Ég byrja á því að biðjast forláts. Ég hef ekki verið jafn duglegur og ég ætlaði mér en oft þegar ég hugsa um hvað ég vilji skrifa fallast mér hendur því það er frá svo mörgu að segja þegar það kemur að Póllandi.
Mig langar til að byrja á því að bjóða ykkur í stuttan göngutúr um hverfið mitt í Poznań eftir örfá orð um pólskar mállýskur.
Ein leið til að skipta Póllandi niður er eftir héruðum. Hluti Vestur-Póllands þar sem ég bý er kallað Stóra-Pólland eða Wielkopolska á pólsku. Małopolska, Litla-Pólland er svo svæðið sem er í kringum Kraká. Kraká og landsvæðið suður af henni var svo Galísja innan Keisaradæmisins Austurríki-Ungverjalands sem ég hef skrifað um áður.
Pólska hefur nokkrar mállýskur sem geta verið töluvert ólíkar sín á milli, bæði hvað varðar framburð, málfræði og sérstaklega orðaforða.
Ef notað er orðið ‘dziecko’ sem þýðir barn á pólsku, þá er sagt:
-mikrus í Kraká
-bajtel í Neðri-Slesíu
-dundel hérna í Poznań
-jancybór þýðir óþægt barn á górölsku, mállýsku hálendinga í Suður-Póllandi í kringum Zakopane
Góralsvæðið er hálendi Póllands. Menningin er sérstæð því Góralfólk eru afkomendur hirðingja sem settust að eftir fólksflutninga frá Balkanskaganum, af svæðinu norðan við Dóná. Mállýska þeirra geymir tökuorð úr rúmensku og albönsku, öðrum Balkanskagamálum.
Þó svo að mállýskur séu á undanhaldi þá er mállýskan hér í Poznań ennþá mjög sterk og er algeng í ýmisskonar auglýsingum og menningarviðburðum innan borgarinnar. ‘Osiedle’ er pólskan fyrir hverfi-innan-hverfis (íslenskan hefur ekki orð yfir þetta, en það má hugsa um þetta sem t.d. Bakkana og Hólana, sem eru hverfi innan Breiðholtsins, sem er sjálft hverfi innan Reykjavíkur) en í Poznań er notað orðið ‘fyrtel’.
Það orð kemur síðan af ‘Viertel’ úr þýsku sem merkið bæði fjórðungur og hverfi.
Núna er í gangi söguvitundarvakning um þrjú hverfi í Poznań undir merkjunum ‘Fest Fyrtel’. Hverfin sem um ræðir eru Wilda (komið af þýska orðinu ‘wilde’), Jeżyce (ég er ekki viss um hvaðan heitið kemur en ‘jeż’ þýðir broddgöltur á pólsku) og Łazarz sem nefnt er eftir heilögum Lasarus. Ein gata við blokkina mína aðskilur hana frá Jeżyce.
Ég rölti um hverfið mitt eftir korti sem ‘Fest Fyrtel’ gefur út og tók nokkrar myndir. Myndirnar eru mínar nema annað sé tekið fram.
Collegium Heliodori Święcicki w Poznaniu
– Háskólabygging Heliodors Święcicki í Poznań.

Byggingin var hönnuð af Edward Madurowicz og Roger Sławski og reist upp úr 1920. Ætlunin var að láta hana hýsa Tækniháskólann í Poznań.
Vegna efnahagshrunsins 1928 var sá háskóli aldrei settur á fót en byggingin var engu að síður kláruð eins og Læknisfræðiháskólinn sem er skammt frá. Forkólfar samfélagsins ákváðu að klára hana í tengslum við Stórsýninguna í Póllandi sem haldin var 1928 til að halda upp á 10 ára afmæli Seinna Lýðveldis Póllands. Eftir sýninguna var byggingin afhent Háskóla Adams Mickiewicz í Poznań sem á hana og rekur enn þann dag í dag. Fyrsti rektor skólans, Heliodor Święcicki, var menntaður sem læknir.
Hann varði doktorsritgerð sína um sjúkdóma í börnum á tímum Forn-Grikkja við Háskólann í Wrocław.
Szpital Kliniczny im. Heliodora Święcickiego Uniwersytetu Medycznego im. Karola Marcinkowskiego
– Háskólasjúkrahús Heliodors Święcicki við Læknisfræðiháskóla Karols Marcinkowski.

