Ég gerði tilraun til þess að byrja að skrifa smá pistil um heimsókn sem ég fór í ásamt öðrum í náminu í safn hér í Poznań 9. október en síðan helltust yfir mig verkefnin þannig að lítið varð úr honum. Þetta er því seinni tilraun til þess að skrifa eitthvað um Pólland, Íslendingum til uppfræðslu og skemmtunar.
Ég er sumsé byrjaður á seinna árinu í meistaranámi mínu og gengur mér bara ágætlega. Ég er í tímum sem kallast Þróun pólskrar tungu í ljósi menningarlegra og siðmenningarlegra breytinga, Poppmenning í Póllandi, Pólsk menningarstarfsemi og Pólskar höfuðbókmenntir í samhengi evrópskra bókmennta.
Námið sem ég er í, pólsk fræði fyrir útlendinga, býður upp á tvær sérhæfingar, annars vegar kynning á pólskri menningu sem er sniðin þeim sem vilja seinna meir kenna pólsku sem annað mál og hins vegar þýðingar og útgáfa sem er ætluð þeim sem sjá það fyrir sér að vinna í bókaútgáfu og þýðingum. Ásamt þrem samnemendum frá Belarús og einum frá Úkraínu valdi ég þessa seinni sérhæfingu.
Innan sérhæfingarinnar sækjum við nokkur önnur námskeið sem eru eingöngu ætluð okkur. Á þessari önn eru það námskeiðin prófarkarlestur í forlögum og svo hlutverk þýðenda innan forlaga. Seinna námskeiðið er sérlega áhugavert þar sem að kennarinn hefur boðið til okkar forleggjurum sem voru einu sinni nemendur í pólsku við háskólann en starfa núna við bókaútgáfu.
Forlögin eru mörg hver með sína sérhæfingu og höfum við fengið tvær heimsóknir hingað til. Annað sem sinnir sérstaklega útgáfu á unglingabókum, bókum þýddum úr sænsku og þýsku. Hitt er með innan sinna vébanda þýðendur sem snara barnabókmenntum yfir á pólsku, með sérstaka áherslu á norrænar barnabókmenntir. Allir tala um þá kúnst sem það er að velja bækur sem falla pólskum lesendum í geð.
Oft eru það Pólverjar búsettir í einhverjum af Norðurlöndunum sem senda tillögur um bækur sem gætu farið vel ofan í pólska lesendur. Þá ræðum við um sérstök vandamál sem geta komið upp í þýðingum. Einn þýðandi finnskrar barnabókaseríu var í vandamálum hvernig þýða ætti yfir á pólsku heiti aðalpersónunnar. Vandamálið stafaði af því að á meðan að pólska er mjög kynjað mál, kynjaðra en íslenskan, þá er finnskan kynlaus. Hann, hún og það eru allt sama orðið á finnsku.
Einu sinni kom þáverandi samstarfskona mín með þá athugasemd að flestar frásagnir mínar í vinnunni byrjuðu á orðunum „ég var að lesa bók“, sem vissulega stemmir en ef ég var ekki að vinna þá var ég vissulega alltaf að lesa einhverja bók.
Einu sinni las ég bók sem bar titilinn China in Ten Words, eða Kína í Tíu Orðum eftir Yu Hua sem kom út 2010. Bókin er samansafn ritgerða sem segja frá persónulegri upplifun höfundar á atburðum í kínverskri sögu eins og Stóra stökkinu fram á við, Menningarbyltingunni og mótmælunum við Torg hins himneska friðar. Bókin er byggð á tíu orðum, þ.e. hugtökum sem hann skrifar í kringum þegar hann ræðir það og reifar sem hann hefur séð eiga sér stað í Kína.
Hugtökin sem hann skrifar um eru: Lýðurinn, tilvísun í Alþýðulýðveldið Kína; Stjórnandi, sem vísar í þann sem stjórnar og leiðir hóp, stofnun eða þjóð; Lestur, hvað það er að lesa úr orðum ritaðs mál og tákna þar á bak við; Ritun, hvað það er að færa mál í tákn; Lú Hsun, sem var áhrifamikill rithöfundur í Kína á fyrstu þrem áratugum 20. aldar (til er í þýðingu úr ensku eftir Halldór Stefánsson bókin Mannabörn eftir Lú Hsun sem inniheldur 5 sögur eftir hann fyrir áhugasama); Byltingin, tilvísun í Menningarbyltinguna; Ójöfnuður, þar sem fjallað er um sívaxandi ójöfnuð er varðar ólíka innviðauppbyggingu í dreifbýli og þéttbýli sem og aukið bil milli ríkra og fátæka; Grasrótin sem vísar í þá sem eru lægst settir í samfélaginu, sérstaklega efnahagslega séð; Hermikráka, þ.e. sá risastóri iðnaður í Kína þar sem hermt er eftir velþekktum vörumerkjum en með lakari gæðum og að lokum Svikamyllur, orð sem vísar í blekkingar, óðheiðarleika, fjársvik og rangfærslur.
Ég skrifa um þessa bók vegna þess að ég er einnig í tímum sem heita Pólsk lykilhugtök. Ólíkt orðunum sem Yu Hua notar hér að ofan og eru nokkuð óhlutbundin þá erum við að ræða orð, hugtök og menningarafurðir, þ.e. hlutkenndari hugmyndir. Þá ræðum við t.d. bíómyndir sem allir Pólverjar hafa séð, línur og senur í þeim kvikmyndum sem allir kunna utanbókar, barnabækur sem allir Pólverjar hafa lesið, ákveðna rétti sem allir borða á vissum tyllidögum o.s.frv. Það væri hinsvegar gaman að skrifa á einhverjum tímapunkti pistil innblásin af tíu orðum sem ég tengi við vissa afkima hinnar pólsku þjóðarsálar.

Þann 28. júní árið 1956 áttu sér stað fyrstu mótmæli í sögu Pólska Alþýðulýðveldisins. Á pólsku eru mótmælin oftast kölluð Júnímótmælin og mörkuðu þau viss kaflaskil í sögu landsins. Mótmælin voru ekki langlíf og voru bæld niður af öllu afli einungis tveim dögum eftir að þau hófust með 10.000 hermönnum og 400 skriðdrekum.
Á þessum tíma var Poznań mikil þungamiðja iðnaðar í Póllandi og var hér járnbræðsla sem kölluð var í daglegu tali ZISPO, Zakłady Przemysłu Metalowego im. Stalina Poznań eða Járnbræðslustöð Stalíns í Poznań. Almennir starfsmenn hennar lögðu fram kvörtun til stjórnarformanna smiðjunnar vegna þess að þeir töldu að af þeim hefði verið tekinn of mikill skattur þrjú ár í röð. Á sama tíma var mikil lífskjarakreppa í landinu og náði verðlag á matvælum hæstu hæðum.
Eftir að stjórnarformenn neituðu að aðhafast nokkuð er varðaði umkvörtunarefni starfsmanna ákváðu starfsmenn þessir, sem við gætum kallað starfsmenn á plani, að senda nefnd til Þungaiðnaðarmálaráðuneytisins í Varsjá til að skila til ráðherra þess málaflokks bréfi með umkvörtunarefnum þeirra.
Nefndin mætti til Varsjár 26. júní og afhenti ráðherra bréfið. Fólk í Poznań fylgdist með af mikilli eftirvæntingu, þar sem að viðlíka ástand var uppi á öðrum vinnustöðum, fólk var ýmist svikið um laun eða það gat ekki staðið undir kröfum rekstraráætlunar kommúnistaflokksins, sem gerð var 5 ár í senn hverju sinni.
T.d. má nefna að gerðir voru samningar um bónusgreiðslur til starfsfólks tækist þeim að uppfylla þann framleiðslukvóta sem settur var fram af stjórnvöldum. Hinsvegar var sá kvóti ýmist aukinn án fyrirvara auk þess sem að framleiðslumarkmið afurða var langt um meiri en hráefni gátu skilað af sér, þ.e. smiðja átti að skila af sér 5.000 tonnum af stáli en fékk til þess ekki nema 2.500 tonn af hrámálmum.
Sendinefndin snéri til baka frá Varsjá aðfararnótt 27. júní ásamt ráðherra sem hafði lofað þeim í Varsjá að athuga þessi mál persónulega. Næsta dag mætti ráðherrann í smiðjuna og tók til baka nokkur þeirra loforða sem hann hafði gefið nefndinni í Varsjá. Ofan á þetta bættist að töluverður fjöldi starfsmanna í smiðjunni hafði misst 30% af bónusgreiðslum sínum vegna óskipulagspoti ráðamanna og var andrúmsloftið vægast sagt eldfimt. Einnig fór fram á þessum sama tíma í Poznań vörusýning þannig að borgin var full af fréttamönnum.
Mótmælin hófust klukkan 06:00 um morgun 28. júní með verkfalli starfsmanna járnbræðslustöðvarinnar. Stuttu eftir í kjölfarið fylgdu starfsmenn á öðrum stórum vinnustöðum borgarinnar fordæmi þeirra í stálsmiðjunni og lögðu niður störf. Starfsmenn fóru í kröfugöngu sem breyttist í kröfugöngu almennings en talið er að allt að 100.000 manns hafi verið í göngunni. Fólk krafðist þess að fyrirskipanir um síaukin afköst yrðu afturkallaðar, verð á matvælum lækkað og laun hækkuð.

Ekki ætla ég að rekja mótmælin klukkustund fyrir klukkustund en ég tel nægja að taka fram að mótmælin voru brotin á bak aftur og alls létu 57 manns lífið, sá yngsti var 13 ára drengur. Þá var herlögum komið á og töluverður fjöldi fólks handtekinn, mestmegnis ungt fólk.
Í Morgunblaðinu þann 7. júlí 1956 er skrifað að helsta orsök uppþotanna í Poznań hafi verið atvinnuleysi. Ég tel það ekki koma heim og saman vegna þess að í Pólska Alþýðulýðveldinu eins og í Sovétríkjunum var vinnuskylda. Enginn gat verið án vinnu. Hinsvegar kemur það heim og saman við það sem hefur seinna verið skrifað um þessa atburði að enginn gat lifað á þeim launum sem hann fékk.
Fyrirsögnin sem ég setti inn hér að ofan er hinsvegar fengið úr Þjóðviljanum sem kom út 7. júlí 1956. Þar er því haldið fram að þetta hafi í raun og veru allt verið verkalýðsfélagi járnbræðslustöðvarinnar að kenna. Þá er því haldið fram að helmingur þeirra sem að féllu hafi verið lögregluþjónar, hermenn og embættismenn sem vörðu opinberar byggingar. Seinna er skrifað 12. júlí í sama blaði að þetta hafi í raun allt saman verið öllum að kenna, þ.e.a.s. allir voru samsekir.
Á þessum tíma var Þjóðviljinn málsgagn Alþýðubandalagsins og var undir ritstjórn Magnúsar Kjartanssonar. Mál og menning gaf út bókina Elds er þörf sem inniheldur ræður og greinar eftir Magnús árið 1979. Ég held að allir, óháð því hvar þeir voru og eru í pólitík, myndu njóta þess að lesa þessa bók.
Ég hef það ekki lengra að sinni. Takk fyrir lesturinn.
Skildu eftir svar við Sigurdur R. Gudjonsson Hætta við svar