Í ljósi þess að próf og verkefnaskil eru framundan þá fannst ritstjóra Fabulinusar að fremst í forgangsröðun væru pistlaskrif.
Önnur bókin sem ég var að klára á árinu ber titilinn Goodbye Eastern Europe: An Intimate History of a Divided Land eftir Jacob Mikanowski. Bókin tilheyrir bókaflokknum ferðafrásagnir og held ég að Huldar Breiðfjörð sem skrifað hefur Færeyskur dansur og Valur Gunnarsson sem skrifað hefur bækurnar Bjarmalönd og Stríðsbjarmar beri af þeim íslensku rithöfundum sem hafa reynt við þennan stíl.
Mikanowski kemur víða við í bók sinni, bæði í tíma og rúmi. Bókinni er skipt í þrjá meginkafla: trú, heimsveldi og fólk og að lokum tuttugasta öldin.
Á tímum þjóðríkja sem við lifum á í dag gleymist oft að þau eru frekar nýtilkomin fyrirbæri. Á Íslandi er það e.t.v. öðruvísi því eyjaþjóðir hafa sérstakan „við vs. aðrir“ sökum landafræðilegra aðstæðna en á meginlandi Evrópu fór þjóðareinkenni ekki að skipta máli fyrr en á 19. öld. Lengi vel var helsta skiptingin eftir því hvort að þú værir kristinn, kaþólikki, mótmælandi eða tilheyrðir einhverri rétttrúnaðarkirkjunni eða ekki (ef ekki þá varstu gyðingur, heiðingi eða múslimi).
Árið 1912 ákvað leikskáldið og þjóðfræðingurinn S. Ansky að fara í leiðangur í gegnum lítið heimsótt landsvæði sem byggð voru austurevrópskum gyðingum. Í þessum leiðangri fór hann yfir hvern krók og kima hinna svokölluðu Byggðamarka (e. Pale of Settlement). Í meira en hundrað ár voru Byggðamörkin eina svæðið innan Rússneska keisaradæmisins þar sem gyðingum var leyft að búa og var á tímum S. Anskys heimkynni um 5 miljón gyðinga.
Á ferðalagi lagði hann leið sína í gleymd þorp og kaupstaði, skrifaði niður þjóðsögur og skráði siði íbúa og venjur. Þá hafði hann líka sérstakan áhuga á minnisvörðum gyðinga og sögum um þá. Í litlum úkraínskum bæ, Kamínka, sá hann gröf rabbíans Smúels Kamínker, en sá var heilagur maður, hasídi og hafði öðlast frægð á 19. öld fyrir að særa burt illa anda, dybbukím. Kraftar hans voru slíkir að hann hélt þeim eftir andlát sitt og talið var að gröf hans verndaði bæinn gegn flóðum sem og eldsvoðum. En þegar umsjónarmaður grafreita bæjarins fór með hann að gröfinni og hreinsaði illgresið af legsteininum stóð á honum „Mosje, sonur Mosjes“. Þarna hafði Smúel aldrei verið jarðaður, fólk hafði einfaldlega kosið að munað það þannig.
Þessi uppgötvun S. Ansky kom öllum bænum í uppnám. Rabbíar, leikmenn, konur og börn streymdu að grafreitnum til að bera skandalann augum. Búið var að svipta þorpið helga manninum sem verndað hafði það í áratugi. Þegar hann sá í hvað stefndi dró hann til baka allar yfirlýsingar sínar og sagði fólki að hann vissi um þó nokkur dæmi þess að legsteinar hreyfðust stundum af sjálfsdáðum. Þar væri því alls ekki ólíklegt að Smúel hinn helgi væri nú kannski bara þarna undir. Bæjarbúar tóku þessum útskýringum fagnandi þar sem þær auðvelduðu þeim að halda í minninguna og trúna á áframhaldandi kraftaverk hans.
900 árum fyrr voru þarna í Austur-Evrópu hvorki að finna grafir né drauga. Í raun var þarna varla byggð af neinu ráði. Einn af fyrstu gyðingunum til að ferðast um þetta svæði var arabískumælandi kaupmaður, Ibrahim ibn Ya’qub, frá Katalóníu sem ferðaðist um Pólland og Bæheim í kringum 965. Hann skrifar um ferðalag í gegnum þéttvaxna skóga og yfir mýrlendi. Einu byggðirnar voru virki umkringd oddhvössum spjótum. Eina þéttbýlið sem kalla mætti borg var Prag. Kaupmenn á þessum slóðum ferðuðust miklar vegalengdir og versluðu með málma, loðfeldi og sérstaklega þræla.
Í augum fyrstu gyðinganna sem fluttust til Austur-Evrópu hefur hún eflaust litið út sem svæði nær ósnortið af nokkurs konar landnámi, laus við bæði sögu og minni. Gyðingarnir sem komu frá Miðjarðarhafssvæðum og Vestur-Evrópu, þar sem þeir höfðu búið í þúsund ár, þurftu að finna leið til að hugsa um þetta land og tengjast því. Þeir byrjuðu á að nefna þetta mjög svo strjálbýla landsvæði Kana, eftir biblíuheiti Landsins helga fyrir komu Ísraelsmanna. Í nokkrar aldir töluðu þessir gyðingar mál með slavneskum orðum, skrifað með hebresku letri, sem kallað hefur verið kanaíska, eða „tungumál í Kana“. Á síðmiðöldum var mál þetta svo gott sem útdautt, yfirtekið af jiddísku, máli frá Ashkenaz, en svo kölluðu gyðingar svæðið í kringum Rínarfljót. Kanaíska skildi eftir sig örfá spor, nokkra áletraða skildinga og athugasemdir í rabbínskum bókmenntum.
Ashkenazi gyðingar, sem höfðu verið fældir á brott frá Þýskalandi, fóru fyrst til tékknesku landanna Móravíu og Bæheims og svo þaðan til Ungverjalands, Póllands og Litháens. Pólsk-litháíska samveldið sem varð til við giftingu hertogans heiðna Jogaila af Litháen og kristnu prinsessunnar Jadwigu af Póllandi var stjórnað af einum, sameiginlegum valdhafa, konunginum. Samveldið var bæði stórt – stærsta land Evrópu á sínum tíma – strjálbýlt og sérlega umburðarlynt í trúmálum.
Ashkenazi gyðingum fjölgaði svo mjög að fólk á ennþá erfitt með að útskýra með hvaða hætti það gæti hafa gerst. Gyðingar sjálfir áttu auðvelt með að útskýra það – það var jú skrifað í skýin. Þjóðsaga ein segir að eitt sinn, þegar gyðingar örvæntu yfir því hvort þeir myndu einhvern tímann finna sér samastað, féll blaðsnifsi frá himninum. Á það var skrifað „farið til Póllands“. Gyðingar fóru þangað og var þeim vel tekið. Var þeim gefið bæði gull og land til að búa á. Nærri Lúblín rákust þeir á skóg þar sem brot úr Gemöru, þ.e. samansafni rabbínskra athugasemda á lögum gyðinga, voru rist í hvert tré, svo þeir vissu að þarna höfðu áður verið gyðingar. Þegar þeir sáu þetta áttuðu þeir á sig hvers vegna landið bar heitið Polin, sem merkir „dveljið hér“ á hebresku.
Um aldamótin 1600 hafði Pólland, þá mestmegnis laust við trúarofsóknir sem geisuðu um önnur lönd álfunnar, öðlast orðspor sem Paradisus Judeorum, „Paradís gyðinganna“. Flestir gyðingar álfunnar á þessum tíma áttu rætur sínar að rekja til samveldisins. Fyrir utan Pólland og Litháen gátu, árið 1900, flestir gyðingar í Rússlandi, Úkraínu, Belarús, Lettlandi, Rúmeníu, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi rakið ættir sínar til svæða sem tilheyrt höfðu samveldinu. Svæði þetta var því vagga þeirra gyðinga sem kalla sig Ashkenazim.
Þeir voru hinsvegar ekki einu gyðingarnir í Austur-Evrópu. Á Balkanskaganum bjuggu tvær aðrar greinar gyðinga. Romaniótar voru þeir gyðingar sem töluðu jevönsku, mál með grískum orðaforða og skrifað með hebresku letri. Romaniótar höfðu búið á þessu landsvæði frá því að það tilheyrði Rómarveldi. Þeir voru þorri þeirra gyðinga sem bjuggu á Balkanskaganum allt fram á 15. öld þegar fólksflutningar frá vesturhlutaálfunnar hófust. Konungshjón Spánar gerðu gyðinga útlæga frá löndum sínum og fengu margir þeirra athvarf í löndum Ottómanveldisins. Þessir gyðingar kalla sig ennþá í dag Sephardim, af orðinu Sepharad, hebreska heiti Spánar, töluðu málið ladínó. Það mál er nokkurskonar hebreskuskotin spænska, einu sinni skrifuð með hebresku letri en er í dag skrifað með latneska stafrófinu. Allt fram á 20. öld voru flestir gyðingar í Búlgaríu, Makedóníu, Bosníu og Serbíu Sephardim. Í Rúmeníu bjuggu Ashkenazim í norðurhluta landsins, Sephardim í suðurhlutanum.
Ég mæli eindregið með bókinni Tungan frelsuð (e. The Tongue Set Free) eftir Elias Canetti, nóbelsverðlaunahafa af ætt búlgarskra gyðinga þar sem hann rekur í formi barnæskuminninga hvernig hann lærði öll þau tungumál sem hann talaði. Þá er bókin Í tvö þúsund ár (e. For Two Thousand Years) eftir Mihail Sebastian sem kom út 1934 og fjallar um það hvernig það var að vera gyðingur af borgaralegum ættum í Rúmeníu einnig mjög góð.
Árið 1648 gerðist nokkuð sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir gyðinga í samveldinu og hófst með svolitlu sem hljómar eins og upphaf brandara: Tveir hefðarmenn, annar pólskur og hinn úkraínskur, voru að rífast. Sá pólski var áhrifamikill við hirð konungs, tók húsið af þeim úkraínska, stal konu hans og barði son hans í þokkabót. Sá úkraínski bar nafnið Bohdan Khmelnytsky, flúði austur til kósakkabyggðar sem staðsett var í þá hrjóstrugri auðn úkraínsku hásléttunnar og æsti menn svo upp að úr varð bylting gegn krúnunni. Byltingin var gerð í nafni úkraínska almúgans (sem margir voru ánauðsbændur pólskra jöfra) og rétttrúnaðarkirkjunnar og átti að beinast gegn kaþólskum yfirboðurum Póllands en fórnarlömb hennar voru meira og minna allt gyðingar.
Mörgum mislíkaði við gyðinga sem störfuðu aðallega sem kaupmenn og milliliðir í efnahagslífi sveitanna. Ekki ætla ég að útlista því sem átti sér þar stað en Natan Hannover, starfandi rabbíni á svæðinu, skrifaði króníku um þetta sem ber titilinn Hyldýpi örvæntingarinnar.
10 árum eftir Khmelnytsky-fjöldamorðin var ennþá að finnast fólk sem tekið hafði verið höndum og selt í þrældóm af kósökkum á stöðum jafn fjarri hvor öðrum eins og Amsterdam og Kaíró.
Ástandið í Póllandi eftir fjöldamorðin batnaði ekki, en þeim fylgdu frekari ránsferðir kósakka sem og innrásir Tatara, Svía, Rússa og jafnvel Transylvaníubúa. Árið 1660 var landið rústir einar. Það er í kjölfar óstöðugleikans sem að fólk verður tilbúið til að trúa á kraftaverk og vantar milligöngumann milli sín og Himnaríkis – hann kom.
Ein merkasta persóna í sögu gyðingdóms Austur-Evrópu er án efa maðurinn sem ávalt er vísað í með heiðurstitlinum Baal Sjem Tov. Strax í lifandi lífi var hann orðinn goðsagnapersóna og um hann voru til hundruðir sagna.
Vitað er að hann fæddist í kringum 1700 á því svæði samveldisins sem kallað var Podólía og tilheyrir nú Úkraínu. Svæðið var vissulega land ólíkra áhrifa því þarna mættust helstu trúarbrögð þess tíma, kristni, íslam og gyðingdómur. Rétt svo einni kynslóð fyrir hans tíma tókst yfirvöldum að ná svæðinu aftur á sitt vald úr klóm Ottómana. Þegar Baal Sjem Tov var ennþá ungur maður var landið ennþá í sárum, vegirnir slæmir og skógarnir fullir af þjófum, björnum og varúlfum.
Baal Sjem Tov tamdi villta birni og barðist við varúlfa. Hann átti hestvagn sem gat farið ótrúlegustu vegalengdir á nær engum tíma og gat drukkið sterkasta plómukoníakið sem fyrir fannst í Rúmeníu án þess að finna á sér.
Maðurinn var vissulega til, hægt er að finna bréf sem hann skrifaði og heimildir um einkalíf hans. Þegar hann gerðist ráðsettur um 1740 kom hann sér fyrir í úkraínska bænum Medzjybizj, greiddi skatta og er skráður í manntali. Hann vann fyrir sér sem grunnskólakennari og kosher-slátrari. Um tíma mokaði hann upp leir sem notaður var í keramik. Seinna meir rak eiginkona hans gistiheimili og krá á meðan hann sat í skóginum og hugleiddi nöfn Guðs. Eftir það komst hann upp á lagið að búa til verndargripi með því að nota orð og stafi sem kallað hefur verið alþýðukabbala eða alþýðutrú sem naut á þeim tíma mikillar vinsældar. Baal Sjem Tov merkir einmitt „Meistari hins góða nafns“. Þetta var titill, ekki nafn (maðurinn hét Yisroel ben Eliezer). Á þessum tíma voru margir sem báru titilinn Baal Sjem í Póllandi og Litháen. Sumir voru rabbínar, aðrir flökkumenn.
Baal Sjem Tov var sérlegur dulfræðingur í sínum heimabæ. Hans dulfræði voru praktísk því hann greindi veikindi og gat rakið rót meina fólks til vissra synda sem það hafði drýgt. Flest hans kraftaverk takmörkuðust við raunheima þar sem helstu vandamál fólks voru tómar buddur, nefrennsli og afbrýðisamir nágrannar. Hann þjónustaði jöfnum höndum kaupmenn, kráareigendur, framhjáhaldara, hefðarmenn, presta og þjófa. Hann fann týnd hross, læknaði mein, náði sáttum í erfðamálum, útbjó leigusamninga og hafði gott auga til að meta búfénað.
Fólk er ekki sammála hvort það hafi verið hversu heillandi hann var eða skilvirkur í því sem hann tók sér fyrir hendur en hann stóð fótum framar öðrum mönnum sem á þessum tíma tóku að sér svipuð störf. Hann var maður sem fólk treysti til að hafa milligöngu milli sín og Himnaríkis. Úr bréfum hans vitum við að hann eignaði sér það að hafa komið í veg fyrir árasir kósakka og drepsóttir. Hann fullnægði þörf fólks til að hafa einhvern sem gat farið hjáleiðina í kringum regluverk Himnaríkis og farið með óskir þeirra beint að hásæti Drottins. Það er fyrir þessa nýlundu að Baal Sjem Tov á skilið lof fyrir að vera upphafsmaður hasídismans. Hann lék hlutverk tzaddik, hins réttláta manns og kennara sem var brú milli fylgjenda sinna og Guðs.
Eitt af helstu kennisetningum hasídismans er sú að enginn þarf að vera sprenglærður í trúarlegum fræðum og gyðinglegri hugsun til að komast í snertingu við almættið. Allir geta upplifað trúarlega alsælu. Gleði var jafngóð leið til að þjóna Drottni og trúarlegur meinlætalifnaður. Hægt var að komast í snertingu bvið Guð með því að dansa, syngja og fagna. Eða með því að segja sögur.
Frásagnarlistin var ein af meginstoðum þeirra sem lifðu eftir kenningum hasídismans. Hasidíska sagan er eitt helsta bókmenntaafrek gyðinga Austur-Evrópu. Hún er óendanlega sveigjanleg sem bókmenntaform, getur haft hnittni atvikssagna, trega smásögunnar eða dulúð kóan-sagna Zen-munka. Sumar eru svo jarðbundnar að þær eru allt að klúrar á meðan að aðrar búa yfir demantsslípaðri andlegri göfgi. Ef þær eru teknar saman mynda þær eigin heim, eigin cosmos. Það sem sameinar þær allar eru viðfangsefnið, hvernig leiða megi saman hætti mannsins og vegi Drottins. Samkvæmt gyðinglegri hugsun er það hægt á tvo vegu: annaðhvort þarf að hefja upp þá trúuðu þangað til að þeir eru innan seilingar Guðs eða taka Himnaríki höndum tveim og toga það í átt að jörðinni.
Til að byrja með gekk staða tzaddik ekki í erfðir, menn urðu að vinna sér inn titilinn. Tzaddik öðlaðist fylgjendur með því að vera mælskur í prédikunum sínum eða með því að biðja öflugra bæna. Aðrir fengu fólk í lið með sér með því að sjá fyrir það sem framtíðin bar í skauti sér og enn aðrir með því að segja brandara.
Í kringum 1859 voru nær allir gyðingar í Póllandi (sem var faktískt séð ekki til á landakortum) fylgjendur hasídisma. Hið trúarlega landslag gyðinga í Litháen var hinsvegar öðruvísi. Þar var helsta vígi þeirra sem voru mótfallnir hasídismanum, sem héldu í gamla siði og námu gömlu fræðin og kölluðust þeir misnagdim.
Leiðtogi misnagdim var undrabarn fætt 1720 og hét Elía Zalman, betur þekktur undir titli sínum, Vilna Gaon. Hann var snillingur í rabbínskum fræðum og Tórunni. Á meðan hann lifði og löngu eftir að hann dó var Vilníus miðstöð trúarlegra fræða gyðinga í Austur-Evrópu. Ætlast var til að allir karlmenn, óháð stétt, væru vel að sér í þessum fræðum.
Litvakar, litháískir gyðingar, töldu sig vera fróðustu gyðinga í Pólsk-litháíska samveldinu, ef ekki í öllum heiminum. Þetta aflaði þeim litlar vinsældir meðal trúbræðra þeirra í Póllandi. Gyðingar í Varsjá höfðu trúrækni í meiri metum en fróðleik og skilning á lögmálinu. Þeim í Varsjá fannst lítið til þeirra litháísku koma, töluðu jiddísku með hreim og voru óþarflega stífir. Litvökum fannst hasídar vera fáfróðir vodkasvelgir sem vildu ekkert meira en að vera á eilífðarfylleríi.
Þessi gjá milli fylgjenda hasídismans og misnagdim myndaði gjá milli gyðinga í Póllandi og Litháen. Þessi ólíka heimssýn klauf fjölskyldur í sundur. Yekhezkel Kotík fæddist árið 1847 í fjölskyldu rétttrúnaðargyðinga í sztetl (þorp þar sem allir eða flestir íbúar voru gyðingar) nærri Brest sem er nú í Belarús. Afi hans var helsti jarlinn í þorpinu, landeigandi með mikil völd. Hann var með hagstæða leigusamninga á jörðum sem hann átti ekki sjálfur, var með einkaleyfi frá rússakeisara til að brugga vodka og var með embættismenn keisarans í vasanum. Sonur hans Mosje, faðir Yekhezkels, átti að erfa þetta veldi. Rétt áður en Mosje varð 13 ára og átti að giftast, hljóp hann að heiman og gekk í söfnuð tzaddiks nokkurs sem bjó rétt hjá. Í sumum fjölskyldum, eins og í væntanlegri tengdafjölskyldu Mosjes, var venjan að bregðast við með því að rífa föt sín (sá siður í gyðingdómi kallast kríah og er kominn til að því að þú sýnir sárin sem þú berð í hjarta þér á klæðnaði þínum) og sátu sjivu (sem er vikulangt sorgartímabil þeirra sem misst hafa nákominn ættingja) líkt og barn þeirra væri dáið.
Mosje snéri á endanum aftur heim en náði aldrei fullum sáttum við afa Yekhezkels. Yekhezkel átti sjálfur eftir að ganga gegn vilja Mosjes með því að neita að ganga í söfnuð hasída heldur gerðist hann farandverkamaður. Á endanum rataði hann til Varsjár þar sem hann rak ágætiskaffihús og var eigandi eins af fyrstu símunum sem komið var upp þar í borg.
Yekhezkel átti seinna eftir að skrifa æviminningar sínar og minnist sérstaklega á það að þrátt fyrir rifrildi milli ættingja voru allir vinir og gleymdu öllum deilum þegar haldið var upp á yom kippur, mikilvægasta hátíðardag gyðinga. Við slík tækifæri var auðvelt að gleyma því að gyðingar byggju á landi sem þeir áttu ekki. Í raun var auðvelt að trúa því að landið tilheyrði gyðingum sem voru í meirihluta í flestum þorpum á þessu landsvæði. Kristnir landeigendur bjuggu á herragörðum sínum og kristnir bændur sáu um að yrkja landið en í þessum litlu þorpum voru það gyðingar sem unnu störf bruggara, skósmiða, skraddara, kráareigenda, úrsmiðja og ráku gistiheimili.
Orðið sztetl er jiddíska orðið yfir bær og kemur af þýska orðinu Stadt. Ending orðins, -tl, er smækkunarending. Ef fjöldi húsa á einum stað náði vissum fjölda var hægt að vísa í þau sem sztetl. Eins og áður sagði voru íbúar þessara bæja oftast eingöngu gyðingar. Verandi meirihluti var það sem aðskildi þessi þorp frá öðrum íverustöðum díaspórunnar (samfélag fólks sem átti eitt sinn samastað á einum stað en tvístraðist síðan, í þessu tilfelli gyðingar) þar sem gyðingar þurftu oftast leyfi til að búa og voru þá takmarkaðir við viss hverfi.
Eitt sinn voru þúsundir þessara bæja í Póllandi, Litháen, Belarús og Úkraínu. Þeir voru heldur ekki óalgeng sjón í Slóvakíu, Ungverjalandi og Rúmeníu. Öll betri sztetl höfðu markaðstorg og bænahús úr timbri:



[Innskot: bænahús múslima á sömu slóðum í Póllandi, Belarús og Finnlandi voru einnig úr timbri].




Eftir seinni heimsstyrjöld þegar flestir þessara bæja höfðu verið tæmdir og þeir fáu sem eftir lifðu fluttu erlendis var algengt að þeir sem komu frá sama bæ skrifuðu Memorbuch, minningabækur. Þessar bækur voru oftast skrifðar á jiddísku, oft mjög þykkar, doðrantar í raun og prentaðar á ódýran pappír. Við lestur slíkra bóka dettur manni í hug að lesa endurminningar einhvers úr Vestmannaeyjum en allir hafa einhvers konar viðurnefni: Mysjel bæklaði, Bajrakh mállausi, Katchkheh önd, Zundl sturlaði, Sabbat eineygði og Chashkeh kvensmiður.
Þegar fólk ferðast erlendis og er að leita að gyðingahverfi viðkomandi borgar er best að finna aðaltorgið og labba niður frá því að átt að næstu á. Rennandi vatn var aldrei langt í burtu frá hverfum gyðinga þar sem að áður en þeir fóru í bænahús sín þurftu þeir að fara í böð sín, míkvah, þar sem þeir þurftu að stinga sér á kaf. Þessi böð voru oftast við hliðina á bænahúsunum.
Í þorpum sínum unnu gyðingar öll störf, allt frá því að vinna sem rakarar eða spila á hljóðfæri. Mjög algengt var að heimilisfeður ynnu fyrir sér sem farandsölumenn en allt fram undir lok 19. aldar var gyðingum, í því sam hafði verið samveldið, bannað að eiga stórar jarðir sem gerði þeim ómögulegt að hafa ofan í sig og á sem bændur. Kaupmennska var eitt af því fáa sem þeir gátu unnið við án mikilla hafta og voru oft milliliðir. Þeir voru eignaumsjónarmenn stórbænda, fóru með korn í myllur eða möluðu sjálfir. Feitasti bitinn var að vera umsjónarmaður einkaleyfis stórbónda á bruggun áfengis. Einkaleyfi þessi leyfðu stórbændum – og engum öðrum – að brugga áfengi (nær alltaf vodka) úr afgangshveiti og rúg. Þessir stórbændur gátu síðan selt kráareigendum og bændum vodkann (og eingöngu stórbændur máttu selja þeim) fyrir góðan pening.
Fram á 20. öld var ekki óalgengt að stórbændur hefðu gyðinga í vinnu við að reka öldurhús sem þeir áttu. Gyðingar voru alltaf „utanaðkomandi“ (þó svo að þeir byggju í sama þorpi) og hægt var að treysta á að þeir myndu ekki leyfa kristnum gestum að fá að skrifa hjá sér.
Í bæjum gyðinga voru alltaf tvö almanök, eitt trúarlegt og annað „grænt“ sem byrjaði alltaf á vorin þegar storkarnir snéru til Póllands eftir vetursetu í Afríku. Ennþá í Póllandi er það svo að storkurinn er vorboðinn, ekki lóan. Þegar sumarið leið undir lok og haustið gerði vart við sig var uppskerutími. Gyðingar notuðu sérstakt hveiti til að baka matzah, flatbrauð sem borðað er yfir páskahald gyðinga (þegar gyðingar halda upp á að hafa komist úr ánauð faraós í Egyptalandi). Þegar uppskeru lauk var farið í berjamó að tína brómber sem voru kölluð „litlu díasporueplin“. Safinn úr þeim var nægilega dökkur til að nota sem letur þegar tórur voru skrifaðar. Síðan var loks hægt að tína epli, sæt epli sem voru borðuð yfir Rosh Hashanah (nýár gyðinga sem er færanleg hátíð eins og páskar), súr epli sem kölluð voru „sódómuepli“ og villt epli sem voru kölluð „kirkjugarðsepli“.
Þó svo að það væri ekki óalgengt að kristnir og gyðingar hittust í bjór eða vodkastaup og væru þá mestu mátar þá litu þeir hvor aðra hornauga þegar það kom að helgisiðum. Það sem aðskildi þessi trúarbrögð voru venjur og siðir auk þess sem að aðkilnaður þessi var styrktur með lagabókstöfum. Fram á 19. öld var það dauðasök fyrir kristinn mann að taka upp gyðingtrú. Ef gyðingur tók kristni var hann eingöngu dáinn í augum fjölskyldu sinnar. Ef þeir síðan sáu að sér og gerðust aftur gyðingar áttu þeir á hættu að vera dæmdir til dauða.
Þrátt fyrir slíkar hættur var það ekki óalgengt að fólk hefði mikinn samgang. Gyðingar unnu oft fyrir kristna bændur og efnaðri gyðingar höfðu í vinnu kristnar vinnustúlku (sem var mjög hentugt á laugardögum, helgidögum gyðinga þar sem þeim er bannað að gera flest allt). Stundum kviknaði ást milli fólks sem ekki tilheyrði sömu trú. Lítið er vitað um slík tilfelli vegna þess hve leynt fólk fór með það.
Vitað er um málaferli frá árinu 1748 sem áttu sér stað í borginni Mogílev í Belarús. Maður að nafni Abraham af ættum gyðinga var sakaður um að hafa átt í ólöglegu samneyti við konu að nafni Paraska sem var af úkraínskum ættum og kristin. Bæði voru þau yfirheyrð og gáfu vitnisburð um hvernig það hafði komið til að þau hófu samband.
Abraham hafði eitt sinn verið giftur konu af gyðingaættum en skömmu eftir brúðkaup þeirra kom í ljós að sú kona var ekki heil á geði. Hann flúði yfir í nærliggjandi bæ og hóf störf fyrir stórbónda þar en Paraska var vinnukona bóndans. Á endanum fór það svo að Paraska varð ólétt af barni Abrahams. Þau yfirgáfu bæinn saman til að finna sér nýjan samastað. Á ferðalaginu fæddi Paraska andvana stúlkubarn. Þau jörðuðu hana í akri rétt hjá og fóru áfram leið sína.
Þegar í næsta bæ var komið sagði Abraham Parösku að mæla ekki eitt einasta orð og þykjast vera daufdumb, hann væri með hugmynd. Hann fékk vinnu hjá bruggara að nafni Herszko sem var gyðingur. Hann sagði Herszko að Paraska væri gyðingur og að þau væru gift. Hún hafi fæðst daufdumb sem útskýrði hvers vegna hún talaði ekki jiddísku né kynni stakt orð í hebresku. Eiginkona Herszkos byrjaði að líta eftir henni, tók hana með sér í bænahúsið, kenndi henni bænir og klippti hárið á henni stutt, eins og giftum konum gyðinga sæmdi. Haft var eftir Abraham að hann hafði aldrei þröngvað trúnni upp á hana, hvort hún tæki hana upp yrði að vera hennar val. Það mikilvægasta var að þau höfðu lofað hvort öðru að þau myndu aldrei yfirgefa hvort annað, þrátt fyrir að vera ekki löglega gift.
Svona hljómaði frásögn Abrahams. Frásögn Parösku var í öllu og einu sú sama nema hvað eitt atriði varðaði, stúlkubarnið hafði fæðst lifandi og þau höfðu skilið hana eftir á akrinum. Barnaútburður var ekki óalgengur á þessum tíma og var refsing við honum venjulega nokkur svipuhögg. Dómarinn ákvað hinsvegar að Paraska yrði tekin af lífi og að Abraham yrði brenndur á báli. Á síðasta augnabliki tók hann kristna trú til að sér yrði hlíft við þeim kvölum að vera brenndur. Í árslok 1748 voru þau hálshoggin.
Þrátt fyrir að það væri ótalmargt sem að aðskildi þessa tvo hópa var nokkuð sem að þeir áttu sameiginlegt: sterk trú á öfl handan þessa heims og að hægt væri að hafa áhrif á gang mála með göldrum. Gyðingar og kristnir treystu reglulega á hvor aðra til að verða sér úti um lækningar. Hér í Poznań varð vart um mikinn draugagang í húsi velstæðra gyðinga og leituðu þeir á náðir jesúíta við að kveða hann niður. Konur gyðinga leituðu reglulega til kristinna eftir trúarlækningum til að auðvelda þeim barnsfæðingar. Baal Sjem Tov skrifaði um það í bréfum sínum að hafa rætt við Róma-fólk um lækningar við hinum ýmsu meinum. Vilna Gaon lærði grasalækningar frá litháískum, kristnum konum. Kristnir leituðu líka til rabbína og heilara úr röðum þeirra. Sérstaklega var leitað til rabbína til að fá hjálp við ófrjósemi og til að vita hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Sem erkitýpur hins utanaðkomandi fólks voru gyðingar sem bjuggu meðal kristinna kjörnir bæði til þess að leggja bölvun á fjandmenn og útvega vernd gegn illum öflum. Oft voru það sömu vandamálin sem plöguðu samfélög kristinna og gyðinga en í bæjum sínum, sztetlunum, urðu gyðingar að stóla á hvorn annan. Farandsæringarmenn tóku það að sér að lækna fólk sem var andsetið af dybbuím, öndum látinna.
Særingarmenn unnu með þeim hætti að einn þeirra sá um að særa burt einn illan anda úr einni manneskju. Ef uppi voru hættur sem ógnuðu þorpinu öllu, eins og stríð eða það sem verra þótti, drepsóttir, var gripið til örþrifaráða. Á svo víðsjárverðum tímum þurfti að eiga við anda látinna eins og ef um hóp af þeim væri að ræða. Í „svörtu brúðkaupi“, shvartse khasene, voru tveir meðlimir samfélagsins giftir til að koma í veg fyrir mögulegar hörmungar. Brúðguminn og brúðurinn voru oftast úr neðstu lögum bæjarins, fátæk, fötluð og vangefin. Svona fólk var talið óhæft til giftingar og hjónabands almennt nema á slíkum stundum. Íbúar skelltu saman í púkk til að brúðurinn ætti heimanmund og til að brúðarhjónin fengju almennileg föt til að giftast í. Athöfnin sjálf var haldin í grafreit bæjarins og voru gestirnir oft þúsundir talsins. Hvítur tauspotti var notaður til að marka af grafreitinn og skilja þannig í sundur bæinn og hinn stærri heim.
Svarta brúðkaupið var haldið í tvennum tilgangi. Annar var friðþæging, hinum dauðu var haldið góðum með veislu í grafreitnum og í þakkarskyni yrði hægt að treysta á andana til að hjálpa þeim sem voru lifandi. Hinn tilgangurinn var kurteisi, því að brúðkaupsfögnuður hafði forgang fram yfir jarðsetningar og talið var að Guð biði með að veikja fólk af plágunni, því ekki væri hægt að jarða það á meðan haldið væri brúðkaup.
Ég læt þetta duga að sinni. Takk fyrir lesturinn.
Færðu inn athugasemd