Þessi bygging er ein af fjölmörgum sem hýsa starfsemi Spítalans í Poznań og er beint fyrir aftan blokkina þar sem ég bý. Ástæða langlokunafnsins sem spítalinn ber er venja Pólverja að nefna opinberar byggingar í höfuðið á fólki. Og hvað gerist þegar þú nefnir byggingu í höfuðið á einhverjum sem tengd er annarri stofnun sem er nefnd í höfuðið á öðrum? Szpital Kliniczny im. Heliodora Święcickiego Uniwersytetu Medycznego im. Karola Marcinkowskiego. Sömu lógík má finna t.d. í Stofnunnar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Mamma spyr mig (oft) hvað sé eiginlega í gangi í kringum mig þegar við hringjumst á en ég gleymi því reglulega að sjúkrabílar keyri hér framhjá allan daginn.
Anna Jantar – slík er sólin sem skín yfir öllu.

Anna Jantar, ein skærasta poppstjarna Alþýðulýðveldis Póllands, fæddist í Łazarz árið 1950. Hún sýndi snemma mikla tónlistarhæfileika og tók þátt í sinni fyrstu keppni 18 ára gömul. Hún átti eftir að eiga mjög öflugan feril sem lauk því miður of snemma. Þegar hún var á leiðinni heim til Póllands úr tónleikaferðalagi í Bandaríkjunum brotlendi flugvélin þegar hún var að lenda í Varsjá. Hún var þrítug þegar hún lést og lét eftir sig eiginmann, tónskáldið Jarosław Kukulski, og dótturina Natalíu Kukulska. Natalía fetaði í fótspor móður sinnar og hefur átt góðan feril í tónlist. Heyra má lag Önnu Jantar, ‘Slík er sólin sem skín yfir öllu’, með því að smella hér.
Arena-höllin.

Hún var byggð á árunum 1972-1974 og var innblásin af Palazzetto dello Sport í Róm sem var reist þar í bæ 1958. Þessi móderníska Harpa getur tekið allt að 5.500 manns í sæti (fer eftir eðli viðburða) og eitt sérkenni hennar að lengst af var búnaðurinn sem notaður var til kyndingar sá sami og notaður var í lestum á þeim tíma. Margar hljómsveitir hafa spilað hérna yfir árin, engin þó frægari en Rolling Stones sem héldu tónleika hérna 1990.
Fyrstu forsteyptu blokkirnar.

Tæknin sem liggur á bakvið forsteyptar einingar til húsagerðar var búin til fyrir seinni heimsstyrjöld í Vestur-Evrópu. Samt sem áður er þessi húsagerðarhefð aðallega tengd við Austur-Evrópu eftirstríðsáranna þegar húsnæðisskortur var gífurlegur. Frumgerð slíkra húsa í Póllandi, sem seinna voru reistar víðar, má finna í Łazarz. Þetta eru tvær örlitlar blokkir (mótsögn í sjálfu sér, en þær eru ótrúlega litlar) sem byggðar voru 1957. Þær eru stutt frá Ráðstefnuhöllinni í Poznań (þeirri stærstu í Póllandi, sem þekur 145.000 fermetra). Steypueiningarnar voru bylting þar sem hægt var að búa þær til og setja upp á skömmum tíma við lítinn kostnað og bauð fólki upp á þann möguleika að hafa aðgang að eigin eldhúsi og salerni.
Verksmiðjan við Kolejowagötu.

Neðri-Łazarz er iðnaðarhverfi Łazarz-hverfisins en fyrstu verksmiðjurnar í hverfinu var komið á fót hér. Árið 1872 var setti verkfræðingurinn Napoleon Urbanowski, ásamt öðrum, á laggirnar vélaverksmiðju. Hér voru framleiddir vélaíhlutir og vélar fyrir landbúnað.
Íbúð Jarosławs Ziętara.

Fyrstu árin eftir hrun Sovétríkjanna voru villt í fyrrum leppríkjum þeirra. Sagan segir að 1. september 1992 hafi blaðamanninum Jarosław Ziętara verið rænt af heimili sínu. Síðan þá hefur aldrei til hans spurst. Það er opinbert leyndarmál að þeir sem stóðu á bakvið mannhvarf þetta hafi verið „útrásarvíkingar“ á þessum fyrstu árum pólsku nýfrjálshyggjunnar sem síðar áttu eftir að verða forkólfar í viðskiptalífi Póllands. Jarosław Ziętara vann að grein sem kortlagði mislöglegar gjörðir þeirra innan Poznań og utan hennar. Enginn hefur verið sóttur til saka en þökk sé vinum hans og aðstandendum stendur rannsókn málsins enn yfir.
Kastalablokkin.

Tímabilið sem spannar árin frá 1870 fram að upphafi fyrri heimsstyrjaldar er kallað Belle Epoque, „Fallegi tíminn“ á frönsku. Ég reyndi að hafa uppi á íslenska heiti þessa tímabils en fann ekki neitt. Heilt yfir einkenndist þetta tímabil af mikilli hagsæld og velmegun, ásamt framförum í tækni, vísindum og listum. Þetta tímabil markast einnig af straumum í byggingarlist. Eitt af fyrstu verkefnum arkitektanna Pauls Preul og Hermanns Böhmer var hérna í Łazarz. Margareta Grüder, fjárfestir frá Berlín (á þeim tíma sem Poznań tilheyrði Þýskalandi) lét byggja fyrir sig stærðarinnar múrsteinsblokk (allar blokkir fyrir fyrri heimsstyrjöld voru byggðar úr múrsteini) í hverfinu. Byggingin er í neo-gotneskum stíl og er ekki ólík miðaldakastala. Framhlið hússins er skreytt með tvöfaldri röð af svölum sem sitja á hnjám undir veggsyllu. Með svölunum, ásamt fjórum útskotsgluggum hefur blokkin ásýnd sem er ekki ólík varnarkastala. Í steypunni í kringum gluggana eru munstur auk þess sem stálið á svölunum er vafið listilega vel.
Pótintátablokkin.

Nokkrar byggingar sem reistar voru í Poznań voru ekki eingöngu hugsaðar sem húsnæði heldur líka sem auglýsingar fyrir starfsemi eigendanna. Þessi múrsteinsblogg með mjög svo sérstökum smáturni er ein þeirra. Fjárfestirinn á bakvið þessa byggingu var auðjöfurinn Jan Suwalski sem átti múrsteinsverksmiðju í Żabikowo, þá þorpi, suður af Poznań. Stefan sonur hans kom að hönnun og byggingu blokkarinnar. Með því að skreyta horn hennar með mynstri úr sambræddum múrsteinum ætlaði hans sér að auglýsa framleiðslugetu verksmiðju föður síns.
Kirkja sorgarrauna Maríu meyjar.

Fram að aldamótunum 1900 þurftu kaþólskir íbúar í Łazarz og Górczyn (næsta hverfi við) að sækja messur í Kirkju heilags Marteins sem er í miðri Poznań. Það kemur því ekki á óvart að þeir sóttu það hart og studdu með ráðum og dáðum að byggð yrði kirkja í hverfinu. Þrátt fyrir byrjunarörðugleika var kirkjan fullbyggð 1901. Hún stóð upp úr þar sem hún var byggð úr rauðum múrsteini (en ekki brúnum) auk þess sem að kirkjuturninn var skreyttur kúpli úr málmverksmiðju Hipolit Cegielski. Kirkjan er einkennismerki hverfisins ennþá í dag. Hönnun kirkjunnar er í neó-rómönskum stíl að innan og utan og er hún sérlega falleg. Aðalaltarið er gert af fyrirmynd Pieta hans Michealangelos sem finna má í Vatíkaninu. Eftirmyndin varð svo að fyrirmynd þegar það þurfti að gera upp Pieta eftir að hún skemmdist í bruna up úr 1970.
Kirkja heilagrar Önnu.

Íbúafjöldi Poznań jókst gífurlega um aldamótin 1900. Vegna stóraukins fjölda mótmælenda varð til sjálfstæð lútersk sókn innan hverfisins. Sóknarbörnin voru í basli í mörg ár þegar þau voru að byggja eigin kirkju sem fór ítrekað fram úr kostnaðaráætlun. Kirkjan var hönnuð í neo-gotneskum stíl með turni fyrir þakinu miðju. Loks var lokið við að reisa kirkjuna 1907 og var hún vígð að ríkiserfingjanum viðstöddum, Friðriki Vilhjálmi prinsi. Tilraun var gerð til að ráða hann af dögum við athöfnina en lífverðir hans náðu að koma í veg fyrir tilræðið.
Palmiarnia – Eden í Poznań.

Þetta stærðarinnar gróðurhús í Łazarz á sér yfir 100 ára sögu og hefur veitt íbúum borgarinnar tækifæri á að komast í tæri við framandi slóðir án þess að þurfa að fara suður á bóginn. Fyrsti vísir þess var reistur 1911 og hýsti þá pálma og kaktusa. Síðan var það stækkað 1928 vegna sýningarinnar sem minnst var á hér að ofan. Gróðurhúsið samanstendur í dag af sjö skálum og búið er að bæta við fleiri plöntutegundum, sem og fiskum, skordýrum og skriðdýrum (allt í búrum). Allt var lagt í rúst í seinni heimsstyrjöldinni en var endurbyggt að því loknu. Eftir áratugalangt fjársvelti var byggingin í svo slæmu ásigkomulagi að það mátti litlu muna að hún hryndi ef það gustaði um hana.
Þökk sé fjárframlögum íbúa var húsnæðið endurnýjað að fullu og opnað upp á nýtt 1992. Í dag er gróðurhúsið rúmlega 100 sinnum stærra en skálinn sem reistur var fyrir meira en einni öld síðan.
Kirkja heilags Mikaels erkiengils.

Undir lok 19. aldar var varla þverfótað fyrir bruggverksmiðjum í Łazarz. Ein sú stærsta var Aktienbrauerei Bavaria sem lifði ekki af breytingarnar 1918 þegar Pólland fékk aftur tilvistarrétt og sjálfstæði. Húsnæðið var tekið yfir af húsgagnaframleiðanda sem síðan fór á hausinn 1930.
Kaþólska kirkjan keypti húsnæðið og gerði á því töluverðar umbætur til að hægt væri að vígja það sem kirkju. Kirkjan eyðilagðist í seinni heimsstyrjöldinni en var síðan gerð upp. Þetta er eina guðshús borgarinnar sem staðsett er í bruggverksmiðju.

Móderníski verkmenntaskólinn.

Kaþólski gagnfræðiskólinn.

Á móti kirkju sorgarrauna Maríu meyjar má finna þennan risastóra gagnfræðiskóla sem reistur var árið 1927. Faðir Czesław Piotrowski, sóknarpresturinn í Łazarz, var maður bæði framsækinn og afkastamikill og mjög umhugað um uppeldis-og kennslufræði. Hann var mjög meðvitaður um galla pólska menntakerfisins þess tíma og ákvað að koma á fót undirbúningsskóla (þetta væri námsstigið sem spannar 5.-7. bekk heima á Íslandi) í Łazarz sem og annað skólastig í sama húsi til að undirbúa fólk fyrir háskólanám. Byggingin þykir dæmigerð fyrir pólskan ríkis-módernisma millistríðsáranna. Nokkrum árum seinna var menntaskóli opnaður í annarri byggingu rétt hjá. Eftir seinni heimsstyrjöldina tóku hermenn yfir húsnæði skólans sem var svo látið í hendur ríkissins sem starfræktu þar skóla. Eftir töluvert brask og horfna fjármuni í byrjun þessarar aldar var ákveðið að láta allt húsnæði tengt skólunum í hendur erkibiskupsdæminu í Poznań sem starfrækir skólana í dag.
Ég er búin að gera drög að næsta pistli en mig langar bæði til að ræða um Lublin sem ég heimsótti fyrir ekki svo löngu.
Takk fyrir lesturinn.
Skildu eftir svar við Guðrún Á. R. Hætta við svar