Eitt og annað, m.a. um vorðboðamorð.
Árið 1947 leikstýrði tékkneski leikstjórinn Josef Mach myndinni „Nikdo nic neví“, sem íslenska mætti sem „Enginn veit neitt“. Um er að ræða gamanmynd sem á sér stað í seinni heimstyrjöldinni. Hefst myndin á því að verkfræðingur að nafni Bureš tekst að komast undan nasistum með því að flýja yfir landamærin. Unnusta hans, Věra, er kúguð af stormsveitarmanninum Fritz Heinecek sem komst að sambandi hennar við Bureš eftir að fá í hendurnar bréf frá uppljóstrara. Þegar hann þjarmar að henni brjótast út átök þeirra á milli sem endar með því að Fritz slær sjálfan sig og dettur niður meðvitundarlaus. Věra heldur að hann sé látinn og reynir því að losa sig við líkið. Hún hefur samband við nágranna sína, sporvagnastjórana Martin og Petr, og fær þá til að hjálpa sér. Þeir ákveða að setja líkið í stærðarinnar körfu sem endar síðan úti í á. Þeir höfðu hinsvegar gleymt að karfan væri merkt þeim og er henni skilað til þeirra af heiðarlegum samborgara þeirra. Í þetta sinn ákveða þeir að fela hann í kontrabassatösku. Fritz kemst til meðvitundar og vaknar í tónleikasal. Aðframkominn og utangátta telur hann að það besta í stöðunni sé að detta í það og deyr áfengisdauða. Martin og Petr finna hann liggjandi á gólfinu og taka til þess ráðs að koma Fritz fyrir í barnavagni og eftir nokkrar ævintýri til viðbótar enda þeir með vagninn á hótelinu sem Fritz hefur haldið til á. Askvaðandi hleypur Věra til þeirra með þýska hermenn á hælum sér. Þremenningunum tekst að flýja út um gluggann í herbergi Fritz. Á flótta sínum undan nasistunum er þeim bjargað af Bureš.
Þegar myndin kom út og var sýnd í Póllandi byrjuðu Pólverjar að nota hugtakið „tékknesk kvikmynd“ þegar þeir skildu ekki hvert menn voru að fara með samhengislausar sögur. „Þú ert eins og tékknesk kvikmynd, ég skil þig bara ekki“.
Ég skrapp heim yfir jólin til að liggja með spaðmollu ásamt fjölskyldunni og mér er varla orðið hlýtt ennþá. Mikið rosalega var kalt heima. Aftur á móti hafa mörg hitamet verið slegin í Póllandi og voru um 9°C þegar ég kom til baka 2. janúar. Þetta veldur Pólverjum töluverðum áhyggjum því engin er úrkoman og setur þetta verulegt strik í reikninginn hvað varðar vatnsbúskap landsins.
Ég gerði tvennt þegar ég kom til Póllands. Ég byrjaði á því að fá kvef (og hóstaði eins og riðuveik rolla fyrstu dagana). Síðan drap ég vorboðann. Moskítófluga hafði nælt sér í feitan bita. Það sá ég þegar ég skoðaði útflatt líkið af henni inni á baði.
Einn kennarinn okkar gaf okkur tvö pólsk húsráð þegar ég mætti eins og meðalhress berklasjúklingur í tíma. Ég gæti annars vegar útbúið lauksíróp (ég áttaði mig ekki alveg á uppskriftinni, ég var með þokukennda hugsun) eða annars vegar flóað mjólk með hungangi og hvítlauki. Hún sagði þetta alltaf virka. Eftir tímann kom ég við í apóteki og keypti mér hóstasaft. Svefn er sælgæti hins veika. Mér tókst að sofa í 16 tíma samfleytt síðustu helgi sem ég held að hafi haft sitt að segja.
En þó það sé hlýtt hérna í gamla Suður-Prússlandi (meira um það seinna) þá er vissulega kalt annars staðar í Póllandi, sérstaklega eftir því sem þú ferð austar nær Rússlandi og norðar nær Eystrasaltshafinu.
Í október á síðasta ári samþykkti Sejm, pólska þingið, verðþak á kola-og raforkuverði til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, auk þess sem það náði til grunnskóla, sjúkrahúsa og kirkna. Kostar því hver megavattstund því 785 złoty eða 25.882 kr. Megavattstundin er dýrust hjá Orku náttúrunnar og kostar þar 9.550 kr. til samanburðar.
Einnig voru samþykkt lög sem heimila sveitarfélögum að kaupa hvert tonn af kolum á 1.500 złoty (tæpar 50.000 kr.) sem þau mega selja til heimila fyrir að hámarki 2.000 złoty (65.000 kr.). Má hvert heimili kaupa 1.5 tonn af kolum á þessu verði. Núverandi markaðsverð á kolum hefur verið 3.000 til 4.000 złoty (100.000 til 130.000 kr.) fyrir hvert tonn. Það er allt að fjórum sinnum meira en verðið var 2021 en þá kostaði tonnið 800 til 1.000 złoty (26.000 kr. til 32.000 kr.). Um þriðjungur heimila í Póllandi notar kolakyndingu. Þessi lög verða líka í gildi fyrir 2023. Talið er að á bilinu 3.6 til 3.8 milljón heimili komi til með að njóta góðs af þessu en kostnaður fyrir pólska ríkið við þetta verðþak er um 4 milljarðar złoty eða 132 milljarða kr.
Þetta hefur verið gagnrýnt af Borgarabandalagsflokknum (pól. Koalicja Obywatelska) sem segir að með þessari aðgerð sé verið að koma ábyrgðinni af ríkinu yfir á sveitarfélögin. Auk þess sé bæði kolaskortur í Póllandi og þau kol sem í boði eru séu af lélegum gæðum.
