Póllandspistill 8.

Ef farið er til Vilníusar, höfuðborgar Litháens, er hægt að fara til þorps sem liggur um 28 km. vestan við hana sem heitir Trakai. Þorpið er fámennt en þar búa rétt rúmlega 5.000 manns.

Árið 1857 fæddist þar hjónunum Azariaszi og Maríu Kobecki sonur sem fékk nafnið Szymon. Hann hóf nám grunnskólanum þar 10 ára gamall og eftir að því lauk hélt hann til Vilníusar í hermenntaskóla.

25. janúar árið 1878 byrjaði hann að gegna herþjónustu í 50stu varaherliðsdeild landgönguliða sem sjálfboðaliði í þriðja flokki til eins árs, sem gerði stöðuhækkun mögulega þrem árum seinna. Hann tók þátt í stríðinu milli Rússlands og Tyrklands (í raun er um misnefni að ræða, því stríðið var við Ottómanveldið sem Tyrkland var vissulega hluti af) sem átti sér stað 1877-1878.

Hann átti eftir að gegna herþjónustu mörg ár í viðbót en var að lokum leystur undan henni árið 1896 þegar hann var kominn með stöðu varakafteins. Sem þakkir fyrir herþjónustuna gat hann unnið sem svokallaður matsmaður samkvæmt því sem kalla mætti tignarskrá sem var þá í notkun í Keisaraveldi Rússlands. Þessi skrá útlistaði bæði þær kröfur og þau réttindi sem viðkomandi hlaut að lokinni herþjónustu.

Því lengur sem maður var í hernum, því hærra gat hann unnið sig upp með það fyrir augum að fá bestu mögulegu stöðu samkvæmt tignarskránni eftir að herþjónustu lauk.

Þetta varð til þess að fólk sem tilheyrði valdastéttinni skráði syni sína í herinn við fæðingu, þannig að þegar hin eiginlega herþjónusta hófst höfðu þeir sinnt henni (þ.e. verið skráðir) svo lengi að þeir voru komnir með stöðu ofursta.

Hann snéri aftur í herinn ári seinna og starfaði hjá miðstöð hersins í Kænugarðsamti. Hann fékk stöðu kafteins og vann sem slíkur til ársins 1902.

Fyrstu áratugir 20. aldar voru rjóstusamlegir á þessum slóðum og átti hann eftir að berjast fyrir hvítliða í rússnesku borgarastyrjöldinni. Hvítliðar töpuðu fyrir bolsévikum og eftir að hafa misst frá sér Krím varð Szymon að leggja á flótta. Hann dó árið 1933 í Holodómor, en svo nefnist hungursneyðin mikla sem átti sér stað í Sovét-Úkraínu. Talið er að allt að 7.5 milljónir manns hafi látist hennar vegna.

Fyrsta ljóðasafn hans, enað auki við starf sitt í hernum hann var bæði ljóð-og leikskáld, kom út árið 1904 í Kænugarði undir titlinum Jyrlar. Ljóð hans voru líka birt í tímaritinu Karaj Awazy í Póllandi.

Hér að neðan er eitt ljóða hans:

Á veturna.

Kröftugur úti kafaldurinn,
ríkir eins og konungurinn.
Drottnar inni gaddurinn,
í glugganum frostrósirnar blómstra.

Eins og einhvern eltandi,
saman burtu svífandi.
Sterkum vindi hlýðandi,
skýjaflókarnir snjófullir.

Allur heimurinn, að mér finnst,
ísinn hefur hlekkjað.
Þú mér segir að þér innst,
inni ástin hafi yljað.

Hvaðan kemur þetta vor,
elskan mín geturðu sagt mér?
Hvernig verður ástin til,
svo ókunn mínu hjarta?

Þó svo að úti þessi lægð,
þó svo að gaddurinn inni,
engum sýni nokkra vægð,
umhyggju aldrei ég gleymi þinni.

Þýðingin er mín.

Þetta ljóð var skrifað á móðurmáli Szymons, karaímsku. Það mál er táknrænt fyrir þann suðupott ólíkra menningarheima sem Austur-Evrópa var og er. Þrjú ritmál hafa verið notuð til að skrifa karaímsku: það kyrilíska, það latneska og það hebreska. Hér má sjá það skrifað með kyrilísku og latnesku letri, auk pólskrar þýðingar á ljóðinu hér að ofan:

Til að gera Karaítum skil þurfum við að fara nokkur ár og aldir aftur í tímann eða til ársins 1218. Samkvæmt munnmælum þeirra sjálfra á leiðtogi Stórfurstadæmisins Litháens að hafa flutt hluta þeirra frá Krímskaganum til Trakai þar sem hann byggði handa þeim þorp.

Í stórum dráttum má lýsa Karaítum sem svo að þeir séu tyrkískumælandi (þ.e. tala mál skylt tyrknesku) örþjóð (þeir eru tæplega 2.000 talsins) sem iðka sérstaka grein gyðingdóms sem kenndur er við þá sjálfa og er kallaður karaískur gyðingdómur.

Málvísindamenn draga ártalið í efa, þar sem að munur á máli Karaíta og máli ættingja þeirra Krymtsjaka, en svo kallast gyðingar Krímskagans, er svo mikill. Karaítar áttu svo eftir að dreifa úr sér og fluttu til svæða innan Stórfurstadæmisins sem í dag eru innan landamæra Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Mátti finna þar samfélög þeirra t.d. nærri borginni Lwów í Galísju og í Lutsk í Volhynju.

Það er þess virði að útskýra með hvaða hætti trúariðkun Karaíta er ólík trúariðkun þeirra gyðinga sem kenna sig við rabbinískan gyðingdóm.

Eina trúarritið sem Karaítar taka gilt er Tanakh en svo kallast hebreska biblían sem við nefnum Gamla testamentið. Eingöngu skal styðjast við Tanakh þegar það kemur að lögum trúarinnar og guðfræði. Karaítar trúa að öll boðorðin (mitzvah á hebresku) sem Guð gaf Móse hafi verið skrifuð niður í Tóruna (1.-5. Mósebók) og ekki sé frekari þörf á að styðjast við Talmúd, sem er lykilrit rabbínskra gyðinga.

Talmúd er samansafn þess sem skrifað hefur verið af rabbínum. Ritið er samansett úr tveim hlutum. Fyrri kallast Mishnah, („lærdómur í gegnum upprifjun“ á íslensku) sem inniheldur leiðbeiningar og reglur skrifaðar af rabbínum um hvernig eigi að fylgja boðorðum Guðs. Seinni hlutinn kallast Gemara (dregið af semískum orðstofni gamar sem þýðir „að klára“) sem samanstendur af greiningum og athugasemdum rabbína á því sem fram kemur í Mishnah.

Tanakh hefur lokaorðið hjá Karaítum, en Talmúd hjá rabbínískum gyðingum.

Þegar Karaítar lesa Tóruna reyna þeir eftir fremsta megni að halda sig við augljósustu merkingu textans. Þeir túlka textann ekki bókstaflega heldur túlka þeir þá merkingu sem hann hafði í hugum Hebrea þegar hann var skrifaður. Á meðan að rabbínískir gyðingar leita í Talmúd eftir útskýringum (eða útskýringum á útskýringum) á því sem er ritað er í Tórunni.

Karaítar eru jafn krítískir á allar útskýringar, fyrir utan Tanakh, á því sem er skrifað, óháð því hvaðan sú útskýring kemur. Það er því persónuleg ábyrgð hvers og eins að kynna sér innihald Tórunnar og ákveða sjálfur persónulega merkingu þess sem í henni er ritað.

Þó svo að Karaítar séu fáir eru hinsvegar margir sem iðka þessa grein gyðingdómsins. Stórt samfélag þeirra bjó í Egyptalandi en nú eru þeir flestir búsettir í Ísrael, eða um 30.000 manns. Embætti yfirrabbínans í Ísrael mótmælti því harðlega á sínum tíma að leyfa þeim að flytja til landsins en síðan þá hafa guðfræðingar þar í landi líst því yfir að Karaítar iðki sömu trú, bara með öðrum hætti.

