Ignacy Aleksander Gierymski fæddist 30. janúar 1850 í Varsjá, sem þá var þriðja stærsta borg rússneska keisaradæmisins. Þegar hann varð 18 ára gamall hóf hann nám við Listaakademíuna í München. Hann lauk þar námi árið 1872, þá 24 ára gamall og fékk við útskrift gullmedalíu fyrir góðan árangur. Næstu tvö ár bjó hann í Ítalíu, lengst af í Róm.
Hann snéri aftur í skamma stund til Varsjár 1875 og hélt sýningu á þeim verkum sem hann hafði málað á Ítalíu í Zachęta-galleríinu. Sýning þessi fékk sérlega góðar viðtökur.
Hann flutti aftur til Rómar 1875 og bjó þar næstu 4 árin á meðan hann aflaði sér frekari þekkingar og kunnáttu. Mörg af sínum frægustu verkum málaði hann á árunum 1879-1888. Hann var í slagtogi við unga rithöfunda og málara sem aðhylltust pósitívisma og héldu úti tímaritinu Flækingi (pól. Wędrowiec). Listrænn stjórnandi þess tímarits gerði sitt besta til að koma verkum Ignacys sem voru innblásin af fátækrahverfum borgarinnar á framfæri. Fólk var ekki jafn hrifið af þessum verkum og þeim sem hann hafði sýnt 1875. Þekktasta verk hans frá þessum tíma ber titilinn Gyðingakonan með appelsínurnar (pól. Żydówka z pomarańczami).

Eins og vant er fyrir þá sem ekki njóta hylli í heimalandi sínu ákvað hann að fara erlendis að leita gæfunnar. Sú leit bar ekki ávöxt og snéri hann aftur til Póllands (sem þá var tæknilega séð ekki ennþá til, enda ennþá undir rússneska keisaranum) 1893 með það í huga að sækja um stöðu kennara við Listaakademíuna í Kraká. Þar málaði hann verk sitt Líkkista kotbóndans (pól. Trumna chłopska) sem mér finnst bera af hans verkum eins og gull af eiri. Berfættir kotbændur við hliðina á líkkistu barns.

Síðustu árum ævi sinnar eyddi hann innan veggja geðsjúkrahúss á Ítalíu. Hann dó árið 1901 og var jarðaður í Róm.
Gyðingakonuna með appelsínurnar vil ég hinsvegar ræða í svolítið lengra máli. Þegar Pólland var hernumið af nasistum var því málverki stolið og var það talið glatað að eilífu, líkt og yfir 50% af heildarsafneign Póllands. Þetta málverk hinsvegar dúkkaði upp í antíkverslun í Þýskalandi 2010 og tókst yfirvöldum í Póllandi að endurheimta það og koma því aftur til Póllands ári seinna. Konan er því komin heim.
Eins og ég minnist á hér að ofan var yfir 50% af heildarsafneign Póllands stolið á stríðsárunum, bæði af nasistum og Rauða hernum. Fjöldi þeirra er talinn vera í kringum 516 þúsund gripir. Einnig er vert að taka fram að bókasöfn töpuðu 70-75% af öllum bókakosti sínum.
Piotr Gliński, fráfarandi menningar-og þjóðminjaráðherra, kom af stað herferð árið 2022 sem er kölluð Tómir rammar (pól. Puste ramy). Ætlunin er að vekja athygli á þeim fjölda listaverka og safngripa sem var stolið. Mér finnst þessi vitundarvakning missa marks þar sem flestum orðum er varið í að ræða almennar þjáningar landsmanna í stað þess að ræða um stolnu verkin sem slík.
Nú er það alls ekki ætlunin að gera lítið úr þeim hryllingi sem átti sér stað í Póllandi á árunum 1939-1945 og þeim áföllum sem pólska þjóðarsálin er ennþá að vinna sig úr. Ég velti hinsvegar fyrir mér þessari rosalegu þörf fyrir því að tala alltaf um seinni heimsstyrjöldina (fleiri atburðir, góðir og slæmir, hafa átt sér stað innan síbreytanlegu landamæra Póllands), hinu opinbera og pólitíska sjónarhorni (t.d. meira mætti tala um upplifun einstaklinga í stað Pólverja í heild, upplifun Róma-fólks, (van)uppgjör eftir stríðslok, þöggun þess sem átti sér stað í stríðinu á valdatímum kommúnista) og því sem ekki fær athygli almennings, sem er með takmarkaðri auðlindum heimsins.
Ég hugsa þetta líka með tilliti til dagsferðarinnar sem ég fór í með fjölskyldunni minni til Wrocław. Við fórum í heimsókn í Sögusafnið í Wrocław sem er til húsa í gamalli keisarahöll.

Aðalsýningin er um 1000 ára sögu borgarinnar og fannst fjölskyldu minni mjög athyglisvert að lesa um eitthvað tengt sögu landsins annað en heimsstyrjöldina seinni. Vissulega var Wrocław lengst af þýsk borg en það er óþarfa sparðatíningur. Saga Póllands er löng, merkileg og heillandi og spannar meira en bara árin 1939-1945.
Það er ærið verk að endurheimta stolna gripi, þar sem að lög verja almennt hag kaupenda sem keyptu verkin af (vonandi) góðum hug. Með þennan málaflokk fara Menningar-og þjóðminjaráðuneytið og Utanríkisráðuneytið. Skrifstofa innri endurskoðunar komst að þeirri niðurstöðu 2017 að lítið hafði gerst, ennþá minna væri að gerast og því töluvert rými til úrbóta. Ennþá væri stuðst við sama gagnagrunn og komið var á fót 1995 en einungis brotabrot af honum hafði verið settur á netið. Á árunum 2011-2017 tókst ráðuneytunum að ná til baka 28 stökum verkum og 6 smærri söfnum.
Endurheimt listaverka bæði innanlands og erlendis, úr einkasöfnum og opinberum söfnum er tímafrekt, fjárfrekt og kostar mannafla. Í ljósi þess hversu margir gripir eru í gagnagrunninum mætti því ætla að töluverður fjöldi starfsmanna innan þessara ráðuneyta ynni hörðum höndum að þessu langtímaverkefni. Raunin er vissulega önnur en Skrifstofa innri endurskoðunar setti líka út á það að milli ráðuneytanna væru ekki nema 9-11 starfsmenn að sinna þessu starfi. Ef pólskir ráðamenn hafa valið að fara íslensku leiðina þá eru eflaust ekki nema 2 sem vinna við eiginlega endurheimtingu gripanna, hinir eru millistjórnendur. Einn væri að vinna að skilgreiningu starfsins, einn að skilgreiningu á gripum, einn að gera þarfagreiningu, einn að gera kostnaðargreiningu, einn að vinna að samþættingu verka, einn með umsjón yfir samráðshópi, einn til að taka út starfsánægju og eflaust einn sem tæki að sér hagnýta stefnumótum, samþættingu skilgreininga og skýrslugerðar.
Þessi skortur á safngripum heldur Pólverjum hinsvegar ekki aftur þegar að kemur byggingu nýrra safna. Á árunum 2016-2027 hafa verið byggð, opnuð eða er á dagskrá að opna 40 söfn. Söfn eru dýr, bæði í byggingu og í rekstri en sinna óneitanlega mikilvægum menningarlegum tilgangi. Mér líst illa á að bæði Reykjavík og Kópavogur ætli sér að leggja niður skjalasöfn sín og færa þá starfsemi alfarið yfir til Þjóðskjalasafn Íslands. Bæjarskjalasöfn hafa m.a. í fórum sínum allar þær skjalfestu ákvarðanir sem teknar hafa verið af bæjarstjórnum hverju sinni, sem er e.t.v. ástæða þess að valdafólki hugnist að leggja þau niður. Því má velta því fyrir sér hvort ekki væri betra að fjármagna betur þær menningarstofnanir sem eru til fyrir heldur en að byggja nýjar sýndarveruleikahallir.
Það sem ég skrifaði hér að ofan er að hluta til komið úr kynningu sem ég hélt í síðustu viku í kúrs sem ég er í er kallast menningarstarfsemi í Póllandi. Ásamt kennara okkar höfum við farið á þrjár menningarstofnanir hérna í Poznań: Brama Poznania ICHOT, Akademia Lubrańskiego og Muzeum Bambrów Poznanskich.
Brama Poznania ICHOT var opnað 2019 er nýjasta safnið af þessum þrem. Safnið er staðsett á Dómkirkjueyjunni (pól. Ostrów Tumski) sem er elsti hluti Poznań. Safnið hefur varanlega sýningu um sögu borgarinnar og er að auki menningarmiðstöð. Það er hluti af safnasamstæðu á þessari sömu eyju sem hefur að geyma elstu byggingar Poznań. Hafandi fettað fingur minn út í fjárútlát til nýrra safna, þá verð ég að viðurkenna að hérna hefur verið vandað einstaklega vel til verka. Í gegnun sýninguna eru sérstök rými sérhönnuð handa börnum. Þrjár mismunandi leiðsagnir eru í boði, ein fyrir einstaklinga, önnur fyrir hópa og sú þriðja fyrir fjölskyldur. Hljóðleiðsögn er í boði á pólsku, ensku, þýsku, frönsku, spænsku, tékknesku, rússnesku og úkraínsku. Þá er sýningin sérstaklega hönnuð með þarfir einstaklinga með fötlun í huga. Öll myndbönd innan sýningarinnar eru bæði textuð og með táknmáli. Þá eru líka snertisöfn innan sýningarinnar.

Akademia Lubrańskiego Muzeum er safn rómversk-kaþólska erkibiskupsdæmisins í Poznań og er í göngufjarlægð frá Brama Poznania ICHOT. Byggingin var reist 1518 og var upphaflega notuð til að hýsa svokallaðan latínuskóla. Sex deildir skólans voru málfræðideild (málfræði, stílfræði, orðsifjafræði latínu og grísku), ræðudeild (mælskulist, almenn saga og landafræði), stærðfræðideild (talnareikningur, stjörnufræði, stjörnuspeki, dagatalagerð, tónlist og söngur), heimspekideild, rökfræðideild og lagadeild (rómversk lög og kirkjulög). Þeir sem útskrifuðust og stefndu á frekara nám fóru síðan að læra guðfræði.

Fyrstu drög að safninu sem er þar til húsa núna urðu til 1898 þegar þáverandi erkibiskup vildi hafa samastað fyrir þá gripi sem höfðu sögulegt gildi fyrir Stóra-Pólland og pólska sögu. Á þeim tíma tilheyrði Stóra-Pólland Þýskalandi og hafði fyrrverandi kanslari Þýskalands, Ottó von Bismarck lagt fram ýmsar lagasetningar og reglugerðir með það fyrir augum að útrýma hugmyndinni um pólskt þjóðareinkenni. Safnið í dag hýsir tvær varanlegar sýningar, önnur á verkum og gripum úr eigum kirkjunnar, hin er kölluð Gjafasalurinn sem er fullur af gripum sem safnið hefur fengið að gjöf. Seinni sýningin gefur okkur mynd af því hvernig heldra fólk lifði við lok 19. aldar.

Muzeum Bambrów Poznanskich eða Safn Bambra frá Poznań var síðasta safnið sem við fórum á. Bambrar er heiti þýskumælandi (meira en öld var í sameiningu Þýskalands, sem var þá ekki til) fólks frá Bamberg í Bæjaralandi sem flutti til þorpa umhverfis Poznań. Þorp þessi höfðu misst alla sína íbúa í Norðurlandaófriðnum mikla og kólerufaralds sem fylgdi í kjölfarið. Komu þeir í nokkrum hópum, sá fyrsti 1719 og sá síðasti 1753. Einu skilyrðin sem Ágúst II Póllandskonungur setti fram voru þau að allir aðfluttir íbúar yrðu að vera kaþólskir. Íbúar Suður-Þýskalands voru og eru ennþá að langmestu leyti kaþólikkar. Aðlögun þeirra var mjög hröð og talið er í dag að 1 af hverjum 4 íbúum Poznań séu með blóð Bambra í æðum sér. Þekktasta menningararfleið þeirra í dag er án efa kvenbúningur þeirra sem er sérlega íburðamikill og skrautlegur.

Þessi sami kennari sem kennir kúrsinn menningarstarfsemi í Póllandi kennir líka kúrs sem kallast Blæbrigði talmáls. Eitt af því sem við höfum núna nýlega verið að taka fyrir er hvernig við tjáum okkur með handapoti og hreyfingum og hvernig ólíkar hreyfingar hafa ólíka merkingu milli landa. Við þekkjum það að hrista höfuðið upp og niður merkir já, en til hægri og vinstri merkir nei. Þetta er öfugt í Búlgaríu. Ef þú dregur þumalputta yfir hálsinn merkir það að einhver sé dauður eða dauðans matur í Rúmeníu en í Póllandi þýðir það að einhver sé drukkinn.
Í þessum áfanga erum við að lesa brot úr sögunni Ferdydurke eftir höfundinn Witold Gombrowicz. Gombrowicz notaðist mikið við líkamstjáningu í verkum sínum og er talinn í dag vera meðal fremstu rithöfunda Póllands. Hann þótti oft mjög klámfenginn og t.d. eru flestar persónur í Ferdydurke nefndar nöfnum sem vísa í orð sem notuð eru yfir getnaðarlim. Nöfnin mætti því þýða sem Böllur, Besefi, Félagi, Kompán og Lókur.
Verk hans einkennast af djúpum sálargreiningum, andstæðum og absúrdískri andþjóðerniskennd. Hann kynnti öll sín hefðbundnu þemu í Ferdydurke, svo sem vandamál og (van)þroska æskunnar, sköpun sjálfsins í samskiptum við aðra og krítíska skoðun á hlutverkum ólíkra stétta í pólsku samfélagi. Hann öðlaðist frægð tiltölulega seint á ævi sinni en hann var tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna fjórum sinnum á árunum 1966 til 1969.
Hann fæddist í Małoszyce í Suðaustur-Póllandi 1904 sem þá var, eins og Varsjá Gierymskis hér að ofan, hluti af rússneska keisaradæminu. Fjölskylda hans tilheyrði stétt ríkra landeiganda sem flutti frá Małoszyce til Varsjár 1911. Hann nam lögfræði við Varsjárháskóla og lauk þar námi með réttindum til að vinna sem lögfræðingur 1927. Eftir námslok í Póllandi fór hann til Parísar þar sem hann lagði stund á frekara nám í alþjóðlegum fræðum. Hann snéri aftur til Póllands ári seinna þar sem hann reyndi að sækja um vinnu sem lögfræðingur með litlum árangri og byrjaði þá að skrifa. Eftir töluvert bras og brölt skrifaði hann sína fyrstu skáldsögu, Ferdydurke, árið 1937.
Rétt áður en að seinni heimsstyrjöldin skall á slóst hann með í jómfrúarför pólska áætlunarskipsins MS Chrobry til Suður-Ameríku. Þegar hann heyrði af byrjun stríðsins í Evrópu ákvað hann að bíða til stríðsloka í Buenos Aires. Hann gaf sig fram til herþjónustu við pólsku sendinefndina 1941 en var talinn óhæfur til starfa sem hermaður. Hann dvaldi í Argentínu til ársins 1963 og bjó oft við töluverða fátækt, þó aldrei jafn mikla og á sjálfum stríðsárunum.
Á fimmta áratug síðustu aldar reyndi hann að koma sér á framfæri á bókmenntasenu Argentínu með því að skrifa greinar, halda fyrirlestra og að lokum með því að þýða Ferdydurke yfir á spænsku með hjálp vina sinna. Þessi útgáfa bókarinnar er í dag talinn vera mikill orsakavaldur þeirra strauma sem seinna gætti í argentínskum bókmenntum en á sínum tíma gerði útgáfan lítið til að kynda undir frægð hans. Á árunum 1947 til 1955 vann hann sem gjaldkeri í Banco Polaco, argentínsku útibúi pólska bankans Bank Pekao. Á þessum árum öðlaðist hann vináttu Zofiu nokkurrar Chądzyńsku sem kynnti hann fyrir menningarelítunni í Buenos Aires.
Enginn pólskur þýðandi vann jafn ötullega að því að kynna suður-amerískar bókmenntir fyrir Pólverjum og Zofia Chądzyńska sem þýddi yfir ævina yfir 100 bækur úr spænsku yfir á pólsku.
Upp úr 1950 hóf hann að skiptast á bréfum við Jerzy Giedroyc og næsta ár byrjaði hann að birta verk sín í frönskum tímaritum. Í október 1956 (sama ár og Níkíta Khrústsjov flutti „leyniræðuna“ á 20. flokksþingi kommúnistaflokksins) fékk hann gefnar út fjórar bækur sínar í Póllandi og var þeim mjög vel tekið.
Gombrowicz var í fjölmörgum ástarsamböndum, með konum jafnt sem körlum. Í bókaröð sinni Dagbókin (pól. Dziennik) skrifaði hann opinskátt um ævintýri sín í hommaundirheimum Buenos Aires, þá sérstaklega um reynslu sína með yngri mönnum úr lægri stéttum. Dagbókin fékkst auðvitað ekki útgefin í Póllandi.
Upp úr 1960 fór Gombrowicz að öðlast frægð nokkuð víða fyrir verk sín og voru mörg verk hans, þar á meðal Klám (pól. Pornografia) og Kosmósið (pól. Kosmos), þýdd yfir á fjölmörg tungumál. Margar bækur hans voru endurskrifuð sem leikrit, sem rötuðu á svið í Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð.
Eftir úthlutun styrks frá Ford-stofnuninni snéri Gombrowicz aftur til Evrópu 1963. Hann sigldi með ítölsku skipi til Cannes og tók síðan lest til Parísar. Lesa má um ferðalagið í dagbókum hans. Hann dvaldi eitt ár í Vestur-Berlín og þurfti að búa þar við ærumeiðandi ritherferð pólskra yfirvalda. Heilsu hans hrakaði svo mjög í Evrópu að hann sá sér ekki fært að snúa aftur til Argentínu. Hann fór frá Vestur-Berlín aftur til Frakklands 1964 þar sem hann kynntist Ritu Labrosse, frönskumælandi Kanadabúa, sem hann flutti með til Suður-Frakklands sama ár. Undir lok 1964 var hann orðinn rúmfastur og gat ekki lengur skrifað. Í von um að hressa hann við stakk vinkona hans að nafni Dominique de Roux, rithöfundur og útgefandi, upp á því að hann gæfi 13 fyrirlestra um sögu heimspekinnar sem hún og Labrosse skrifuðu síðan niður. Fyrirlestrar þessir voru seinna gefnir út undir titlinum Sex klukkustunda og korterslangur vegvísir um heimspekina. Gombrowicz og Labrosse giftu sig 1967 en Grombrowicz dó 1969, áður en hann gat flutt sinn síðasta fyrirlestur um heimspekina.

Annars er ýmislegt að frétta í Póllandi.
Andrzej Duda staðfesti myndun nýrrar ríkisstjórnar 27. nóvember síðastliðinn. Það sem sérstakt þykir við þessa ríkisstjórnarmyndun er sú vissa að hún endist bara í tvær vikur, þar sem hún hefur ekki þingmeirihluta á bakvið sig. Hún er mynduð af flokknum Lög og réttlæti sem fékk flest atkvæði sem stakur flokkur. Síðan verður önnur ríkisstjórn mynduð af bandalagi þeirra þriggja flokka sem fengu flest atkvæði samtals í kosningunum. Sú kenning sem er vinsælust þessa dagana er að forsvarsmönnum Laga og réttlætis gangi tvennt til, að kaupa sér tíma til að eyða sönnunargögnum um spillingu og koma því svo fyrir að flokksgæðingar fái starfslokasamning (hér fá ráðherrar slíka bónusa, þannig að það er bara tímaspursmál hvenær slíkt kerfi verði tekið upp á Íslandi) og ráðherraeftirlaun.
Andrzej Duda hefur heimild til þess í lögum að veita þeim flokki sem fékk flest atkvæði umboð til að mynda ríkisstjórn en eins og fólk hefur bent á er þetta heimild, ekki skylda.
Tvennt þykir sérstakt við þessa skammlífu ríkisstjórn, hún samanstendur af fólki sem er töluvert yngra en ráðherrar hafa verið auk þess sem helmingur hennar eru konur. Talið er víst að verðandi ríkisstjórn Donalds Tusks muni ekki hafa sama kynjahlutfall. Þá hafa leiðtogar Laga og réttlætis bent á að þessi ríkisstjórn samanstandi af sérfræðingum en ekki atvinnustjórnmálamönnum. Þessi ríkisstjórn hefur núna tvær vikur til að búa til ríkisstjórnaráætlun sem síðan verður kynnt í Sejm, pólska þinginu, og síðan er kosið um traustsyfirlýsingu. Fái sú yfirlýsing ekki næg atkvæði, sem vitað er nú þegar það sem Lög og réttlæti hafa ekki lengur hreinan meirihluta innan þingsins, er ríkisstjórnin fallin. Þá mun Sejm setja fram eigin kandídata í stöðu forsætisráðherra sem eflaust verður Doland Tusk.
Nýlega var kosið um þátttöku ríkisins á niðurgreiðslu frjósemisaðgerða sem fráfarandi ríkisstjórn ákvað á sínum tíma að hætta. Heildarupphæð til þessa málaflokks verður a.m.k. 500 milljón złoty eða 17 milljarðar króna. Af 460 þingmönnum kusu 268 með frumvarpinu. Árið 2015 þegar ríkisstjórn Laga og réttlætis var nýkomin til valda var ákveðið að hætta niðurgreiðslu til fólks sem gekkst undir frjósemisaðgerðir á þeim forsendum að ekki væru til nægilegir peningar. Hinsvegar hefur verið bent á að flokkurinn hafði og hefur mjög náin tengsl við kaþólsku kirkjuna sem hefur verið gegn frjósemisaðgerðum af trúarástæðum. Þær borgir sem voru undir stjórn stjórnarandstöðuflokka stigu inn og léttuðu undir með því að veita fé úr borgarsjóðum til að aðstoða borgarbúa við barneignir.
Þá var nýlega kosinn nýr umboðsmaður barna á pólska þinginu. Fráfarandi umboðsmaður var íhaldssinni, á móti því sem kallað hefur verið að misvelgefnu fólki „hinsegin hugmyndafræði“ og var einnig sakaður um að vera ekki mótfallinn líkamlegum refsingum. Þá gaf hann kynfræðslukennurum að sök að gefa börnum hormóna til að gera þau trans. Eftir að ljóst varð að ríkisstjórnin sem að kaus hann til starfsins væri fallinn skrifaði hann pistil í dagblað um að krossum í skólum landsins yrði skipt út fyrir regnbogafána og hálfmána. Monika Horna-Cieślak, sem kosin var til að taka við af þessum manni, er 32 ára gamall lögfræðingur og aktívisti sem hefur unnið að réttindum barna frá því að hún var unglingur. Í viðtali sínu við þingnefndina sem ræddi við hana varðandi mögulegt starf staðfesti hún að hún myndi styðja regnbogaföstudaga í skólum landsins. Þá hefur hún einnig sagst vera þeirrar skoðunnar að kynfræðsla væri nauðsynleg og að líkamlegar refsingar í uppeldi barna væru ekki í lagi. Forveri hennar var hinsvegar á því að það væri stigsmunur á líkamlegum refsingum og væru flengingar ekki ofbeldi.
Stanley Bill, prófessor í pólskum fræðum og deildarstjóri pólskra fræða við Cambridge háskóla, skrifaði nýlega pistil sem ber titilinn „Bakslagið við bakslaginu“ þar sem hann ræðir misheppnaða íhaldsbyltingu fráfarandi ríkisstjórnarflokksins.
„Ríkjandi kenning varðandi árangur hægrisinnaðra popúlista er „menningarbakslag“ gegn framsæknum samfélagsbreytingum – hvort sem þær séu raunverulegar eða yfirvofandi. Eldri kjósendur og þeir sem búa utan þéttbýliskjarna eiga að finnast sér ógnað með breytandi gildum og búferlaflutningum, ógn sem býr til frjóan jarðveg fyrir þau pólitísku öfl sem lofa að halda í hefðbundin félagsleg gildi.
Pólland er ágætis ferilsathugun til að sannreyna þessa keningu, þar sem hinn íhaldsami flokkur Lög og réttlæti hafa verið við völd í 8 ár með stefnuskrá sem hindrar búferlaflutninga frá löndum utan Evrópu og sem verndar félagsleg gildi tengd kaþólskunni gegn mögulegum breytingum.
Hinsvegar hefur stofnanavæðingu Laga og réttlætis á hægrisinnuðu „menningarbakslagi“ verið fylgjandi aukið frjálsræði pólsks samfélags. Nýlegt tap flokksins á þingmeirihluta – og viðbúið fráhvarf hans úr ríkisstjórn – gæti hafa verið að hluta til afleiðingar „andhverfs menningarbakslags“ gegn íhaldsamri byltingu þeirra og stefnum.
Flokkurinn Lög og réttlæti er óvenjulegur flokkur í samhengi hins vestræna lýðræðis. Hann fer gegn hefðbundnum hægri/vinstri skiptingu stjórnmála þar sem hann hefur gjörólíkar stefnur í fjár-og menningarmálum miðað við aðra slíka flokka innan Evrópu. Hann er vinstrisinnaður í jafnaðarlegri fjármálastefnusinni en hægrisinnaður í menningarmálum. Þessi blanda rímar mjög vel við skoðanir stórs hluta pólskra kjósenda.
Árangur Laga og réttlætis hefur umbreytt stjórnmálasenu Pólands hvað fjármál varðar, þar sem vinsældir jafnaðarstefnumála flokksins hafa að meira að segja ýtt flokkum sem hallir eru undir afnám hafta í fjármálum – líkt og Borgaraflokkinn, stærsta stjórnarandstöðuflokkinn – til vinstri í slíkum málefnum.
Kosningasigrar Laga og réttlætis 2015 og 2019 voru að hluta til vegna þess að flokkurinn efndi loforð sín, sem vissulega umbreyttu lífum margra Pólverja, drógu úr fátækt og endurheimtu stolt þeirra sem bjuggu í dreifbýli sem lítið hafði verið hugsað um. Stjórnarandstaðan gæti eingöngu unnið í kosningunum 2023 ef hún lofaði að viðhalda því sem hafði áunnist.
En þegar það kom að málefnum líðandi stundar í menningarstríðum Pólands – fólksflutningar, hlutverk kaþólsku kirkjunnar, réttindi hinseginfólks, ásamt öðrum – hafði Lög og réttlæti blendin áhrif. Í ýmsum málefnum kann hægrisinnuð orðræða þeirra sem og regluverk að hafa haft þau áhrif að koma af stað frjálsræði, bæði innan pólsks samfélags og í stefnuskrám andstæðinga sinna.
Pólland er ennþá nokkuð íhaldssamt land, þar sem trúin spilar stórt hlutverk, en þessi breyting í átt að auknu félagslegu frjálsræði hefur haft afdrifaríkar pólitískar afleiðingar.
Í október 2020 ákvað Lög og réttlæti að skerða mjög rétt til þungunarrofs, með tilskipum sem kom í gegnum stjórnarskrásdómstólinn, sem flokkurinn hafði alfarið mannað sjálfur. Tilskipunin varð til þess að mótmælaöldur brutust út sem varð til þess að hundruðir þúsunda fóru út til að mótmæla mitt í fyrstu Covid-bylgju landsins.
Á sama tíma og andlátstíðnin var að ná hæstu hæðum og vegum landsins var lokað af bændum sem voru að mótmæla óvinsælu frumvarpi um dýravelferð, var land og þjóð gegnsósa af heift almennings. Í fyrsta sinn síðan flokkurinn komst til valda leit allt út fyrir að hann hefði misst tökin.
Október 2020 er lykilaugnablik í því fráhvarfi flokksins frá völdum. Samspil ólíkra þátta varð til þess að stuðningur flokksins fór úr 44% í 34%, stuðningur sem flokknum tókst aldrei að endurheimta. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 35% atkvæða, eftir að fá 44% atkvæða í kosningunum 2019.
Nær algjört bann við þungunarrofi virðist hafa verið droppinn sem fyllti mælinn í viðhorfi almennings varðandi þennan málaflokk. Þrátt fyrir að það sé munur á milli kannanna, þá sýna meira að segja hófsömustu kannanir aukningu á þeim Pólverjum sem studdu frelsi í þungunarrofsmálum og klár meirihluti var hlynntur því að taka aftur upp gömlu „málamiðlunarlögin“ sem samþykkt voru 1993.
Ennþá sterkari tilhneyging til frjálsræðis gætti hjá kjósendum stjórnarandstöðuflokka og varð til þess að Donald Tusk, sem áður hafði farið sér hægt varðandi þennan málaflokk, breytti stefnuskrá flokks síns til að heimila þungunarrof fram að tólftu viku. Eins og Tusk komst að orði, þá hafði Lög og réttlæti afnmumið þá samfélagslegu málamiðlun sem áður hafði ríkt varðandi þungunarrof, og þar af leiðandi gert aukið frjálsræði í þungunarmálum raunhæft stefnumál stjórnmálaflokka.
Í kosningunum 2023, þar sem kjörsókn fór fram úr björtustu vonum, er talið að þungunarrofslöggjöfin hafi skilað kjósendum á kjörstað til þess að kjósa Lög og réttlæti burt. Samkvæmt einni útgönguspá voru það réttindi kvenna og þungunarrofslöggjöfin næstmikilvægust kjósendum, í sama sæti og þjóðaröryggi. Eingöngu efnahagsmál voru kjósendum ofar í huga.
Eftir kosningarnar viðurkenndu fjölmargir innan Laga og réttlætis, forsætisráðherrann Mateusz Morawiecki þeirra á meðal, að ákvörðun flokksins að þrengja að réttindi fólks til þungunarrofs hafi verið þeirra stærstu mistök. Forsætisráðherrann opinberaði á sama tíma að margir innan innsta hring flokksins höfðu varað við afleiðingum laganna, þar sem að þau voru líkleg til að ýta fólki til vinstri.
Formaður Laga og réttlætis, Jarosław Kaczyński hafði lengst af forðast að taka ákvarðanir eða gera stefnubreytingu varðandi þungunarrofslögin, ýmist með því að hafna eða fresta aðgerðum af ótta við neikvæð viðbrögð kjósenda, sem voru hlynntir „málamiðlunarlögunum“. Í lokin voru það lykilstuðningsmenn innan kirkjunnar og íhaldsömustu þingmanna flokksins sjálfs sem neyddu Kaczyński til þess að taka ákvörðun sem hann vildi ekki taka.
Lög og réttlæti hefur þurft að gjalda þessa ákvörðun dýru verði. Ofmetnaður flokksins varðandi þungunarrof leiddi til andhverfs bakslags, sem síðar leiddi til breytingu á áliti meðal almennings, gerðu aukið rými til þungunarrofs að stefnumálum flokka og var ef til vill það sem varð til þess að flokkurinn missti völd sín.
Eflaust eiga drastískar breytingar hvað þetta varðar ennþá langt í land, þar sem að töluverð gjá er á milli flokka í komandi ríkisstjórnarsamstarfi, sem myndað verður af hinum frjálslynda Borgaraflokki, frjálslyndari Vinstriflokknum og Þriðju leiðinni sem er íhaldssamur miðjuflokkuir.
Það fyrsta sem flokkarnir hafa sammælst um er loðin yfirlýsing á ógildingu dómsins 2020, sem gefur í skyn að endurupptaka „málamiðlunarlaganna“ sé minnsti mögulegi samnefnari ólíkra stefnu flokkanna hvað þungunarrof varðar.
Sama hvað flokkarnir koma sér saman um í framtíðinni hvað aukið frjálsræði varðar þurfa þeir áfram að kljást við dómstóla sem eru mannaðir fólki handvöldu af Lögum og réttlæti auk þess sem að forsetinn sem hallur er undir fráfarandi ríkisstjórnarflokk getur alltaf beitt neitunarvaldi sínu.
Í þrem kosningaherferðum sínum á árunum 2019-2020 ákvað Lög og réttlæti að tala ræða um þá ímynduðu ógn sem flokkurinn titlaði „hinsegin hugmyndafræði“ til þess að hræða íhaldssama kjósendur. Flokkurinn, fjölmiðlar og vandamenn flokksins innan kirkjunnar gerðu síendurteknar árásir á réttindabaráttu hinseginfólks á þeim forsendum að hún væri innflutt [þ.e. ekki pólsk] og alræðisleg ógn við pólsku þjóðina.
Andrzej Duda, forseti Póllands sem studdur var af Lögum og réttlæti var endurkjörinn með því að stönglast á „hugmyndafræði illskunnar“ sem hafði það að leiðarljósi að „kynvæða“ börn, á meðan að sveitarfélög sem stjórnað af Lögum og réttlæti settu sér þá táknrænu stefnuyfirlýsingu að sveitir þeirra og sýslur væru „laus undan hinsegin hugmyndafræði“.
Þessi orðræða Laga og réttlætis höfðaði mjög til trúrækinna íhaldsmanna, en virtist á sama tíma snúa almenningsáliti í átt að hægri. Hægt var á auknu frelsi í hinsegin málefnum og sum réttindi tekin til baka.
Engu að síður virðist það svo vera að þessar aðgerðir stjórnvalda hefðu skammvinnan árangur, þar sem að aukins frjálslyndis var að gæta eftir 2020. Í ýmsum skoðanakönnunum var marktækur aukinn stuðningur við réttindi hinsegin fólks og meira að segja stuðningur við hjónabönd samkynja fólks náði nýjum hæðum, 34% á landsvísu.
Einn framkvæmdaraðili slíkrar könnunnar sagði að þetta frjálslyndi gæti í raun verið niðurstaða aukinnar orðræðu Laga og réttlætis gegn hinsegin fólki. Því meira sem kjósendur heyrðu um málið, því minna var það þeim framandi og því minnkaði sú mögulega ógn sem þeim fannst steðja af hinsegin fólki.
Einnig er talið að sumum kjósendum hafi ekki hugnast sú afmennskun sem Lög og réttlæti notaðist við þegar flokkurinn ræddi um hinsegin fólk, og því hafi kjósendur haft aukna samúð með þeim sem flokkurinn talaði gegn. Pólland er ennþá íhaldssamt á evrópskum mælikvarða, en málefni hinsegin fólks er ekki lengur eldfimt.
Í samræmi við þetta þá var „hinsegin hugmyndafræði“ horfin af stefnuskrá Laga og réttlætis í kosningarherferðinni 2023. Á hátindi áróðurs Laga og réttlætis gegn réttindum hinsegin fólks 2019 voru 30 af hverjum 35 fréttum af málaflokknum neikvæðar. 2023 var eins og hinsegin fólk væri ekki lengur til, í stað þess þurfti að tala um hina síauknu ógn hælisleitenda.
Á sama tíma virðist sem að mörg sveitarfélög hafa dregið yfirlýsingar sínar um að vera frjáls undan „hinsegin hugmyndafræði“ til baka undir þrýstingi frá ESB sem neitaði að úthluta þeim fé úr sjóðum sínum.
Í stuttu máli má því segja að Lög og réttlæti hafi viðurkennt ósigur sinn í málum hinsegin fólks að sinni – allavega hefur flokkurinn viðurkennt að málaflokkurinn sé ekki lengur jafn eldfimur og komi mögulega til með að fæla burt kjósendur sem eru nær miðjunni.
Málaflokkurinn gæti mögulega snúið til baka í annarri mynd, til dæmis með áherslu á réttindi transfólks – Kaczyński er sagður hafa þreifað fyrir sér með þá hugmynd 2022 áður en hann hætti alfarið við það. Pólitískur ávinningur er einfaldlega ekki nægur til að hann borgi sig.
Fólksflutningar eru eitt af þeim málum sem Lögum og réttlæti hefur tekist að nota til að ýta viðhorfi samfélagsins sem og annarra flokka til hægri. Síðan að ríkisstjórn Laga og réttlætis mótmælti fyrst frumvarpi ESB um móttökum á flóttafólki þegar neyð flóttafólks var sem mest árin 2015-2016 hefur viðhorf almennings varðandi flóttafólk frá Miðausturlöndum og Afríku orðið neikvæðara.
2018 voru 75% Pólverja á móti því að taka við fólki frá þessum svæðum, töluverð aukning við þau 53% sem voru á móti því snemma 2015.
Hryðjuverkaárásir í Vestur-Evrópu hafa eflaust lagt sitt af mörkum til þessara viðhorfsbreytinga, sem mátti einnig sjá í auknum ótta við fólksflutninga í samfélögum í álfunni allri. En neikvæður, asakenndur fréttaflutningur ríkisfjölmiðla gegn flóttafólki mun líka hafa ýtt ennþá frekar undir þessar viðhorfsbreytingar í kosningabaráttunni 2023.
En meira að segja hvað þetta málefni varðar, þar sem að orðræða Laga og réttlætis hefur verið ríkjandi í almennri umræðu, eru ótrúlegar þversagnir sem benda til annarra ástæðna [en í málefnum hinsegin fólks] á bakvið umbreytinguna í viðhorfi fólks.
Pólverjar unnu hug og hjarta allra fyrir stuðning þeirra við milljónir flóttafólks frá Úkraínu í upphafi innrásar Rússlands 2022. En Pólland hefur líka séð fordæmalausa aukningu á fólki sem flust hefur þangað af efnahagslegum ástæðum, en ekkert land innan ESB hefur gefið jafn mörg dvalarleyfi til ríkisborgara utan ESB og Pólland síðan 2017.
Stjórnarandstaðan hefur einnig notað þetta til að gagnrýna Lög og réttlæti, komandi með hrakspár og það sem eru talin illa unna tölfræði um útgefin dvalarleyfi til þeirra sem koma frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta.
Þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar, sem kveður við kunnulegan and-íslamskan tón, þykir sýna fram á árangur Laga og réttlætis í umræðu um fólksflutninga og stefnubreytingu almenningsáltis í átt að hægri.
Þrátt fyrir allar þessar ádeilur er Pólland orðið að áfangastað fyrir fólk sem flytur af efnahagslegum ástæðum sem það þarfnast sárlega sjálft til að sinna þörfum vinnumarkaðarins og til að geta uppfyllt kröfur um lífeyrissjóðsgreiðslur.
Fæðingartíðni er mjög lág og íbúafjöldi fer minnkandi, hefur hin pólska Tryggingastofnun gefið út að til þess að geta viðhaldið núverandi eftirlaunakerfi, verði Pólland að hafa 2.8 milljón innflytjendur fyrir árið 2032 – 13% af öllum á vinnumarkaði.
Á skömmum tíma er Pólland að verða fjölbreyttara en það hefur verið á nokkrum tímapunkti síðan eftir seinni heimsstyrjöldina. Framtíð landsins veltur á því að það geti laðað til sín fleira fólk erlendis frá.
Lög og réttlæti hefur umbreytt Póllandi með því að færa miðju stjórnmálanna til vinstri í efnahagsmálum hvað varðar félagslega kerfið og þjóðarefnahag. En hægrisinnuð gangbylting þeirra í menningarmálum hefur ekki gengið sem skildi og hefur á sinn máta jafnvel orðið flokknum að falli.
Það sem gerst hefur í Póllandi hefur víðtæka merkingu fyrir lýðræðisleg stjórnmál, því það sýnir það að þegar „menningarlegu bakslagi“ er beint gegn framsæknum samfélagsbreytingum á stofnanalegan hátt, kæmi það til með að snúast upp í andhverfu sína og ýta undir hraðari samfélagsbreytingar.
Í þessu tilfelli er samfélagsbreytingarnar einnig tengdar minnkandi tengslum fólks við trúarlegar stofnanir, sér í lagi ungs fólks. Þau minnkandi tengsl eru mögulega tengd þeim hneykslismálum sem einkennt hafa kirkjuna síðustu ár og því að stjórnmálaflokkar hafa notfært trú fólks í pólitískum tilgangi. En þessar breytingar eru einnig afleiðingar aukins hags fólks og hreyfanleika innan pólsk samfélags.
Pólland er, eins og áður segir, íhaldssamt land í samanburði við önnur lönd í Evrópu. En aukið frjálslyndi sækir á og flestir Pólverjar eru skeptískir í garð íhaldssamrar gagnbyltingar í pólitískri mynd“.
Ég verð í tímum til 21. desember en þann daginn tek ég lest til Wrocław og flýg síðan heim fyrir jólin. Lokapróf eru haldin eftir jól en þau verða ekki mörg. Flestir kennarar vilja frekar að við höldum kynningar, það sparar þeim prófayfirferð.
Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd