Ef litið er yfir söguna hefur Austur-Evrópa verið á jaðri Evrópu. Á miðöldum var ástæðan einföld: Evrópa var samnefnari kristindóms og kristindómi lauk þar sem að heiðingjar voru við völd. Þegar heiðingjar loksins lutu lægra haldi fyrir kristnum breyttust landamæri Austur-Evrópu úr því að marka skil kristni og heiðni í að marka skil kaþólskrar kristni og þeirrar sem féll undir austurkirkjurnar. Þetta voru landamæri Rómar og Konstantínópelar, latínu og grísku.
Þarna á milli var vissulega bil en ekki er hægt að segja að þarna hafi verið óbrúanlegt. Á 14. öld þegar Ottómanar (í íslenskum heimildum er talað um Tyrki og Tyrkaveldi í stað Ottómana og Ottómanaveldis sem mér finnst vera rangnefni, þar sem að Ottómanaveldi var þjóðernisgrautur þó svo að Tyrkir færu með forystu) hófu sínar fyrstu innrásir inn á Balkanskagann varð Austur-Evrópa að trúarlegum flekaskilum, múslimar á einum flekanum og kristnir á hinum. Eftir því sem að íslam óx fiskur um hrygg hafði sú trú mikil áhrif á það hvernig íbúar Austur-Evrópu sáu sjálfa sig. Margir kristnir leiðtogar tóku að sér hlutverk framvarða trúarinnar og sögðust vera síðasta vígi kristninnar gegn ágangi múslima. Mýtan um Antemurale Christianitatis, „vígi kristindóms“, var innleidd í Póllandi, Albaníu, Serbíu, Króatíu, Ungverjalandi og hverju því landi sem á einhverjum tímapunkti lenti í átökum við fylgjendur Múhammeðs.
En þrátt fyrir hávær mótmæli þjóðernissinnaðra sagnfræðinga þá verður að taka fram að Austur-Evrópa var ekki bara varnargarður heldur líka hlið. Kristnir og múslimar ekki bara tókust á við þessi trúarlegu landamæri, þeir kynntust líka hvor öðrum og blönduðu geði. Al-Andalús, Spánn undir yfirráðum múslima – Mára eins og þeir eru oft kallaðir á íslensku – var lengi vel talið eina svæði Evrópu þar sem að fylgjendur þessara trúarbragða lifðu í návígi og lærðu hvor af öðrum. Löngu eftir að Márar voru hraktir burt af herjum Ferdínands og Ísabellu 1492 voru stór svæði í Austur-Evrópu sem tilheyrðu yfirráðarsvæðum íslams. Nú í dag eru stærstu og elstu söfnuðir evrópskra múslima í þessum hluta álfunnar.
Bosnía-Hersegóvína, Kósóvó og Albanía eru þau lönd Evrópu þar sem múslimar eru í meirihluta. Þá eru mjög stórir íslamskir minnihlutahópar í Búlgaríu, Svartfjallalandi og Norður-Makedóníu. Einnig má sjá leifar aldalangrar búsetu múslima í löndum eins og Póllandi, Rúmeníu, Litháen og Belarús.
Íslamskir kaupmenn byrjuðu að venja komur sínar til Austur-Evrópu á 10. öld í leit að loðfeldum og þrælum. Ritin sem þeir skildu eftir sig eru bestu heimildirnar um lifnaðarhætti og venjur Pólverja, Tékka og Ungverja áður en að leiðtogar þeirra tóku upp kristna trú.
Í Bagdad, þáverandi höfuðborg Abbasíd kalífadæmisins, var þungamiðja verslunarleiða sem lágu frá Marokkó til Kína og teygði arma sína alla leið til Skandínavíu og djúpt inn í Síberíu.
Fræðimenn múslima skiptu heiminum í sjö belti. Nyrstu svæðin tilheyrðu sjöunda beltinu sem einkenndist af kulda, sóðaskap og ómenningu. Frá sjónarhorni spekinga sem bjuggu í grænum borgum Persíu og Mesópótamíu voru Slavar sem áttu heima á þessum svæðum ekki svo ólíkir villidýrum.
Þá var álit Araba og Persa á nágrönnum Slava til austurs, er Tyrkir voru og eru kallaðir, ekki mikið hærra. Á þessum tíma voru fæstir tyrkneskumælandi þjóðflokkanna búnir að taka upp íslam og voru ennþá heiðnir. Á örfáum öldum áttu þessir hirðingjar Mið-Asíu eftir að víkka út landsvæði íslam svo mjög að það náði að Adríarhafinu og hliðum Vínarborgar.
Íslam kom til Evrópu fyrst í gegnum verslun en varð seinna eftir vegna landvinninga. Landvinningar hófust með fyrstu hermönnum Ottómana sem mættu á Balkanskagann 1345 og héldu áfram þangað til að Ottómanar höfðu náð undir sig Pódólíu 1672, sögulegu svæði norður af Moldavíu sem nú tilheyrir Úkraínu. Í gegnum aldirnar varð stríðsvél Ottómana sífellt betri og tókst þeim að sölsa þeir undir sig allan Balkanskagann, hluta Úkraínu, Rúmeníu og bróðurpart Ungverjalands (sem var mun stærra en það er nú).
Þessir landvinningar umbreyttu stórum landspildum Austur-Evrópu í vígvætt landamærasvæði. Aldrei varð til neitt járntjald milli íslam og kristindóms og í stað skarpra landamæra voru þarna svæði með takmarkaða sjálfstjórn. Fyrir íslam börðust ghazi, hermenn sem börðust fyrir trúarsystkin sín og soldáninn – í þeirri von að verða verðlaunaðir með landi. Þá voru einnig flokkar hirðingja sem bjuggu á hestbaki, Kipchak og Nogai Tatarar, sem börðust undir fána hálfmánans sjálfum sér til góðs en þeir uppskáru bæði góss og þræla.
Í kristindómi mátti líka finna fjölbreytt róf manna sem börðust gegn heiðingjum. Þar voru uskok – króatískir sjóræningjar, pandur og grenzer – sérherdeildir Habsborgara og hadjuk – ungverskir hermenn. Allir þessir hópar nýttu sér óstöðuleika þessara átakasvæða og réttlætu gripadeildir sínar og mannrán á forsendum trúarinnar. Enginn þessara hópa hafði álíka orðspor fyrir sína ótrúlegu grimmd og kósakkar úkraínsku hásléttunnar.
Ekki er vitað með vissu hvaðan kósakkar koma en svo virðist sem þeir hafi byrjað sem strokumenn eða útilegumenn. Á hrjóstugum svæðum Suður-Úkraínu gátu ánauðugir bændur frá Rússlandi og Pólska-litháíska samveldinu hafið nýtt líf og verið frjálsir. Fyrir frelsið varð að greiða með því að vera á stöðugu varðbergi: þar sem að ekkert ríki gat verndað þá urðu þeir að taka málin í sínar eigin hendur. Þeir tileinkuðu sér margt úr fari tyrkneskra þjóðflokka og urðu að samfélagi sem skipt var niður í litla sjálfstæða hópa, hver og einn þessara hópa mynduðu eigin her. Kósakkar réðust inn í Pólska-litháíska samveldið, Rússland og landsvæði Ottómana. Í dag er þeirra helst minnst fyrir að hafa brennt þorp gyðinga til kaldra kola og seinna meir sem sérstökum herarmi Rússakeisara. Í eigin huga voru þeir að berjast fyrir trú sína, hina einu sönnu rétttrúnaðarkristni, gegn kaþólikkum og múslimum.
Þegar hann var á lífi var kósakkinn Dmýtró Vysjnevetskí dæmigerður höfðingi þessa hrjóstuga svæðis. Hann var bæði klókur og miskunnarlaus auk þess sem hann var alltaf tilbúinn til að selja hæstbjóðanda hollustu sína. Fyrir konung Póllands byggði hann virki úti á eyju í ánni Dnépr til að halda aftur af Töturum. Í þjónustu við Ívan grimma safnaði hann liði í Kákasusfjöllunum og herjaði á landsvæði meðfram ánni Don. Eftir að hann dó breyttist hann í Bajda, þjóðsagnakennda persónugervingu kósakkakarlmennsku og aðalpersónu hetjukvæðanna.
Balkanskagi Ottómana var óaðskiljanlegur hluti hins íslamska heims í fimmhundruð ár, tímabil sem spannar fleiri ár en saga kaþólskunnar í Suður-Ameríku. Erfitt að gera grein fyrir öllu því sem gerðist yfir aldirnar. Þarna leikur sagnaritun mikilvægt hlutverk en saga múslima er að einhverju leyti munaðarlaus. Kristnir sagnfræðingar frá Balkanskaganum hafa haft tilhneigingu til að skrifa um þetta tímabil sem einhverskonar vetur í kjölfar kjarnorkusprengingar þar sem ekkert fékk hvorki vaxið né dafnað. Það gæti hinsvegar ekki verið fjær raunveruleikanum.
Helstu þéttbýli á Balkanskaganum í dag urðu til í stjórnartíð Ottómana. Stærstu borgir Bosníu og Albaníu – Sarajevó, Mostar og Tírana – voru allar reistar vegna forgöngu Ottómana. Borgir í Búlgaríu á borð við Plovdiv og Sofíu voru endurreistar af Ottómönum. Ottómanar lögðu vatnsveitur, vegi og byggðu brýr. Á þjóðveginum frá Belgrad til Istanbúl gátu ferðalangar gist í khan, stöðum sem veittu næturgreiða. Í sumum borgum gátu þeir verslað í bedesten, mörkuðum reistum úr grjóti eða arasta, yfirbyggðum verslunargötum.
Þrátt fyrir að Balkanskaginn hafi verið aðeins hluti af Ottómanveldinu – og það frekar fjörlítill – var hann samt tengdur Istanbúl á marga vegu í gegnum stjórnmál, trúarbrögð og verslun. Árið 1600 bjuggu 600.000 í Istanbúl, tvöfaldur fjöldi þeirra sem bjuggu í París og þrefaldur fjöldi þeirra sem bjuggu í Lundúnum á sama tíma. Borgin rak eigin bítibúr og hafði bæði múslima og kristna í vinnu sem sáu til þess að alltaf væri til korn-og kjötmeti. Í Sofíu sem þá var undir yfirráðum Ottómana, voru í samtökum verslunarmanna tíu gullsmiðir, sjö skósmiðir, fjórir kráareigendur, tveir menn sem ráku nýlenduvöruverslanir, leirkerasmiður, bátmaður, vefari (sem spann úr geitaull) og tveir kristnir menn sem seldu ís – annar þeirra var njósnari fyrir íslömsku leynilögregluna.
Það var þessi langa sambúð en ekki skyndileg trúarfráhvörf sem leiddu til þess að fjöldi fólks tók upp íslamska trú og að Albanía og Bosnía eru að mestu leyti búin múslimum í dag. Um allan Balkanskagann löðuðust kristnir hægt og rólega að íslam í gegnum ýmiskonar ívilnanir sem Ottómanaveldið bauð upp á. Fjöldi fólks á sama tíma flutti frá Anatólíu, þ.e. tyrknesku hásléttunni, og eystri svæðum Ottómana á svæðin og blönduðust heimafólki.
Eins og áður sagði buðu Ottómanar kristnum sem voru tilbúnir til að ganga af trúnni og taka upp siði íslams allskonar hvata, þá helst fjárhagslega. Herdeildir og sjóher soldánsins voru að stórum hluta mannaðir af þeim sem höfðu flúið frá Ítalíu, Grikklandi, Serbíu og Ungverjalandi. Á 19. öld voru þessar útlendingaherdeildir orðnar svo stórar að ákveðið var að stofna sérstaka herdeild með þeim eingöngu, murtad-tabor, svikaradeildin.
En auðvitað var það ekki svo að allir þeir sem gengu af kristinni trú og gengu íslam á hönd hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja. Margir enduðu í löndum múslima sem herfangar, þeim hafði verið rænt af Töturum og seldir í þrældóm á einum af mörgum þrælamörkuðum sem finna mátti við Miðjarðarhafið. Það var með þessum hætti sem að keisaraynja Ottómana, Roxelana, endaði í Istanbúl. Hún var dóttir rétttrúnaðarprests í Úkraínu og náði að safna völdum sem gerðu henni kleift að komast úr kvennabúri soldáns og verða uppáhaldseiginkona hans. Örlög hennar voru þó einstök. Dæmigerðari örlög kvenna í svipuðum sporum voru örlög Theadóru Tedeu, albanskrar konu fædd í kringum 1580. Þegar hún var 21 árs var henni rænt af áhöfn tyrkneskrar þrælagaleiðu og gift múslima í Ottómanveldinu. Nokkrum árum seinna var henni rænt af kristnum Grikkja og seld ítölskum manni í Napólí sem seldi hana síðan til Rannsóknarréttarins sem síðan veitti henni frelsi.
Skjalageymslur Rannsóknarréttarins á Ítalíu eru fullar af skjölum með sögum fólks eins og Theódóru. Múslimar í Ottómanaveldinu reiddu sig á þræla frá kristnum löndum og margir kristnir áttu þræla sem höfðu verið teknir frá löndum múslima. Líf á ystu mörkum ríkja var hættulegt bæði mönnum og konum. Ef þau gættu ekki að sér gætu þau endað í kvennabúri eða sem ræðarar í galeiðum.
Þrældómur voru í eðli sínu skelfileg örlög. En fyrir sumar kristnar konur sem fóru af fúsum og frjálsum vilja til Ottómanveldisins gátu slíkir flutningar opnað þeim ýmsar dyr sem annars hefðu verið þeim lokaðar sökum kyns. Salómea Pilsztyn var fædd í kaþólska fjölskyldu árið 1718 á svæði sem nú tilheyrir Belarús. Hún giftist manni úr lúterskri fjölskyldu sem vann fyrir sér sem læknir í Ottómanaveldinu. Salómea lærði læknisfræði og hóf störf sem augnlæknir. Þegar eiginmaður hennar fór frá henni opnaði hún og rak eigin læknastofu, fyrst í Edirne og síðan í Sofíu. Í Sofíu kom hún sér síðan fyrir í mun ábótasamari bisness: að fá fólk frjálst gegn lausnargjaldi. Hún keypti hershöfðingja úr röðum Habsborgarahersins sem höfðu verið teknir til fanga af þrælasölum í Ottómanaveldinu og rukkaði síðan fjölskyldur þeirra fyrir ómakið. Hún hélt einum þessara manna eftir, Þjóðverja frá Slóveníu sem hét Pichelstein (Pilsztyn á pólsku) og giftist honum. Þau ferðuðust til St. Pétursborgar þar sem að hún bauð yfirstéttarkonum lækningar af ýmsum toga. Eftir nokkur ár skildi hún við Pichelstein sem hún sakaði um framhjáhald, kúgun og tilraun til að eitra fyrir sér. Hann var ekki síðasti svallarinn sem hún átti eftir að gera sér dælt við í gegnum ævina. Að því sögðu þá var Salómea þekkt fyrir að vera með sturlaðar ásakanir. Einu sinni hélt hún að gyðingur sem var í samkeppni við hana í Istanbúl væri að nota svartagaldur til að stela frá henni sjúklingum. Þegar hún var orðin aftur ein varð hún sér úti um stöðu augnlæknis í kvennabúri soldánsins og seinna meir flutti hún á Krímeaskagann þar sem hún vann í kvennabúri khans Krímeaskagatatara.
Í Austur-Evrópu var mikið um dýrlinga og kraftaverkafólk og voru grafhýsi þeirra fjölsóttir staðir. Heilagur Nikulás og María Mey áttu fylgjendur meðal múslima á meðan að kristnir gerðu sér ferð að grafreitum helgra manna úr röðum múslima. Kristnir og múslimar héldu oft upp á sömu trúarhátíðir. Á jólum aðstoðuðu múslimar í Albaníu kaþólskum nágrönnum sínum að höggva niður jólatré, kaþólikkar tóku síðan þátt í að halda upp á Eid sem markaði enda föstuhátíðar múslima, Ramadan. Þessi samblanda fann sér samhljóð í þjóðháttum en kristnir og múslimar notuðu sömu alþýðulækningar og sóttu sér þekkingu í hefðir úr ranni hvors annars. Múslimar kysstu kristin íkon og létu skíra börnin sín, kristnir sem lágu banaleguna buðu til sín dervisum, reglubræðum farandmunkareglu múslima og báðu þá um að lesa yfir sér upp úr Kóraninum. Í Póllandi og Litháen var talið að Tatarar væru vel að sér í flogaveiki og krankleikum hugans. Fyrir seinni heimsstyrjöldina var það venja hjá bæði kristnum og gyðingum í þéttbýlari svæðum að senda andlega veika fjölskyldumeðlimi til ættingja úti á landi sem voru múslimar.
Hvergi voru trú og siðir jafn samanofið og í Albaníu. Ein ætt gat haft þrjá leggi, einn kaþólskan, einn íslamskan og einn sem var kaþólskur en borðaði ekki svínakjöt. (Elsti bróðirinn hafði tekið upp íslam, miðbróðirinn var kristinn og sá yngsti ákvað að halda sig við halal til að þóknast elsta bróður sínum).
Á meðal íslamskra dýrlinga í Austur-Evrópu var enginn sem átti jafn marga áhangendur af ólíkum trúarbrögðum og Sarı Saltık. Hann var þjóðarhetja múslima á Balkanskaganum: hann gat skipt um ham, var hrekkjalómur, stríðsmaður og rökræðumeistari. Þótt ótrúlegt sé er talið að Saltık hafi verið til í alvörunni sem trúarleiðtöðu á þrettándu öld sem hjálpaði til við að snúa meðlimum Gullnu hordunnar (en svo nefndist ættbálkur frá Mongólska keisaradæminu sem hafði klofið sig frá heimastjórninni og réð ríkjum yfir Suður-Rússlandi) til íslams.
Pólsk-litháíska samveldið eyddi miklum kröftum á árdögum sínum í að halda Ottómönum frá eða í að berjast við þá. Bæði þessi ríki unnu mikla sigra og upplifðu mikil töp á víxl. Engu að síður varð þessi átakatími sem spannaði áratugi, ef ekki aldir, til þess að viss kunningsskapur myndaðist á milli þessara manna sem börðust fyrir þessi ríki. Það sást best á litlu hlutunum. Á 18. öld var það venja hjá hershöfðingjum sem voru yfir landamæravörnum hvoru megin við bardagalínurnar að senda gjafir til hvors annars.
Litlu hlutirnir áttu eftir að breytast seinna meir í höfðingsskap. Þegar Pólland glataði sjálfstæði sínu 1795 eftir Skiptingarnar (þ.e. þegar Rússakeisaradæmið, Habsborgaraveldið og Prússland skiptu Póllandi á milli sín) þá neituðu Ottómanar að viðurkenna gjörninginn. Ráðamenn í Istanbúl leyfðu síðasta sendiherra Póllands að halda stöðu sinni. Næstu þrjátíu árin greiddu þeir laun hans og leyfðu honum að sitja fundi með divan, ráðuneyti nokkurskonar, þar sem sendiherrar annarra komu saman til að fá upplýsingar um gang mála í Ottómanaveldinu. Þangað til að Pólland fékk aftur sjálfstæði 1918 gerðu Ottómanar sér far um að byrja alla fundi með vestrænum erindrekum á orðunum „enn vantar fulltrúa Lehistans [Póllands]“.
Sagan hefur líka skilið eftir sig spor í tungumálinu. Til er gamalt orð í pólsku – bisurman – sem notað var sem nýðyrði um múslima. Úr því varð til sögnin bisurmanić się, að snúast til íslamstrúar. Hún getur líka merkt að haga sér illa eða að vera of eyðslusamur.
Gerð voru drög að því að reisa mosku fyrir múslima í Varsjá og var þeirri hugmynd mætt með miklum ákafa, fyrir 90 árum síðan. Í upphafi 20. aldar var eingöngu eitt bænahús fyrir múslima í Varsjá, staðsett í hverfinu Praga. Árið 1906, samkvæmt dagblaði nokkru í Varsjá, voru um 300 pólskir múslimar búsettir í borginni og þar að auki voru nokkur þúsund hermenn Rússakeisara í borginni sem voru sömu trúar. Talið er að þetta hafi verið Tatarar sem voru frá bæjum meðfram ánni Volgu.
Múslimar í Varsjá á þessum tíma voru oftast vel efnað fólk. Tyrkir ráku nokkur bakarí auk þess sem að sérstakt hrossasláturhús var rekið við Furmańska-stræti við bakka árinnar Vislu sem rennur í gegnum borgina.
Hrossakjöt hefur alltaf verið mjög vinsælt hjá íslömskum þjóðum Mið-Asíu og þeim sem búa innan Rússlands.
Upp úr 1920 voru múslimar í borginni sammála um að það þyrfti að vera til staðar alvöru moska í Varsjá. Um vorið 1928 var sett á laggirnar bygginganefnd til að koma málinu í farveg. Formaður nefndarinnar lýsti því yfir að framkvæmdirnar ættu ekki að taka lengri tíma en 2 ár.
Nefndin vildi helst reisa moskuna í Praga þar sem að bænahúsið hafði verið. Mikið var rætt um að koma henni fyrir á Zygmuntowska-stræti og seinna meir var talað um að reisa hana á móti Erkibiskupsdómkirkju heilagrar og jafnhá Postulunum Maríu Magdalenu (sem er fullt nafn þessarar rétttrúnaðarkirkju í Varsjá). Þessum tillögum var hafnað af skipulagsfulltrúum borgarinnar og var ekkert meira að frétta af moskunni fyrr en 1928. Það var svo loks innanríkisráðuneytið sem samþykkti staðsetningu moskunnar í Ochota-hverfinu, en ég bjó þar einmitt þegar ég var fyrst í Póllandi 2009-2010. Ásamt samþykkinu fylgdi fjárframlag frá yfirvöldum, upp á 9 milljónir króna í gengi dagsins í dag.
Ekki er vitað um nein trúar-né menningarátök á þessum tíma, svo ætla má að ástæða þess að þetta dróst svo á langinn hafi verið fjárhagslegs eðlis.
Árið 1935 var tilkynnt um úrslit hönnunarsamkeppni sem haldin var til að fá uppástungur um útlit moskunnar



Ég hef áður skrifað um Tatara í Póllandi en þeir hafa verið hér síðan á 14. öld. Þeir Tatarar sem búa hér og víðar í Evrópu eru taldir til svokallaðra Lipka-Tatara sem búsettir eru í Póllandi, Litháen og svo langflestir, um 8.000 manns, í Belarús.
Ef ég hefði haft tækifæri fyrir 30 til 40 árum síðan að heimsækja þorpið Kruszyniany, eitt af tveim samfélögum Tatara við landamæri Belarús, þá hefði ég getað séð líf sem snérist í kringum árstíðirnar og bajram, trúarhátíðir og skemmtanir. Samkvæmt trúarhefð múslima eru trúarhátíðir þær stundir lífsins sem haldið skal upp á með fjölskyldumeðlimum með því að hittast í bænastund í moskunni eða við mizar, grafreiti múslima. Þegar þessar hátíðir eiga sér stað snúa Tatarar sem rekja rætur sínar í þorpið heim.
Tatarar hafa alltaf verið í minnihluta, meira að segja í eigin þorpum þar sem þeir bjuggu með pólskum og belarúsískum nágrönnum sínum.
Það er í raun tímabili kommúnistastjórnarinnar að þakka að þetta litla þorp sé ennþá til í stað þess að byggð hafi lagst af. Þrátt fyrir lágan íbúafjölda (150 í dag) var í þorpinu skóli, bókasafn, pósthús og kaupfélag. Þá var líka kaffihús og bar, mjólkurvinnsla og slökkvistöð.
Á pólsku er gerður greinamunur á þjóðernislegum minnihlutuhópum. Annars vegar er talað um mniejszość narodowa, það er minnihlutahópur sem tilheyrir stærri hóp sem tilheyrir sjálfstæðu ríki, eins og t.d. Þjóðverjar sem hafa Þýskaland og hinsvegar mniejszość etnyczna, minnihlutahópur þjóðarbrots sem á ekkert heimaland. Tatarar og Rómafólk tilheyra þessum síðari flokki.
Lengst af bjuggu Tatarar í Póllandi á því svæði sem kallast Kresy eða Eystri Landamærasvæðin. Þeir voru og eru afkomendur fólks sem gekk til liðs við Stórfurstadæmið Litháen eftir að Gullna hordan (sem einnig hefur verið íslenskað sem Gullni skarinn, Gullnu tjaldbúðirnar og Gullna hjörðin), veldi sem sonur Gengis Khans stofnaði, liðaðist í sundur. Þetta voru meðlimir aðalsfjölskyldna sem féllu í ónað og urðu að yfirgefa landsvæði Gullnu hordunnar í kjölfarið. Þeir Tatarar sem settust að í stórfurstadæminu voru því flóttamenn. Miðað við hugsunarhátt dagsins í dag mætti meira að segja kalla þá pólitíska flóttamenn.
Tatararnir fengu aðstoð frá Stórfurstanum Gedímínas og afkomendum hans sem leyfðu þeim að koma upp byggðum sem voru á sama tíma herbúðir, í kringum Trakai sem þá var miðstöð stjórnsýslu stórfurstadæmisins. Tatarar voru með reyndari hermönnum á sínum tíma og studdu Litháa gegn Þýsku riddarareglunni, Der Deutsche Orden og gegn Moskvu. Þetta hernaðarsamstarf gekk svo vel að fljótlega var veitt leyfi fyrir fleiri tatarabyggðum í kringum Vilníus og seinna bæði Grodno og Navahrudak, tveir síðarnefndu staðirnir tilheyra nú Belarús. Með því að láta af lifnaðarháttum hirðingja og taka upp kyrrsetulífstíl fóru Tatarar að þróa með sér nýjar leiðir í landbúnaði. Þeir þóttu góðir í að koma upp og rækta bæði kál-og ávaxtagarða, voru sérfræðingar í hrossarækt, smíðuðu hestvagna og sútuðu skinn. Helsta starf þeirra var samt eins og áður hermennskan og öfluðu þeir sér frægðar sem riddarar. Hernaðaraðstoð í gegnum aldirnar sem og fórnfýsi á vígvellinum urðu að stoðum þeirrar eigin etnísku hugmyndafræði. Þeir lögðu rækt við viðhorf riddaramennskunnar, lögðu áherslu á ættjarðarást sína, tengsl við Pólland (sem þeir álitu nú sem heimaland sitt) og tengsl við pólska aðalinn.
Búseta Tatara í árhundruðir á þessu fjölþjóðlega landamærasvæði hjálpaði þeim að aðlagast öðrum íbúum á svæðinu. Á sama tíma, þar sem þeir nutu hárrar þjóðfélagsstöðu vegna árangurs síns í stríðsrekstri ríkisins, náðu þeir að viðhalda séreinkennum sínum. Í Litháen þar sem þeir komu sem frjálsir menn fengu þeir bæði jarðir og tamgi, þ.e. ættarmerki sem seinna meir urðu að skjaldarmerkjum þeirra. Þá voru Tatarar partur af aðlinum og sem slíkir nutu þeir pólitískra, persónulegra og efnahagslegra réttinda. Þeir sem áttu hjáleigur gátu efnast á þeim stórlega en hér eins og víða í Evrópu voru bændur ánauðugir. Þá höfðu þeir fullt frelsi í trúmálum og máttu reisa sér trúarlegar byggingar, bæði moskur og bænahús. Það að halda í íslamstrú sína hefur spilað stórt hlutverk í því hvernig Tatarar sjá sjálfa sig. En þar sem að Tatarar voru ekki kristnir var þeim meinað að taka þátt í konunglegum kosningum eftir að því kerfi var komið á að aðalsmenn kusu sér konung.
Í Pólsk-litháíska samveldinu voru moskur varanlegur hlutu landslagsins í norð-austurhluta landsins. Því miður fóru þær fæstar óskaddaðar í gegnum 20. öldina sem markaðist af tveim heimsstyrjöldum og stjórnartíð Ráðstjórnarríkjanna. Pólsk-litháíska samveldið var þekkt fyrir umburðarlyndi í trúmálum og voru þau ekki mörg leiðinlegu atvikin sem Tatarar upplifðu. Flest þeirra voru á tímum Gagnsiðbótarinnar og þegar veldið var í stríði við Ottómana þegar fólk upplifði íslamafóbískan málflutning í samfélaginu.
Skiptingar Póllands og hrun Pólsk-litháíska samveldisins á 18. öld urðu til þess að samfélög Tatara tilheyrðu Rússakeisara. Verandi meðvitaðir um hersigra Tatara á árum áður var þeim boðið að þjóna í hernum og fá þar hæstu stöður. Rússar vonuðu að með því að innlima Tatara í elítu keisaraveldisins yrðu þeir fljótt rússavæddir (en rússavæðing er þegar hópur fólks sem ekki er samansettur af Rússum er bæði hvattur og neyddur til að taka upp rússneskt mál og rússneska siði). Það myndi síðan leiða af sér rof á tengslum við Pólland og pólska þjóðerniskennd en það gekk ekki eftir. Tatatar litu á störf í her rússakeisara að mestu leyti sem vellaunað starf sem tryggði þeim ágætis líf. Vel má vera að þeir hafi lofað Rússakeisara hollustu sinni, eins og sjá má á sumum legsteinum þeirra sem grafið er í með kyrilísku letri en engu að síður ólu þeir börn sín upp í sínum eigin siðum og gildum. Á 19. öld þegar hugtakið „þjóð“ var að ryðja sér til rúms hölluðust Tatarar, sérstaklega efsta lagið sem þjónaði í hernum og menntastéttin sem bjó í Vilníus, að því að vera Pólverjar. Tatarar tóku þátt í uppreisnum Pólverja gegn Rússum árið 1830 og 1863.
Á tímum seinna pólska lýðveldisins (1918-1939) voru herdáðir Tatara á öldum áður ekki gleymdar og nutu þeir víðtæks stuðnings hjá stjórnmálamönnum og í samfélaginu í heild. Stuðningurinn var í formi trúarlegs frelsis auk þess sem að þeir fengu ríkisstuðning við ýmiskonar félagslega og menningarlega starfsemi. Frelsið sem Tatarar fengu sem minnihlutahópur var töluvert en aðrir þjóðernisminnihlutahópar á sama tíma. Þeir studdu Józef Piłsudzki sem fór fyrir pólsku ríkisstjórninni, þegar hann tók yfir Vilníus og bætti borginni við Pólland og aftur seinna meir við valdaránið 1926.
Seinni heimsstyrjöldin markaði samfélag Tatara eins og svo mörg önnur. Tatarar voru drepnir bæði af nasistum og sovétmönnum. Margir þeirra sem ýmist höfðu unnið með nasistum eða voru þekktir sem andkommúnistar gátu ekki snúið aftur til Póllands eftir stríð og eyddu ævi sinni í útlegð. Þá var einnig menningararfleifð Tatara nær afmáð að fullu þegar Þjóðminjasafn Tatara og Þjóðskjalasafn Tatara í Vilníus urðu stríðslogum að bráð. Ein margra afleiðinga stríðsins og endalokum þess voru breytt landamæri Póllands. Eystri landamærasvæðin voru innlimuð í Sovétríkin (Belarús, Litháen og Úkraínu) og þorri þeirra 6.000 Lipska-Tatara sem á svæðinu bjuggu voru ekki lengur í Póllandi. Það eina sem var eftir var lítið fámennt samfélag og tvær moskur (í Bohoniki og Kruszyniany). Pólsk yfirvöld sóttust eftir því að fá til sín Tatara sem búsettir voru í Vilníus sem þóttu hallir undir pólska þjóðerniskennd og stjórnina í Varsjá. Tatarar sem bjuggu í Novohrudok og svæðinu þar í kring bjuggu áfram utan Póllands. Þá voru sovétsk yfirvöld treg til að leyfa þeim að fara þar sem að þeir voru eins og áður sagði hallir undir málstað pólsku þjóðarinnar. Tatarar sem fluttu til Póllands voru látnir setjast að á Ziemie Odzyskane, Endurheimtu svæðunum svokölluðu þrátt fyrir að hafa aldrei verið pólsk. Þessi svæði höfðu verið tæmd af Þjóðverjunum sem höfðu búið þar í árhundruð (eftir að seinna stríði lauk voru starfræktar fangabúðir í Póllandi þar sem Þjóðverjar sem búsettir höfðu verið í Póllandi og víðar voru látnir bíða þangað til að þeim var skipt niður til Austur-og Vestur-Þýskalands) og var því nægt húsnæði til. Þetta svæði er þorri Vestur-Póllands og Gdańsk. Samfélög Tatara sem áður höfðu verið staðsett nærri hvort öðru flosnuðu nú upp. Flestir Tatarar settust að á Þriggjaborgasvæðinu, Gdańsk, Gdynia og Sopot, auk Szczecin (Stettin fyrir stríð), Lubuskie og Neðri-Slésíu. Eftir fyrstu óeirðirnar í Póllandi kommúnismans árið 1956 og Þíðuna (losanir á ýmsum höftum) fluttu margir Tatarar til Podlasíu, héraðsins sem liggur upp að Litháen og Belarús til að vera nær fjölskyldum sínum í Austur-Póllandi og Belarús.
Sem fylgjendur íslams hafa Tatarar þróað með sér vissa tegund af trúrækni sem hefur auðveldað þeim að lifa af sem sérstætt samfélag í stærra kristnu samfélagi. Sérstaklega þarf að taka þetta fram í dag þar sem að mikið er um menningarátök milli veraldlegs hugsunarhátts vestursins og öfgahyggju austursins og fólk hefur tilhneigingar til að koma með einfaldar fullyrðingar um íslam. Á sama tíma og íslam líkt og kristni, hefur vissar undirstöður sem eru eins sama hvar gripið er niður þá hefur trúin, samferða dreifingu sinni um heiminn, öðlast ýmiskonar staðarblæ. Hlutir eins og tungumál, hefðir, staðsetning, breytingar í rás tímans, aðlögun að breyttum tímum og staða trúarinnar í samfélaginu hafa þarna mikil og ólík áhrif á birtingamyndir íslams.
Tatarar eru súnnímúslimar. Þeir tilheyra þeirri grein íslam sem tilheyrir Hanafí og er talinn vera frjálslyndasti armur trúarinnar. Tatarar hafa Tyrki að trúarlegri fyrirmynd og hafa mikil tengsl við fólk sem talar tyrkísk mál. Þá hefur birtingarmynd íslamstrúar Tatara líka verið mótuð af því hversu seint þeir tóku trúna, þ.e. á 14. öld, rétt áður en þeir fluttu sig í stórfustadæmið. Þá hefur búseta þeirra á jaðri hins íslamska heims einnig mótað þá þar sem að samskipti við stærri þungamiðjur íslams, Istanbúl, Bagdad og Kaíró, verið sérlega stopul. Í lengri tíma eftir að þeir tóku að stunda íslam lögðu þeir ennþá rækt við siði sem rekja mátti til þeirrar andatrúar sem þeir iðkuðu áður og tók íslam þeirra á sig heldur óhefðbundna mynd. Margar trúarathafnir Tatara hafa tekið inn á sig siði bæði frá súfistum og sjítum og jafnvel má sjá merki um kristin áhrif. Trúarlíf Tatara er markað af því að íslam hefur alltaf verið trú minnihlutans, nágrannar þeirra voru ýmist í kaþólsku kirkjunni, rétttrúnaðarkirkjunni eða gyðingar. Þar af leiðandi þurftu þeir trúræknu að halda aftur að sér til að koma í veg fyrir átök við nágranna sem ekki voru múslimar. Þetta var gert með því að velja og hafna úr íslömskum kennisetningum og með því að láta ekki trúarlög, sjaría, hafa lokaorðið. Það var og er erfitt að láta aðra hlíta trúarsetningum annarra trúarbragða en þeirra eigin.
Í jafn litlu trúarsamfélagi og í Pólsk-litháíska samveldinu var trúarleg menntun alltaf áskorun. Ímamar sem höfðu guðfræðilega menntun voru bæði leiðtogar jemiat (samfélag trúaðra) auk þess sem að þeir höfðu líka völd í siðferðislegum álitamálum. Þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem steðjuðu að þeim tókst Töturum að þróa sínar eigin hefðir og voru það síðan þessar hefðir sem voru látnar ganga kynslóða á milli. Innan þessara hefða voru handrit sem voru sarpur þekkingar og þóttu sérlega mikilvæg í hverri fjölskyldu. Því miður hafa mörg þessara handrita glatast í aldanna rás þó svo að ennþá megi finna fjölskyldur sem eiga khamil (bænabækur), kitab (guðfræðibækur) og tefsir (þýðingar á Kóraninum og athugasemdir). Þessi handrit eru einnig heimildir um trúarlega nálgun Tatara og þekkingu þeirra á arabískri tungu. Það sem gerir þessi handrit síðan að ennþá mikilvægari heimildum er sú staðreynd að skrifað er um fleiri svið mannlegrar tilveru, ekki bara trúmál. Mikið er skrifað um það sem mætti kalla þjóðhætti, villta daga (eins og þrettándinn og Jónsmessa), drög að göldrum auk aðferðum til að spá fyrir um framtíðina. Bókmenntir Tatara eru skrifaðar á slavneskri mállýsku svæðisins en með arabísku letri sem þykir sanna helgi Kóransins í augum Tatara. Tataratafsíra Stórfurstadæmisins Litháens er viðurkennd sem elsta þýðing á Kóraninum yfir á slavneskt mál.
Í dag halda Tatarar sig út af fyrir sig í trúmálum og hafa lítil sem engin samskipti við aðra múslima að Tyrkjum undanskildum. Sú birtingarmynd íslam sem iðkuð er af Aröbum er þeim fjarstæð með öllu. Þeir hafa viljað vera talsmenn hlédrægnis í trúmálum. Til að mynda hefur verið nokkurt frost í samskiptum á milli þeirra og Tatara frá Krímeaskaganum sem komu til Póllands eftir yfirtöku Rússa 2014 en þeir frá Krímeaskaganum eru í augum pólskra Tatara óþarflega trúræknir.
Það tók mig alltof langan tíma að komast í að skrifa þennan pistil og á tímum fannst mér að það myndi gerast á „degi heilags Adams“ (þrátt fyrir að vera dýrlingur á Adam víst engan helgidag), þ.e.a.s. aldrei. Á þessari síðustu önn námsins hefur verið óvenju mikið að gera, kúrsar eru þungir og lesefnið nær frá gólfi upp í rjáfur.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd