Póllandspistill 5.

„Kölski – eins og vitað er – var ekki sérstaklega hrifinn af kirkjum og vildi gjarnan sjá þær eyðilagðar. Þegar svo bar til, að kirkja hrundi eða stóð í ljósum logum, var talið víst að Kölski værið sökudólgurinn. Einu sinni, fyrir langa löngu, þegar verið var að byggja eina af mörgum kirkjum Wrocław varð Kölska gramt í geði. Gremja hans varð svo mikil að hann ákvað á leggja kirkjuna í rúst. Hann tók stærðarinnar hnullung úr hæsta fjalli Slesíu og flaug með hann um nóttina í áttina að Wrocław með það fyrir augum að grýta kirkjuna. En þegar Kölski flaug yfir þorpið Wierzbice byrjaði að daga, hani þorpsins galaði og presturinn sem var að syngja morgunmessuna var nýbúinn að amen. Þetta allt sló Kölska út af laginu svo mjög að hann gat ekki lengur borið hnullunginn og missti á honum takið fyrir ofan tún, rétt fyrir utan þorpið. Síðan þá hefur hnullungurinn staðið þar einn og yfirgefinn og þorpsbúar segja um atvikið:

Gól haninn í fyrsta sinn,
sagði þá amen presturinn,
missti loks takið djöfullinn.

Önnur þjóðsaga, tengd Slesíu allri, fjallar um bjarnargreiða Kölska, og hafa eftirköst greiðans lifað í minni pólskrar alþýðu um aldir. Fyrir langalöngu gekk plága um lönd og sveitir Slesíu. Sérstaklega var hún skæð í Brandenborg. Prinsinn hafði læst sig og hirð sína í kastalanum en allir aðrir borgarbúar létu lífið. Þegar allt var yfirstaðið, ákvað prinsinn að snúa sér til Kölska og vildi biðja hann um 200 Þjóðverja til að yrkja landið áður en það legðist í eyði. Valdi prinsinn ungan pilt sem sendisvein, sem var svo saklaus og bláeygður, að prinsinn taldi það ómögulegt að Kölski gæti freistað hans á nokkurn hátt. Fór svo að pilturinn var sendur til Helvítis, fljúgandi á gríðarstórum hana. Kölski tók höfðinglega á móti piltinum og bar pilturinn upp ósk prinsins. Kölski sagðist með glöðu geði geta orðið við bón hans, að því gefnu að honum yrði launað ríkulega. Galdraði Kölski úr tómu loftinu 20 skjóður og hófst handa við að troða 10 Þjóðverjum og nokkrum til í hverja skjóðu. Að því loknu stukku púkar Kölska af stað með skjóðurnar á bakinu á eftir piltinum sem flaug í átt að Brandenborg á hananum. En þegar þeir flugu yfir Slesíu fannst Þjóðverjunum orðið heldur þröngt og ónotalegt í skjóðunum, gerðu á þær göt og féllu nokkkrir þeirra til jarðar í Slesíu. Fólkið sem þar bjó tók vel á móti þeim, veitti þeim vel af mat og drykk og gáfu þeim samastað.

Þegar Þjóðverjarnir höfðu hvílst og safnað kröftum, fóru þeir að íhuga hvernig þeir gætu launað gestgjöfum sínum góðgerðirnar. Hófust þeir handa við að brugga andstyggilegan drykk sem kallast gambri. Slesíubúar byrjuðu að drekka alla daga, allan daginn og urðu svo ölvaðir að púkarnir sem áttu að koma þeim til Brandenborgar hlupu í spik af eymdinni. Fyrir gullið sem Slesíubúar greiddu Þjóðverjum fyrir sprúttið keyptu Þjóðverjarnir landið undan Slesíubúum, juku við kyn sitt og tóku Slesíu yfir.”

Sögurnar hér að ofan nefnast „Klækir Kölska í Wierzbice og Slesíu allri.“ Oft hef ég á tilfinningunni að fólki finnist Pólverjar mjög einsleitur hópur og þar að auki að saga Póllands hefjist þegar Þjóðverjar réðust inn í landið í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Af ríkjum Evrópu hefur Pólland haft einna breytilegustu landamærin, svo mjög að það fór frá því að vera eitt sinn stærsta ríki Evrópu yfir í það að hverfa af kortinu. Það er því meira en að segja það að ætla að segja frá pólskri sögu. Réttara væri að segja frá sögu ákveðinna svæða hverju sinni.

Þegar Konungsríkið Pólland og Stórhertogadæmið Litháen sameinuðust við undirritun Lúblínarsamkomulagsins varð til Pólsk-litháíska samveldið, sem var eitt af stærstu og fjölmennustu ríkjum Evrópu á 16. og 17. öld. Samveldið samanstóð ekki bara af landsvæðum Póllands og Litháens í dag heldur einnig Lettlandi, Hvíta-Rússlandi auk stórs hluta Eistlands og Úkraínu.

Eftir Þriðju Skiptingu Póllands 1795 var Pólland ekki lengur til á landakortum og breyttist það ekki fyrr en 1918 þegar að Annað pólska lýðveldið var stofnað í kjölfar Versalasamninganna.

Fyrsta skipting Póllands átti sér stað 1773. Pólskir kaþólikkar mynduðu rétt svo 50% þjóðarinnar. Á millistríðsárunum voru þeir um 66% og eftir seinni heimsstyrjöldina, eftir hreppaflutninga Þjóðverja og Úkraínumanna og útrýmingu gyðinga af höndum nasista, voru pólskir kaþólikkar orðnir 96% þjóðarinnar. Kirkjan hefur því ekki alltaf verið jafn sterk og hún er nú. Við getum í raun talað um nýja samsetningu pólsku þjóðarinnar í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í kjölfar Potsdam-samkomulagsins breyttust landamæri Póllands einu sinni aftur. Pólverjar missa Austurhéruðin (pól. Kresy Wschodnie) til Sovétríkjanna en þau mynduðu 47% landsvæðis Póllands fyrir stríð. Þess í stað fór Stalín fram á það að Pólland fengi önnur landsvæði. Mikil áróðursherferð átti sér stað í kjölfar hreppaflutninganna þegar Pólverjar sem höfðu áður búið í Austurhéruðunum færðu sig yfir á það svæði sem áróðsmenn Pólska alþýðulýðveldisins kölluðu Endurheimta landið (pól. Ziemie Odzyskane). Taldist það vera sagnfræðilegt smáatriði að bróðurpartur þessara svæða höfðu mörg aldrei verið pólsk, þó svo að pólskumælandi fólk hafi vissulega búið þar, þó oft í miklum minnihluta.

Pólverjar vildu Köningsberg en Stalín vildi hinsvegar höfn í Eystrarsaltinu sem aldrei frysi. Stettin, sem átti að vera þýsk áfram varð því að pólsku borginni Szczecin og Köningsberg varð að Kalíngrad.

Pólska ríkisstjórnin sem var ennþá í útlegð í London vildi halda í Lwów en Stalín tók það ekki í mál. Stalín lagði til að Pólverjar fengju Neðri-Slesíu og höfuðborg hennar Breslau. Að því varð og fluttu margir Pólverjar sem höfðu búið kynslóðum saman í Lwów, seinna Lviv, til Breslau sem í dag ber nafnið Wrocław.

Borgir eins og Stettin, Danzig (Gdańsk) og Breslau voru mikilvægari iðnaðarlega séð heldur en borgir eins og Wilno (Vilníus), Brześć (Brest) eða Lwów (Lviv). Landbúnaðarmöguleikar í Pommern og Slesíu eru töluvert meiri heldur en í Litháen eða Pripet-mýrunum (mýrlendi á milli Kænugarðs og Minsk). Engu að síður er það svo að átthagaást er ekki mæld í tölfræði eða möguleikum. Þegar landsvæði tapast er ekki einungis að ræða um landfræðilega breytingu, heldur er um árás á sál þjóðar og hefðir hennar að ræða. Vissulega má segja að fólk það sem þurfti að flytja af svæði sem nú tilheyrði öðru landi hafi átt möguleika á að bæta ástand sitt en það var ekki að flytja ‘heim’.

Slesía, sem á pólsku heitir Śląsk, er öllu jafna skipt í Neðri-Slesíu (pól. Dolny Śląsk) og Efri-Slesíu (pól. Górny Śląsk). Lengst af var Opole höfuðborg Efri-Slesíu en í dag er stærsta borg héraðsins Katowice. Höfuðborg Neðri-Slesíu var og er Wrocław.

Neðri-Slesía á mjög langa, flókna og fjölþjóðlega sögu. Eins og áður segir heitir héraðið Dolny Śląsk á pólsku, en Dolní Slezsko á tékknesku, Niederschlesien á þýsku, Dolny Ślōnsk á slesísku, Delnja Šleska á hásorbísku, Dolna Šlazyńska á lágsorbísku og loks Niederschläsing á máli Slesíuþjóðverja.

Wrocław á sér yfir 1000-ára sögu sem saga Evrópu hefur tekist að flækja verulega. Borgin hefur tilheyrt Konungsríkinu Póllandi, Hertogadæminu Bæheimi, Konungsríkinu Ungverjalandi, Habsborgaraveldinu, Konungsríkinu Prússlandi og Þýskalandi, áður en hún varð hluti Póllands í dag.

Árið 985 lagði Mieszko 1., þjóðhöfðingi Póllands og ættfaðir Piast-ættarinnar, Wrocław undir sig. Árið 1000 kom sonur hans, og síðar konungur Póllands, Bolesław 1., á fót biskupsdæmi í borginni. Ásamt erkibiskupsdæminu í Gniezno, sem þá var höfuðborg Póllands, og biskupsdæmunum í Kraká og Kołobrzeg er biskupsdæmið í Wrocław eitt það elsta í landinu og það fyrsta í Slesíu. Árið 1038 náði Bæheimur undir sig borginni og réði yfir henni til 1054 þegar Piast-menn náðu henni til baka. Árið 1138 varð borgin síðan höfuðborg Hertogadæmisins Slesíu, sem átti rólega eftir losa sig frá Póllandi. Strax á þessum tíma mátti finna samfélög Pólverja, Bæheimamanna (í dag tölum við um Tékka), gyðinga, Vallóna og Þjóðverja í borginni.

Á Þjóðminjasafni Póllands í Wrocław má finna legstein frá árinu 1203 með hebreskri áletrun sem staðfestir langa sögu samfélags gyðinga í borginni. Fransiskusmunkurinn Capistrano lét brenna 41 þeirra á báli 1453 og var þeim bannað að búa í borginni næstu 200 árin. Á 17. öld snéru þeir til baka og fengu búsetuleyfi. Viðurkenning Friðriks mikla á samfélagi þeirra 1744 og frelsistilskipun árið 1812 sem fylgdi í kjölfar umbóta innan Prússlands sem veitti gyðingum borgaraleg réttindi. Umbætur þessar stuðluðu töluvert að fjárhagslegri og félagslegri aðlögun gyðinga að þýskumælandi menningu.

Á fyrri helmingi 13. aldar tókst Hinriki 1., sem kominn var af Slesíu-legg Piast-ættarinnar, að sameina mikið af hinu klofnaða Pólska Konungsríki. Hann fékk titil Krakárhertoga árið 1232 og fór að seilast eftir pólsku krúnunni. Sonur hans, Hinrik 2. hélt ætlunarverki föður síns áfram þangað til að hann lést af stríðsförum 1241 í Bardaganum við Legnica, þar sem Pólverjar mættu Mongólum sem þá fóru yfir Evrópu eins og eldur um sinu.

Borgin var lögð í eyði 1241 þegar fyrsta innrás Mongóla átti sér stað. Borgarbúar ákváðu að brenna borgina til grunna til þess að neyða Mongóla til að halda för sinni áfram. Sumir sagnfræðingar vilja meina að nota heitið Þjóðverjar yfir borgarbúa (eins og í þjóðsögunni hérna að ofan sem ég byrjaði pistilinn á) sé misnefni, þar sem að hin þýska þjóð var ekki til. Hinsvegar hafi germönskumælandi þjóðir eins og Saxónar og Bæjarar sest að. Aðrir vilja meina að á sama tíma sé heldur ekki rétt að tala um Pólverja sem þjóð, heldur vesturslavneskumælandi fólk. Engu að síður öðlaðist borgin hægt og rólega „germanskan brag,“ á meðan það má sannarlega segja að borgin hafi í grunninn verið fjölþjóðleg.

Þegar Wrocław hafði verið endurreist tók hún síðan upp svokölluð Magdeborgarréttindi.

Magdeborg var meðlimur í Hansasambandinu og um leið ein af mikilvægustu verslunarborgum þess. Þaðan var haldið úti verslun við Niðurlönd, Eystrarsaltslöndin og aðrar þýskumælandi borgir innar á meginlandinu. Eins og mörg önnur miðaldalög, var markmiðið að setja reglur á viðskipti sem væri kaup-og handverksmönnum viðkomandi borgar í hag. Utanaðkomandi kaupmönnum var ekki leyft að setja upp eigin verslun heldur voru þeir neyddir til að selja kaupmönnum borgarinnar vörur sínar, ef einhver þeirra vildi kaupa þær.

Í þessum borgum (nú tölum við ekki um Wrocław) voru Þjóðverjar og gyðingar oftast keppinautar hvor annarra. Gyðingar bjuggu við ýmis sérréttindi sem vandlega hafði verið samið um við annað hvort konung eða keisara. Gyðingar heyrðu ekki undir dómsvald borganna. Sérréttindi þeirra kváðu á um að samfélög þeirra hlutu sjálfsstjórn, þeir mættu lifa samkvæmt eigin lögum og lögmálum og ef að upp kæmi deila milli gyðinga og kristinna heyrði sú deila alfarið undir konung en ekki borgaryfirvöld. Eitt ákvæði þessara sérréttinda kvað á um að ekki mætti neyða gyðing til að gerast Gewährsmann, þ.e.a.s. hann átti rétt á því að halda leyndu hvernig hann hefði komist yfir það sem væri eign hans. Gyðingur mátti af eigin frumkvæði segja hver hafði gefið, selt eða lánað honum nokkuð en ekki mátti þröngva honum til þess. Önnur ákvæði leyfði gyðingum að selja kristnum kjöt og hafa ráða kristna til sín sem þjónustufólk.

Wrocław gekk í Hansasambandið undir lok 13. aldar. Á þessum tíma áttu sér stað í Evrópu fólksflutningar sem kölluðust Ostsiedlung. Ostsiedlung er hugtakið sem notað er um hreyfingu þýskumælandi fólks frá hinu Heilaga rómverska ríki austur á bóg. Þrátt fyrir að Piast-ættin réði ennþá formlega yfir því landsvæði sem Wrocław stóð á, minnkuðu ítök hennar í samræmi við aukin völd borgarráðsins.

Þýski sagnfræðingurinn Norberb Conrads hefur skrifað að borgarbúar hafi tekið upp þýska tungu og menningu og orðið germönsk við lok 13. aldar. Póllandssérfræðingurinn Norman Davies skrifar í bók sinni Microcosm: A Portrait of a Central European City að pólsk ítök í borginni hafi varað mun lengur, sem og ítök Piast-ættarinnar. Kaþólska kirkjan í borginni var í miklum tengslum við kaþólsku kirkjuna í Póllandi auk þess sem pólska var ennþá mál hirðarinnar á 14. öld.

Lengst af á miðöldum var Wrocław stjórnað af hertogum Piast-ættarinnar. Síðasti Piast-hertoginn af Wrocław, Hinrik 6. dó árið 1335. Sökum þrýstings frá aðlinum í borginni gekk hann í bandalag með Jóhanni af Lúxemborg, konungi Bæheims. Samkvæmt skilmálum bandalagsins, sem undirritað var 1327, var Wrocław sjálfstæð borg en myndi, að Hinriki látnum, sameinast Konungsdæminu Bæheimi. Sameiningin leiddi til stríðs við Kasimír hinn mikla hvers markmið voru yfirráð í Slesíu. Jóhann af Lúxemborg dó í Frakklandi af stríðsförum og lauk stríðinu með óljósum sigri.

1348 var borgin ásamt Slesíu allri innlimuð í Hið heilaga rómverska ríki.
Næstum öld seinna var Georg af Poděbrady kosinn sem konungur Bæheims af lögstéttum landsins. Mislíkaði borgarbúum í Wrocław þetta mjög þar sem Georg þessi var hússíti. Tóku þeir afstöðu gegn honum með andstæðingi hans, Matthíusi Korviníusi konungi Ungverjalands sem var kaþólikki.

Hússítar voru fylgismenn Jóhanns Húss, tékknesks guðfræðings og kaþólsk prests. Hússítismi, sem við hann er kenndur, var nokkurs konar forboði siðaskiptanna. Jóhann Hús lagði áherslu á að kirkjan væri ekki valdastofnun æðri ríkinu heldur söfnuður trúaðra. Páfi og biskupar væru þar með ekki valdsmenn æðri keisurum og konungum heldur þjónar sem einvörðungu gegndu andlegri þjónustu og ættu ekki að hafa veraldleg völd.
Það má rétt ímynda sér að þetta hafi ekki fallið vel í kramið hjá þeim sem háttsettir voru innan kaþólsku kirkjunnar.

Georg féll frá 1471 og tók Vladislaus 2., sonur Kasimírs 4., við sem konungur í Bæheimi. Eftir að herir Póllands og Bæheims sátu saman um borgina gerðu Kasimír 4., sonur hans Vladislaus 2. af Bæheimi og Matthías Korvínus konungur Ungverjalands vopnahlé sem kvað á um að Wrocław myndi tilheyra Ungverjalandi áfram. Nokkrum árum seinna eftir að prentlistin barst til borgarinnar má sjá nafn hennar skrifað Wratislaw, Bresslau og Presslau.

Hugmyndir siðaskiptanna náðu til Breslau 1518 og árið 1524 gaf borgarráð út þau tilmæli að allir klerkar skulu prédika að hætti mótmælenda og ári seinna bannaði önnur tilskipun ýmsa kaþólska siði. Þrátt fyrir að meirihluti borgarbúa væru mótmælendur var ennþá til staðar strangtrúaður minnihluti kaþólikka.

Við andlát Loðvíks 2., konungs Ungverjalands, Bæheims og Króatíu árið 1526 erfði Habsborgaraveldið Slesíu og þar með Breslau. Rúdólfur 2., erkihertogi Austurríkis og keisari hins heilaga rómverska ríkis, veitti 1630 öllum slesískum mótmælendum frelsi til að halda guðþjónustur. Breslau missti mikið í Þrjátíu ára stríðinu, þegar hermenn frá bæði Svíþjóð og Saxlandi fóru ránshendi um borgina, auk þess sem talið er að allt að 40.000 manns hafi látið lífið í farsótt sem gekk yfir á tíma stríðsins.

Þrátt fyrir að þýskumælandi hluti borgarbúa varð sýnilega meira ríkjandi á meðan borgin var undir yfirráðum Habsborgara, og pólski hluti borgarbúa minnkaði þá hvarf sá pólski aldrei með öllu. Flestir bjuggu þeir á hægri árbakka árinnar Odru, sem kallaður var „pólski bakkinn“ af borgarbúum.

Á meðan á austurríska erfðastríðinu stóð (1740-1748) var bróðurpartur Slesíu innlimaður af Konungsdæmi Prússlands. Í kjölfar þess gátu mótmælendur iðkað trú sína án hafta og prússnesk yfirvöld leyfðu gyðingum að setjast að.

Prússneskar umbætur juku töluverða hagsæld bæði í Breslau og Slesíu allri. Varnarveggir voru rifnir niður sem gerði borginni kleift að stækka umfram gömlu borgarmörkin. Breslau varð miðdepill fyrir lestarsamgöngur sem og ígripamikinn iðnað, þá sérstaklega hör-og bómullarframleiðslu og málmiðnað. Háskóli borgarinnar varð sá afkastamesti í landinu á sviði fræða og tækni á eftir Berlín og var deild slavneskra fræða stofnuð við hann 1841, sú fyrsta sinnar tegundar í Þýskalandi. 1854 var Guðfræðiskóla gyðinga komið á fót, einn af fyrstu sinnar tegundar. Fyrsti rektor skólans var Zecharias Frankel, stofnandi íhaldssams gyðingdóms.

Íhaldssamur gyðingdómur boðar frelsi við guðfræðirannsóknir en krafðist af nemendum að þeir héldu tryggð við venjur hefðbundins gyðingdóms.

Guðfræðiskóli þessi hafði þrjár deildir til að byrja með, þ.e: rabbínadeild sem tók eingöngu við nemendum sem náð höfðu tilskildum prófum; undirbúningsdeild fyrir þá nemendur sem vildu verða nógu vel að sér til að geta fengið inngöngu í prússneska menntaskóla; og kennaraskóla fyrir trúarkennara. Til þess að fá brautskráningu sem kennari varð nemandi að ljúka þriggja ára námi, en þeir sem vildu starfa sem rabbínar þurftu að ljúka sjö ára námi. Kennaraskólinn naut mikillar aðsóknar í byrjun er var síðan lagður niður 1867 vegna skorts á nemendum. Undirbúningsdeildin, sem í byrjun var nauðsynleg þar sem nemendurnir komu aðallega úr „yeshivot“ og höfðu ekki fengið neina veraldlega menntun, varð fljótlega óþörf þar sem nemendur höfðu margir hverjir gengið í prússneska almenningsskóla. Frá árinu 1887 var eingöngu rabbínadeildin starfandi.

„Yeshivot“ („yeshiva“ í eintölu og þýðir „seta“ á hebresku) er hefðbundinn skólastofnun gyðinga þar sem kennd er rabbínsk bókmenntafræði, þá aðallega Talmúðinn (trúarleg lögbók gyðinga), halacha (hefðbundnar túlkanir á lögmálinu, eins og þær hafa varðveist í munnlegri geymd, einkum reglur um siðferði og daglegt líf), á meðan Tóran og heimspeki gyðinga eru kennd meðfram hvort öðru.

Við rabbínadeildina voru kennd talmúdísk bókmenntafræði, sagnfræði og textaskýringar, trúarheimspeki, predikunarfræði og Mídras (biblíuútskýringar á biblíu gyðinga). Skólinn var eyðilagður af nasistum árið 1938.

Breslau varð hluti af þýska keisaraveldinu 1871. Þrátt fyrir að verndartollastefna í helstu viðskiptamörkuðum þess í Austurríki-Ungverjalandi og Rússlandi einkenndust fyrstu árin einkenndust af örum hagvexti.

Samkvæmt þýska manntalinu árið 1905 bjuggu 470.904 í borginni, þar af 4.3% gyðingar og 1.2% Pólverjar. Pólskir sagnfæðingar telja töluverða skekkju í manntalinu, þar sem íbúar voru skráðir eftir ríkisborgararétti en ekki þjóðerni. Þar sem borgin var á mörkum hins slavneskumælandi heims var þýskt viðmót mjög einbeitt og ekki vinalegt Pólverjum, Tékkum og gyðingum sem ekki höfðu aðlagast.

Við lok 19. aldar var hætt við að Breslau færi fram úr Berlín, höfuðborg Prússlands og viðskiptamiðstöð landsins, í afköstum.

Þrátt fyrir Breslaubúar væru að mestu leyti mótmælendur var borgin líka aðsetur rómversk-kaþólska biskupsdæmisins í Breslau, sem var það næststærsta í heiminum á þeim tíma.

Þýskir gyðingar í Breslau stofnuðu Einheitsgemeinde (ísl. sameinað samfélag) bæði réttrúnaðar-og umbótasinnaðra gyðinga. Gyðingum fjölgaði úr 14.000 árið 1871 í 20.000 árið 1910 og var samfélag þeirra í borginni það þriðja stærsta í keisaraveldinu.

Íbúar borgarinnar þjáðust töluvert í fyrri heimsstyrjöldinni. Matur var skammtaður og verð á eggjum og kartöflum hækkaði um 200% sem hafði mataruppþot í för með sér. Dauðarefsing lá við því að hamstra mat.

Þýska keisaraveldið leystist upp í kjölfar endaloka fyrri heimsstyrjaldarinnar. Borgaryfirvöld í Breslau gerðu það sem þau gátu til að koma í veg fyrir stjórnleysið sem einkenndi önnur svæði fyrrum keisaraveldisins á þessum erfiðu árum. Þrátt fyrir að valdaskiptin frá starfsmönnum hins látna veldis til borgarstjórnarinnar færu friðsamlega fram, stóð borgin frammi fyrir erfiðum áskorunum. Von var á 170.000 manns, bæði hermönnum og fólki sem var á vergangi vegna stríðsins til borgarinnar, en laust húsnæði var bara til handa 47.000 manns. Fólk óttaðist að hin nýstofnuðu lönd, Pólland og Tékkóslóvakía gerðu innrás og tækju borgina yfir.

Borgin varð ein af helstu vígum hins nýja Þjóðernissósíalíska þýska verkamannaflokks, betur þekktur sem Nasistaflokkurinn. Talið er að á bakvið stuðninginn hafi verið hið mikla atvinnuleysi sem háði borginni á þessum tíma. Ári eftir kosningarnar 1932 var Gestapo farið að beita sér gegn Pólverjum og gyðingumn í borginni. Fólk var handtekið og lamið fyrir að tala pólsku á almannafæri. Pólskir nemendur voru reknir úr háskóla borgarinnar 1939. Ári áður, þegar Kristalsnóttin gekk yfir, var Nýja Synagógan brennd til kaldra kola. Hér að neðan má sjá hvernig hún leit út.


Í gegnum mesta hluta seinni heimsstyrjaldarannir var Breslau fjarri helstu víglínum stríðsins. Í febrúar 1945 nálgaðist Rauði herinn borgina. Þegar þriggja mánaða umsátri um borgina lauk voru 50% gamla bæjarins, 90% af vestur-og suðurhluta borgarinnar og allt að 30% norðurhluta hennar rústir einar. Borgin var ein sú síðasta til að falla.

Sumarið 1945 voru Þjóðverjar ennþá stærstur hluti íbúa borgarinnar. Þrátt fyrir að vera gerðir brottrækir úr Pólska alþýðulýðveldinu var ennþá nokkuð um Þjóðverja í borginni þar til í lok sjötta áratugar síðustu aldar. Síðasta þýska skólanum var lokað 1963.

Sovétmenn reyndust litlu betri en Þjóðverjar en þeir bæði eyðilögðu borgina enn frekar þó svo að umsátrinu væri lokið, auk þess sem að þeir fluttu margar verksmiðjur austur til Moskvu. Afkastageta hins blómlega iðnaðar sem áður hafði einkennt borgina minnkaði í kjölfarið um 40%.

Jóhannes Páll páfi 2. heimsótti Wrocław í maí 1997. Júlí sama ár áttu sér stað verstu flóð í Póllandi eftir stríð. Um þriðjungur borgarinnar var að öllu eða að hluta til undir vatni. Þættirnir Wielka woda á Netflix fjalla um flóðið og mæli ég með þeim.

Ég á annað eins eftir að skrifa um Wrocław en ég læt það bíða næsta bloggs. Núna vil ég aðeins færa mig aftur yfir í nútímann og tala um Pólland í dag.

Ég var í 10-daga annarfríi í febrúar og heimsótti bæði Wrocław og Kraká. Af helstu borgum Póllands slapp Kraká einna best við eyðileggingu í seinni heimsstyrjöldinni. Tvær kenningar eru á lofti því til útskýringar.

Fyrri kenningin sem var vinsæl á tíma Pólska alþýðulýðveldisins segir að Rauði herinn hafi komið borginni til bjargar. Í stað þess að ráðast á herafla Þjóðverja úr austri gerðu Rússar það úr norðvestri. Komu þeir Þjóðverjum svo á óvart að á þá kom fát og í æsingi sínum að flýja borgina þá gleymt að eyðileggja borgina, þrátt fyrir að hafa eytt töluverðum tíma í að koma sprengiefni fyrir um borgina alla, vitandi að Sovétmenn væru á leiðinni.

Seinni kenningin sem útskýra á hvers vegna Kraká var ekki jöfnuð við jörðu er sú að Þjóðverjar ætluðu sér aldrei að sprengja hana í loft upp. Með því að eyðileggja stíflur sem voru á leið Sovétmanna í átt að borginni ollu þeir töluverðum vatnavexti í ám sem hægði för Rauða hersins. Svo mjög seinkaði þetta komu Sovétmanna að Þjóðverjum tókst ekki bara að flytja alla sína stjórnsýslu úr borginni heldur höfðu þeir einnig á brott fjöldann allan af listmunum. Ætlunin var ekki að eyða mannafla og hergögnum í að halda borginni í gegnum umsátur. Allt það púður fór í að halda Breslau, sem var mikilvægari Þjóðverjum iðnaðarlega séð.

Aftur að nútímanum. Þó svo að ég hafi vissulega heyrt úkraínsku í Wrocław þá heyrði ég ennþá meiri úkraínsku og rússensku í Kraká. Oftar en pólsku þegar ég hugsa út í það.

Rzeczpospolita er pólskt dagblað sem stofnað var sem málsgagn íhaldssama þjóðarflokks kristinna á millistríðsárunum. Eftir því sem að ég fæ best skilið er um Morgunblað Póllands að ræða. 9 febrúar skrifaði blaðakonan Izabela Kacprzak grein sem bar titilinn „Könnun: viðhorf Pólverja til flóttamanna frá Úkraínu er að breytast.“

Greinin segir:

„Rannsókn sýnir að þrátt fyrir að við viljum ennþá aðstoða úkraínska flóttamenn í Póllandi er viðhorf Pólverja til þeirra að versna.

Flestir Pólverjar (87%) eru hlynntir því að börn frá Úkraínu fái inngöngu í pólska grunnskóla.

Bráðum verður ár liðið [það er nú þegar liðið ár þegar þessi bloggpistill er skrifaður] frá upphafi mesta fólksflótta Úkraínubúa í sögu Póllands og Evrópu. Á bilinu 1.2-1.3 milljónir af þeim búa nú í Póllandi en eru þá ekki taldir með þeir sem búsettir voru hér áður. Í janúar rannsökuðu fræðimenn við deild stjórnmála og alþjóðlegra fræða við Háskólann í Varsjá [HV] og Viðskiptaháskólann í Varsjá [VHV] samfélagslegt viðhorf til úkraínskra flóttamanna í annað sinn.

Þetta er samanburðarrannsókn við þá rannsókn sem gerð var á meðal fólks á aldrinum 16-65, sem og svæðisbundna rannsókn (í héruðum sem hafa landamæri að Hvíta-Rússlandi) 2022-2023. Fyrstu niðurstöður rannsóknar á þessu viðfangsefni voru birtar í júlí 2022 (rannsóknin sjálf var gerð í apríl) og hefur hún verið vandlega reifuð áður í Rzeczpospolita.

„Niðurstöðurnar hafa vissulega komið okkur á óvart. Við höfum borið kennsl á nýtt fyrirbæri sem við köllum ‘Misræmi jákvæðs hugarfars’ (Positive Attitude Disonance, PAD – athugasemd greinarhöfundar).“ Fyrirbæri þetta varðar samfélagslegt viðhorf varðandi flóttafólk frá Úkraínu, segir Dr. Robert Staniszewski, forstöðumaður rannsóknarinnar við HV, í viðtali við Rzeczpospolita. Hvaðan kemur þetta misræmi Pólverja í garð Úkraínubúa og hvað þýðir það?

Dr. Staniszewski segir:

„Niðurstöður þeirra opinberu skoðanakannanna sem við höfum framkvæmt sýna að jákvætt viðhorf Pólverja til Úkraínubúa og vilji til að hjálpa þeim, þá helst hernaðarlega, hefur ekki breyst síðan stríðið hófst. Hinsvegar, þegar við spurðum að auki „hefur viðhorf þitt til flóttafólks frá Úkraínu breyst síðustu 6 mánuði, þ.e. síðan í júní 2022?“, svaraði allt að fjórðungur játandi. Það sem meira er, 68% lýstu því yfir að viðhorf þeirra væri orðið neikvætt, svo segja má að það hafi versnað síðan þá. Þessar niðurstöður krefjast frekari rannsókna til að útskýra þetta misræmi.“

Hernaðaraðstoð

Skýrslan sem fyldi niðurstöðum rannsóknarinnar segir: „mögulegar ógnir sem steðja frá Úkraínsku flóttafólki í Póllandi geta verið: neikvæð áhrif á vinnumarkaði, neikvæð áhrif á pólskan efnahag/ríkisfjármál/aukin verðbólga og glæpir.“ Fræðimenn benda á að samanborið við apríl 2022, hefur vægi úkraínskrar þjóðernishyggju minnkað en á sama tíma hefur viðhorf Úkraínubúa á tilkalli síns til réttinda [í Póllandi] og ólík menning þeirra oftar borið á góma.

Svarendur segja að Pólland ætti að hjálpa Úkraínubúum aðallega með hernaðarupplýsingum [e. intelligence], skotfærum og vopnum. Á sama tíma er fólk ekki hlynnt því að senda pólska hermenn til landsins á vegum Atlantshafsbandalagsins.

Misræmið má líka sjá á annarri hlið til viðbótar. Tæpur helmingur (48%) sem svöruðu segja að Pólland ætti að veita aukna aðstoð en meira en þriðjungur er á móti því.

Takmörkuð félagsleg aðstoð

Fræðimenn við HV hafa líka lagt áherslu á aðra þróun, sem tekið hafði verið eftir áður, og sem núna hefur færst í aukana. Hún varðar félagslega aðstoð handa flóttamönnum.

Síðan í apríl 2022, hefur stuðningur við samþykkt frumvarps er varðar aðstoð handa Úkraínubúum minnkað um 4% (álíka og í öðrum löndum ESB). Þrátt fyrir að Pólverjar styðji að mestu leyti (49%) aukna fjárhagsaðstoð í formi 300-slota eingreiðslu [um 10.000 krónur], ókeypis aðgang að heilbrigðiskerfinu (62%) og að veita börnum flóttamanna skólagöngu (87%), er ekki breiðari samstaða um fjárhagsaðstoð hvað barnabætur og stuðning við fjölskyldur varðar núna heldur en 2022. 16% fjölgun svarenda (nú 36%) vilja ekki veita Úkraínubúum fjárhagsaðstoð. Frá og með febrúar hefur ríkisstjórnin samþykkt hlutagreiðslu til flóttamanna sem verið hafa verið í landinu lengur en 120 daga.

Mirosław Skórka, forseti félags Úkraínubúa í Póllandi, er hinsvegar ekki hissa á viðhorfði Pólverja í garð Úkraínubúa. „Fyrst og fremst erum við þreytt á því að heyra stöðugt útlensku, oftast rússnesku, talaða af flóttafólki. Hún er eftir allt saman „tungumál óvinarins“ þannig að það er erfiðara að aðgreina óvini frá flóttafólki,“ segir hann.

„Hvað þýðir ‘ólík menning’, sem gerir okkur neikvæð í garð þessarar þjóðar [hér er verið að tala um Rússland]? Það er fyrst og fremst hroki og yfirlæti, sem eru arfleið „hinnar stórrússnesku heimssýnar“ í [pólsku] samfélagi. Þessi hroki er því miður stundum hluti innri menningar í Rússlandi, í Úkraínu sem á sér birtingarmyndir eins og ástríða á stöðutáknum, aka um á dýrum bílum, virða að vettugi hraðatakmörk og að leggja ólöglega. Þetta er ekki eitthvað sem við eigum að samþykkja. Úkraínubúar eru ekki bara hugrakkir hermenn. Og ég tel að það sé gott að við tökum eftir þessu, því að þeir eru gestir okkar og við erum gestgjafarnir,“ segir Mirosław Skórka.“

Gazeta.pl er pólskur vefmiðill sem stofnaður var árið 2001. Til að byrja með var þetta miðill sem hét Agora og birti viðauka við dagblaðið Gazeta Wyborcza en varð seinna sjálfstæður miðill í þeirri mynd sem hann starfar sem í dag. Voru þessir miðlar aðskildir með öllu 2006.

Miðillinn þykir vera á frjálslyndari kantinum (á pólskum mælikvarða) og hefur ritstjórnin haft sig frammi fyrir mannréttindum og jafnréttindabaráttu. Liður í starfi þeirra fyrir LGBTQ+ samfélagið var að birta heimildaþætti sem báru heitið „Rodzina+“ (rodzina þýðir fjölskylda á pólsku) sem fjallaði um uppeldi barna hjá samkynja pörum í Póllandi.

Gazeta Wyborcza er dagblað sem gefið hefur verið út síðan 1989, þykir frjálslynt og hefur virðingu á pari við Rzeczpospolita. Árið 2020 var það tíunda mestlesna dagblað Evrópu.

14. nóvember 2022 birti blaðamaðurinn Grzegorz Sroczyński grein sem bar titilinn: „Elskar allt Pólland Úkraínubúa? Nú þegar eru til skoðanakannanir með svo slæmum niðurstöðum að þær hafa ekki verið birtar.“

Greinir segir:

„Sökum stríðsins, verðbólgu, orkukreppunnar er fólk mun óöruggara með félagslega stöðu sína.„Ég get misst allt.“ Miðstéttin og verkamannastéttin eru mjög hræddar um að einhver geti tekið þeirra pláss í heilbrigðiskerfinu eða á leikskólum. Grzegorz Sroczyński ræðir við félagsfræðinginn Przemysław Sadura.

Nýjasta rannsókn þeirra Przemysławs Sadura og Sławomirs Sierakowski „Pólverjar með Úkraínu, en á móti Úkraínubúum“ var gefin út af Krytyka Polityczna.[Krytyka Polityczna er vinstrisinnað tímarit sem gefið er út á þriggja mánaða fresti. Það var stofnað af Sławomir Witold Sierakowski, sem er blaðamaður, bókmenntagagnrýnandi og félagsfræðingur].

Grzegorz Sroczyński: Hver upplifir meshræðsluna þessa stundina? Rithöfundar, virkir á samfélagsmiðlum, eða jafnvel einhver annar?


Przemysław Sadura: Það er ekki hægt að segja til um það. Við höfum reynt að skoða það nánar og það kom í ljós að allir eru jafnhræddir en við ólíka hluti. Um er að ræða röð hamfara.

Eitthvað slæmt handa hverjum og einum?

Allir finna eitthvað sem veldur þeim óþægindum. Faraldurinn er ekki búinn en engu að síður hefur brotist út stríð. Þátttakendur rannsóknarinnar sögðu það sjálfir: Covid lauk 24. febrúar. Í þeirri merkingu að eitthvað ennþá verra tók við. Síðan var flóttamannastraumur, verðbólgan hækkaði upp úr öllu valdi, orkukreppan skall á og nú er kolaskortur. Svo virðist sem þetta ástand ætli engan enda að taka. Stríð er aðallega áfall fyrir fólk yfir fertugu, sem í rýnihópnum sagðist reglulega dreyma um það.

„Sem dæmi, þá er ég sofandi og síðan springur allt í einu sprengja, en síðan ég hætti að horfa á fréttirnar hefur þetta lagast,“ – þetta er tilvitnun úr rannsókn ykkar.

Skelfilegar fréttir voru einfaldlega yfirþyrmandi. Þeir [þáttakendurnir] byrjuðu að fá martraðir og líkamleg einkenni álagsstreytu sem þeir reyndu að hunsa. Fólk byrjaði líka að ganga til sálfræðings, nokkuð sem er orðið mörgum nauðsynlegt. Margir töluðu um þetta.

En hvað er það sem veldur mestum áhyggjum á fólki undir fertugu?

Verðbólgan.

Af því að lánagreiðslur hafa farið úr 2.000 slotum upp í 4.000 slot?

Ennþá verra en það: ég ætlaði að taka lán, núna fæ ég það aldrei, ekki séns, þetta er búið, ég eignast aldrei íbúð.

Önnur tilvitnun: „Það er skortur á öryggi. Til dæmis, í minni fjölskyldu, ef einhver ætlaði að kaupa hús, fjaraði umræðan út, því þau vita ekki hvað mun gerast varðandi lánið, vextir hækka, og það er stríð, og verðbólga o.s.frv. Öll plön hafa fallið um sjálf sig. Og það er erfitt.“

Rannsóknin sýnir mjög greinilega að við erum hætt að gera framtíðarplön. Það er enginn tilgangur með því að hugsa um íbúð, hús, framtíðina, því þú veist ekki hvernig allt verður eftir eitt ár. Ef þú getur ekki gert plön, þá færðu tómleikatilfinningu og finnst þú hafa verið sviptur einhverju – þetta tvennt kom fram í mörgum viðtölum. Kannski er það vegna þessarar tómleikatilfinningar að fólk hefur fengið mikinn áhuga á því að ganga til sálfræðings. Sálfræðimeðferð er núna orðin í hugum fólks ein af grunnþörfum samfélagsins, nokkuð sem kom okkur töluvert á óvart. Í viðtalshluta rannsóknarinnar spurðum við um helstu skyldur ríkisins og bættum við klausu um tryggðan aðgang að sálfræðimeðferð. Við vorum hræddir að fólki þætti það vera eitthvað þéttbýlisfínerí, eins og sojalatté. Í ljós kom að þetta er eitt það mikilvægasta af því sem ríkið á að gæta að fólk hafi aðgang að.

Sálfræðimeðferð?

Já. Þú situr með rýnihóp samanstandandi af eldri konum úr verkamannastétt, húsmæðrum og bændum. Þau rugla ekki saman kennurum við sálfræðinga, né sálfræðingum við geðlækna [á pólsku er kennari pedagoga, sálfræðingur psycholog og geðlæknir psychiatra, allt tökuorð]. Það sem meira er, þau vita hvað sálfræðimeðferð er, þau vita að það er röð viðtala, ekki stök heimsókn, vita hvað hún kostar hjá einkaaðilum og hvað biðlistinn er langur hjá hinu opinbera.

Hvaðan vita þau þetta?

Þau eiga fjölskyldumeðlimi og vini sem gátu ekki þolað kvíðann lengur og byrjuðu að ganga til sálfræðings.

Þannig að við höfum öll mikið að hræðast? Meira en venjulega?

Heilu tunnufyllin.

Er hægt að lýsa þessari hræðslu í einni setningu?

Já, það er hæt, eitthvað á þessa leið: „mér líður eins og ég sé standandi í röð og einhver er að reyna að ýta mér úr henni.“

Að ýta sér úr röðinni?

Vegna þeirra áhrifa sem gætir vegna stríðsins, verðbólgunnar, orkukreppunnar, er fólk mun hræddara um að missa félagslega stöðu sína. „Ég get tapað öllu.“ Millistéttin og verkamannastéttin eru sérstaklega hræddar um að einhverjir taki þeirra pláss í röðinni hjá lækninum, dagmömmunni, leikskólanum.

Einhverjir?

Hreint út sagt, Úkraínubúar.

Ég skil. Hvað þýðir nákvæmlega myndlíkingin við röðina?

Í fyrsta lagi samkeppni um takmarkaðar auðlindir í stríðsástandi og kreppu. Við erum meðvituð um að okkar eigið ríki stendur skig skelfilega þegar það kemur að heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og almenningssamgöngum. Á tímum Pólska Alþýðulýðveldisins var það þannig að ef það datt inn vara í verslanir var allavega nóg fyrir þá sem voru fremst í röðinni, en eftir því sem þú stóðst aftar, varstu ekki jafn viss. Og núna ríkir svipað hugarástand: kannski er ekki til nóg handa mér. Þannig að ef þú hugsar til þess að einhver sé að troða sér áfram eða fram fyrir byrjarðu að panikka og reiðast. Í öðru lagi snýst þetta um virðingu.

Um virðingu?

Um þarfir hverra ætti að álíta mikilvægastar og hver á mest skilið. Það er sívaxandi trú – og þetta hefur verið staðfest í rannsókninni – að það ætti að þjónusta pólska ríkisborgara á undan öðrum. Við styðjum Úkraínu heilshugar, við skiljum að ástandið er skelfilegt, við hötum Pútín o.s.frv. En framundan er vetur, verðbólgan er hömlulaus, þannig að ekki á að gefa þessum Úkraínubúum svona mikið. Það skipti ekki máli hvort við vorum að tala við kennara frá bæjum eða borgum, opinbera starfsmenn eða bændur, fólk talaði um þetta af fyrra bragði.

Um Úkraínubúa?

Það var nóg að einn byrjaði að ræða þetta og þá vildu allir tjá sig.

Millistéttin óttast líka að detta niður um stétt og tapa stöðu sinni. Þau sem henni tilheyra trúa því að þau standi auðmjúk í röðinni á meðan „kotbændastóð PiS-flokksins“ [í pólskri útgáfu textans er notast við orðið ‘czerń’ sem notað var um úkraínska smábændur á 17. öld] taki fram úr þeim.

Að kotbændastóðið taki fram úr þeim?

Af því að hún fær fjárhagsaðstoð og lægstu laun fara hækkandi, þá munar ekki miklu á því sem kassadaman í Lidl fær í laun og því sem ég fæ. Gjáin minnkar [fólk upplifir sig frekar nær fólkinu á botninum, frekar en að það sé að nálgast sig]. Og það særir.

Afhverju særir það?

Samfélagssamningurinn sem gerður var við millistéttina upp úr 1990, var að ef þú leggur hart að þér, meira en aðrir, þá færðu meira. Nóg til þess að þurfa ekki að reiða þig á ríkið, kaupa almenningsþjónustu á opnum markaði, gast hætt að taka strætó og notað eigin bíl og átt fyrir fríi til Egyptalands, sem aðrir gátu ekki. Þetta er það sem millistéttin upplifir sem sín forréttindi. Síðan ákveður PiS að gefa 500-plús slot vinstri-hægri, lægstu laun hækka hraðar, tímakaupið hækkar, allt í einu ertu farinn að sjá þá sem ekkert áttu í fríinu þínu í Egyptalandi og það finnst þér frústrerandi.

En hvers vegna? Af því að verkamannastéttin kemur með mér í frí?

Af því að gjáin á milli [verkamannastéttarinnar og millistéttarinnar] fer minnkandi, allt í einu eiga þau efni á því að fara til Egyptalands en þú átt ekki efni á því að fara til Maldíveyja og að öllu jöfnu ertu ekki á leiðinni þangað á næstu árum. Millistéttin upplifir stöðnun, henni finnst hún svikin og viðmælendur sem henni tilheyrðu gerðu þetta mjög ljóst. Enginn gefur þeim til baka tímann sem þau eyddu í vinnu í stað þess að verja honum með börnunum sínum. Þess í stað unnu þau yfirvinnu til að klífa þúsundþrepaháan metorðastiga. Þau áttu að geta litið niður úr honum og séð hina í fjarska en í ljós kemur að þau standa ekki í stiga heldur á litlum kolli. Síðan líta þau upp og sjá þá sem hafa það betra, forríka Pólverja – sem hafa gjörsamlega tapað sér: þotur, snekkjur, allt sem þau munu aldrei eignast.

Stríð, verðbólga, hverfandi stéttarskipting … Hvað gerum við við allt þetta sem við hræðumst?


Við beitum því klassíska úrræði að flýja í stað þess að horfast í augu þess sem við hræðumst.

Hvert flýjum við?

Millistéttin reynir að flýja til fortíðarinnar, þ.e. til nýfrjálshyggju 10. áratugarins: þú getur bara stólað á sjálfan þig. Þjónusta ríkisins mun aldrei batna, þannig að ég reyni að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu og menntun á hinum opna markaði. Þetta gerir hún bara tímabundið, hún hefur ekki efni á öðru. Millistéttinni hefur alltaf fundist að Pólland sé ekki land handa þeim. Þeim líður eins og þau eigi ekki heima hérna og þau eru sannfærð að það eitt bíður þeirra að flytja erlendis.

Þannig að fólk sem henni tilheyrir mun flytja burt því það er ómögulegt að búa hérna?


Stemmir. Þeim finnst þau hafa verið dregin á asnaeyrum.

En afhverju?

Ég er búinn að svara þessu: pólska millistéttin hefur gert sér grein fyrir því að þau geta ekki unnið sig lengra upp. Auðæfum var safnað, einkaþotur birtust, Filipiak, Sołowow og Brzoska [Janusz Filipiak, Michał Sołowow og Rafał Brzoska eru með ríkustu mönnum Póllands] urðu hluti af pólska landslaginu. Svona var hlutkestinu varpað. Pólska millistéttin trúði því að verkamannastéttin gæti ekki nálgast sig hvað lífsgæði varðar, en á sama tíma er þeim hjálpað með hærri launum og bótum. Millistéttin eyddi hálfri ævinni í að klífa metorðastigann, verkamannastéttin fékk að taka lyftuna. Millistéttin gúdderar þetta ekki og vill taka aftur upp verðleikaræði 10. áratugarins. Verðleikaræðið hallaði kannski smá til hliðar og það var ekki gaman að sitja undir áreiti yfirmanna á 16-tíma vinnudegi, en það var þó sanngjarnara.

Eigum við að skera niður félagslega aðstoð?

Okkur finnst að við eigum skera niður. Pólverjar kunna að meta þegar þeir fá eitthvað, en þeir hafa áhyggjur ef nágrannar þeirra fá það líka.

Nágrannar þeirra?

Sem hafa ekki allt sitt á hreinu. Annað hvort eru þeir of ríkir og ættu ekki að fá neitt, því þeir eiga ekki rétt á því eða þeir eru of fátækir og ættu heldur ekki að fá aðstoð því þeir drekka hana frá sér. Sérhver stétt í Póllandi – meira að segja verkamannastéttin – hefur einhvern til að líta niður á, þ.e. sína eigin sýn á ‘sjúkt ástand’ þar sem þau eru aðstoðuð sem á ekki að aðstoða.

Þannig að millistéttin flýr ástandið með því að þykjast komast áfram af eigin rammleik: ég sé um mig sjálfur, láttu mig bara vera?

Já, hún notar sama hugarfar og var algengt á 10. áratugnum vegna örvæntingar og vonleysis.

Og hvert flýr verkamannastéttin frá því sem hún hræðist?

Hún flýr í faðm samsæriskenninga. Í hugum þeirra steðjar hætta af því sem er utanaðkomandi. Því neðar sem þú ferð niður þjóðfélagsstigann í rannsókninni, því sterkari verða þessir hugarórar, því meira haldi ná slíkar illgresissögur á hugum fólks.

Illgresissögur?

Ég fékk þetta hugtak frá félagsfræðingnum Kacper Pobłocki. Þetta eru sögur sem eru eins og kjaftasögur, en ólíkt öðrum kjaftasögum eiga þær rætur sínar að rekja til samfélagsmiðla. Verkamannastéttin ber ekkert traust til hefðbundinna fjölmiðla. Kjósendur PiS [einn af ríkisstjórnarflokkunum sem hefur 187 sæti af 460 í neðri deild þingsins, 48 sæti af 100 í efri deild þess] trúa ekki því sem sem sagt er í hefðbundnum fjölmiðlum.

Bíddu nú við,treysta þeir heldur ekki því sem sagt er í TVP [ríkisfjölmiðill, hallur undir íhaldssaman málstað PiS]?

Engan veginn. Þeir vita að PiS-miðlar afskræma sannleikann. Þetta er sá hópur samfélagsins sem sækir sér upplýsingar úr ólíkustu áttum.

Kjósendur PiS?

Rannsóknir okkar frá því áður sýna fram á þetta. Þó svo að þeim líki áróðurinn úr smiðju TVP, finnst þeim á sama tíma að fólk eigi að sækja sér upplýsingar annað. Fólk þarf sem dæmi að sækja sér upplýsingar til samfélagsmiðla, af því að þar – á Facebook eða TikTok – getur fólk sagt sannleikann án þess að eiga á hættu að vera ritskoðað. Og þaðan eru illgresissögur um Úkraínubúa að dreifa sér. Við fundum ýmsar slíkar.

Tilvitnun: „Ein kona frá Úkraínu fær allt frítt í Póllandi og þarf ekki einu sinni að borga fyrir klippingu.“ Meinarðu eins og þessar?

Þetta er ein af þeim sem fer núna um allt eins og eldur í sinu. Þessi er um konu sem fór í klippingu eða í handsnyrtingu og borgaði ekki af því að „hún á skilið að fá allt ókeypis.“

„Meira að segja ein vinkona mín afgreiddi úkraínska konu á snyrtistofu og þegar hún var búin að öllu sagðist konan ekki ætla að borga því þetta ætti að vera ókeypis. Síðan fór hún bara.“

Einmitt. Það ganga um sögur um að einhver hafi farið aftar í biðlista fyrir aðgerð því að Úkraínubúi var settur í forgang, einhver annar fékk ekki pláss á leikskóla fyrir barnið sitt út af barni frá Úkraínu. Allar þessar sögur koma af samfélagsmiðlum en fólk segir frá þeim eins og um vini og ættingja sé að ræða.

Segir fólk ekki „ég sá það á Fésinu?“

Nei. Það segir „vinur minn sagði mér þetta.“ Eða „þetta gerðist á meðan ég var í klippingu.“

En fólk las þetta á netinu?


Já. Viðmælendur vildu meina að þetta hafi átt sér stað þegar þeir voru í klippingu eða þegar þeir voru í skólanum, en það er ekki satt.

Hvers vegna gerist þetta?

Vegna þess að þetta er tilgangur illgresissagna. Þær ríma við það sem við hræðumst þannig að við förum að líta á þær sem eigin upplifanir. Þetta er dæmi um efni sem rússnesk nettröll dreifðu og smellpassar við það sem við hræðumst: minni trú á ríkinu og hræðsla við að missa sinn stað í biðröðinni.

En álítur þú það möguleika að þetta sem illgresissögurnar segja sé satt?

Veistu, þó svo að svo væri, væru atvikin samt ekki svona mörg. Kannski er „úkraínsk tilætlunarsemi“ einfaldlega sinnuleysi hjá einhverju af flóttafólkinu. Sérstaklega hjá þeim sem komu til Póllands frá Austur-Úkraínu, þar sem allt er ennþá mjög sovétskt. Þetta fólk var stundum kannski svolítið klaufalegt í þeim skilningi að ef það fékk fljótlega íbúð og lifði af næstu vikurnar, ákvað það ekki næstu skref, því það hélt að það fengi frekari aðstoð. Pólverjar byrjuðu að sjá þetta umkomuleysi sem tilætlunarsemi. Gerðist það í alvörunni að konan á hárgreiðslustofunni borgaði ekki? Kannski, en það er ekki málið.

En hvað er málið?

Málið er að að ein svona saga endurtekur sig aftur og aftur í ólíkum myndum: stundum gerist hún á hárgreiðslustofu, stundum í handsnyrtingu eða úti í sjoppu og það er alltaf talað um „á hárgreiðslustofunni minni,“ „í sjoppunni minni,“ eða „ég sá þetta sjálfur.“

Tilvitnun: „Við komumst aldrei að hjá lækni, en þau mæta bara og fá tíma strax. Þau þurfa ekki að bíða.“ Einhver annar bætir svo við: „þau vandlátu eru verst.“


Í rannsókn okkar var ein saga oft endurtekin um unga menn sem keyrðu um á splunkunýjum bílum. Sumir taka myndir af nýjum jeppum sem eru á úkraínskum númeraplötum og setja myndirnar strax í dreifingu. Á einhverjum myndum er það Úkraínubúi að stela einhverju eða að lemja einhvern – og fólk er strax farið að tala um þær.

En hefðbundnir fjölmiðlar tilgreina ekki að viðkomandi sé frá Úkraínu þegar slíkar greinar eru skrifaðar, til þessa að kynda ekki undir andúð á Úkraínubúum.

Nei, þeir gera það ekki.

Þegar að flóttamannakrísan gekk yfir Þýskaland 2015-2016, þá slepptu fjölmiðlar líka slíkum óþægilegum fréttum.

Já. Í góðri trú.

En síðan varð fólk reitt og Alternative für Deutschland sem gerði út á útlendingahatur fékk 25% atkvæða í kosningunum í Saxlandi.

Ég upplifði eitthvað svipað því þegar ég var við rannsóknir í Englandi og átti að skoða fordóma gagnvart öðrum. Þegar þau sem ég vann með sáu spurningarnar sem ég vildi spyrja – og það voru ögrandi spurningar um rasisma og hómófóbíu – sögðu þau að það kæmi ekki til greina. „Ef viðmælandi nefnir það ekki af fyrra bragði, þá ræðum við þetta ekki.“ „Yfirmaður okkar leyfir okkur ekki að spyrja slíkra spurninga, við eigum það á hættu að missa vinnuna.“ Það var betra að spyrja ekki spurninga og trúa því að pólitískur rétttrúnaður myndi laga allt. Á sama tíma jókst andúð gegn innflytjendum í Bretlandi þangað til að kalla þurfti út lögregluna til að ná tökum á ástandinu. Allt endaði þetta með Brexit, en andúð á Pólverjum var sérstaklega notuð til að ná því í gegn.

Pólverjar veiða svani í almenningsgörðum og grilla þá. Pólverjar veiða fiska í tjörnunum þar líka.

Já, það var töluvert um slíkar sögur í breskum æsifréttablöðum. Maður getur líka spurt sig hvort að sagan um Pólverjan sem borðaði svan í almenningsgarðinum hafi í alvörunni gerst. Ég held ekki. En það er heldur ekki það sem málið snýst um.

Heldur hvað?

Sú staðreynd að grunnskólar í Doncaster – sem hefur fengið nafnið Polcaster eftir að þúsundir landa okkar fluttu þangað – voru allt í einu með ofsetnar kennslustofur og þar að auki með börn sem töluðu ekki ekki góða ensku. Þetta varð til þess að kennarar þurftu að eyða meiri tíma með þessum nemendum, sem fór í taugarnar á breskum foreldrum af því að „börnin okkar fá ekki þá aðstoð sem þau þurfa.“ Nákvæmlega sömu sögu fékk ég að heyra frá Justynu Suchecka, blaðamanni sem sérhæfir sig í menntamálum. Hún heyrir foreldra í Póllandi segja „allur tími kennaranna fer í að hjálpa þessum úkraínsku börnum.“

Og hvað er hægt að gera í þessu?

Það er hægt að tala um þetta. Og krefjast þess að ríkið stígi inn í til að róa öldurnar. Ég er ekki að segja að við séum komin á ystu nöf í eldfimu ástandi hvað varðar andúð á Úkraínubúum, en við sjáum viðhorf fólks breytast á kerfisbundinn hátt. Við erum nú þegar með viðhorfskannanir með svo slæmum niðurstöðum að skólastjórar neita að birta þær.

Hvað meinarðu?

Ein þekkt menntastofnun lét kanna ástandið [meðal eigin nemenda] – hversu margir Pólverjar væru búnir að fá nóg af Úkraínubúum – og ákváðu að birta ekki niðurstöðurnar. Það var gert af góðum hug, til að gera ástandið ekki verra.

Hvað finnst þér sjálfur? Á að birta þær?

Fyrst og fremst eigum við að leyfa fólki að vera með blendnar tilfinningar og leyfa þeim að tjá sig um þær. Af því að fólkið sem er að kljást við þessar tilfinningar eru ekki bara einhverjir slæmir Pólverjar, heldur að miklu leyti það fólk sem mætti fyrst til að hjálpa Úkraínubúum á fyrstu vikum stríðsins. Blendnar tilfinningar er eðlilegt að upplifa samtímis. Þú elskar börnin þín meira en allt, þau eru allt sem þú átt, en stundum fara þau svo í taugarnar á þér að þú gætir misst stjórn á þér. Ef einhver klæðir þig í það lífstykki sem hlutverk hinnar fullkomnu móður er, sem aldrei verður reið út í börnin sín, þarftu fyrr en seinna að fara til geðlæknis eða það endar með ósköpum.

Erum við í hlutverki hinnar fullkomnu móður?

Það er hlutverk göfugra Pólverja að hjálpa Úkraínu, og allar tilfinningar sem ekki styðja þetta hlutverk þarf að ritskoða. Það er betra að leyfa þessa hræðslu svo einhver geti sagt: það er fullt af úkraínskum börnum í bekknum okkar, ég hef áhyggjur af því að kennararnir hafi ekki tíma fyrir börnin mín, því að ríkið stendur sig ekki og sveltir menntakerfið okkar, það eru ekki nógu margir kennarar. Fólk á rétt á því að tjá sig um það sem er hrætt um. Það gæti meira að segja verið læknandi.

Læknandi?

Það er betra að leyfa fólki að koma með svona fullyrðingar í samfélagslegri umræðu og vinna þannig réttan viðtakanda. Réttur viðtakandi er auðvitað menntamálaráðherra en ekki „tilætlunarsamir Úkraínubúa.“ Það eru yfirvöld sem eiga að haga málum menntakerfisins þannig að pólskir skólar verði ekki frjór jarðvegur fyrir andúð á Úkraínubúum. Hingað til hefur ríkt þöggun um þetta í góðri trú. Sławek og ég vorum líka að velta því fyrir okkur hvort við ættum að ræða allar þær niðurstöður sem við fengum úr okkar rannsókn.

Hvers vegna?

Af því að eins og aðrir viljum við ekki gera vont verra. Eftir að við birtum niðurstöður rannsóknarinnar sakaði Dr. Pełczyńska-Nałęcz okkur um að hafa haft eingöngu átta rýnihópa og að hafa birt óstaðfestar túlkanir, á meðan að kannanir sýna að flestir Pólverjar vilji hjálpa Úkraínubúum. Jú, meirihluti þeirra vill hjálpa, en þú verður að horfa á kannanir út frá gangi mála. Og gangur mála er sá að vilji til að hjálpa fer dvínandi. Færri og færri Pólverjar lýsa því yfir, þó svo að það hafi verið rannsakað, t.d. af CBOS [Centrum Badania Opinii Społecznej er óhagnaðardrifin stofnun í Póllandi sem framkvæmir skoðanakannanir].

Hvaða máli skiptir að þetta hafi verið rannsakað af CBOS?

Fyrst færðu opinbert bréf sem segir að það eigi að gera könnun. Síðan kemur sá sem tekur viðtalið. Þetta er allt mjög formlegt. Þú heyrir spurninguna hvort hjálpa eigi flóttamönnum frá Úkraínu. Segir þú nei þó svo að þér finnist það? Andrúmsloftið í rýnihópum – t.d. í okkar hópum – er gjörólíkt, ekki jafn formlegt, því að samtalið er leitt áfram af þeim sem framkvæmir rannsóknina, en einhver úr hópnum minnist á Úkraínubúa, aðrir byrja að taka undir og eftir smástund eru allir að tala um Úkraínubúa. Þú leiðir einn hóp, svo þann þriðja og jafnvel fimmta og þetta mynstur endurtekur sig. Tölfræðilega séð, gæti ég hitt einhvern sem er á einhvern hátt ódæmigerður, sem engin fordæmi eru fyrir. Allan þann tíma sem ég hef starfað sem félagsfræðingur hefur það samt ekki gerst.

Er eitthvað hægt að gera í þessari hræðsluflækju Pólverja?

Með pólitískum hætti? Ég held að Pólverjar þurfi núna pólitískan þerapista en ekki sjónhverfingamann. Fólk er heltekið hræðslu. Það vill ekki láta lofa sér allsnægtum sem galdraðar eru fram úr engu því raunveruleikinn tekur svo mikið frá þeim nú þegar. Sumir trúðu því að PiS myndi leysa einhver vandamál, sérstaklega „vantrúaðir kjósendur“ – þannig tölum við um fólkið sem kaus PiS ekki af hugmyndafræðilegum ástæðum, heldur vegna þeirra bóta og aðstoðar sem umbætur ríkisins buðu upp á. Þetta fólk er nær stjórnarandstöðunni en PiS hugmyndafræðilega séð, en hefur sannfært sjálft sig að Kaczyński [leiðtogi PiS] efni gefin loforð, það verði bætur, landsbyggðarstrætó fari að ganga aftur og lestarstöðin í litla þorpinu þeirra verði aftur starfrækt. Ekkert að þessu hefur ræst. Ríkið ræður ekki við ástandið, þó svo að PiS hafi lofað styrk og stöðugleika. Bartłomiej Sienkiewicz [innanríkisráðherra fyrir hönd PO sem Donald Tusk leiðir árin 2013-2014] sagði nýlega að ríkið væri komið á bráðavaktina, og ég myndi bæta við að samfélagið væri komið til geðlæknis. Og einhver verður að svara fyrir ástandið. Einhver verður að heyra í þessu fólki. Þau vilja ekki að það sé talað til þeirra né að þeim sé lofað einhverju, heldur vilja þau að það sé talað við sig.

En hvað myndi það þýða? Nú ferðast Tusk um Pólland til dæmis og hvað svo?

Sem er gott. Hann einangrar sig ekki, hann fer ekki meðfram veggjum. Einhver stuðningsmaður PiS stendur upp og spyr óþægilegra spurninga og Tusk einhvern veginn tekst að svara.

Þannig að þessar uppákomur, þegar PiS-ari lætur Tusk heyra það, eru í
lagi?

Ef við horfum á tilfinningarnar sem krauma í samfélaginu og á þá staðreynd að fólk vill að á sig sé hlustað – þá er þetta í mjög góðu lagi.

Finnst þér Tusk vera hæfur þerapisti?

Ég veit það ekki. Ég nenni ekki þeirri samlíkingu lengur. Það sem máli skiptir er að nú er tími til að taka Pólverja alvarlega.

Sama hvað frjálslyndum fréttaskýrendum finnst um málið, þá held ég ekki að versta mögulega staðan sé sigur PiS og að hann sitji þriðja kjörtímabilið í röð. Miklu verra en kosningatap væri pyrrosarsigur stjórnarandstöðunnar. Sigur sem breytist í málamiðlanaóreiðu og yrði þess valdandi að hægrimenn snúi aftur sem menn guðlegrar forsjónar. Ef stjórnarandstaðan lofar upp í ermina á sér því sem hún ætlar að framkvæma þegar hún loksins sigrar – og við vitum ekki einu sinni hvernir ríkisskuldir standa – þá erum við komin hættulega nálægt pólitísku stórslysi.

En hvað viltu segja núna?

Þetta eru skrýtnir tímar og nú er rétta augnablikið til að eiga heiðarlegt samtal. Einu sinni gastu lofað fólkið blóði, svita og tárum og unnið kosningar. Þessi taktík gengi ekki endilega í dag en það er þess virði að að halda sig við það sem á sér stoð í raunveruleikanum.

Ég veit ekki með það.

Frjálslyndir fjölmiðlar segja eitt, ríkisstjórnin segir annað, fólk nær því sem sagt er en alltaf minna og minna af því.

Minna?

Fólk forðast þennan klið. „Ég hætti að horfa á sjónvarpið og ég er miklu rólegri núna“, segja þau sem eru í rýnihópunum. Fólk er of hrætt núna, það er að kljást við of mikið núna til að hlusta á stjórnmálamenn tala í hverri viku um skandal og heimsendi. Vilji fólks til að styðja PiS er dalandi en viljinn til að styðja stjórnarandstöðuna er ekki að aukast sem því nemur. Líklegasta niðurstaðan verður sú að þessi aukna kosningaþáttaka sem við höfum séð fari dvínandi.

Þannig að ég horfi ekki á fréttir – hitt eða þetta – vegna þess að ég vil ekki stress, en ég ætla ekki að kjósa heldur. Hvorki þennan né hinn.

Já.

Hvað með eitthvað jákvætt? Hefurðu eitthvað jákvætt að segja?

Jú, vissulega. Báðir helstu flokkarnir – ég veit það fyrir víst – hafa gert eigin rannsóknir sem sýna aukna andúð á Úkraínubúum. Og hvorugur flokkur er að notfæra sér hana.“

Greinina í Rzescpospolita má nálgast á pólsku hér. Greinina á Gazeta.pl má nálgast á pólsku hér.

Ég hef þetta ekki lengra að sinni. Takk fyrir lesturinn.




Eitt svar við “Póllandspistill 5.”

  1. Sigurður R. Guðjónsson Avatar
    Sigurður R. Guðjónsson

    Flottur pistill hjá þér, Eggert!

    Kær kveðja,

    SRG

    Sigurður R. Guðjónsson
    Lágabergi 4

    IS-111 Reykjavik

    Iceland

    › E-Mail: srglubbi@internet.is srglubbi@internet.is
    ( Tel. : +354 557 8183
    È Mobile: +354 820 8183

    Líkar við

Færðu inn athugasemd