Á þessu ári er söluaðilum gass skylt að hámarka verð við 200.17 złoty (6.500 kr.) fyrir hverja megavattstund. Áður en þessar kvaðir voru settar á var búið að spá fyrir því að verðið á hverja megavattstund yrði allt að 649 złoty (21.000 kr.). Kostnaður dreifikerfisins var svo frystur.
Þá getur fólk undir vissu tekjumarki sótt um VSK-endurgreiðslu fyrir gas sem notað er til heimila (ef gas er helsta kynding heimilisins). Talið er að allt að 300.000 heimili geti sótt um þessa endurgreiðslu. Áætlað er að verðþak á gasi og endurgreiðsla VSK. kosti ríkissjóð um 30 milljarða złoty eða um þúsund milljarða króna.
Þetta er stærðfræði og tölur sem ég get ekki skilið.
Stjórnarandstaðan vildi einnig að þetta næði til ör-, lítilla og meðalstórra fyrirtækja en það var ekki samþykkt.
Samvinnufélagið KRZZ sem nær til 120 bakarískeðja, fyrirtæki sem eru sérlega viðkvæm fyrir verðhækkunum á gasi, sendu inn álit og sögðu að ef ekkert væri gert til að koma til móts við bakaríin gæti brauðverð þrefaldast á nokkrum vikum.
Brauð í pólsku samfélagi hefur sama stað í hjarta þeirra og fiskur heima. Ólíkt Íslendingum hafa Pólverjar hinsvegar aldrei gúdderað það að eiga ekki efni á brauði. Við blasir því mjög alvarleg staða. Án þess að vera með andleg niðurrif hjá þeim sem þetta lesa, þá vil ég taka það sérstaklega fram að ég greiddi 300 kr. fyrir 7 rúnstykki í dag.
Orkuverð í desember 2022 var 36.8% hærra en í desember 2021. Víða á strætóstoppum má sjá auglýsingu frá Orkuveitu Póllands þar sem lesa má „Orkuverðið er líka honum að kenna“, með mynd af Pútín í bakgrunninum.
Elsti háskóli Póllands, Jagellonian-háskólinn í Kraká (sem er nefndur eftir Jogalia, síðar Władysław II Jagiełło, litháískum hertoga sem tók kristna trú árið 1386. Það vill svo til að hann var skírður á sama tíma og hann giftist Heiðveigu (pól. Jadwiga) Póllandsprinsessu (faðir hennar var konungur yfir Ungverjalandi og Króatíu en fékk erfði Pólland 1370)) sá fram á að þurfa að auka fé til rafmagnsútgjalda um 700% (og nú lýg ég ekki).
Í aðhaldsaðgerðum háskólans átti að færa meiri kennslu á netið og ekki kenna í stofum háskólans á föstudögum. Samningur háskólans við ríkisfyrirtækið Tauron rann út í lok 2022. Við það jókst rafmagnskostnaður úr 27 milljónum złoty í 182 milljónir złoty (þ.e. úr 890 milljónum kr. í 6 milljarða kr.). Háskólinn fær árlega 900 milljón złoty frá ríkinu. Fjárlögin hafa hækkað um 2% á ári en verðbólgan í fyrra var 17.2%. Það munar um minna.
Á meðan seðlabankastjórinn heima hneykslast yfir tásumyndum frá Tenerife þá sagði kollegi hans hér í Póllandi á blaðamannafundi að ef fólk væri með fjárhagsáhyggjur ætti það að fá sér hund eða kött. Gæludýr róa nefnilega taugarnar. Annar kennarinn okkar sagði okkur að gert sé ráð fyrir því að verð að gæludýrafóðri hækki um 50% á þessu ári. Ef þú vinnur á kassa í Biedronka (Bónus Pólverja, verndardýr þeirra er maríubjalla) getur þú verið með allt að 4.590 złoty brúttó í laun á mánuði. Það eru um 150.000 kr. Meðallaun í Póllandi eru 5662 złoty eða tæplega 190.000 kr. Lífeyrir er 3.600 złoty brúttó, eða um 2.900 złoty nettó. Það eru tæplega 100.000 kr.
Námið gengur býsna vel þó yfirferðin sé hröð. Ég tek lokapróf úr kennslubókinni sem við erum að klára núna 25. janúar. Annar kennarinn okkar tilkynnti okkur að þar með væri allt þetta auðvelda búið. Við byrjum síðan á nýrri bók núna á mánudaginn. Það kostaði minniháttarátök milli kennaranna að ákveða hvaða bók þær vildu nota en sú sem talin er þyngri varð fyrir valinu.
Við lærðum fyrir ekki svo löngu hvernig við segjumst vera annars hugar. Á pólsku er sagt „myśleć o niebieskich migdałach“, eða „að hugsa um bláar möndlur“.
Pólverjar eru mjög trúaðir sem þjóð en erfðu vissulega skrifræðið frá Ráðstjórnarríkjunum. Þegar þú ferð í erindisleysu milli bjúrókrata nota þeir orðatiltækið „chodzić od Annasza do Kajfasza“, eða „að fara frá Annasi til Kaífasar“. Vísar þetta í þegar hermennirnir tóku Jesú höndum og færðu hann fyrst til Annasar sem var ekki lengi æðsti prestur (heldur tengdafaðir hans) og síðan til Kaífasar.
Einu sinni sem oftar rifust Bólu-Hjálmar og Bjarni Thorarensen. Henti Bjarni fram:
Vondir menn með vélaþras,
að vinum Drottins gera brigsl.
Bólu-Hjálmar botnaði svona:
Kristur stóð fyrir Kaífas,
klögumálin gengu á víxl.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd