13. mars 1926 dó maður af nafni Florian Biesik í borginni Trieste á Ítalíu. Florian Biesik var þó ekki ítalskur. Hann fæddist í 4. mars 1850 í þorpinu Wilamowice, sem er í dag á milli héraða sem heita Litla-Pólland og Slesía í Suður-Póllandi.
Héraðið sem Wilamowice er í var lengi vel kallað Galísja og tilheyrði Keisaradæmi Austurríkis-Ungaverjalands allt til 1918 þegar keisaradæmið var leyst upp. Florian flutti til Krakár 13 ára gamall til að ganga í menntaskóla. Hann var rekinn úr fyrsta skólanum eftir einungis ár en fékk strax inn í öðrum. Honum var vikið þaðan 1866, bæði vegna lélegs námsárangurs og vegna þess að hann gat ekki greitt námsgjöldin.
Þegar hann bjó í Kraká leigði hann herbergi af manni sem sjálfur starfaði hjá lestarfélagi og er talið að af undirlagi hans hafi Florian tekið saman pjönkur sínar og haldið til Vínarborgar þar sem hann hlaut kennslu í járnbrautarrekstri og öllu honum tengdu.
1873 varð hann svo fullgildur starfsmaður og fékk vinnu hjá lestarfélagi sem sá um samgöngur sunnarlega í keisaradæminu. Sama ár flytur hann til Trieste þar sem hann vinnur sig fljótlega upp í stöðu yfirmanns. Þar í borg kynnist hann konu sem hét Federica Giovi sem hann seinna giftist og eignast með henni einn son. Hann lét af störfum 1911.
Florians er þó ekki minnst sem ágætis starfsmanns hjá hinu opinbera í keisaradæminu, heldur sem ljóðskálds og málfrömuðar. Ljóð sín orti hann á tungumálinu wymysiöeryś, sem íslenska mætti sem vilhjálmísku.
Þorpið Wilamowice er eini staðurinn í Póllandi þar sem mál þetta er talað. Wymysiöeryś er samt ekki skylt pólsku heldur er það talið til germanskra mála. Lengi vel hefur því verið haldið fram að málið sé þýsk mállýska en þorpsbúar telja sig ekki vera Þjóðverja, heldur Wymysiöejyn. Við tölum um Íslendinga sem smáþjóð en fólkið í Wilamowice mætti kalla örþjóð.
Biesik var einn þeirra sem reyndi að renna stoðum undir þá kenningu að þorpsbúar væru afkomendur Flæmingja, en nú þykir víst að þeir séu afkomendur fólks sem flutti þangað frá því svæði í Þýskalandi sem fljótin Rín og Main mætast.
Í kjölfar fyrri innrásar Mongóla 1241 fylgdu hungur og hallæri vegna fólksfækkunnar, en sum landsvæði misstu allt að 75% íbúa sinna. Konungur Piast-ættarinnar, sem þá réðu yfir hertogadæminu sem þorpið var í, hvöttu bændur utan landsteinanna til þess að nema land. Margir komu frá Skotlandi, Þýskalandi og Flæmingjalandi. Allir hópar þessir áttu þeir eftir að samlagast samfélaginu svo að þeir töpuðu bæði tungumálum sínum og þjóðereinkenni. Allir nema íbúar Wilamowice.
Sökum einangrunar og innvensla þróaðist vilhjálmíska í ólíka átt en aðrar þýskar mállýskur yfir sama tímabil. Einangrunin í dag er mun minni en áður, það tekur ekki nema 20 mínútur að keyra frá Wilamowice til borgarinnar Bielsko-Biała sem var að miklu leyti til þýskumælandi þar til eftir seinni heimsstyrjöldina.
Samkvæmt manntali 1880 töluðu 92% af 1662 íbúum Wilamowice vilhjálmísku. Vegna samneytis við pólskumælandi fólk gætir mikilla áhrifa frá pólsku í málinu, í hljóðfræði, málfræði, setningafræði og orðaforða. Hefur málið t.d. innleitt pólska ávarpsfallið og tvöfalda neitun.
Vilhjálmíska var bönnuð í Pólska alþýðulýðveldinu til 1956 og þrátt fyrir að bannið hafi verið lagt niður voru ennþá gerðar tilraunir til þess að bæla málið. Vilhjálmíska er ennþá töluð af um 70 manns, fólk sem í dag er allt mjög fullorðið. Fyrsta kennslan í vilhjálmísku handa börnum var haldin 2004 af Józef Gara, námuverkamanni sem var frá Wilamowice. Hann var einnig sá fyrsti í langan tíma sem orti ljóð á vilhjálmísku. 2011 voru fyrstu tvítyngdu götuskiltin sett upp á pólsku og vilhjálmísku. 2018 kom svo út Litli Prinsinn í vilhjálmískri þýðingu undir titlinum Der Kliny Fjyśt.
Til samanburðar á málunum má sjá hér fyrra erindi ljóðsins „Vetur“ eftir Józef Gara:
Á pólsku:
W zimie
Było raz w zimie mroźno,
wziąłem siekierkę i pojechałem do lasu.
W lesie był wielki śnieg,
i słońce świeciło tam ładnie
Á vilhjálmísku:
Ym wynter
Z wiöe amöł ym wynter kaołt,
ych nom dy aokys fü yn puś.
Yn daom puś wiöe gruser śnej,
an dy zun sian düt zu siejn.
Á íslensku:
Um vetur
Eitt sinn var um vetur kalt
exina tók ég með í skóginn
þar var snjórinn úti um allt
og fallega geislaði sólin.
Íslenska þýðingin er mín.
14 ára andlega fatlaðri stúlku sem hafði verið nauðgað var neytað um þungunarrof í sínu sveitarfélagi í Austur-Póllandi. Það varð til þess að hún þurfti að ferðast þvert yfir landið til Varsjár til þess að fá aðgerðina framkvæmda. Á meðan læknum í Póllandi er leyft að synja beiðni um þungunarrof undir svokallaðri „samviskuákvæði“, er sjúkrahúsum skylt að upplýsa sjúklinga hvar þeir geti fengið aðgerðina. Í þessu tilfelli virðist sem svo að þeirri skyldu hafi ekki verið uppfyllt. Talsmaður heilbrigðisráðuneytisins hefur staðfest að sjúkrahúsinu hafi mistekist að framfylgja reglunum. Umboðsmaður sjúklinga hefur fyrirskipað rannsókn á málinu. Stjórnarandstaðan segir hinsvegar að þetta sé dæmi um afleiðingar þeirra ströngu laga sem gilda um þungunarrof í Póllandi, sem núverandi ríkisstjórn styður við.
Vinur minn sagði mér að ein tilgátan um stjórnsýki og tilætlunarsemi stjórnvalda með þessum lögum væri sú að þetta væri tilraun til að stemma stigu við fólksfækkun í Póllandi. Á sama tíma hefur þeim, sem lögin settu, yfirsést að strangari lagarammi utan um sjálfsákvörðunarrétt kvenna hefur margoft haft eingöngu tvenn áhrif: 1) lægri tíðni óléttu og 2) hærri tíðni kvenna sem deyja vegna skorts á aðgengi að faglega framkvæmdu þungunarrofi.
Undanþágur frá þungunarrofsbanni eru eingöngu veittar í tilfellum nauðgunar eða sifjaspells. Þó svo að fóstrið greinist með galla þess eðlis að því sé ekki ætlað að fæðast lifandi eða að það láti lífið skömmu eftir fæðingu nægir það ekki til undantekningar.
Á meðan að hver og einn læknir getur borið fyrir sig samviskuákvæðinu þá er sjúkrahúsum ekki heimilt að nota það. Samt virðist sem svo að það sé tilfellið hér og á fyrirskipuð rannsókn meðal annars að taka það til athugunar.
Donald Tusk sem fer fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokki Póllands, Platforma Obywatelska, sagði að þetta væri frá upphafi til enda vandamál sem væri tilkomið vegna ríkisstjórnarflokkanna. Vísaði hann líka í atvik frá 2021 þar sem kona dó úr blóðeitrun eftir að læknar biðu eftir því að fóstrið sem hún bar, sem hafði verið greint með nokkra ólífvænlega fæðingargalla, myndi deyja fyrst.
Læknar eru líka oft tregir til þess að framkvæma aðgerðina vegna þess að undir núgildandi lögum má sækja þá til saka ef þeir vinna utan lagarammans.
Minna en þriðjungur pólskra kvenna á aldrinum 18-35 ára eru að íhuga barneignir, eða 32%. Fjöldi þeirra hefur minnkað töluvert síðan 2017 en þá voru það um 41%. Lögbann við þungunarrofi var sett 2021. Aðeins um 35% þeirra sem eiga eitt barn fyrir hugsa um að eignast annað barn. Eingöngu 7% þeirra sem eiga tvö börn íhuga að bæta við því þriðja.
Gerð var könnun til að athuga hvaða ástæður lægju að bakvið þessari ákvörðun. 40% þeirra sem svöruðu höfðu áhyggjur af vinnunni, 39% að þær ættu ekki efni á því að eignast barn. 33% töldu meðgöngu vera of hættulega og 24% að húsnæði sitt væri of lítið. 19% töldu sig ekki geta reitt sig á stuðning frá föður barnsins.
Jarosław Kaczyński, formaður stærsta ríkisstjórnarflokksins, vildi samt meina á síðasta ári að ástæður lækkandi fæðingartíðni mætti rekja til áfengisneyslu kvenna.
Til þess að auðvelda fólki barneignir hefur ríkið lagt til sérstakra barnabóta sem hver fjölskylda getur fengið fyrir sitt fyrsta barn. Heildarupphæðin er 12.000 zł. og geta foreldrar valið um að fá greidd 1.000 á mánuði í eitt ár eða 500 á mánuði í tvö ár. Þegar barnið er orðið 36 mánaða fellur þessi styrkur niður, þó svo að flestir sem til þekkja vita að börn verða dýrari í rekstri eftir því sem þau verða eldri. Fjármögnun þessara styrkja hefur orðið til þess að veikja samstarf ríkisstjórnarflokkanna, þar sem bent hefur verið á að varla sé hægt að gera þetta öðruvísi en með skattahækkunum.
Á sama tíma og fæðingartíðni lækkar hefur tíðni ungbarnadauða hækkað og rekja læknar það alfarið til þungunarrofsbannsins.
Fjöldi erlends verkafólks í Póllandi er nú yfir milljón manns. Í upphafi 2022 voru um 192.000 erlendir verkamenn skráðir hjá Tryggingastofnun hér í landi en í lok ársins voru það um 1.060.000 manns. Marlena Maląg, félags-og fjölskyldumálaráðherra þakkaði erlendu verkafólki fyrir framlag sitt til pólska samfélagsins. Hún minntist sérstaklega á það að þrátt fyrir síhækkandi fjölda erlends verkafólks þá væri atvinnuleysi einna lægst í Póllandi en það mældist um 3% í nóvember 2022.
Af 1.660.000 útlendinga með dvalarleyfi í Póllandi eru 1.360.000 af þeim frá Úkraínu, eða 81%. Á síðustu árum hefur töluverður fjöldi Hvítrússa og Georgíubúa flutt til Póllands.
Tæplega 14.000 úkraínsk fyrirtæki voru stofnuð fyrstu 9 mánuði ársins 2022. Meirihluti þeirra eru stofnuð að einstaklingum sem eru einyrkjar. Töluverð aukning hefur þó verið á fyrirtækjum í Póllandi sem hafa úkraínskt kapítal á bakvið sig.
Mesta aukningin átti sér stað í apríl á síðasta ári, en fjöldi fyrirtækja þrefaldaðist í kjölfar lagabreytingar sem heimilaði úrkaínskum ríkisborgurum að reka fyrirtæki með sömu ívilnunum og pólskir ríkisborgarar fá. 41% þessara fyrirtækja eru stofnuð af konum og þar að auki er þriðja hvert fyrirtæki með konu sem framkvæmdarstjóra.
Varsjá mun á næsta ári afmarka miðsvæði innan borgarinnar sem svæði fyrir umhverfisvænar samgöngur eingöngu. Hugmyndin er að banna dísel-og bensínbíla í miðborginni. Álíka bann hefur líka verið sett í Kraká og tekur gildi á næsta ári. Frá og með 1. júlí 2024 mega 18 ára gamlir díselbílar, 27 ára bensínbílar og eldri ekki aka um miðborg Varsjár. Aldursmörk bíla verða síðan lækkuð í þrepum til ársins 2032, en þá hefur Varsjá reiknað það út sem svo að þetta leiði til þess að svifryki dragist saman um 69% og köfnunarefnisdíoxíð um 80%.
Loftmengun í Varsjá er töluverð og er loftmengun í Póllandi ein sú mesta í Evrópu. Samtök sem barist hafa fyrir auknum loftgæðum fagna þessari aðgerð en telja hana á sama tíma vera algjört lágmark í þessum efnum.
Pólland er eitt af fimm stærstu útflutningsaðilum húsgagna í heiminum. Iðnaðurinn sem sér Póllandi fyrir 2% af landframleiðslu sinni og hefur um 200.000 manns í vinnu stendur völtum fótum eftir að eiga sérlega erfitt ár í fyrra. Á meðan Covid gekk yfir heiminn og fólk allsstaðar gerðist áhugainnanhúshönnuðir höfðu innréttingaverkstæði nóg fyrir stafni. Núna er bólan hinsvegar sprungin.
Efnahagskreppan, sem fylgdi í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu jók verðbólgu og hindraði alþjóðleg viðskipti, hefur orðið til þess að fólk hefur dregið töluvert úr neyslu sinni. Lagerverð á timbri hefur snarhækkað og í nokkrum tilfellum allt að tvöfaldast síðan árið 2021. Pantanir hafa dregist saman um 35-50% síðan í byrjun árs 2022.
90% allra húsgagna sem búin eru til í Póllandi eru flutt út. Útflytjendur hafa notið góðs af húsgagnasmíðahefð landsins, þekkingu þeirra sem vinna í geiranum, landræðilegri legu Póllands og lágs launakostnaðar samanborið við Vestur-Evrópu. Talið er að í kjölfar minni sölu munu allt að 20-25% þeirra sem vinna í geiranum verða atvinnulausir.
Í október 2022 hlaut Jerzy Jarniewicz æðstu bókmenntaverðlaun Póllands, Nike-verðlaunin, fyrir ljóðasafn sitt, Mondo cane. Lesendaverðlaunin, sem almenningurinn gat kosið um, féllu í hlut Joönnu Ostrowsku fyrir bók sína um ofsóknir nasista á hendur hinsegin fólki.
Mondo cane er 17da ljóðasafn sem Jarniewic gefur út. Í bókinni „skrásetur hann fráfall vina, sambönd sem komin voru í þrot og eigin viðbrögð“, segir útgefandinn, Biuro Literackie.
Á hverju ári er svo almennum lesendum gert kleift að kjósa um sigurvegara lesendaverðlaunanna úr hópi 7 rithöfunda. Þetta árið fékk Joanna Ostrowska verðlaunin fyrir sagnfræðirit sitt „Þeir: hinsegin í seinni heimsstyrjöldinni“.
Í riti sínu skrifar Ostrowska um tvöfaldan harmleik þeirra sem voru ofsóttir undir hegningarlögum nasista: auk þess að horfast í augu við fangelsisvist (og oft dauða) í fangabúðum á stríðsárunum, upplifðu þeir algjöra þöggun á upplifun sinni á árunum eftir stríð á meðan annarra fórnarlamba var minnst.
Hún sagði tímaritinu Newsweek að enn þann dag í dag er lítið sem ekkert gert til að minnast hinsegin fólks sem lét lífið á þeim stöðum sem áður voru fangabúðir nasista, margar hverjar sem voru innan Póllands.
Nike-verðlaunin samanstanda af styttu af Nike, listagyðju Forngrikkja og verðlaunafé upp á rúmlega þrjár milljónir króna.
Sést hefur til risastórrar vísundahjarðar, sem telur allt að 170 dýr, á mörkum Białowieża-skógarins. Stærsta hjörðin sem sést hefur hingað til var um 130 dýr. Þessi hjörð, sem hafði 40 kálfa, er talin hafa myndast þegar nokkrar minni hjarðir sameinuðust áður en veturinn gekk í garð. Við verri veðurskilyrði er þekkt að hjarðir sameinist til að auka lífslíkur sínar í náttúrunni.
Evrópska vísundinum var útrýmt í náttúru með veiðum í Póllandi og annarsstaðar í Evrópu snemma á 20. öldinni. Þeir sem eftir lifðu voru þeir sem höfðu verið í haldi í dýragörðum og hjá bændum. Upp úr 1950 var byrjað að endurinnleiða þá aftur í náttúruna.
Allt sem að ofan hefur verið talið hefur hinsvegar bara verið léttmeti áður en ég geri tilraunir til að útskýra það sem við höfum verið að læra í tímum. Nýlega var lokapróf fyrir þessa önn og náði ég prófinu með ágæts einkunn. Ég var ekki sá hæsti en sú sem er best af okkur í hópnum var með 8.8. Ég fékk 7.8. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar Rebekka Þráinsdóttir, aðjúnkt í rússnesku í HÍ, sagði við okkur í fyrstu vikunni okkar að rússneska væri ekkert gamanmál. Það sama á svo sannarlega við um pólsku.
Ég ætla að uppfræða lesendur örlítið, örstutt, agnarögn, um töluorð í pólsku. Ekki ætla ég að hafa þetta langt og bara tala um tölurnar 2,3,
og 4.
Dwa/Dwie Trzy Cztery:
Þessi form notum við þegar við tölum um ókvik karlkynsnafnorð, kvenkynsnafnorð og hvorugkynsnafnorð. Nafnorðið stendur í fleiritölu og sögnin í þriðju persónu fleiritölu.
Dwa samochody kosztują.
Tveir bílar kosta.
Dwie kawy kosztują.
Tveir kaffi(bollar) kosta.
Dwa piwa kosztują
Tveir bjórar (hvk.) kosta.
Dwaj Trzej Czterej:
Þessi form talnanna notum við eingöngu þegar við erum að tala um kvik karlkynsnafnorð. Þegar við notum þessi form þarf nafnorðið að standa í nefnifalli, fleiritölu og sagnmyndin í þriðju persónu, fleiritölu.
W pokoju są/byli dwaj mężczyźni.
Í herberginu eru/voru tveir karlmenn.
Orðin chłopiec (strákur) og samochód (bíll) eru bæði karlkynsnafnorð. Strákur er kvikur, þ.e. lifandi en bíll er ókvikur, þ.e. dauður. Þetta skiptir miklu máli í pólskri málfræði.
Dwóch Trzech Czterech:
Þessi form talnanna notum við líka bara um kvik karlkynsnafnorð, en þá þarf nafnorðið að standa í nefnifalli, fleiritölu en sögnin í þriðju persónu, eintölu.
W pokoju jest/było dwóch mężczyzn.
Í herberginu eru/voru tveir karlmenn.
Dwoje Troje Czworo:
Þessi form talnanna notum við um:
1) Kvik hvorugkynsnafnorð.
2) Blandaðan hóp orða sem eru kvenkyns og karlkyns.
3) Afkvæmi dýra sem hafa endinguna -ę, t.d. ‘kocię’, þ.e. kettlingur
4) Orð sem eingöngu eru til í fleiritölu, t.d. ‘spodnie’ buxur og ‘nożyczki’skæri.
5) Líkamshluta sem við höfum tvennt af, t.d. augu, hendur, eða eyru.
Eitthvað fór fyrir brjóstið á kennaranum okkar í dag hvað við vorum treg til að svara spurningum og vill hún að við tökum meiri þátt í tímum. Ekki veit ég hvað ég ætti að taka þetta til mín en í dag fórum við yfir prófið og þegar hún spurði áttum við að koma með svör. Hafandi kennst íslensku sem erlent mál veit ég að virkni nemenda í tímum skiptir öllu máli þannig að ég svara alltaf um leið. Það eina sem ég græddi á því í dag var að missa stig, en hún hafði gert mistök þegar hún fór yfir prófið og gefið mér rétt fyrir villu.
Á miðvikudaginn eigum við að halda mínútulangt erindi um uppáhaldskvikmyndina okkar eða sjónvarpsseríu. Hún sagði að þessi æfing myndi glögglega leiða í ljós þann kynslóðamun sem er á milli nemenda í hópnum. Ég hef úr gífurlegu magni að velja en ákvað strax að ég myndi fjalla um hið sígilda meistaraverk breskrar kvikmyndagerðar sem aldrei hefur verið toppað: Fjögur brúðkaup og jarðarför.
Ég leyfi ykkur að fylgjast með.
Takk fyrir lesturinn.
Skildu eftir svar við Siggi Hætta við svar