Með þetta á bakvið eyrað er hægt að halda áfram að tala um Karaíta í Stórfurstadæminu. Eftir sameiningu þess við Konungsveldi Póllands varð til Pólsk-litháíska samveldið sem ég hef minnst á áður. Innan samveldisins var til svokallað Fjögurralandaráð (pól. Sejm Czterech Ziem) sem var miðlæg stjórnarsamkunda gyðinga. Löndin (þ.e. svæðin) fjögur voru: Stóra-Pólland, Litla-Pólland, Galísja og Volhynja. Hittist ráðið til að ræða skattinnheimtu og önnur málefni er vörðuðu gyðinga.

Karaítar voru settir undir sama hatt og rabbínískir gyðingar þrátt fyrir að þeir fyrrnefndu bæru það fyrir sér að slíkur munur væri á trú þeirra að það ætti ekki að vera hægt að leggja það að jöfnu. Hinir jiddískumælandi rabbínísku gyðingar litu á Karaítana sem trúníðinga og gerðu það sem þeir gátu til að halda þeim í kúgun við kröpp kjör. Karaítunum mislíkaði þetta svo að þeim tókst á endanum að láta reka rabbínska gyðinga frá höfuðborg sinni, Trakai. Þrátt fyrir að stirt væri á milli þeirra komu rabbínskir gyðingar Karaítum til bjargar þegar þeir voru kærðir fyrir blóðfórn. Talsmenn beggja trúarhópa komust að skriflegu samkomulagi seinna meir að leysa deilur sínar innbyrðis í stað þess að blanda kristnum stjórnvöldum í málið.

Bæði í Stórfurstadæminu Litháen og Pólsk-litháíska samveldinu fengu Karaítar mörg sérréttindi, eins og að vera undanþegnir herskyldu. Karaítar sem bjuggu á Krímskaganum voru undir hæl Rússakeisara og því kúgaðir eins og aðrir gyðingar. Þeir máttu t.d. ekki ferðast um á hestbaki.

Eftir að skiptingu Póllands lauk endaði þorri samfélaga Karaíta innan landamæra Keisaraveldis Rússlands. Forkólfar samfélagsins unnu að því að breyta og bæta réttarstöðu Karaíta. Avraham Firkóvítsj var sérstaklega lævís í tilraunum sínum að tengja Karaíta við Khazara, tyrkískri hirðingjaþjóð sem er efni í sérpistil seinna.

Á endanum fór það svo að stjórn Rússakeisara tilkynnti opinberlega að Karaítum væri ekki gefið að sök að hafa myrt Jesú Krist. Þeir voru afkomendur þjóðar sem hafði tekið upp gyðingdóm löngu eftir daga Krists. Þar með voru þeir undanþegnir þeim boðum og bönnum sem plöguðu önnur samfélög gyðinga innan Keisaraveldisinsen í þeim bjuggu gyðingar sem voru afkomendur þeirra sem höfðu átt sök að dauða Jesú.

Karaítar höfðu sömu réttindi og kristnir og múslimar. Eins máttu þeir búa utan þess svæði sem kallaðist „Umdæmi fyrir viðvarandi búsetu gyðinga“(Черта постоянной еврейской оседлости á rússnesku eða Pale of Settlement á ensku), en svo nefndist opinberlega afmarkað landsvæði sem gyðingar máttu ekki flytja af án leyfis. Þetta var vistarband sem fjötraði gyðinga við landsvæði en ekki stórbónda.

Árið 1934 fór formaður samfélags Karaíta í Berlín fram á við yfirvöld nasista að veita þeim undanþágu gegn þeim andsemitísku kvöðum sem þá voru að taka gildi í auknum mæli. Forsendurnar sem formaðurinn lagði fram voru þær að innan Rússlands voru Karaítar flokkaðir sem Rússar en ekki gyðingar. Fjölskyldurannsóknarstofnun Þriðja Ríkisins kvað opinberlega að:

„Trúarflokk Karaíta skal ekki telja til trúarsamfélags gyðinga samkvæmt lið 2 í málsgrein 2 í Fyrstu Reglugerð ríkisborgaralaga Þriðja Ríkisins. Hinsvegar er ekki hægt að fullyrða að Karaítar séu blóðtengdir…“

Yfirherforingi í SS, Gottlob Berger bætti við:

„Mósaísk trú þeirra er ekki vel liðin. Hinsvegar, ef litið er á forsendur er varða kynþátt, tungumál og trúarsetningar … Mismunun í garð Karaíta er því með öllu móti ólíðandi…“

Karaítum farnaði betur en mörgum öðrum í seinni heimsstyrjöldinni og lentu ekki í nauðungaflutningum Stalíns.

En eru til örfá samfélög Karaíta. Flestir þeirra sem ennþá búa í Evrópu eru búsettir í Póllandi og Litháen. Í Vilníus og Trakai má finna kenesur, en svo kallast synagógur Karaíta. Í Litháen eru 200 manns sem skilgreina sig sem Karaíta, en einungis fjórðungur þeirra talar karaímsku.

Kenesa í Vilníus.

Í Póllandi eru 346 manns sem skilgreina sig sem Karaíta. Samtök Karaíta eru mjög virk í Póllandi og eru með menningartengda starfsemi. Til þess að heyra lag þar sem sungið er á karaímsku má smella hér.

Í síðustu viku fengum við forfallakennara þar sem sú sem venjulega kennir okkur var send af háskólanum til að sitja yfir nemum sem þreyta landspróf í pólsku. Forfallakennarinn, sem á örfá eftir á vinnumarkaði, talaði mikið um það hvernig lífið var í PRL-tímanum, en svo kallast kommúníska tímabil Póllands. Þær sem venjulega kenna okkur voru börn undir lok þess tíma en þessi kennari var ung kona og man betur eftir honum.

Á PRL-tímanum, eftir að herlög voru sett á, voru teknir upp skömmtunarmiðar. Þar var tiltekið hvað hver og einn gat fengið af nauðsynjavöru, mjólkurvörum, brauði og kjöti. Ef maður var búsettur í dreifbýli, var hann sjálfkrafa flokkaður sem bóndi og bændur áttu að sjá sjálfum sér fyrir kjöti.

Bændur voru hinsvegar sjaldnast svo stöndugir að eiga meira en rétt svo nóg til að hafa ofan í sig og á. Svo voru ekki allir í dreifbýli bændur. Mamma hennar vann sem kennari og pabbi hennar var vörubílstjóri. Þau voru ekki með neinn búskap og gátu þar af leiðandi ekki framleitt kjöt handa sjálfum sér. En maður þekkir mann og með skiptum og reddingum var hægt að bjarga sér. Biðtími eftir íbúð var 20 ár nema þú þekktir verkstjórann.

Besta sagan sem hún sagði var hinsvegar af heimasímanum. Eins og með flest mikilvægari heimilistæki, þá þurftirðu að skrá þig á biðlista. Foreldrar hennar skráðu sig á lista til að geta keypt síma fyrir heimilið. Biðtíminn var ekki nema 20 ár. Þegar þau loksins fengu símann afhendan, að 20 árum liðnum, létu þau taka af sér mynd þar sem húsfrúin sat á stól, húsbóndinn stóð fyrir aftan hana og á borðinu fyrir framan þau var rauði síminn, stolt heimilisins.

Þetta hljómar auðvitað allt mjög dystópískt en við gætum litið okkur nær, bæði landfræðilega og tímalega séð. Á Íslandi er það ennþá þannig að það skiptir öllu máli hvern þú þekkir, sérstaklega þegar það kemur að störfum. Við getum vissulega keypt húsnæði á frjálsum markaði og það tæki mig og Helmut (ímyndaður þýskur tengdasonur móður minnar) ekki nema 10 ár að safna fyrir útborgun í íbúð.

Ég fór til Búlgaríu yfir páskana. Páskarnir þar eru haldnir viku seinna þar sem Búlgarar eru flestir í rétttrúnaðarkirkjunni, helgidagatalið er ólíkt milli kirkna. Það sem stóð upp úr í þeirri ferð var mekitsa, djúpsteikt brauð með flórsykri sem þú skolar niður með svo sterku kaffi að þú hrærir í því með hnífi – og Rauða íbúðin.

Ferðamálafrömuðir í Sofíu tóku sig til og ákváðu að gera íbúð sem staðið hafði meira og minna óbreytt síðan 1985 að safni.

Það þótti gott brauð á kommúnistatímanum að komast í vinnu erlendis, en Búlgarar fóru oft til vinveittra þjóða, eins og Líbíu eða Víetnam og unnu við sérfræðistörf sem verkfræðingar og arkítektar. Ef þú vannst erlendis hafðirðu aðgengi að erlendum gjaldeyri og því gastu verslað vörur sem ekki fengust í almennum verslunum Búlgaríu.

Þegar þú kíktir til einhvers í heimsókn – sem þú gast gert án þess að gera boð á undan þér því ekki var á allra færi að eiga síma – þurftirðu að komast að því hvaða reglur voru varðandi skótau á heimilinu. Ýmist gastu gengið inn á skónum eða þú þurftir að taka þá af þér og fara í gestainniskó í staðinn. Góðum gestum var boðið upp á Toblerone-súkkulaði, skoskt viskí og Kent sígarettur sem fjölskyldufaðirinn hafði komið með að utan.

Margir sem fóru erlendis í vinnuferðir freistuðust til þess að flýja land. Þetta var stór ákvörðun þar sem að þú gast ekki átt samskipti við neinn hinum megin við Járntjaldið. Fjölskyldufaðir vinahjóna þeirra sem áttu íbúðina sótti um hæli í Þýskalandi þegar hann var í vinnuferð í München. Hann gat aldrei talað við fjölskylduna sína aftur, eiginkona hans missti vinnuna og þurfti að flytja frá Sofíu í lítið þorp og dóttir þeirra var sett á svartan lista og þurfti að sækja þrisvar sinnum um í háskóla til að fá inngöngu.

Meðalbiðtími eftir íbúð var 10 ár en þú máttir erfa íbúð frá foreldrum þínum – svo lengi sem hún var ekki meira en 113 fermetrar.

Í Alþýðulýðveldinu Búlgaríu voru ekki margar leiðir til að standa upp úr en þó var ein leið – orða fyrir dugnað og vel unnin störf. Til voru 58 flokkar af orðum sem þú gast fengið og þú gast fengið sömu verðlaunin oftar en einu sinni. Móðursystir húsfrúarinnar hafði ekki átt kost á því að ganga í skóla og fór þess í stað að vinna í verksmiðju. Hún fékk verðlaun þegar hún varð fimmtug fyrir að hafa fjórfalt vinnuframlag á við samstarfsfólk sitt. Hún fékk sömu verðlaun tíu árum seinna – þá sextug – fyrir að hafa tvöfaldað það síðan þá. Hún vann á spunavélar í textílverksmiðju.

Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar lögðust ráðamenn í Búlgaríu í öfluga ríkisvæðingu á fyrirtækjum. Menn lögðu mikið kapp á þetta og fóru e.t.v. svolítið fram úr sér og stöldruðu ekki við fyrr en búið var að ríkisvæða fyrirtæki sem höfðu verið í eigu einstaklinga sem búsettir voru í öðrum löndum austan við Járntjaldið. Ráðamenn í Tékkóslóvakíu fóru fram á að Búlgaría myndi greiða fyrrum eigendum skaðabætur – en í Sofíu voru ekki til neinir peningar.

Þannig fæddist ferðamannaiðnaður Búlgaríu. Árið 1948 buðu búlgörsk stjórnvöld 800 manns, fyrrum eigendum að verksmiðjunum og fjölskyldum þeirra, bætur í formi sumarfrís með allt innifalið við strendur Svartahafsins.

Eftir að Berlínarmúrinn var reistur áttu fjölskyldur búsettar bæði í Vestur-og Austur-Þýskalandi þann möguleika að hittast í sumarfríi við Svartahafið þökk sé Balkantourist, ríkisferðaskrifstofu Búlgaríu. Innan Sovétríkjanna og þjóða innan þeirra áhrifasvæðis fengu allir frí, þó mislangt. Þú gast fengið allt frá fjórtán dögum upp í mánuð, eftir því við hvað þú vannst og hvar þú bjóst. Fólk sem starfaði á olíuborpöllum í Norður-Síberíu fékk lengra frí en skrifstofustarfsmaður sem bjó nær miðbaug.

Í Búlgaríu eins og annarsstaðar í austantjaldslöndunum var mikil ritskoðun við lýði. Hafði þetta áhrif á framboð bókmennta, kvikmynda og ekki síst tónlistar. Þetta varð til þess að ábreiður urðu sérstaklega vinsælar, en það gaf fólki færi á að heyra vestrænar melódíur með slavneskum texta. Hafið þið heyrt „Killing Me Softly“ á búlgörsku?

Ég fullyrði að enginn menningarafkimi hafi framleitt jafn mikið magn af jafn fallegum bókum. Myndskreytingarnar eru svo ótrúlega fallegar að þú þarft ekki einu sinni að skilja það sem er skrifað til að verða fyrir áhrifum. Þetta verður sérpistill í framtíðinni en í ljósi þess að flestar bækurnar sem ég keypti á bókamessunni í Poznań voru barnabækur fannst mér vert að taka þetta fram.

Upplagið sem prentað var af bókum var aldrei nóg og gátu útgefendur því verið vissir að allt myndi seljast. Þar sem að útgáfur voru ekki hagnaðardrifnar gátu þær leyft sér að leggja meira upp úr gæðum. Eftir af þessu eimir í barnabókunum hérna enn þann dag í dag.

Enginn skortur á lesefni né leikföngum hér.

Ég reyndi að taka fleiri myndir í íbúðinni en því miður var óþarflega vinsælt þennan daginn að heimsækja hana og þurfti fólk alltaf að vera í mynd. Mér tókst samt að taka mannlausar myndir af mínu uppáhaldsrými í henni, eldhúsinu:

Eldhússkáparnir fyrir ofan eldavélina og eldhúsbekkinn eru mjög 90’s og stinga mjög svo í stúf við restina af innbúinu. Það fær mann líka til að hugsa hvort að einhver hafi ekki búið í íbúðinni lengur en fram til 1985.


Ísskápurinn og þvottavélin voru hvoru tveggja búlgörsk smíði. Fólk er oft sammála um að heimilistæki sem voru framleidd í austantjaldslöndunum hafi ekki verið jafn bilanagjörn og þau vestrænu eru í dag. Þá þegar þau biluðu, voru þau þannig gerð að þú gast gert við þau sjálfur.

Ég athugaði ekki hvort það væri matur í pottunum frá 1985.

Í öllum austantjaldslöndum voru reknar sérstakar verslanir sem seldu vestrænar nýlenduvörur eins og gallabuxur og kókakóla. Þú máttir bara versla í þeim ef hafðir erlendan gjaldmiðil milli handanna eða ríkisdollara, pappírsseðla sem vinir aðals fengu hluta launa sinna greidd í.

Aðalrými eldhúsins var kalt búr. Síðla sumar og fram á haust var kapp lagt á að sulta og sjóða niður allt sem hægt var til að eiga mat yfir veturinn vegna þess að þú gast stólað á vöruskort.

Ég fer núna næstu helgi til Lúblín í Austur-Póllandi og kem til með að skrifa eitthvað um þá borg.

Takk fyrir lesturinn.



3 svör við “Póllandspistill 8.”

  1. áhugavert allt saman eins og venjulega Eggert minn ❤️

    Líkar við

  2. Sigurður R. Guðjónsson Avatar
    Sigurður R. Guðjónsson

    Skemmtilegt og fróðlegt, Eggert! 🙂

    Líkar við

  3. […] sem flutti 388 Karaim-fólks yfir til Litháens en ég hef áður um þá örþjóð fjallað hér. En þetta var nú hliðarspor. Lúblín græddi á þessum atburðum öllum því hún óx sem […]

    Líkar við

Færðu inn athugasemd