Ég hef lokið prófum fyrir þessa önn og get nú loksins aftur tekið þátt í samfélagi mannanna.
Í heilan mánuð fyrir próf eldaði ég engan mat, heldur róteraði ég pítsum, forelduðum kjúkling og pierogi sem ég setti í ofninn. Fyrirhafnarlaust sem og gleðilaust.
Eftir að ég var búinn með munnlega prófið sem ég náði þökk sé samviskusemi og almennum skemmtilegheitum ákvað ég að verðlauna sjálfan mig með því að fara út að borða. Í hverfinu mínu er japanskur veitingastaður, Tsunami, sem var opnaður fyrir tæplega mánuði síðan. Þau sem reka hann bjóða upp á ramen (núðlusúpur), smárétti til að deila og samlokur. Ramen og smárétti hef ég margsinnis prófað en ég var spenntur fyrir því að smakka samlokurnar. Margir myndu segja að samloka væri alltaf samloka en ég man eftir því að smakka japanskar ‘Bæjarins beztu’ pulsur í Berlín og ekki eru allar pulsur skapaðar jafnar. Japanir fá oft innblástur frá Vesturlöndum og gera svo miklu betur en við.
Ég pantaði mér ‘sando’ (þ.e. japanska samloku) sem var borin fram í ‘shokupan’ (þ.e. japönsku mjólkurbrauði). Í samlokunni var ‘katsu’-kjúklingur (djúpsteikt kjúklingabringa í brauðraspi), ‘tonkatsu’-sósa (sósa sem inniheldur m.a. tómata, ferskjur, döðlur, epli, sítrónusafa, gulrætur, lauk og blaðselju), majónes og hvítkál sem búið var að láta liggja í sítrónusafa.

Matarmenning í Póllandi hefur umbreyst frá því að ég bjó hérna fyrst. Ef þú vildir ekki borða á mjólkurbörum (niðurgreidd mötuneyti sem bjóða upp á heimilismat) þá gastu ýmist farið á víetnamska veitingastaði eða kebab-búllur. Vissulega voru til fínni veitingastaðir en þá varstu að borga fyrir umgjörðina en ekki innihaldið. Í Jeżyce má finna: tælenskan veitingastað, tíbetskan veitingastað, víetnamskan veitingastað, þrjár kebabbúllur, kirgisískan veitingastað, marókkóskan veitingastað, grískan veitingastað, tvo japanska veitingastaði, japanskt kaffihús, georgískt bakarí auk fjölda venjulegra bakaría, mexíkóskan veitingastað, grískan veitingastað, pizzaríur auk fjölda kaffihúsa sem bjóða upp á hádegismat og 1001 tegund af ostakökum.
Núna er töluvert um pop-up (tímabundna) veitingastaði og jafnvel kaffihús. Tvær konur í Poznań halda úti síðu á Instagram þar sem þær fara á nýja staði bæði hér og í öðrum borgum.
Hverfið Jeżyce sem er hérna norðan við Łazarz, hverfið mitt, var á sínum tíma eigið bæjarfélag. Á Íslandi þegar bæjarfélög eru sameinuð er þjónusta minnkuð (í ímyndaðri hagræðingu) og því komið fyrir þannig að þú þarft að fara lengra eftir sömu þjónustu og áður. Hérna halda hverfi pósthúsum, mörkuðum, bankaútibúum o.s.frv eftir sameiningu. Ég man eftir því þegar ég bjó í Mosfellsbæ og pósthúsið var lagt niður (þjónustuaukning?) og þess í stað var íbúum boðið að kjósa hvar ætti að setja póstbox. Nú eru tvö póstbox í Mosfellsbæ, og ég er ekki viss um að það sé kílómetri á milli þeirra en þau eru í Holtunum og Krikunum. Í Póllandi – þar sem póstboxin eru rekin af einkafyrirtækinu Paczkomat – væri hinsvegar eitt póstbox fyrir Holtin, eitt fyrir Krikana, eitt fyrir Helgafellið, eitt fyrir Tungurnar o.s.frv. Viðmiðið er að geta labbað eftir póstsendingu í stað þess að keyra. Þá er líka í boði að láta senda pakka í Żabka, sem er ígildi 10-11 í Póllandi, bara betra.
Í Jeżyce er bændamarkaður alla virka daga þar sem hægt er að kaupa grænmeti og ávexti, kjöt og fisk auk þess sem að þar eru tvö bakarí. Ég fór í dag til að versla inn fyrir vikuna:




Hérna er kíló af dvergjarðarberjum, kíló af kjöttómötum, hálft kíló af sætum kirsuberjum, kíló af papríkum, hálft kíló af lauk, ein pakkning af ostrusveppum (sem eru kallaðir Bosníubúar á pólsku), tvö knippi af hvítlauk og ein askja af hindberjum. Fyrir þetta borgaði ég 2.800 kr. Hafa skal í huga að allt matvöruverð í Póllandi hefur hækkað og hafa pólskir bændur sett sig á móti því að flutt sé inn búvara frá Úkraínu. Þegar ESB samdi um kaup á korni fyrir lönd vestan við Pólland var sérstaklega samið um að það yrði flutt í læstum vögnum sem væru vaktaðir með GPS til að tryggja að þeir yrðu ekki affermdir í Póllandi.
Eins og hvað pólskur ostur er góður og pólskt smjör er gott þá er mjólkin skelfileg, mér finnst vera af henni plastbragð. Frá því að ég flutti hingað hef ég ýmist notað möndlu-eða haframjólk.
Á fimmtudaginn sem leið var allt lokað í Póllandi en þá var Corpus Christi, eða dýridagur á íslensku. Um hann skrifar Árni Björnsson:
„Þetta var í pápískri tíð fyrsti fimmtudagurinn á eftir þrenningarhátíð. Hann var fyrst tekinn upp í Róm á 13. öld til að minna á þá umdeildu kenningu katólsku kirkjunnar, að Jesús Kristur væri persónulega viðstaddur, þegar menn neyttu hins heilaga sakramentis, líkama hans og blóðs. Því heitir hann líka Kristslíkamahátíð. Hann var lögleiddur á Íslandi árið 1326 og var auðvitað ólítill helgidagur, meðan pápíska ríkti. Lúterska kirkjan afneitaði hinsvegar þessum skilningi.“
Kennsla var engin þann daginn og voru heldur engir tímar á föstudaginn. Því fengu Pólverjar langa helgi. Ég ákvað að bregða mér af bæ föstudeginum og fór í dagsferð til borgar sem heitir Toruń. Gamli bærinn er sérstaklega fallegur og er á heimsminjaskrá UNESCO. Með lest tekur það um 1 klukkutíma og 20 mínútur að fara frá Poznań til Toruń.
Toruń er ein elsta borg Póllands en elstu merki um búsetu eru frá 8. öld og var hún stækkuð 1233 af Der Deutsche Orden, þýskri riddarareglu sem upphaflega var stofnuð til að aðstoða kristna menn í pílagrímsferðum til Landsins helga. Meðlimir hennar voru ýmist kallaðir Þýsku riddararnir eða Tevtónsku riddararnir.
Eins og margar borgir Póllands á öldum áður einkenndist hún af fjölbreytileika hvað varðaði uppruna íbúa sem og trúarbrögð sem þeir iðkuðu.
Ég fór á tvö söfn sem ég hafði ekki heimsótt áður, Ráðhússafnið og Etnógrafíska safnið (ekki ólíkt Árbæjarsafni, mest megnis utandyra og sýnir lifnaðarhætti liðinna alda). Aðalsýningin í Ráðhússafninu er sérstök að því leyti að hún hefst á tómum ramma. Það er til minningar um alla þá safngripi sem ýmist hurfu eða voru eyðilagðir í seinni heimsstyrjöldinni. Gripum var bæði stolið af nasistum sem og rauða hernum. 1942 þegar stríðið er rétt svo hálfnað var strax áætlað að um 50% safneignar í Póllandi hafi glatast. Fyrsta skráin yfir týnda gripi birtist 1939 og var hún uppfærð eftir því sem leið á stríðið. Sérstakri stofnun var komið á fót eftir stríðið sem átti að sjá um að endurheimta gripi sem höfðu verið fjarlægðir úr landi. Sú stofnun var síðan lögð niður upp úr 1950 og voru engar aðgerðir að hálfu ríkisins er varðaði endurheimt þessara muna. Menningar-og þjóðminjamálaráðuneytið heldur núna úti gagnagrunni um þá muni sem vantar, skráningu þeirra og endurheimt, auk þess sem reglulega er farið í auglýsingaherferðir þar sem athygli almennings er vakin á þessari starfsemi ráðuneytisins.
Sérstakasta safn í Toruń er hinsvegar Piparkökusafnið. Ég fór þangað í haust en tók engar myndir þann daginn. Piparkökur frá Toruń eru allskonar og á safninu má sjá ýmisleg mót sem hafa verið notuð við baksturinn.

Piparkökubakstur í Toruń nær aftur um þúsund ár og voru piparkökurnar helsta útflutningsvara borgarinnar á 13. öld. Talið er að staðsetning borgarinnar hafi stuðlað að þessari hefð en jarðgæðin eru góð til hveitiræktunnar auk þess sem býflugnarækt var mikil í þorpunum í kring. Elstu ritheimildir um toruńskar piparkökur eru frá 1380 og fljótlega eftir það fara vinsældir þeirra að aukast bæði innan Póllands og fyrir utan landsteinana. Toruń og Nuremberg, sem var þá fræg fyrir pönnukökurnar sínar, var mikið í mun að fela uppskriftir sínar fyrir samkeppnisaðilum úr hinni borginni.
Árið 1556 var gert formlegt samkomulag um að skiptast á uppskriftum gegn því að ekki yrði farið í samkeppni.
Borgaryfirvöld studdu við þessa iðngrein sem piparkökubakstur var orðinn að og felldu niður tolla á kryddum til baksturs sem voru flutt til borgarinnar.
Á 18. og 19. öld féll iðngreinin niður og voru eingöngu þrír bakarar eftir árið 1825. Við tilkomu kapítalismans var greinin endurreist og farið var í fjöldaframleiðslu á piparkökum. Stærsta verksmiðjan var í eigu Gústavs nokkurs Weese sem erfði bakarí föður síns og breytti því í stórveldi. Bæjarblaðið skrifaði 1875 að piparkökur frá Toruń væru fluttar til fjarlægra landa eins og Tyrklands, Japan, Kína og Honolúlú.
Ein þjóðsagan segir að piparkökur hafi verið gjöf frá býflugum til sætabrauðsbakarans Bogumiłs:
„Hvergi í Toruńborg fannst betri sætabrauðsbakari en hann Bogumił. Hann var snillingur í sinni iðn en hann hafði fyrir löngu síðan farið fram úr færni meistara síns hvað list og lagni í sætabrauðsgerð varðaði.
„Gaman væri að vita hvað heldur honum í læri hjá Bartólómeusi gamla sætabrauðsmeistara“, hugsaði Wojciech, faðir Bogumiłs, upphátt.
„Ekki hvað, heldur hver…“, sagði bróðir Bogumiłs glottandi, en hann hafði séð bróður sinn horfandi löngunaraugum á Zosiu, dóttur meistara Bartólómeusar.
„Hvað ertu að segja drengur?“ Wojciech gamli hristi höfuðið. „Það er meira en að segja það að vilja giftast henni Zosiu. Eins og ég þekki Bartólómeus gamla, þá veit ég hann dreymir það eitt að gifta einkadóttur sína ríkum manni. Það er þröskuldur sem að fátækt fólk eins og við getum ekki yfirstigið. En hvar er hann Bogumił eiginlega?“
“Hann er í bakaríinu. Það er nú aldeilis mikið um að vera í dag.“
„Nú? Hvernig stendur á því?“
„Þú hlýtur að vera sá eini sem veist það ekki, pápi minn. Hans konunglega hátign er á leiðinni til Toruńborgar ásamt hennar konunglega hátign og konungsdætrum þeirra litlu.“
„Það er aldeilis,“, sagði Wojciech gamli. „Kannski að ég kíki á markaðinn og sjái konungsfjölskylduna“.
Í Toruńborg var uppi fjöður og fit. Slátrarar, kokkar, brauðbakarar og sætabrauðsbakarar, allir hreyfðu sig eins hratt og þeir gátu til þess að ná að útbúa veitingar í tæka tíð sem hæfðu jafn tignarlegum gesti og hans hátign. En svo virtist vera sem að hann Bogumił hafi gleymt heimsókn hans hátignar. Hann sat úti á engi við tjörn eina og tíndi gleymméreiar, en blámi þeirra minnti hann á augu Zosiu sem hann elskaði svo mjög.
Er hann beygði sig í átt að agnarlitlum hólma sem stóð upp úr tjörninni heyrði hann angurvært suð. Rétt við hólmann synti býfluga. Í hvert sinn sem hún nálgaðist hólmann blés vindurinn henni lengra út í tjörnina. Augljóst var að hún var við að missa máttinn.
„Augnablik vina mín, ég skal nú ná þér upp úr vatninu“, hvíslaði Bogumił og lyfti býflugunni upp úr vatninu með laufblaði. „Vængirnir þínir litlu þorna núna í sólinni og eftir svolitla stund geturðu flogið heim á leið.“
„Þakka þér, góði maður“, suðaði litla býflugan.
Bogumił gapti af undrun. Hann leit varfærnislega í kringum sig. Nei, það var ekki nokkur þarna úti á enginu nema hann og býflugan.
„Segðu mér, hver ert þú?“, heyrði hann spurt.
„Ég er sætabrauðsbakari“, svaraði hann.
„Sjálf er ég aðalhirðmey býflugnadrottningarinnar. Þú veittir mér lífsbjörg og hana vil ég launa þér. Ég skal segja þér leyndarmál nokkuð. Í dag þegar þú hrærir í deig, skaltu bæta við ilmandi hunangi héðan úr skóginum sem systur mínar munu láta þig fá af glöðu geði. Gerðu eins og ég segi og mun hamingjan aldrei yfirgefa þig.“ Um leið og hún sagði þetta breiddu hún út þura vængina og flaug á brott.
„Kannski var mig að dreyma…“, hugsaði Bogumił með sér. „Meistari minn væri ekki stoltur af mér núna. Í Toruńborg eru allir að gera sitt besta til að geta tekið vel á móti hans hátign en á meðan er ég hér og lyfti ekki litla fingri.“
Við þá hugsun stökk hann af stað í átt að bakaraíinu.
„Jæja, mikið var“, sagði meistari Bartólómeus þegar hann hljóp inn um dyrnar. „Nú skaltu hefjast strax handa því aðrir eru komnir mun lengra á leið en við“.
Bogumił lét ekki segja sér það tvisvar, heldur brettu upp ermarnar og byrjaði að hræra í deig.
Hann heyrði orð býflugunnar óma í eyrum sér,„bættu við hunangi úr skóginum…“.
„Látum á reyna“ sagði hann við sjálfan sig á endanum. Við ilmandi krydd og olíur frá fjarlægum löndum bætti hann leynihráefninu frá býflugunum.
„Jæja“, hummaði hann þegar hann hellti deiginu í mótin, „það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu“.
„Guði sé lof, við náum að klára í tæka tíð“, sagði meistarinn glaður í bragði þegar hann sá piparkökurnar hverfa djúpt inn í rjúkandi heitan ofninn.
Áður en leið á löngu reis upp himneskur ilmur úr ofninum sem teygði sig í gegnum bakaríið og í gegnum hverja einasta gluggarifu út á götu. Hver einasti maður sem gekk þar hjá var leiddur áfram af nefi sínu í átt að bakaríinu með bros á vör.
„Ég sel ekki eina einustu fyrr en ég hef boðið hans hátign að smakka“, sagði meistarinn slefandi.
Á sama tíma byrjaði Bogumił að skreyta piparkökurnar. Á silfurbakka hrúguðust skreyttir riddarar, gylltir vagnar, lítil hjörtu skreytt litríkum blómum og dádýr með sykruð horn.
Þegar konungsdæturnar litu dýrðirnar augum voru þær uppnumdar af hrifningu. Ekkert annað sem var á boðstólum bragðaðist jafn vel og gladdi þær jafn mikið. Hans konunglega hátign lét það eftir sér að prófa fígúrurnar og gat ekki hætt að dásama þær.
„Hvaða meistari bakar svona hnossgæti?“, spurði hann.
Meistari Bartólómeus hneigði sig djúpt og verandi heiðarlegur maður benti hann á Bogumił. Hans hátign brosti sínu breiðasta og lét kalla til konunglega ritarann. Hann skipaði svo fyrir að um aldur og ævi fengi Toruńborg þau konunglegu réttindi að fá að baka piparkökur og selja þær bæði í konungsríkinu sjálfu og utan þess.
Meistari Bartólómeus varð að ráða til sín þrjá nýja nema til að anna eftirspurn. Vitandi að hann átti þetta allt Bogumił að þakka, vék hann burt öllum vonbiðlum og bauð honum hönd Zosiu sinnar. Öll borgin skemmti sér konunglega í brúðkaupsveislunni þeirra.
Ég þar og var
vín og hunang drakk
brúðkaupinu fagnaði
og piparkökur borðaði.
Svo endar sagan.
Nú styttist óðfluga í pólskar þingkosningar sem verða haldnar í haust. Til að útskýra hvernig fólk kýs í Póllandi er oft talað um Pólland A (vestur af Vistula) og Pólland B (austur af Vistula). Sumir tala um skiptinguna sem Pólland A (borgir), Pólland B (dreifbýli) og Pólland C (svæðið austur við Vistula). Auðvitað er um nokkra einföldun að ræða og þetta er ekki notað í opinberlega en Pólverjar notast við þessi hugtök í daglegu tali.
Uppruna Póllands „A“ og „B“ má rekja til þess tímabils þegar Póllandi var skipt upp á milli Austurríkis, Prússlands (Þýskalands) og Rússlands og þeirra ólíku stefnu og markmiða sem þessi lönd voru með á löndum er töldust til fyrrum Póllands.
Hér að neðan má sjá mynd af járnbrautainnviðum Póllands. Svæðin sem tilheyrði Prússlandi og Austurríki eru með töluvert þéttari lestarteina:

Í aðdraganda kosninganna hefur Facebook afnumið bann sitt á öfgahægriflokknum Sambandið (pól. Konfederadcja). Sá flokkur var fjarlægður af Facebook á síðasta ári fyrir að dreifa falsfréttum um Covid og hatursorðræðu. Pólska ríkisstjórnin hefur fagnað ákvörðun Facebook sem taldi ákvörðun miðilsins brjóta í bága við málfrelsi.
Facebook segir kosningarnar réttlæta ákvörðunina um að veita flokknum aftur aðgengi en í skoðanakönnunum mælist hann sá þriðji stærsti. Talið er að hann hafi úrslitavald að loknum kosningum til að mynda ríkisstjórn.
Þrátt fyrir að flokkurinn sé einn sá minnsti á þingi núna, með eingöngu 9 þingmenn (af 460), þá er hann með öflugri notkun á samfélagsmiðlum heldur en nokkur annar flokkur. Flokkurinn er með 663.000 fylgjendur á Facebook á meðan að stærsti núverandi ríkisstjórnarflokkurinn, Lög og réttlæti (pól. PiS) er með 383.000.
Meta, móðurfyrirtæki Facebook, sendi út frá sér tilkynningu þar sem kveðið var á um að breyttar aðstæður í heilsufarslegu og pólítísku umhverfi réttlæti endurkomu flokksins á miðilinn.
„Í ljósi þess að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að Covid-19 er ekki lengur vá við heiminn og vegna komandi kosninga, höfum við ákveðið að almannahagsmunir vegi þyngra heldur en mögulegur skaði af hendi flokksins“.
Fyrirtækið talaði ekki um að flokkurinn hafi ekki verið bannaður vegna misvísandi upplýsinga um Covid-19 heldur einnig vegna hatursorðræðu í garð hinsveginfólks og fólks af erlendum uppruna.
Einn af leiðtogum flokksins sagði árið 2019 að flokkurinn hefði á stefnuskrá sinni að „hafa ekki gyðinga, samkynhneigða, þungunarrof, skatta og ESB“. Hann sagði seinna að orð sín hefðu verið tekin úr samhengi.
Á meðan að Lög og réttlæti er ennþá stærsti flokkurinn í skoðanakönnunum hefur fylgi hans dalað svo mjög að ekki er talið líklegt að hann haldi meirihluta. Það gæti neytt flokkinn – eða stjórnarandstöðuflokka – til að fara í ríkisstjórnarsamband með Sambandinu.
Pólland beitti neitunarvaldi um ályktun á þingfundi ESB varðandi öryggi hinsegin fólks innan ESB, og beitti fyrir sig þeim rökum að ESB væri að „veita hommum forréttindi“ á meðan að réttindi kristinna sem og annarra hópa væru fótum troðin.
Á þingfundinum var biðlað til aðildarríkjanna að samþykkja ályktun sem gerðar voru eftir könnun er spannaði allt sambandið varðandi réttindi hinsegin fólks sem sýndi fram á að „lítið hefur áunnist og að sumu leyti farið aftur“.
Ályktunin hefði skuldbundið ríkin til að „styðja við rétt allra innan ESB, þ.m.t. hinsegin fólks, að vera örugg gegn ofbeldi, áreiti og mismunun“.
Dómsmálaráðherra Póllands, Zbigniew Ziobro, lýsti því yfir að Pólland myndi beita neitunarvaldi sínu gegn ályktuninni, sem hefði þurft samþykkt allra aðildarríkjanna. Ungverjaland beitti var einnig á móti ályktuninni.
„Í skugga forréttanda handa hommum og öðru LGBT fólki, er trúarhatur að aukast í Evrópu – réttindi kristinna eru brotin á bak aftur ítrekað í Evrópu í dag“.
Pólland var líka eitt af tveim löndum sem beittu neitunarvaldi gegn nýjum reglum er varðaði fólksflutninga og hælisleit. Í svari sínu við reglunum, sem kveða á um að lönd annað hvort taki við hælisleitendum eða greiði ferðakostnað fyrir hvern þann sem þau neita að taka við, sagði Varsjá að „aldrei skulu samþykktar hugmyndir sem neyða okkur til að gera nokkur svona absúrd“.
Þessum reglum er ætlað að létta álagi á löndum í fremstu víglínu, Ítalíu og Grikklandi sérstaklega, sem hafa verið að taka við töluverðum fjölda flóttamanna og hælisleitenda. Ef land neitar að taka við hælisleitenda getur það þess í stað kosið að greiða 20.000 evrur (um 3 milljónir kr.) með hverjum hælisleitenda sem er sendur annað. Áætlað er að a.m.k. 30.000 hælisleitendum verði dreift víðar um álfuna.
Núna segist Varsjá ekki ætla að taka þátt í „tilneydddri menningartilraun“ og hafi staðið sig vel í mestu fólksflutningum síðan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá er ágætt að haga að þrátt fyrir að auðvelda Úkraínubúum aðgengi að félagslegri þjónustu þá hefur mestöll móttaka verið í höndum sjálfboðaliða. Þegar fjöldi fólks þurfti á næturgreiða að halda á leið sinni vestar í álfuna þá voru það almennir borgarar sem opnuðu heimili sín.
Eitt þrætueplið núna og sem verður vafalaust notað af þeim sem eru andsnúnir ESB er hvernig fólk er metið. ESB greiddi Póllandi 200 evrur fyrir hvern flóttamann frá Úkraínu en ætlast núna til að meðlag frá ríkjum sem hafni þeim greiði með þeim 20.000 evrur eins og nefnt var hér að ofan. 30.000 flóttamenn sem deilast niður á 27 sambandsríki ESB gerir rúmlega 1.000 flóttamenn á ríki. Niðurgreiðsla á félagslegri þjónustu við hvern flóttamann innan viðkomandi ríkis færi hinsvegar aldrei upp í þessa upphæð.
Þessi félagslega þjónusta væri t.d. aðgangur að heilbrigðiskerfi, menntun, námskeið o.s.frv. Flokkurinn Lög og réttlæti á fylgi sínu að þakka að hafa komið í gegn háum barnabótum og öðrum félagslegum úrræðum. Sá flokkur er á móti því að taka við flóttamönnum og er á móti ESB. Borgaraflokkur Donalds Tusk sem myndar mótvægið við Lög og réttlæti er hlynntur ESB en hefur sögulega séð verið á móti auknum fjárlögum fyrir félagslega kerfið. Til þess að laða að sér þá sem annars myndu kjósa Lög og réttlæti í komandi kosningum hafa þeir hinsvegar samþykkt að viðhalda þeim félagslegu úrræðum sem eru í boði núna og ætla sér að bjóða um betur, en eitt af kosningarloforðum Borgaraflokksins eru ömmulaun.
Pólverjar fara fyrr á eftirlaun en við á Íslandi og oft fellur það í þeirra skaut að sjá um börn sem ekki komast til dagmömmu (sem er mjög dýr og lítið sem ekkert niðurgreitt) eða brúa bilið þangað til að börn komast að á leikskóla en þar eru sömu vandamál og við þekkjum heima. Donald Tusk finnst því tilvalið að það fólk sem tekur að sér að sjá um barnabörnin sín fái greitt fyrir það. Lög og réttlæti hafa hinsvegar lofað því að hækka barnabætur úr 17.000 kr. á mánuði per barn upp í 27.000 kr. á mánuði.
Donald Tusk lét þau orð falla að kjósendur Laga og réttlætis samanstæði af „bótaþiggjandi skröggum sem lemja konurnar sínar“. Ef hann ætlar að ná til kjósenda sem þurfa að þiggja þá takmörkuðu félagslegu aðstoð sem er í boði þarf hann verulega að gyrða sig í brók.
Ein ástæða þess að hinar ýmsu félagslegu umgjarðir virka lítið eða illa í löndum Mið-og Austur-Evrópu er gífurlegt fjársvelti sem átti sér stað eftir að kommúnisminn gaf upp öndina. Nýfrjálshyggjan sem átti allt að leysa bjó til önnur vandamál og hefur á sinn átt greitt aðgang popúlískra flokka sem hafa í dag mikið fylgi innan þessara landa.
Ég hef ekki kynnt mér hvernig það var í Póllandi, en í Sovétríkjunum varstu með pláss á vöggustofu fyrir barnið þitt viku eftir fæðingu. Gert var ráð fyrir barninu þínu í fimm-ára áætlun ríkisins auk þess sem að gengið var út frá því að nýbakaðar mæður gætu mætt á verksmiðjugólfið sem fyrst til að framleiðni myndi ekki minnka.
Töluvert fjaðrafok hefur verið innan Póllands vegna laga sem samþykkt voru nýlega vegna nefndar sem komið var á fót sem ætlað er að rannsaka ítök og áhrif Rússlands á stjórnmálamenn. Séu þeir fundnir sekir af þessari nefnd, sem viðkemur dómstólum ekki neitt, mega þeir m.a. ekki koma nálægt opinberu fé í 10 ár.
Andrzej Duda, forseti Póllands, undirritaði lögin en sá svo að sér nokkrum dögum seinna og gerði umbætur á þeim. Það er hinsvegar svo að lögin eru gild við undirritun forsetans en umbætur hans þarf þingið að samþykkja. Þetta þykir því fullseint í rassinn gripið. Þeir sem eru á vinstri væng saka ríkisstjórnina um að setja lögin með það fyrir augum að hindra fólk í framboði frá því að ná sæti á þinginu.
Fólk á hægri væng stjórnmálanna, sem oft eru fylgjandi aðgerðum og lagasetningum ríkisstjórnarinnar, hafa varað við því að lögin gæti fælt burt kjósendur sem hafa kosið Lög og réttlæti á þeim forsendum að sá flokkur sé ekki kommúnistaflokkur. Lög og réttlæti hefur myndað sitt fylgi að hluta til með því að lýsa sér sem andstæðu kommúnistastjórnarinnar en lögin þykja heldur í anda Sovétríkjanna.
ESB hefur sett sig á móti þessum lögum en við það sakar pólska ríkisstjórnin ESB um að blanda sér í innanríkismál Póllands. Meirihluti þingmanna (75%) Evrópuþingsins hafa kallað eftir því að fylgst verði vel með kosningum Póllands í haust.
Dómstólar í Póllandi hafa dæmt í máli er varðar starfsemi einnar stærstu kolanámu Póllands. Náman, sem er á umdeildu svæði milli Póllands og Tékklands, gæti ollið töluverðum umhverfisspjöllum.
Dómurinn hefur verið gagnrýndur af ríkisstjórninni á þeim forsendum að hann gætir erlendra hagsmuna í stað innlendra. Ríkisfyrirtækið sem rekur námuna framleiðir í kringum 7% af öllu rafmagni í Póllandi hef áfrýjar dómnum.
Samband slavneskra vinaþjóða í gamla Varsjárbandalagslöndunum er flókið. Karol vinur minn sem ég hef áður minnst á sagði mér frá vinum sínum sem voru á leið frá Varsjá til Prag í skiptinám. Þegar væntanlegur leigusali áttaði sig á því að þau væru frá Póllandi heyrðist í símanum „eins og helvítis skriðdrekarnir sem ruddust inn í Prag 1968“.
– Þau fengu ekki íbúðina.
Kæra frá Tékklandi fékk Evrópudómstólinn til þess að fyrirskipa stöðvun á starfsemi námunnar 2021 sem pólska ríkið fór ekki eftir. Við tóku dagsektir upp á 500.000 evrur, litlar 75 milljónir kr., til ársins 2022 þegar samkomulag náðist við ráðamenn í Prag.
Ég læt þetta gott heita í bili en ég gæti haldið áfram endalaust.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd