Undarlegir atburðir áttu sér stað árið 1637 í Lúblínarborg.
Á þessu tíma var rekið mál fyrir dómstólum er varðaði landamerkjaágreining milli ekkju nokkurrar og stórbónda.
Þó svo að ekkjan væri í fullum rétti þá bjó stórbóndinn yfir töluverðum fémunum til að halla málarekstrinum í þá hlið sem honum hentaði.
Mútaði stórbóndinn dómurunum sem dæmdu í málinu til þess að niðurstaðan yrði honum í vil. Ekkjan varð viti sínu fjær þegar úrskurðurinn var uppkveðinn og bölvaði öllum með þeim orðum að djöflar og drýslar myndu vera sanngjarnari en dómarar í Lúblín.
Í ljós kom að ekkjan hafði látið út úr sér ákvæðisorð.
Á miðnætti nálgaðist dómshúsið hestvagn nokkur og þegar hann nam staðar stigu út úr honum dómarar sem enginn bar kennsl á. Þeir gengu inn í dómshúsið og komu sér fyrir við eikarborð nokkurt í réttarsalnum. Réttarþjónninn sem sá um að gæta hússins lýsti þeim sem mönnum með djúphrukkótt andlit, hrafnsvart hár, horn undir hettum og hófa í stað fóta.
Í Lúblín var réttur Kölska settur.
Mál ekkjunnar fátæku gegn stórbóndanum var tekið upp aftur. Dómarar Kölska kynntu sér málsupptök og hlustuðu á báðar hliðar. Málskrúðinn sem lögmaður stórbóndans notaði áður hafði engin áhrif á dómarana sem sátu ábúðarmiklir í sætum sínum. Af málflutningi loknum réðu þeir svo ráðum sínum. Eftir svolitla stund og kváðu upp úrskurð sinn og dæmdu stórbóndann sekan um misferli og spillingu. Fyrir ofan sæti dómaranna var róðurkross nokkur (sem var hafður þar til að minna lögmenn á mikilvægi þess að fara með rétt mál og dómara á að vera sanngjarna í dómum sínum). Þegar Jesús Kristur sá að útsendarar Kölska voru heiðarlegri en dómarar í Lúblín, hallaði hann höfðinu og grét yfir óheilindum mannanna. Formaður púkanna vildi skilja eftir ummerki um veru þeirra í réttarsalnum, lagði lófa sinn á borðið sem skildi eftir brunafar og yfirgaf salinn ásamt kollegum sínum. Næsta dag hafði heimsóknin í dómshúsið spurst út um alla borg og komu íbúarnir, bæði þeir óttaslegnu og áhugasömu, saman á markaðstorginu. Óheiðarlegu dómararnir flýttu sér sem fætur toguðu í næsta mál, niðurlútir og vandræðalegir. Takandi þessu sem tákni að handan ákvað flokkur presta að færa róðurkrossinn yfir í alkirkju tileinkaða heilögum Mikael þar sem haldin var guðþjónusta til að friðþægja íbúa borgarinnar. Liðu svo 200 ár og var ákveðið að rífa alkirkjuna sem hýsti róðurkrossinn. Var hann þá færður yfir hljóðláta kapellu hins Allraheilagasta Sakraments í dómkirkju borgarinnar.
Eikarborðið með brunafari púkans var mörgum árum seinna flutt úr dómshúsinu fyrir í Þjóðminjasafnið sem hýst er í kastalanum í borginni.

Ég fór til Lúblínar í maí á þessu ári. Borgin er sérlega falleg og á sér ríka sögu. Eins og aðrar borgir Póllands eru margar þjóðsögur henni tengdar eins og þessi sem ég þýddi hér fyrir ofan.
Lúblín er níunda stærsta borg Póllands og er staðsett í héraði sem kallað er Litla Pólland. Íbúafjöldi borgarinnar telur 342.000 manns. Borgin er sú stærsta í Póllandi austur við ána Vistúlu sem rennur í gegnum Varsjá.
Sá atburður sem studdi við stækkun og fjölgun borgarinnar var Krewo-samkomulagið 1385. Samkomulagið var undirritað í kastalanum í Krewo (nú Kreva í Hvíta-Rússlandi) og var kaupmáli varðandi væntanlegt brúðkaup Jóels (lith. Jogaila), stórhertoga af Lithaugalandi (Litháen í dag) og Heiðveigu (pól. Jadwiga), ráðandi drottningu Póllands. Krewo-samkomulagið vísar ekki bara í skjalið sjálft heldur alla viðburðina sem áttu sér stað á tímabilinu 1385 til 1386. Eftir að samkomulagið var undirritað tók Jóel kristna trú, giftist Heiðveigu og varð konungur Póllands.
Undirritun samkomulagsins markaði upphaf fjögurra alda sameiginlegri sögu Póllands og Litháens. Þegar Lúblínarsamkomulaginu var komið á 1569 varð til nýtt ríki, Pólsk-litháíska samveldið (einnig þekkt sem Fyrsta lýðveldið eða Tvíþjóðaveldið) sem varði til 1795 þegar Póllandi var skipt í þriðja sinn og hvarf af landakortum Evrópu.
Töluvert af forsögu samkomulagsins varðar erfðir á konungstitlum og ósætti hefðarstétta. Fyrir fólk sem hefur á einhverjum tímapunkti fylgst með Glæstum vonum þá verður þetta ekki flókið en ég ætla mér að rekja forsöguna í stuttu máli:
Staðan í Póllandi var þessi:
Loðvík I. af Ungverjalandi dó 10. september 1382. Hann hafði verið konungur Ungverjalands og Króatíu frá 1342 og konungur Póllands frá 1370. Hann var fyrsta barn Karls I. konungs Ungverjalands og konu hans, Elísabetu af Póllandi sem komst af barnsaldri. Samkomulag milli föður Loðvíks og Kasimírs þriðja Póllandskonungs kvað á um að ef sá síðarnefndi félli frá án þess að eignast son myndi Loðvík erfa titla hans. Af öllum þeim börnum sem hann eignaðist voru bara tvær dætur sem lifðu hann, María (f. 1371) og Heiðveig (f. 1373). Einn af væntanlegum kandídötum til að fá krúnuna var unnusti Maríu, Sigmundur af Lúxemborg, sem varð krýndur konungur af Ungverjalandi árið 1385. Pólskir aðalsmenn höfnuðu Sigmundi og Maríu, þar sem þeim hugnaðist ekki að vera lengur í konungssambandi við Ungverjaland. Átök brutust út innan pólsku yfirstéttarinnar sem leiddi til skammlífs borgarastyrjaldar í Stóra-Póllandi. Eftir langar samningaviðræður við Elísabetu af Bosníu, móður Heiðveigar, mætti Heiðveig til Krakár og var krýnd konungur (en ekki drottning, til að leggja áherslu á rétt hennar til krúnunnar) 1384. Þjóðhöfinginn nýji þurfti að eignast viðeigandi eiginmann. Aðalsmenn frá Litla Póllandi lögðu til að Heiðveig gifst Jóeli, stórhertoga Litháens.
Staðan í Litháen var þessi:
Stórhertoginn Olgeir (lith. Algirdas) dó 1377 og erfði Jóel sonur hans krúnuna. Undir krúnuna féll töluvert landsvæði sem á bjuggu Rúþenar, en svo var slavneskumælandi fólk á svæðum Litháens og Póllands kallað sem hafði skírst til rétttrúnaðarkristni, og heiðnir Litháar. Um aldarbil höfðu Litháar varist innrásum Tevtónareglunnar, þýskri riddarareglu sem hafði helgað sér trúskiptum heiðingja innan landsvæða Litháens. Jóel áttaði sig á því að kristintaka væri óhjákvæmileg og setti sér það markmið að finna út hvernig mætti gera þetta með sem mestum hag fyrir fyrir sig sjálfan. Dybusasáttmálinn sem hafði verið undirritaður 1382 af Jóel, bróður hans Skírmundi (lith. Skirgalia, „sá sem tekur góðar ákvarðanir“) og Konráði af Wallenrode, marskálki Tevtóna, kvað á um að Jóel myndi taka kristna trú og skíra þegna sína innan fjögurra ára. Dybusarsáttmálinn var hinsvegar aldrei fullgildur og hugnaðist Jóel ekki að taka kristni á forsendum erkifjanda sinna (sem höfðu samt hjálpað honum að bæla uppreisn föðurbróður hans sem ásældist krúnuna). Hann vissi að bæði yrði það óvinsælt meðal þegna hans ef þeim litist svo á að hann hefði tekið trúna vegna þrýstings frá Tevtónum auk þess sem að slíkur þrýstingur yrði til þess að gera Litháen háða riddurunum. Móðir hans, Júlíana frá Tver sem sjálf var rétttrúuð, hafði milligöngu við Dmitrí Moskvuprins og stórprins af Vladimír, um að Jóel giftist dóttur Dmitrís. Í augum kaþólikka var rétttrúnaður ekki skárri en heiðni og kæmi ekki til með að vernda Litháa gegn ágengni riddaranna. Valkostur pólsku yfirstéttarinnar, um að hann giftist Heiðveigu, var því vænstur í hans augum.
Í sjálfu sér ofureinfalt, ekki satt?
Samband ríkjanna tveggja hafði oftar en ekki verið stormasamt. Til dæmis höfðu Stríðin í Galisíu og Volhyníu (sem spannaði árin á milli 1340 og 1392) leitt herja ríkjanna á vígvöllinn gegn hvor öðrum. Ekkert tengir tvo aðila betur saman en sameiginleg andúð en bæði ríkin hötuðu Tevtóna.
Sendinefnd var gerð út frá Litháen til Krakár og þegar hún snéri til baka staðfesti Jóel skriflega öll þau skilyrði sem kveðið var á um. Þessi skriflega staðfesting er þekkt í dag undir heitinu Krewo-samkomulagið. Hann samþykkti eftirfarandi:
- Kristna ætti Litháen, Jóel tæki pápíska trú, sem og litháískir aðalsmenn og allir heiðnir landsmenn.
- Öllum landsvæðum sem Pólland hafði tapað í stríðum yrði skilað. Sérstaklega var talað um Rauðu-Rúþeníu, svæði sem í dag teljast til Vestur-Úkraínu og Suðvestur-Póllands.
- 40.000 kristnum Pólverjum sem teknir höfðu verið til fanga yrði sleppt.
- Öll landsvæði Litháens og Rúþeníu yrðu sett undir pólsku krúnuna.
Þann 11. janúar 1386 hitti Jóel pólska sendinefnd í Vawkavysk (nú Volkovysk í Hvíta-Rússlandi) sem afhenti honum skjal sem staðfesti að pólska yfirstéttin, hin svokallaða szlachta, myndi samþykkja Jóel sem konung sinn í komandi kosningum. Kosningin var síðan haldin í Lúblín 1. febrúar. 12. febrúar mætti Jóel ásamt ættingjum sínum til Krakár þar sem þau voru skírð þrem dögum seinna af Bodzanta nokkrum, biskupi í Gniezno í Waweldómkirkjunni. Jóel giftist Heiðveigu 18. febrúar og var krýndur jure uxoris (titill sem einstaklingur fékk í gegnum titil sem maki hans hafði) konungur Póllands.
Eftir hefðbundnar orustur og borgarastríð sem voru gjarnan fylgifiskar slíkra hjónabanda hélt Jóel heim til Vilníusar í árslok 1386 til að efna loforð sitt um að kristna Litháen. Hann tók með sér frá Póllandi nokkra presta og kom á fót fyrstu sjö sóknum landsins. Sagnfræðingurinn Jan Długosz sagði að Jóel hafi meira að segja þýtt faðirvorið og trúarjátninguna yfir á litháísku. Við tóku fjöldaskírnir þar sem lýðurinn fékk litla kristinfræði og ullarskyrtu að launum. Hann lýsti yfir vilja sínum til að byggja dómkirkju í borginni og biðlaði til páfans um að komið yrði á fót biskupsdæmi Vilníusar, sem fékk í stofngjöf frá konungi töluvert landsvæði. Hann gaf einnig út tilskipanir árið á eftir um að aðalsmenn sem létu skírast fengju aukin réttindi auk þess sem hann veitti Vilníusi svokölluð Magdeborgarréttindi (þ.e. innleiðing einkamálarétts og refsirétts, auk borgarskipulags). Bæði var þetta hvatning til að skírast auk þess sem þetta jafnaði réttindi yfirstétta í Póllandi og Litháen.
Jóel skildi Skírmund bróður sinn eftir sem ríkjandi prins. Sá varð snemma sérlega óvinsæll auk þess litháísku yfirstéttinni gramdist aukin ítök Póllands. Maður að nafni Vytautas (lith. „sá sem eltir fólkið“) sem var tvímenningur Jóels ákvað að sækjast eftir völdum og úr varð að á skall Litháíska Borgarastyrjöldin (1389-1392). Henni lauk með Ostrów-samþyktinni, þar sem Vytautas varð nýr stórhertogi Litháens á meðan að Jóel var lénsherra. Vytautas var með sjálfstæða innan-og utanríkisstefnu en vann náið með Jóel.
Það er rétt að nema aðeins staðar hérna í sögu Lúblínar og tala meira um Vytautas en margar gjörðir hans og ákvarðanir marka pólskt samfélag enn þann dag í dag. Vytautas viðhélt sömu framtíðarsýn Olgeirs að sölsa undir sig eins miklu landsvæði sem taldist til Rúþeníu og mögulegt væri. Þó svo að mikið þess landflæmis væri núþegar undis hans stjórn var rest þess undir stjórn Mongóla.
Tokhtamysj, kan (þ.e. höfðingi) yfir hinnu gullnu hirðingjasveit (ættbálkar Mongóla var skipt eftir sveitum sem hver var kennd við ákveðinn lit, gullna hirðingjasveitin varð til eftir samruna þeirrar hvítu og bláu) leitaðist eftir hernaðaraðstoð frá Vytautas, þegar honum var steypt af stóli af Tímúr, þeim er stofnaði Tímúr-veldið sem samanstóð af landsvæðum Afganistans, Írans og Mið-Asíuríkja. Samkvæmt þeim samningi sem Vytautas og Tokhtamisj gerðu með sér fengi stórhertogadæmi Litháens töluverð landsvæði í skiptum fyrir að koma Tokhamysj aftur á valdastól.
Árið 1398 gerðist það svo að réðst á með her sínum landsvæði sem í dag telst til Krímeaskagans. Náði landsvæði stórhertogadæmisins núna frá Eystrarsaltinu að Svartahafinu. Töluverður fjöldi Tatara voru fluttir frá Krímeaskaganum, inn í land í hjarta Litháens.
Var þetta önnur alda Tatara sem komu til Litháens. Fyrstu Tatararnir sem þangað fluttu voru heiðnir, líkt og Litháar sjálfur í byrjun 14. aldar og voru í raun að sækja um hæli til að varðveita trú sína. Tatarar þeir sem komu til Litháens fyrir tilstuðlan Vytautasar, voru múslimar. Heitið ‘Tatarar’ er nokkurs konar regnhlífarhugtak yfir ólíka tyrkneskumælandi hópa.
Stærsti hópur Tatara í dag eru svokallaðir Volgu-Tatarar sem búa í sjálfstjórnarhéruðunum Tatarstan og Basjkortostan í Rússlandi. Tungumál þeirra er tatarska og talið er að í Rússlandi búi um 5.3 milljónir Tatara. Innan Rússlands búa líka Tatarar sem kenndir eru við borgina Astrakhan sem liggur við árósa árinnar Volgu, og svo smærri hópur sem nefndir eru Síberíutatarar. Krímeatatara þekkja Íslendingar betur eftir innrás Rússlands á Krímeaskagann og innlimunnar hans.

Þeir Tatarar sem búa innan landamæra Póllands, Litháens og Hvíta-Rússlands eru nefndir Lípka-Tatarar, en Lípka er Litháen á máli Tatara. Þrátt fyrir að hafa upphaflega þjónað sem hermenn voru þeir einnig þekktir ýmsa iðn, garðyrkju og hestamennsku. Í gegnum aldirnar hafa þeir haldið íslamskri trú sinni en tapað tyrkneskri tungunni.
Lípka-Tatatar voru aðallega ólíkir trúsystkinum sínum þegar það kom að viðhorfi þeirra til kvenfólks. Konur báru ekki slæðuna nema við giftingarathöfnina sjálfa og strákar og stúlkur voru menntuð saman en ekki í sitthvoru lagi. Lípka-Tatarar líta á slæðuna sem arabísk áhrif á íslamstrú, og sé henni óviðkomandi.
Í tímanna rás eftir því sem þeir gleymdu tatörsku, varð hvítrússneska þeirra fyrsta mál, auk þess sem að þeir Lípka-Tatatar sem voru meðlimir szlöchtunnar, hinnar pólsku yfirstéttar, töluðu pólsku. Þá notuðu þeir arabískt letur til að skrifa hvítrússnesku fram yfir árið 1930.
Tæpum hundrað árum eftir að þeir voru fluttir til Litháens af Vytautasi, voru þeir samkvæmt manntali árið 1590 um 200.000 talsins og voru um 400 moskur sem þeir sóttu guðjónustu til.
Í kjölfar innrásar Rússlands, þar sem Tatarar af þeim stöðum sem taldir eru upp hér að ofan voru með í för innrásarhersins og gagnsiðbótarinnar voru sett fram lög sem drógu mjög úr því mikla trúfrelsi sem Pólsk-litháíska samveldið var þekkt fyrir. Bæði forréttindi Tatatara og trúfrelsi voru skerð töluvert. Þá var Töturum meinað að þjóna í æðstu embættum innan hersins og lagt var bann á frekari byggingar moska innan veldisins. Það tók svo steininn úr þegar Sejmið, pólska þingið, gerði lög þess efnis að greiða út einungins 1/4 af launum hermanna úr röðum Tatara. Pólski konungurinn, Jan Kazimierz, lagði lögin af rétt áður en hann sagði af sér. En það var of lítið og of seint; Tatarar höfðu móðgast og laun þeirra aldrei verið greidd út eins og lofað hafði verið. Árið 1672 risu Tatarar upp gegn samveldinu og gerðu uppreins.
Uppreisnin sú var þó skammlíf og lauk árið 1674. Það var þökk Jan Sobieski sem var þá hetman (en svo var staða æðsta foringja hersins kölluð, en sá sem var hetman var næstvaldamesti maður samveldisins á eftir konungi) og síðar konungur að ekki var úrhellt meira blóði. Vann hann töluverðan sigur á Töturum en í stað þess að taka þá af lífi sem tóku þátt í uppreisninni var þeim leyft að ganga aftur í her samveldisins.
Eitt af fyrstu verkum Jans Sobieski þegar hann varð konungur var að koma aftur á forréttindum og trúarfrelsi, á meðan að vangoldin laun voru greidd út með landi. Þau landsvæði í austanverðu Póllandi sem Tatatarar fengu voru gefin með því skilyrði um herþjónustu í framtíðinni en það skilyrði var marguppfyllt í þeim stríðum sem fylgdu næstu áratugina.
Þegar Jan Sobieski kom Vínarborg til bjargar árið 1683 hafði hann sér til halds og trausts fjölmarga hermenn úr röðum Tatara sem vöfðu trjágreinum utan um hjálma sína til að greina sig frá Töturum sem börðust undir Kara Mustafa, stórvesír Ottómana. Lípka-Tatarar sem heimsækja Vínarborg í dag hafa á höfði sér stráhatta til að heiðra minningu forfeðra sinna sem börðu niður umsátur Ottómana um Vínarborg. Þess má geta að umsátrið um Vínarborg snéri vörn í sókn gegn íslam í Evrópu auk þess sem talið er að baráttan hafi markað upphafið af aldalangri hnignun og falli Ottómanveldisins.
Þegar Póllandi var skipt upp á milli Rússlands, Þýskalands og Austurríkis börðust Tatarar með Pólverjum gegn hinum nýju drottnurum. Þeir þjónuðu líka í her Póllands á árunum milli stríða, auk þess sem þeir börðust gegn nasistum í seinni heimsstyrjöldinni.
Í upphafi 18. aldar og í gegnum þá 19. urðu Lípka-Tatarar sífellt pólskari í siðum og venjum. Bæði efri-og miðstétt þeirra töluðu í auknum mæli pólsku, en lægri stéttir tileinkuðu sér rússnesku.
Í Póllandi eru nú um 2.000 manns sem lýsa sér sem Töturum. Heldur fleiri eru þeir í Hvíta-Rússlandi, eða um 7.300. Margir afkomendur þeirra eru einnig búsettir vestan við Atlantshafið og þar til nýlega var menningarmiðstöð Lípka-Tatara starfrækt í New York. Faðir leikarans Charles Bronson, sem frægur var m.a. fyrir hlutverk sitt í Once Upon a Time in the West, var Lípka-Tatari.
Í héruðunum Podlasíu og Varmíu-Masúríu má ennþá finna hinar gullfallegu viðarmoskur Lípka-Tatara.

Einnig var það Vytautas sem flutti 388 Karaim-fólks yfir til Litháens en ég hef áður um þá örþjóð fjallað hér.
En þetta var nú hliðarspor. Lúblín græddi á þessum atburðum öllum því hún óx sem kaupstaður með fríverslunarréttindi enda vel staðsett milli Krakár og Vilníusar. Árið 1569 leiddi Lúblínarþingið til Pólsk-litháíska samveldisins. Lúblín varð fyrir fyrstu bylgju siðaskiptanna á 16. öld. Lítill söfnuður kalvínista var í borginni auk þess sem að róttækir hópar aríanista söfnuðust þar saman. Þangað til að Póllandi var skipt upp á 18. öld var Lúblín konungleg borg en það þýddi að aðalsmenn höfðu rétt til þátttöku í konungskosningum, en Pólverjar höfðu þann vana að kjósa sér kóng í stað þess að titillinn erfðist eins og var vaninn í öðrum konungsríkjum.
Lúblín var einnig ein helsta borg gyðinga í Póllandi. Sett var á fót yeshiva í borginni sem naut mikillar viðurkenningar meðal gyðinga um alla Evrópu, auk þess sem byggð voru spítali, synagóga og grafreitur. Yeshiva þessi varð síðan fræðasetur er varðandi rannsóknir á Talmúd og Kabbala, sem leiddi til þess að borgin varð síðar kölluð „Oxford gyðinga“. Rosh yeshiva (skólastjóri á hebresku) þessarar yeshivu fékk árið 1567 titilinn rektor, auk þeirra réttinda og forréttinda sem aðrir rektorar háskóla innan samveldisins nutu.
Fyrir samfélagi gyðinga í Lúblín og víðar, er kallast kehila á hebresku, fór svokallað kahal (samkoma á hebresku), ráð leikmanna sem kosið var af samfélaginu. Í hverju kahal voru að lágmarki 18 meðlimir þó svo að flest kehila væru með á bilinu 22-35 meðlimi. Af meðlimum þessum voru 4 zeqenim (öldungar á hebresku) og 3-5 tovim (heiðursmeðlimir á hebresku).
Lúblín hnignaði mjög í kjölfar sænska stríðsins, en svo er það tímabil á árunum 1648-1666 kallað þegar fjölmörg stríð voru háð innan samveldisins, sem síðar tapaði þriðjungi af landsvæði sínu og þess sem Svíar lögðu Varsjá í rúst. Á pólsku er þetta tímabil kallað sænska syndaflóðið, en það heiti kemur úr verki Henryks Sienkiewicz sem hann skrifaði undir titlinum „Syndaflóðið“ árið 1886.
Eftir þriðju skiptingu Póllands 1795 endaði Lúblín innan þess landsvæðis sem hið austurríska Habsborgaraveldi réði yfir. Nokkrum árum seinna, árið 1815 tilheyrði Lúblín svo rússneska keisaraveldinu. Við lok 19. aldar voru tæplega 50% borgarbúa gyðingar. Rússneskum yfirráðum lauk árið 1915 þegar borgin var hernumin af herjum Þýskalands og Austurríkis-Ungverjalands. Eftir ósigur Miðveldanna í fyrri heimstyrjöldinni var ríkisstjórn hins nýfrjálsa Póllands til skamms tíma í Lúblín.
Ég læt þess ógetið hvernig fór fyrir borgarbúum Lúblínar í seinni heimsstyrjöldinni en það er efni í blogg út af fyrir sig.
Annars er ýmislegt að frétta í Póllandi. Helst ber að nefna að ég fékk fjölskylduna mína í heimsókn í viku og voru þau öll, skiljanlega, dolfallin yfir Póllandi.
Ég er í sérstökum áfanga varðandi skrif á lokaritgerð, sem ég fer að vísu ekki að skrifa fyrr en í lok næsta árs. En ekki er ráð nema í tíma sé tekið og bað sú sem áfangann kennir okkur um að velta fyrir okkur mögulegu ritgerðarefni. Mig langar til að þýða bók yfir á íslensku, en síðasta bókin sem ég veit fyrir vissu að var þýdd beint úr pólsku yfir á íslensku var 2004 þegar Geirlaugur Magnússon þýddi ljóðabókina Lágmyndir eftir Tadeusz Rozewicz. Mig langar líka til að skrifa eitthvað um svokallaðar hinsegin-bókmenntir, svona í framhaldi af því sem ég skrifaði þegar ég var í rússnesku. Ég hafði töluverðar áhyggjur að þetta efni yrði skotið niður en í ljós kom að helsti sérfræðingur Póllands í hinsegin-bókmenntum er kennari við háskólann þar sem ég er að læra. Kennarinn varð svo hrifinn af þessari hugmynd minni að það var næstum þess virði að vera með grasserandi magasár af stressi þessar tvær vikur sem ég hafði til að velta þessu fyrir mér.
Annars læt ég þetta gott heita í bili.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd