Póllandspistill 26.

Þessi pistill er búinn að vera í drögum hjá mér í lengri tíma. Mér gafst lítill sem enginn tími til að skrifa á síðustu önninni í Poznań. Álagið var einfaldlega of mikið, kúrsarnir voru með gífurlega mikið lesefni og pistlaskrif eru eitthvað sem ég vil hafa tíma fyrir. Þá hafði ég líka hugsað mér að gera drög að nokkrum pistlum yfir sumarið en svo fór að ég eyddi frídögum í ritgerðarskrif þannig að það fór út um þúfur.

Ritgerðina kláraði ég í lok september, á sama tíma og ég flutti til Varsjár. Mamma kom út með mér og pakkaði í kassa á meðan ég hamraði á lyklaborðið (sem hefur verið svo mikið notað að nokkrir lyklanna eru orðnir snjáðir og ólæsilegir). Það var síðan um miðjan október að ég fór, varði ritgerðina og fékk hæstu einkunn.

Á sama tíma og þetta var allt að gerast datt mér í hug að það væri nú ekki úr vegi að skrá sig í meira nám sem ég og gerði.

Ef ég ætti að þýða heiti námsins þá myndi það útleggjast sem austurfræði. Nemendur velja sér síðan kjörsvið sem er stúderað í tvö ár og svo aukasvið og eru kúrsar því tengdu teknir á síðustu önninni. Ólíkt síðasta námi er gert ráð fyrir því að síðasta önnin fari meira og minna alfarið í ritgerðarskrif. Kjörsviðin eru: Mið-Evrópa, Austur-Evrópa, Rússland, Balkanskaginn og að lokum Kákasus ásamt Mið-Asíu. Hverju kjörsviði fylgja síðan sín kjörtungumál sem við veljum úr og lærum meðfram náminu. Ég valdi mér tyrknesku og eitt mál að auki, rúmensku.

Nú tel ég mig ágætlega lesinn og meira að segja víðlesinn en ég verð að viðurkenna að oft þegar ég sit í tímum fallast mér alveg hendur og mér finnst ég bara ekki vita eitt né neitt. Það kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir að ég skuli hafa ákveðið að læra rúmensku og tyrknesku því hvorki Rúmenía né Tyrkland tilheyra þeim löndum sem við tengjum við Balkanskagann. Líklegra er að fólk hugsi um ríkin sem urðu til eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur og svo mögulega Albanía ef fólk man eftir henni. Mín getgáta er sú að Íslendingum hætti til að tengja um of við landfræðilega hluta heiti Balkanskagans en á öðrum málum er einfaldlega talað um Balkanlönd. Þá eru menn ekki á einu máli hvort skilgreina eigi þetta svæði eftir landfræðilegri legu þess eða eftir menningu þeirra og ef svo er, þá hvaða menningu?

Ottómanar náðu yfirráðum yfir Adríanópólís árið 1362 sem markaði upphaf landvinninga þeirra á Balkanskaganum. Serbía féll árið 1389 eftir orrustuna í Kósovó, Búlgaría árið 1396, Mikligarður árið 1453, Bosnía árið 1463, Hersegóvína árið 1482 og loks Svartfjallaland árið 1499. Í íslenskri sagnaritun er gjarnan talað um Tyrkjaveldi sem er misnefni því það gefur til að kynna að meirihluti þegna þess hafi verið Tyrkir en sú var ekki raunin. Ottómanveldið er því betra heiti því það undirstrikar fjölþjóðlegan eiginleika þess. Tyrkir tala um tyrkneska sögu eftir stofnun Lýðveldisins Tyrklands árið 1923. Svo sterk voru ítök Ottómana að ennþá í dag er fólk á Balkanskaganum sem hefur tyrknesku sem móðurmál og er hún opinberlega viðurkennt minnihlutamál í Bosníu og Hersegóvínu, Króatíu, Grikklandi, Kósovó, Norður-Makedóníu og Rúmeníu.

Í Búlgaríu eru 8% íbúa Tyrkir en eingöngu búlgarska hefur þar stöðu sem ríkismál. Þegar ég var í námi í Moskvu var tyrknesk kona í tvo mánuði með mér í bekk. Í ljós kom að hún hafði verið fædd í Búlgaríu og að móðir hennar hafði flutt með hana og systur hennar yfir til Tyrklands eftir fall kommúnismans. Þrátt fyrir að Tyrkland lofaði betri efnahagslegum aðstæðum fannst móðurinni tyrknesk menntun fyrir neðan allar hellur, gerði sér ferð til Búlgaríu og kom til baka til Istanbúlborgar með ferðatöskuna fulla af bókum. Heimsbókmenntir höfðu verið þýddar í meira mæli yfir á búlgörsku heldur en á tyrknesku (Tyrkir voru að byggja upp þjóðarímynd sína og lögðu áherslu á tyrkneskar samtímabókmenntir en Búlgarar voru kommúnískir alþjóðasinnar og snöruðu rétthugsandi rithöfunda yfir á búlgörsku, oft í gegnum rússnesku). Um helgar var svo gerð sú krafa að dæturnar skyldu lesa á búlgörsku klukkutíma í senn.

Tyrkneskan skipar sér í hóp tyrkískra mála eins og mörg mál Mið-Asíu þar sem Tyrkir rekja uppruna sinn til. Einkenni þessara mála eru t.d. samhljóðajafnvægi (til þess að orðin hljómi betur), setningar enda á sögn og sérstök form þérunnar þar sem tekið er tillit til rófs formlegheita, félagslegrar stöðu og aldurs viðmælenda. Þá eru engar forsetningar heldur eru notaðar „aftursetningar“, þ.e. forsetningar koma viðskeyttar á eftir þeim nafnorðum sem þær vísa til.

Tyrkneskan sem ég læri í dag er hinsvegar alls ólík þeirri tyrknesku sem var opinbert mál hirðarinnar í Istanbúl sem í dag er kölluð ottóman-tyrkneska. Hún var þá skrifuð með arabísku letri, mjög óhentugu tyrkneskum málum þar sem sérhljóðar skipta öllu máli en dagsdaglega eru samhljóðar ekki skrifaðir á arabísku. Meðal umbóta Kemals Atatürks voru einmitt umbætur í tungumálum en þá var tekið upp latneskt letur, tyrknesk nýyrði innleidd í stað arabískra og persneskra tökuorða og málfræði einfölduð. Til dæmis var það svo að stundum þegar notuð voru persnesk orð var þeim beitt samkvæmt arabískri málfræði í setningu þar sem flest orðin voru samt af tyrknesku uppruna.

Mig langar til að skrifa meira um það sem ég er að læra í tímum en það fer svo mikill tími í lestur og undirbúning fyrir tíma að ég hef illa tök á því þessa önnina. Ég held því að ég haldi mig við fréttir frá Póllandi og Austur-Evrópu þangað til að ég klára próf í lok febrúar.

Annars er ýmislegt að frétta frá Póllandi.

Töluvert er talað um trúmál þessa dagana en trúrækni Pólverja fer dvínandi með hverju árinu. Það ber samt að hafa í huga að fyrir Pólverjum er trú og kaþólska kirkjan samheiti. Nýlega gaf fræðimaðurinn Aleks Szczerbiak út bókina „Stjórnmálaflokkar og trú í Póllandi eftir kommúnismann“. Í bókinni skoðar hann hlutverk trúar og kaþólsku kirkjunnar í póstkommúnískum pólskum stjórnmálum frá sjónarhóli tengsla stjórnmálaflokka við kirkjuna og hvernig þeir nota sér gjá á milli trúaðra og veraldlegra til að afla sér stuðnings.

Í gegnum tíðina hefur trúrækni í Póllandi verið mikil og hefur kaþólska kirkjan spilað mikilvægt hlutverk, sérstaklega í þeim átökum sem áttu sér stað fyrir fall kommúnismans.

Í því Póllandi sem varð til eftir 1989 voru því samtök kirkjunnar og leikmanna gott en sjaldgæft dæmi um óvenjulega öfluga og vel skipulagða aðila í borgaralegu samfélagi. Það leiddi síðan til þess að pólska biskupsembættið ákvað að taka frekari þátt í stjórnmálum og bjó til hvata fyrir stjórnmálaflokka til að gera tengsl sín við kirkjuna kunn til að fá frá henni stuðning og fjárhagslega aðstoð.

Ítök kirkjunnar voru mest rétt eftir 1989 þegar Pólland var að stíga sín fyrstu skref í átt að lýðræði og vestrænu markaðshagkerfi. Síðan þá hefur staða hennar dvínað töluvert, bæði vegna hrinu hneykslismála vegna þess hversu óskammfeilin hún hefur verið í að hygla sumum flokkum fram yfir aðra. Þá hefur sú þróun verið að eiga sér stað að trú hvers og eins er í meira mæli álitin vera einkamál hvers og eins, sérstaklega á meðal yngri Pólverja.

Engu að síður eru margir ennþá kaþólskir í „menningarlegum“ skilningi og samsvara sig kaþólskri trú dagsdaglega.

Kirkjan er því ekki bara trúarleg stofnun heldur leikur hún ennþá stórt hlutverk í pólskum stjórnmálum. Hún getur brugðist illa við ef henni finnst vegið að gildum sínum og hagsmunum og hefur ennþá nokkurskonar dagskrárvald yfir almennri umræðu og stefnumótun þegar það kemur að málefnum eins og þungunarrofi og stöðu hinseginfólks innan lagakerfisins.

Með tíð og tíma hefur kirkjan hinsvegar tileinkað sér „mýkri“ aðferðafræði þegar það kemur að baráttumálum hennar og er nokkurskonar sjálfstæður hagsmunahópur sem í kringum hvern bæði ríkisstjórnir og flokkar í sókn þurfa að móta stefnu sína.

Sérstaklega vel heppnuð leið kirkjunnar til að koma hagsmunum sínum fram er útvarpstöðin „Útvarp María“ og það fjölmiðlaveldi sem myndast hefur í kringum hana.

Samband kirkjunnar og hinna ýmsu stjórnmálaflokka er hinsvegar allt annað en einfalt.

Sama hvar flokkar eru á hinum pólitíska ás þurfa þeir að skilgreina sig út frá viðhorfi sínu til kirkjunnar, starfsemi hennar og hlutverks til þess að höfða til viss markhóps kjósenda.

Flokkar á hægri væng stjórnmála reyna t.d. að samsvara sig siðferðislegu kennivaldi kirkjunnar og hafa óskammfeilið ýtt undir tilætlanir kirkjunnar með því að segjast vera að verja hefðbundin gildi, bæði kristin og þjóðleg, til þess að fá atkvæði þeirra sem eru bæði íhaldssamir og trúaðir.

Í framhaldi af þessu er rétt að tala um viðhorfsbreytingu almennings í Póllandi til staðfestrar sambúðar samkynhneigðra en samkvæmt könnun pólsku rannsóknarstofnunar ríkisins í almenningsáliti (pl. Fundacja Centrum Badania Opinii Publicznej) eru tveir þriðju Pólverja hlynntir formi slíkrar sambúðar, eða um 61%. Á síðasta ári var stuðningurinn 52% en árið 2011 þegar viðhorfskönnun er þetta mál varðaði var fyrst framkvæmd var stuðningurinn ekki meiri en 25%.

Eitt af kosningarloforðum Tusks í síðustu kosningum var að auka réttindi hinseginfólks í Póllandi en það hefur verið meira í orði en á borði. Erfitt hefur verið fyrir hann að koma frumvörpum í gegnum þingið þar sem að íhaldsöfl í samstarfsflokkum ríkisstjórnar hans hafa ekki viljað hleypa málinu af stað. Þá er einnig talið svo gott sem víst að forseti Póllands, Karol Nawrocki, myndi beita neitunarvaldi ef frumvörp þess efnis væru samþykkt af þinginu.

Í október síðastliðnum var komið fram með frumvarp sem jyki verulega fjárhagsleg réttindi samkynja para, svo sem undanþága frá erfðaskatti, möguleikann á að skila inn sameiginlegri skattaskýrslu og til að báðir aðilar gætu verið skráðir fyrir fasteign.

Þetta var ætlað sem nokkurskonar málamiðlun til að þóknast íhaldsömum aðilum ríkisstjórnarinnar auk þess sem að skortur á öðrum réttindum, t.d. til ættleiðinga, væri forsetanum þóknanlegt.

Baráttusamtök hinseginfólks í Póllandi segir að allt sé gott sem gert er en engin frumvörp gangi nægilega langt. Með því að skammta hinseginfólki réttindi væri verið að setja það skör neðar öðrum.

Svo á eftir að koma í ljós hvort að Evrópusambandsdómstóllinn hafi gert pólsku ríkisstjórninni bjarnargreiða með því að skipa Póllandi að viðurkenna samkynja hjónabönd. Dómsmálaráðherra Póllands hefur staðfest að dómstóllinn hafi skipað pólska ríkinu að viðurkenna þau hinsegin hjónabönd sem hafa verið vottuð í öðrum löndum sambandsins. Þá hefur skrifstofa forseta Póllands fordæmt þessa fyrirskipun og sagt að forsetinn muni „ekki lúffa fyrir regnbogaþrýstingi sem hefur það eitt að markmiði að eyðileggja fjölskylduna“.

[Ég man ekki hvort að ég las það eða hvort ég hafi heyrt það í einhverju hljóðvarpinu en einhver varpaði fram þeirri kenningu að það væri í raun fjármálakerfi frjálslyndra sem hefðu eyðilagt fjölskylduna með því að hola velferðarkerfið og koma því svo fyrir að eingöngu efnameira fólk ætti efni á því að eignast börn].

Ef að Póllandi tekst ekki að innleiða þessa fyrirskipun kemur pólska ríkið til með að mæta sektum þangað til að innleiðingin á sér stað en það gerðist í tvígang valdatíðar síðustu ríkisstjórnar og hér er ekki verið að ræða um krónur og aura.

Dómstóllinn segir í dómi sínum að með því að viðurkenna ekki hjónabönd samkynhneigðra sem stofnað var til í öðrum löndum sambandsins hafi Pólland gengið á ferða-og búsetufrelsi innan sambandsins auk þess sem Pólland er með þessu að sniðganga rétt einstaklinga til einkalífs og fjölskyldumyndunnar.

Dómsmálaráðherrann sagði í sjónvarpsviðtali nýlega að Pólland yrði að innleiða þessa tilskipun og bætti því við að þó svo að ríkisstjórn landsins skilgreindi hjónaband sem samband milli karlmanns og konu þá bannaði hún ekki hjónabönd samkynhneigðra.

Skrifstofa forseta Póllands sagði hinsvegar að þetta væri tilraun til þess að fara í kringum stjórnarskrána og möguleg tilraun til „samfélagslegrar endurmótunar“. Fari þetta mál í gegnum pólska þingið eru allar líkur á því að Nawrocki notfæri sér neitunarvald sitt sem hann hefur verið ófeiminn við hingað til.

En ef ríkisstjórnin finnur leið til þess að innleiða þessa fyrirskipun án þess að það fari í gegnum löggjafarvaldið þá er ekkert sem Nawrocki getur gert til að koma í veg fyrir það.

Þá hafa andófsmenn úr röðum forsetans og flokkum hlynntum honum sagt að þarna sé Evrópudómstóllinn að fara fram úr sér og noti umboð sem hann hafi ekki til þess að „neyða“ hinsegin hjónabönd upp á Pólland og „eyða“ hinni hefðbundinni fjölskyldu.

Í desember árið 2019 gat forsætisráðherra þáverandi ríkisstjórnar tilkynnt Pólverjum að í fyrsta sinn frá lokum kommúnismans væri búið að koma ríkisfjármálum svo fyrir að enginn halli væri á ríkisrekstri. Þáverandi ríkisstjórn sá fram á að árið 2020 yrði fyrsta árið þar sem eftir yrði tekjuafgangur. Mateusz Morawiecki forsætisráðherra hélt síðan áfram að telja upp allt það sem ríkinu tækist hinsvegar að fjármagna, t.d. barnabætur, persónuafslátt fyrir ungt fólk, lægri tekjuskatt fyrir annað fólk á vinnumarkaði og hærri lífeyri þrátt fyrir alla þá óvissu sem lá í loftinu eins og Brexit, stöðnun á innri markaði Evrópusambandsins og stirðleika í viðskiptum á milli Bandaríkjanna og Kína.

Eins og allir vita byrjaði kóvidið snemma næsta ár.

Afleiðing aðgerða stjórnvalda var sú að skuldir ríkissjóðs námu 85 milljörðum slota og höfðu aldrei verið jafn miklar frá árinu 1995. Skuldirnar minnkuðu aðeins á næstu tveim árum en svo varð Pólland það land sem helst fann fyrir áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu sem olli orkukreppu og töluverðri útgjaldaaukningu í varnarmálum. Í dag eru skuldir ríkissjóðs í kringum 240 milljarðar slota.

Í gegnum árin hefur Pólland öðlast orðspor fyrir aðhaldssemi í fjármálum en er núna undir smásjá Evrópusambandsins sem gerir kröfu um skuldaþak aðildarríkja og krefst þess nú að Pólland dragi saman seglin til að minnka skuldir.

Þrátt fyrir boð og skammir frá Brussels eru lítil merki um að skuldir ríkissjóðs fari minnkandi. En hérna skipta smáatriðin töluverðu máli. Þrátt fyrir að skuldir ríkissjóðs séu miklar er hlutfall þeirra af vergri landsframleiðslu langt frá því að vera við einhver hættumörk. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu skuldir ríkissjóðs tæplega 58% af landsframleiðslu. Þetta er töluvert minna en í öðrum Evrópulöndum eins og t.d. Frakklandi þar sem skuldir nema 116% af landsframleiðslu.

Þá er spurt hversu alvarlegt vandamál skuldastaða Póllands sé. Vandamálið er hinsvegar tvískipt. Í fyrsta lagi er vandamálið ekki beint að ríkið skuldi heldur í hvert skuldastaðan stefni yfirhöfuð. Hitt vandamálið er að ríkisstjórnin er talin ólíkleg til að bæta ástandið þar sem hún er skipuð þrem flokkum sem hafa mjög ólíka sín á hlutverk ríkisútgjalda. Þá eru ný lán tekin til að greiða upp gamlar skuldir en skilmálar nýju lánanna séu ríkinu ekki hagstæðir.

Ríkisstjórnin getur valið um að skera niður útgjöld, afla nýrra tekjustofna eða sitja aðgerðarlaus sem þykir líklegasta niðurstaðan. Þá er líka talið víst að sama hvaða leið ríkisstjórnin færi því ef það yrði að gera frumvarp fyrir aðgerðir myndi forsetinn eflaust nota neitunarvald sitt. Stuðningskannannir eru mjög óhliðhollar núverandi ríkisstjórn með teknu tilliti til þess að hún hefur eingöngu setið hálft kjörtímabil.

Nawrocki undirritaði hinsvegar nýlega lög sem heimila hærri skattlagningu á banka og taldi að það væri ófyrirsvaranlegt að heimila frekari gjaldtöku af heimilum í landinu á meðan bankarnir tilkynna í sífellu arðsemi í hæstu hæðum.

Ætla mætti að þessar auknu skuldir mætti rekja til aukinna útgjalda til varnarmála en í ljós hefur komið að það er félagslega kerfið sem hefur verið að blása út á síðustu misserum. Launahækkun opinberra starfsmanna og félagslegar bætur af ýmsum toga eru helstu kostnaðarliðir ríkisins.

Uppástungur ráðamanna hafa fallið í grýttan farveg eins og að takmarka barnabætur eingöngu við tekjulágar fjölskyldur en nýlega hefur komið í ljós að tekjuhæstu einstaklingar landsins, þ.e. topp 20% fái meira í barnabætur en 20% tekjulægstu einstaklingarnir. Að takmarka barnabætur við þessa 20% tekjulægstu myndi spara ríkissjóði töluverðar upphæðir en á sama tíma væri það pólitískt sjálfsmorð fyrir hvern þann flokk sem vill komast aftur á þing. Töluverð þennsla hefur verið í pólsku hagkerfi síðustu ár og ennþá er það sú þennsla sem seinkar því að takast þurfi á við þessar skuldir. Staðan eins og hún er núna er ekki grafalvarleg en ef ekkert er gert er annað uppi á teningnum eftir 5-10 ár.

Á síðustu árum hefur verið mikið um fólksflutninga til Póllands – sem eru með þeim mestu í Evrópu – og tengir fólk þá venjulega við nágrannalönd eins og Úkraínu og Belarús sem vissulega mynda þorra þeirra sem hingað flytja.

Svo eru margir sem koma frá öðrum löndum og hefur þeim fjölgað sérstaklega frá Suður-Ameríku sem fá hér atvinnu-og dvalarleyfi. Á síðasta ári voru alls 45.000 leyfi gefin út til fólks með suður-amerískt ríkisfang og eru þetta rúmlega fimmfalt fleiri leyfi en gefin voru út til fólks frá þessu sömu löndum fyrir tveim árum síðan. Flest þeirra koma frá Kólumbíu en einnig Argentínu og Venesúela.

Blaðakonan og rannsakandinn Małgorzata Tomczak hefur sérhæft sig í fólksflutningum og skoðar hvað veldur þessari miklu fjölgun og hvaða vandamál og tækifæri hún hefur í för með sér, bæði fyrir innflytjendurna sjálfa sem og pólska ríkið.

Gögn frá pólska ríkinu er varðar uppruna þessa fólks eru oft óskýr og ekki er neinn miðlægur gagnagrunnur til að vinna með. Margt af þessu fólki kemur hingað án vegabréfsáritunar til Póllands en kemur þess í stað frá öðru Schengen-ríki og eru því ekki í þeim tölum sem ná utan um vegabréfsáritanir frá pólska ríkinu.

Tryggingastofnun Póllands er með 15.000 manns frá Kólumbíu á skrá sem gerir þá að fimmta stærsta hóp erlends vinnuafls sem kemur frá landi utan ESB, á eftir Úkraínubúum, Belarúsum, Georgíumönnum og Indverjum.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun eru þessir farandverkamenn frá Kólumbíu aðallega karlmenn (73%) og ungt fólk en 60% þeirra eru á aldrinum 20-35 ára.

Samkvæmt tölum frá SEW (Stofnun Austur-Evrópufræða þar sem ég er nemandi) er líka um að ræða menntað fólk en 43% þeirra sem hingað koma hafa háskólamenntun af einhverju tagi. 73% þeirra vinna í matvælaiðnaði, 11% við stjórnun, 10% í flutningsgeiranum og rúmlega 3% í byggingariðnaði. Aðspurt um hvað það sé sem laði þá til Póllands nefnir fólk helst öryggi og hversu auðvelt það sé að finna vinnu.

Ég ætla að reyna að taka aftur upp þráðinn og skrifa með reglulegra millibili.

Takk fyrir lesturinn.



Færðu inn athugasemd