélaginu með því að aðlagast ekki, samfélagið bregðist með því að hafa enga umgjörð fyrir aðlögun þess að samfélaginu sjálfu.

Halina bendir á að saga mannkyns sé saga fólksflutninga – þeir séu óhjákvæmilegir. Hún segir að oft sé það þannig að kerfin í löndunum séu þannig uppbyggð að allt sé gert til að koma í veg fyrir aðlögun.

Hún tekur Svíþjóð sem dæmi. Samkvæmt gildismati Svía þarftu – ef þú vilt vera fullgildur meðlimur samfélagsins – að vinna, vera heilbrigður og borga skatta. Ef þú ert hinsvegar heimavinnandi húsmóðir með þrjú börn sem þú sendir ekki í leikskóla geturðu ekki verið fullgildur meðlimur samfélagsins. Hér spilar inn í ótti foreldra við það að ef börnin þeirra gangi í sænska leikskóla læri þau ný félagsleg gildi, tapi trúnni og menningareinkennum upprunalands foreldranna. Þessi hugsunarháttur er vandamál en stærra vandamál er að sé engin stofnun, ekkert batterí sem veiti þessari hugsun viðnám. Enginn grípur inn í til að veita félagslegan stuðning, útskýrir mikilvægi þess að börn tileinki sér nýja menningu og tungumál og útskýri þar að auki að þó svo að þú tileinkir þér eitthvað nýtt þurfir þú ekki að gleyma einhverju gömlu í staðinn.

[Heima á Íslandi veit ég af eigin raun eftir að hafa kennt flóttafólki íslensku að helsta vandamálið er aðgengi: bæði sé ekki nóg um pláss hjá dagforeldrum og á leikskólum heldur sé kostnaðurinn líka orðinn of hár, sérstaklega ef viðkomandi fjölskylda er með fleiri en 2 börn á leikskólaaldri. Ef að leikskólakostnaður barna þinna er ígildi margfaldra mánaðarlauna í heimalandi þínu, þá eðlilega reynir þú frekar að þreyja þorrann og verður heima með börnin þín til að geta hjálpað fleira ættingjum. Hvaða foreldri myndi ekki heldur vilja vera á vinnumarkaði og tala við fólk sem er komið af máltökuskeiði heldur en að vera eitt heima með 3 börn undir 6 ára aldri 8 tíma á dag?]

Þetta leiðir af sér að þegar að börnin byrji í grunnskóla tali þau ekki nægilega góða sænsku og skólarnir séu ekki undir það búnir að veita þeim aukalegan stuðning. Þá séu börnin komin með tvær ástæður til að skammast sín, þau tali lélega sænsku og læri líka að vegna þess að mamma þeirra er heimavinnandi hafi hún ekkert samfélagslegt virði – því alvöru Svíi/samfélagsþegn vinnur úti og borgar skatta. Svona vex upp úr grasi kynslóð sem finnst hún ekki tilheyra samfélaginu.

En hvað er hægt að gera í Póllandi til að koma í veg fyrir álíka þróun?

Halina segir að best væri að nota almenna skynsemi þegar það kemur að úrlausnarefnum innflytjenda/flóttafólks frá Úkraínu því mikill fjöldi sem þeim tilheyrir eru börn á grunnskólaaldri. Fyrstu ár stríðsins voru úkraínsk börn undanþegin skólaskyldu í Póllandi, þau mættu í tíma á netinu þar sem þeim var kennt af kennurum sem ennþá voru í Úkraínu. Svona er verið að búa til framtíðarvandamál með því að koma í veg fyrir að úkraínsk börn umgangist jafnaldra sína í Póllandi. Þá sé það oft þannig að börnin séu ein heima á meðan að mæður þeirra fara að vinna, þannig að það er enginn strúktúr allan daginn. Þá eru sum börn sem ganga í pólska skóla á daginn og fara síðan í tíma í úkraínska skólanum þegar þau koma heim því það eru engar tómstundir sem þau geti sótt þegar að skóla lýkur. Þá eru líka margar mæður sem vinni tvær vinnur og komi heim seint á kvöldin. Halina bendir á að frá sjónarhorni mæðra sé þetta það besta í stöðunni, börnin megi ekki missa tengsl við heimalandið því ætlunin sé að fara til baka þegar stríðinu lýkur. Þá sé þeirri spurningu ósvarað hvað börnum þeirra standi til boða ef þau fara aftur til Úkraínu með mæðrum sínum en finna sig ekki. Hvert eiga þau þá að fara? Hvað eiga þau þá að gera?

Halina bendir enn frekar á að skólar séu bestu tól samfélagsins til að hjálpa útlendingum meðvitað að aðlagast. Það sé ekki bara spurning um að börn læri málið heldur komist þau í tæri við aðra menningu og læri að vera í sátt og samlyndi með fólki með annan félagslegan bakgrunn. Annað vandamál sé skortur á fagfólki og úrræðum handa þeim. Menntun sálfræðinga og uppeldisfræðinga fjalli lítið sem ekkert hvernig skuli nálgast börn af ólíkum uppruna auk þess sem að engin miðlæg stofnun haldi utan um og þrói kennslugögn.

En hvernig er hægt að taka allt þetta samansafn af fólki og láta þetta ganga upp? Hvernig er hægt að framkvæma þetta?

Halina segir að það eigi að hugsa um þetta allt sem bútasaum. Þá sé hægt að gera þetta bæði með miklum tilkostnaði en líka litlum. Ódýrast og farsælast væri að mennta kennarana sem eru að vinna í skólunum nú þegar í stað þess að búa til nýtt nám sem kennarar þyrftu að skrá sig í og sinna eftir vinnu. Kennarar séu starfsmenn á plani og geti komið með tilfelli úr raunheimum og prófað mögulegar lausnir strax. Síðan má opna skólana fyrir óhagnaðardrifnum félögum sem hafi reynslu af því að vinna með ólíka menningarheima og fá þau til að leiða saman hesta pólskra foreldra og útlendra. Halina segir mikilvægt að hafa í huga að þegar þú ert að sauma bútasaum að afraksturinn verði aldrei einsleitur – þú getur ekki endurmótað bútana sjálfa. Þú getur hinsvegar saumað þá fast saman svo minni líkur séu á því að þeir losni í sundur. Einsleitni megi aldrei vera markmiðið – hún sé óraunhæf með öllu. Þá sé ekki hægt sauma stíft saman nema með því að vera meðvitaður um menningarleg séreinkenni þeirra sem í hlut eiga. Vera má að það hafi hjálpað að tala um allt það sem Pólverjar og Úkraínubúar ættu sameiginlegt á árdögum stríðsins af því að tungumálin séu áþekk. Menningarlegur mismunur kom strax í ljós þó svo að ríkjandi raddir hafi sagt annað. Dæmi um ótilætluð áhrif þess að tala niður þennan mismun sé óvild í garð Úkraínubúa í byggðum utan þéttbýlustu borgana.

En hvernig á óvild þessi sér rót í menningarmun milli þjóða?

Oksana, mamma Ígors, mætir í skólann hans og öskrar. Hún byrjar á því að rífast við kennarana um að hann sé settur í lægri bekk en aldur hans segir til um. Með því að standa á garginu og skammast í kennurunum er hún búin að baka sér óvinsemdir þeirra. En frá sjónarhorni Oksönu er þetta ekki spurning um hvað hún og hennar „eigi rétt á“ eða að hún sé ekki nógu vel gefin – heldur vegna þess að allir Úkraínubúar viti að til þess að ná einhverju fram hjá yfirvöldum þarf að rífast, skammast og garga.

Ef kennurum væri gerð grein fyrir því að menningarmunur sé vissulega til staðar á milli þessara grannþjóða þá væri auðveldara fyrir þá að átta sig á vandamálinu í stað þess að koma með persónulegt álit á félagslegri vanhæfni Oksönu. Það er auðveldar að leita lausnar á vandamáli sem á upptök sín í menningarmun milli aðila heldur en að leysa persónulegt vandamál eins og frekju foreldris. Það sama á í raun við öll tækifæri þar sem Úkraínubúar bíða eftir sömu þjónustu og Pólverjar, á biðstofu læknis eða í röð úti í búð svo dæmi séu tekin.

Aðlögun getur aldrei átt sér stað ef að bara annar aðilinn sækist eftir henni. Hugsa má um aðlögun sem heimsókn. Til þess að heimsókn sé góð þurfa bæði gestur og gestgjafi að vera meðvitaðir um hvernig best sé að traktera hvorn annan. Eins og Pólverjar þurfi að læra að vinna með börnum sem ekki eiga pólska foreldra, þurfa foreldrar barnanna að átta sig á því að kennararnir eru pólskir en ekki frá heimalandi þeirra.

En hvað með annað fólk sem ekki er frá Úkraínu?

Þann lærdóm sem má draga af samskiptum Pólverja og Úkraínubúa og af menningarmun þeirra á milli má heimfæra yfir á hverja þá koma til Póllands. Þó svo að Pólverjar hafi ennþá tíma til að rétta sig af og gera hlutina vel óttast Halina að allt stefni í sömu nálgun og hefur verið hjá Þjóðverjum og Norðurlandabúum – þ.e.a.s. ef við lokum augunum fyrir vandamálunum eru þau ekki til og innflytjendur aðlagi sig best sjálfir án aðkomu heimamanna.

Ef þú getur ekki orðið Pólverji nema þú talir lýtalausa pólsku og hatir Rússa þá eru Pólverjar búnir að koma í veg fyrir að fjöldi fólks aðlagist og upplifi sig sem hluta samfélagsins. Hvað ef þú kemur frá landi þar sem að rússneska er tungumálið sem er talað heima? Pólverjar þurfi að ákveða hvaða kröfur séu raunhæfar og sjá til þess að leiðin til að uppfylla þær kröfur sé öllum greið.

Pólsku hagkerfi vexur fiskur um hrygg frá ári til árs, pólskir fjárfestar eru að gerast digrir á mörkuðum erlendis og hafa meðal annars verið að kaupa verslunarkeðjur í Bretlandi. Margir Pólverjar bíða eftir að stríðinu ljúki því þeir renna hýru auga til fjárfestingatækifæra sem eru að verða til í Úkraínu.

Í maí á síðasta ári var um 2 km löng röð vörubíla fyrir utan bæinn Korczowe sem biðu eftir því að komast í gegnum tollinn. Meðalbiðtími var um 10 klukkustundir og þótti ekki mikið en nokkrum mánuðum áður spannaði röðin nokkra tugi kílómetra. En núna eru allar líkur á því að þetta 690 manna þorp verði miðstöð fyrir pólsk byggingafyrirtæki í framtíðinni en Donald Tusk tilkynnti í fyrra að búið væri að ganga frá samningum um að leggja veg frá pólsku landamærunum í gegnum Lvív til Rívne, samtals 250 km.

Með vinnu og efni er samningurinn talinn vera upp á 7 milljarða slota fyrir tvöfaldan veg (fjórar akreinar), hannaðan með þungaflutninga í huga. Ákvæði samningsins gera ráð fyrir að þeir sem komi að lagningu vegarins séu annaðhvort pólsk fyrirtæki eða samvinnufyrirtæki.

Heildarlandsframleiðsla Póllands jókst um 2.9% árið 2024 og fór langt fram úr því sem hún hafði verið 2023, þegar hún jókst um 0.1%. Hagvöxtur innan ESB er hvergi jafn ör og hér. Markmið ríkisstjórnar er að hagvöxtur á þessu ári verði 3.9% – töluvert hærra markmið en markir telji vera raunhæft. Er þessi hagvöxtur talinn vera vegna fjárfestinga innanlands og í nágrannalöndum en ekki neyslu.

Gdańsk er nú fimmta stærsta höfn innan ESB og hefur farið fram úr Algeciras á Spáni og HAROPA í Frakklandi. Eingöngu hafnirnar í Amsterdam, Hamborg, Antwerp-Bruges og Rotterdam meðhöndla meiri frakt en Gdańsk samkvæmt nýjustu tölum. Árið 2023 fóru nær 70 milljón tonn af frakt í gegnum Gdańsk en það var 26% aukning frá árinu 2022.

Þá stendur til að að reisa korngeymslur nálægt höfninni þannig að geymslugeta fari úr 700.000 tonnum í 3 milljónir.

Þá er byrjað að reisa fyrstu vindmyllugarða Póllands á hafi úti. Þeir eru samtarfsverkefni ríkisorkufyrirtækisins Orlen og kanadíska fyrirtækisins Northland Power. Áætlað er að taka garðana í notkun á næsta ári og mun orka frá þeim sjá yfir 1.5 milljón heimila fyrir rafmagni. Verkefnið er liður í áætlun pólska ríkisins í orkuskiptum með því að minnka kolanotkun en orkuskiptum verður náð bæði með endurnýjanlegri orku sem og kjarnorkuverkiu sem til stendur að reisa.

Vindmyllurnar eru allt að 100 metra háar með 40 metra undir sjávarmáli, 9 metrar í þvermál og vega 1.700 tonn. Er þessi vindmyllugarður sá fyrsti af 3 sem á að rísa í Eystrarsaltsvæði Póllands. Næsti garður sem á að rísa verður byggður í samvinnu við danskt fyriræki og á að sjá Póllandi fyrir allt að 3% af heildarrafmagnsframleiðslu landsins. Á síðasta ári var 29% alls rafmagns búið til með endurnýjanlegum orkugjöfum en 57% af öllu rafmagni er ennþá framleitt með kolum.

Þrátt fyrir þann árangur sem er í höfn er pólska ríkið langt á eftir með þau orkuskipti sem lofað var í síðustu kosningum. Einnig stóð til leggja fram lagafrumvarp sem átti að auðvelda smærri aðilum að komast inn á markaðinn en það hefur ekki ennþá séð dagsins ljós.

Heilt yfir litið hafa Pólverjar orðið fyrir vonbrigðum með ríkisstjórn landsins sem er samsteypustjórn þriggja flokka undir stjórn Donalds Tusk. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við stóru orðin sem látin voru falla í kosningabaráttunni og af þeim 100 umbótum sem gera átti á fyrstu 100 dögum stjórnarinnar er aðeins búið að framkvæma 15 en 27 til viðbótar hafa verið kláruð að einhverju en ekki öllu leyti.

Meðal þess sem hefur þó verið gert er að hætta skógarhöggi í helstu og elstu skógum landsins, fjármagna glasafrjóvgunarmeðferðir, koma aftur á fót neyðarlínu handa börnum (sem bjargar að meðaltali tveim börnum á dag), skipta út umboðsmanni barna og fá fé úr sjóðum sem ESB hafði frosið. Helstu bitbein flokkanna sem mynda ríkisstjórn varðar nýja skattalöggjöf og að binda endi á nær algjört bann við þungunarrofi.

Fæðingartíðni í Póllandi hefur náð nýjum lægðum og hefur ekki verið lægri síðan á árunum eftir stríð. Á síðasta ári fæddust 252.000 börn en 409.000 andlát voru skráð á sama tíma. Í lok síðasta árs hafði íbúafjöldi Póllands dottið niður í 37 milljónir, fólksfækkunin var því upp á 0.39%. Minni frjósemi og fækkun kvenna á barneignaraldri eru talin vera helsta orsökin. Þá er töluvert um að ungt fólk flytji erlendis sem hefur líka áhrif á þessar tölur. Árið 2023 var fólk 80 ára og eldra 5% af heildaríbúafjölda landsins en árið 2010 voru það um 3%.

Búið er að hækka barnabætur úr 500 slotum í 800 slot (17.600 ISK í 28.200 ISK) fyrir hvert barn sem greiðist mánaðarlega óháð innkomu foreldra en það hefur haft lítil áhrif.

Vegna fólksflutninga erlendis frá eru erlendar mæður 6.7% af þeim sem fæða börn á pólskum spítölum.

Aðalvandamálið er að það vantar bæði dagvistun og leikskólapláss fyrir börn. Óháð barnabótum þá geta foreldrar ekki greitt fyrir dagvistun sem ekki er til. Eins og svo oft þá niðurgreiða konur ríkið en eldri konur sem hættar eru að vinna sjá oft um barnabörn sín á meðan foreldrar vinna. Bæði sjá þær um börn sem eru á leikskólaaldri og eru oft þeir aðilar sem bæði fara með börnin í skólann og sækja þau.

Þetta var ekki vandamál á tímum kommúnismans þar sem búið var að gera ráð fyrir barninu þínu frá því áður en þú varðst ólétt. Þess vegna beið eftir barninu dagvistun (mæður áttu helst að fara strax að vinna) og síðar leikskólapláss.

Ég gæti skrifað endalaust um Pólland en læt þetta nægja í bili.

Takk fyrir lesturinn.



Færðu inn athugasemd