Póllandspistill 16.

Töluverð úrkoma hefur verið hér í Poznań síðustu daga og hefur áin Warta flætt yfir bakka sína. Ekki stefnir í nein flóð, en síðustu ár hefur verið mjög lítið í ánni vegna of lítillar rigningar. Vatnsbúskapur og aðgengi að vatni var eitt af því sem var til umræðu þegar síðast var gengið til kosninga í Póllandi. Donald Tusk lofaði pólskum bændum auknu aðgengi að ódýru og góðu vatni.

Á föstudaginn söfnuðu bændur liðu, keyrðu dráttarvélum sínum inn í miðbæ flestra stórborga í Póllandi og hófu mótmælaaðgerðir sem áætlað er að vari næstu 30 daga. Bara hér í Poznań taldi lögreglan um 1380 dráttarvéla í miðbænum. Snemma um morguninn kom melding frá strætóappinuJakdojade (á íslensku mætti þýða þetta sem Hvernig kemst ég til), að töluverð röskun yrði á allri umferð í borginni fram eftir degi. Þá hafa bændur líka lagt stærri bifreiðum til að loka helstu vegum frá úkraínsku borginni Dorohusk til Póllands sem notaðir eru af vörubílstjórum til þess að flytja úkraínskar landbúnaðarafurðir til ESB.

Hér má sjá kort af því hvar mótmælu voru haldin:

Bændur settu pólska fánann á traktorana og strengdu á þá skilti með slagorðum sem beindust bæði að Donald Tusk og landbúnaðarráðuneytisstjórna ESB sem kemur úr röðum PiS, flokknum sem var í ríkisstjórn síðustu tvö kjörtímabil.

Bændur sögðu að staðan þyrfti að vera mjög slæm til þess að þeir gerðu sér ferð frá býlum sínum í heilann dag með ærnum tilkostnaði, enda kostar að keyra traktora úr bæjum inn í borg, auk þess sem að menn sem venjulega vaka og sofa yfir skepnum sínum er illa við að skilja þær eftir í heilan dag.

Tekið var viðtal við mann að nafni Dawid Wolniak sem rekur býli ásamt foreldrun sínum. Hann hefur einu sinni tekið þátt í mótmælum áður, í lok janúar í bænum Sękowo, örlítið fyrir sunnan Poznań. Hann sagðist vera mættur vegna þess að nú flæðir yfir Pólland korn frá Úkraínu, sem veldur því að korn frá pólskum bændum selst ekki eða lækkar töluvert í verði.

„Við erum bara með lítið fjölskyldubýli, en þetta er ekki bara okkur vandamál. Þetta hefur áhrif á alla bændur“.

Sebastian Dziamski er 24 ára gamall bóndi frá Duszniki. Hann er mótfallinn innflutningi og sölu á korni frá Úkraínu. Hann stofnaði grúppu á netinu sem heitir Landbúnaður í Stóra-Póllandi (pól. Wielkapolska, svæðið sem ég bý í). Hann átti ekki von á því að svo margir bændir myndu sameinast grúppunni og stendur nú til að koma á fót samtökum undir sama nafni. Sebastian segist ekki hafa nokkrun áhuga á pólitík, hann vilji bara vera bóndi. Ásamt foreldrum sínum og bræðrum rekur hann 400-hektara bú þar sem þau rækta 100 nautgripi. Hann segir ESB herða að rekstrinum með sístífari og íþyngjandi regluverki.

„Það er vegna aðgerðarleysi þíns að bændur flykkjast nú frá bæjum sínum, herra Wojciechowski“ sögðu borðar utan á traktorum og er þeim orðum beint að landbúnaðarráðuneytisstjórna ESB, Januszi Wojciechowski, sem kosinn var til formanns að tilstuðlan PiS. Einnig voru nokkur skilti sem ávörpuðu formann núverandi ríkisstjórnar, „Þetta er allt Tusk að kenna“. Aðrir sem tóku þátt í mótmælunum voru sjálfstæðir svínabændur og rauðrófuræktendur. Bestu slagorðin að mati pistlahöfundar var tvímælalaust: „án okkar verðið þið svöng, nakin og edrú“ og „bæði mýs og keisarar lifa á því sem bændur rækta“.

Sveitastjóri Stóra-Póllands, Agata Sobczyk, tók á móti bændum, bauð þeim inn á skrifstofu til sín og sagðist ætla að taka umkvörtunarefni þeirra lengra, fara með þau til ríkisstjórnarinnar.

Hún ávarpaði síðan stærri hóp bænda á götu úti. „Ég skil vandamál ykkar og geri mér grein fyrir því að þið eruð undirstaða matvælaframleiðslu í Póllandi. Ég mun ekki vera aðgerðarlaus þegar mótmælum líkur“.

Einn bóndi hafði fest vagn við sinn traktor fullan af skít og reist fánastöng með fána ESB upp úr haugnum.

Annar bóndi, Janusz Białoskórski að nafni, tjáði sig um Græna Sáttmála ESB og segja hann sniðinn að iðnaðarbúskap og murki hægt og rólega lífið úr litlum býlum. Hann talaði líka um Úkraínu: „Auðvitað viljum við [bændur] hjálpa þeim. Ég og konan mín veittum mörgum húsaskjól í upphafi stríðsins. En við vitum í dag að þær búvörur sem eru fluttar inn til Póllands frá Úkraínu eru ekki að koma frá smábýlum eins og okkar heldur frá nokkrum stórum landbúnaðarsamsteypum sem hafa fjársterka bakhjarla. Auðvitað eigum við að hjálpa Úkraínu og Úkraínubúum en ekki á kostnað pólskra bænda“.

Tomasz Kubera frá þorpinu Dominowo vinnur á býli sem tilheyrt hefur fjölskyldu hans í nokkra ættliði. „Ég er fjórða kynslóðin sem vinnur sem bóndi. Ég er með 160-hektara jörð, langafi minn byrjaði með 7. Ég veit ekki hvort að börnin mín komi til með að taka við búinu, því við eyðum meiri og meiri tíma í nær óendalega skriffinnsku. Ég kem ekki heim skítugur í enda dags því ég hef þurft að fylla út eyðublöð inni á skrifstofu alla daginn“. Bændur óttast að börn þeirra vilji síður taka við búinu eftir þeirra dag, þar sem að landbúnaður er orðinn skrifstofuvinna. Reglufarganþreyta (e. regulation fatigue) er hugtak sem maður sér oftar og oftar í fjölmiðlum.

Hann bætir við: „Annars borgar landbúnaður sig varla. Við fáum allt of lítið borgað fyrir þær afurðir sem við framleiðum“. Reglufarganið er þannig að hann hefur ekki getað stækkað býlið sitt síðustu fimm árin.

Það kom bændum á óvart hversu góðar viðtökur þeir fengu frá Agötu Sobczyk. Þeir lögðu fram 7 kröfur en tvær þeirra eru langmikilvægastar að mati bænda. Önnur er sú að ákvæði Græna Sáttmálans um að bændur hvíli 4% af landi sínu á milli ára verði felld úr gildi. Þetta hlutfall mun hækka úr 4% upp í 10% á komandi árum. Hin er sú að landbúnaðarafurðir frá Úkraínu og öðrum löndum sem standast ekki þær kröfur sem gerðar séu af ESB til aðildarlanda sinna sé ekki hleypt inn fyrir landamæri sambandsins. Græna Sáttmálanum þarf að skrifa upp á nýtt.

Í viðtölum sem ég horfði á sögðu bændur líka að pólska ríkið sjálft þarf líka að koma til móts við bændur þar sem öll innflutt aðföng hafa snarhækkað í verði, auk þess sem orka er dýrari. Bændur nýttu tækifærið þegar fólk safnaðist saman til að horfa á mótmælim að gefa almenningi epli sem þeir ræktuðu auk dreifibréfs sem á stóð: „ef þú kaupir epli beint af bónda, kostar kílóið 1.50 złoty en úti í búð kostar það 3.5“. Vor er í kortunum og bændur eiga ekki efni á áburði. Bændur segja líka að þeir séu ekki einungis að mótmæla eigin kjörum heldur kjörum neytenda.

Málefni bænda eru efst á baugi á nýju ári. Kannanir sýna að flestir Pólverja, óháð því hvar þeir eru í pólitík, styðja bændur. Menn eru sama máli með að þetta sé fyrsta prófraun ríkisstjórnar Donalds Tusk. Donald Tusk ávarpaði bændur í Morąg og sagði að það væri kominn tími til að ákvarðanir um landbúnað væru teknar ekki bara af ráðamönnum heldur bændum sjálfum. Þá hefur landbúnaðarráðherra Póllands tilkynnt að í vikunni verði birtur listi yfir þau fyrirtæki sem hafa flutt inn korn frá Úkraínu.

Pólskir bændur eru ekki þeir einu sem eru að mótmæla í álfunni. Bændur í Þýskalandi, Frakklandi, Rúmeníu, Grikklandi, Litháen, Belgíu og Lettlandi eru einnig að mótmæla.

Annars hefur verið ákveðið að skera niður stofn villisvína í Póllandi af ótta við svínaflensu (e. ASF, eða African swine fever). Búið er að gera tilskipun sem kveður á um að veiða eigi ekki færri en 6.500 svín. Á meðan að pestin smitast ekki yfir í fólk þá óttast menn hér að hún dreifi úr sér í svínabúum. Síðan 2019 hafa verið veidd yfir 300.000 villisvín í Póllandi. Eingöngu 2-3% þeirra voru smituð af flensunni. Líffræðingur við Wrocław-Háskóla segir að þó svo að fólk smitist ekki sjálfir af flensunni þá getur það verið smitberar og er því sjálft hættulegast svínabúum. Þá hafa dýraverndunarsamtök bent á að helsta hætta á frekari smitum komi frá veiðimönnum sem fargi ekki hræjum á viðeigandi hátt heldur dragi þau á milli svæða. Úrræði ríkisins geri því vont verra. Þá hefur borgarstjórnin í Kraká beðið um fólk um að hætta að gefa villisvínum að borða en talið er að um 1.500 svín búi í borginni.

Pólverjar eru sérlega miklir dýravinir og er mikið um gæludýraeign hérna. Ég er nokkuð viss um að flestir í blokkinni minni eigi hund og á kvöldin tvisvar viku er hittingur hundaeiganda og þegar mest er hef ég séð 20 hunda. Þess má til gamans geta að ég hef aldrei séð hundaskít í húsagarðinum.

Þá hefur verið ákveðið að styrkja sauðfjárbændur í fjalllendi Suður-Póllands sérstaklega um tæpar 70 milljónir. Er þetta gert með það í huga að styrkja og viðhalda beit á þeim svæðum sem sauðfjárbændur hafa notað í aldir. Þá mun þetta hjálpa bændum að viðhalda sérstakri menningu sinni og ýta undir frekari afurðaframleiðslu. Suður-Póllandi er gerður sérstakur ostur sem kallast oscypek. Hann er gerður úr saltaðri sauðamjólk og er síðan reyktur. Til þess að ostur geti kallast ekta oscypek þarf hann að vera gerður í einni af sjö sýslum sem liggja við Tatra-fjöllin. Eingöngu eru 150 manns með réttindi og kunnáttu til að búa til þennan ost.

„Að beita kindum á fjallaafréttir kemur í veg fyrir ofvöxt á óæskilegum plöntutegundum og viðheldur landslaginu í því ásigkomulagi sem gerir það að eftirsóttum ferðamannastað. Okkur tekst að halda búsetu fólks í sveitunum og það fær að viðhalda menningu sinni“ – segir Łukasz Smółka, sveitastjóri Litla-Póllands, en sýslurnar sem við á falla undir hans valdsvið.

Styrkurinn heitir „menningarafréttir Litla-Póllands“ og geta sauðfjárbændur sem rækta eina af þrem ákveðnum tegundum sauðfjárs sótt um styrkinn.

Annars læt ég þetta gott heita í bili. Ég fer núna á fimmtudaginn til Varsjár og fer síðan til Búkarestar á föstudaginn í viku. Vonandi tekst mér að taka einhverjar myndir og finna efni í eins og 1-2 pistla. Ég lauk prófunum fyrir viku síðan og hef fengið allar einkunnir nema eina í hús.

Takk fyrir lesturinn.



Eitt svar við “Póllandspistill 16.”

  1. Sigurður R. Guðjónsson Avatar
    Sigurður R. Guðjónsson

    Fróðlegt að vanda, Eggert minn. Óvenjulega mikið um ástandið í dag en virkilega fróðlegt. Svona les maður ekki íslensku fréttamiðlunum. Góða ferð til Rúmeníu. Var þar sjálfur 1968, m.a. í Búkarest og fannst margt áhugavert.

    Kær kveðja!

    Líkar við

Skildu eftir svar við Sigurður R. Guðjónsson Hætta við svar